Ósmekklegar ávirðingar gagnvart borgarskjalaverði í skýrslu KPMG

Nú verður Borgarskjalasafn lagt niður á morgun á fundi borgarstjórnar og til grundvallar er skýrsla KPMG. Sagt er að gjörningurinn sé til að spara. Það sjá allir í hendi sér hvílíkt kjaftæði það er.


Skýrslan er með eindæmum. Það er alveg á hreinu að þegar gagnrýni og ávirðingar á einhvern starfsmann eða einhverja stofnun í skýrslu sem þessari eru settar fram án þess að gefa viðkomandi aðila tækifæri til að tjá sig um málið áður þá er verið að brjóta stjórnsýslulög. Andmælarétturinn er skýr. Á þennan hátt er hægt að segja hvað sem er um hvern sem er. Flokki fólksins í borginni finnst það ófagmannlegt í skýrslu sem þessari að birta slíkar ávirðingar án þess að andmælaréttur viðkomandi sé virtur. Hver er kominn til með að segja að þessar ávirðingar séu á rökum reistar?


Gjörningurinn er sagður sparnaður


Rekstur Borgarskjalasafns kostar nálægt 7,5% af þeim fjármunum sem hafa runnið til starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs ef tekið er nærtækt samanburðardæmi, á hverju ári að undanförnu (200 milljónir á móti þremur milljörðum).


Hvað fjármuni varðar þá er enginn vandi að fá út háar fjárhæðir ef nógu mörgum árum er hrært saman. Í raun kostar rekstur Borgarskjalasafns ekki mikið. Laun undir 100 milljónum króna á ári og annar kostnaður um 100 milljónir á ári.
Einhverjir sjö milljarðar eru fundnir út með því að leggja saman einhver sjö ár ásamt fjárfestingarkostnaði sem ekki er greindur frekar á neinn hátt í skýrslu KPMG.
Ekkert af þessu var borið undir borgarskjalavörð.

Allt þetta ferli þarf að rannsaka. Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir að gerð verði úttekt og stjórnsýsluskoðun á starfsemi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og hvernig þeim gríðarlegu peningum, sem hafa runnið til sviðsins á undanförnum árum, hefur verið varið. Nú liggur fyrir að Innri endurskoðun hefur á áætlun sinni úttekt á stafrænni innleiðingu og er fyrirhugað að klára hana á þessu ári.

 


Rangt er að leggja niður Borgarskjalasafn

Nú hefur leynd verið létt af KPMG skýrslunni um Borgarskjalasafn sem kemst að þeirri niðurstöðu að:

"Óbreytt ástand er ekki möguleiki"

Þetta er gildishlaðin fullyrðing. KPMG skýrslan er ekki vandað plagg að mati okkar í Flokki fólksins. Niðurstaðan er pöntuð. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri og hans fólk sé fyrir löngu búið að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn. Einungis voru höfð tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Vinnan núna er því ólík vinnu með KPMG árið 2018. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum og greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Ekki var haldinn fundur með forstöðumanni Borgarskjalasafns til að kynna drög að tillögum. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Þetta eru allt upplýsingar frá starfsfólkinu.

Skýrslan er neikvæð, og fjallað er með niðurrífandi hætti um Borgarskjalasafn. Allt gert til að láta Safnið líta illa út til að réttlæta að skella í lás. Ekki er minnst á styrkleika Safnsins, aðeins einblínt á vandamálin. Fela á verkefnið öðrum í stað þess að skoða leiðir til að efla safnið. Hávær mótmæli eru um áformin og telur Flokkur fólksins að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar. Illa hefur verið komið fram í þessu máli á allan hátt.

 


Ekki í skólann

Umræða um skólaforðun hefur aukist síðan Velferðarvaktin hóf að gera könnun á umfangi hennar. Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Ætla má að fjöldinn sé mun meiri. Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar tengjast andlegri vanlíðan, kvíða og þunglyndi.

Dæmi um aðrar ástæður er félagskvíði þ.e. þegar barn treystir sér ekki til að yfirgefa heimilið til að vera með jafnöldrum. Einnig erfiðleikar í námi ef vandinn er vitsmunaþroski eða aðrar raskanir. Algengar ástæður eru einelti eða önnur ógn sem tengist skólanum hvort sem það er innan veggja skólans eða á skólalóð.

Ef skólaforðun hefur staðið yfir langan tíma er ekki ósennilegt að barnið sé komið með viðvarandi kvíða gagnvart öllu sem tengist skólagöngunni. Það hefur misst úr náminu og miklar fyrir sér að taka upp þráðinn að nýju. Það hefur einnig misst tengsl við skólafélaga og óttast að vera ekki tekinn aftur í hópinn, eða upplifir sig jafnvel aldrei hafa verið hluti af hópnum. Barnið forðast skólann og vill ekki fara í hann því það treystir því ekki að neitt hafi breyst eða geti breyst í skólaaðstæðunum.

Grafast fyrir um orsakir

Eitt er víst að skólaforðunin á sér einhverja upphafsorsök eða ástæður. Það gæti hafa verið eitt tilvik eða uppsöfnuð vanlíðan sem tengist skólanum sem rekja má til margra þátta sem foreldrar og barnið sjálft á jafnvel erfitt með að skilgreina lengur.

Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö mál eru eins. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni og ekki linna látum fyrr en ástæðan er fundinn og vandinn er kominn í lausnarfarveg. Eina lausn skólaforðunar er að barnið sæki skólann á ný með reglubundnum hætti. Í algerum undantekningum þegar fyrirséð er eftir að reynt hefur verið til þrautar, fær barnið heimakennslu í samræmi við lög.

En fyrst þurfa allir aðilar sem koma að máli barns með skólaforðun (barnið sjálft, foreldrar þess, skólayfirvöld og fagfólk skóla) að reyna til þrautar, eða þar til barnið upplifi skólagönguna ekki ógnandi á neinn hátt.

Sé ástæðan innra með barninu (klínískur kvíði, þunglyndi, fælni) þarf að aðlaga skólaaðstæður að þörfum þess. Dæmi er um að skólatíma barns sé breytt, styttri viðvera, smærri hópar og að tekið sé á móti barninu með sérstökum hætti og að það hafi vissan tengilið innan skólans sem er ávallt til staðar fyrir barnið.

Sé ástæðan í umhverfi barnsins þarf að taka á því. Hér gæti verið um að ræða vanmátt gagnvart námi eða að barni er strítt, það lagt í einelti. Aðlaga þarf námskrána að þörfum barnsins og að sjálfsögðu vinna úr eineltismálum séu þau orsakaþáttur fyrir skólaforðun. Námsráðgjafi og sálfræðingur skóla eru hér lykilaðilar svo og hjúkrunarfræðingur. Ekki síður skiptir máli skilningur skólayfirvalda, starfsfólks og samhugur bekkjarfélaga. Við komu barns í skólann eftir skólaforðun skiptir máli að búið sé að ræða við bekkinn og að bekkurinn taki vel á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann. Góður fyrsti dagur eftir skólaforðunartímabil getur skipt sköpum.

Umfram allt þarf að grafast fyrir um grunninn að skólaforðunni og rekja þróunina til að geta fjarlægt það sem kom skólaforðuninni af stað. Þetta þarf að gerast áður en skólaforðunarvandinn festir sig í sessi sem almenn regla frekar en undantekning.

 

Skólakerfið

Börn upp til hópa eru sátt og líður vel í skóla sínum. Vandinn liggur í skorti á fagfólki til að hjálpa öllum þeim börnum sem þess þurfa. Fagfólki hefur ekki fjölgað í grunnskólum borgarinnar sem er ekki í neinu samræmi við fjölgun nemenda.  Reykjavíkurborg hefur ekki viljað leiðrétta laun sálfræðinga í samræmi við menntunarstig þeirra og þess vegna gengur illa að fá þá til starfa. Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust.


Í raun breytir engu hversu hátt er hrópað. Skólastjórnendur, foreldrar, ungmennaráð og börnin kalla út í tómið. Foreldrar barna í vanda sem þessum eru í angist sinni og upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu. Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er á Barnasáttmálann má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.Skólaforðunarmál sem komin eru á efri stig verða ekki leyst án fagfólks. Einhver einn þarf að halda utan um málið, sjá til þess að fundir séu haldnir, viðtöl höfð og máli fylgt eftir til að forðast að það dagi uppi í kerfinu og hver bendi á annan. Það er til mikils að vinna að taka á þessum erfiðu málum og gera það faglega.

Afleiðingar langvinnar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum þess að stunda nám eða vinnu.  Það er ekki aðeins skaði þess einstaklings heldur samfélagsins alls. 

Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt skólaforðun í borgarstjórn og kallað eftir samræmdum viðmiðum sem sátt ríkir um. Einnig er kallað eftir viðbrögðum skólayfirvalda og að þau sýni ábyrgð í verki.

Birt í Morgunblaðinu 28 febrúar 2023


Kallað út í tómið

Nýlega er afstaðinn fundur með ungmennaráðum í borgarstjórn sem er árlegur viðburður. Í annað sinn á stuttum tíma leggur ungmennaráð fram tillögu um að aðgengi að sálfræðingum verði stórbætt. Flokkur fólksins hefur margsinnis sl. 5 ár lagt fram sambærilegar tillögur og þá bent á hvað þurfi að gera til að aðgengi barna að fagþjónustu skóla verði bætt.

Biðlisti barna í grunnskólum Reykjavíkur eftir þjónustu einna helst sálfræðinga og talmeinafræðinga er nú 2291 sem bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu frá fagfólki skólanna. Árið 2018 biðu um 400 börn.Hægt er að fylgjast með biðlistatölum á vef Reykjavíkurborgar (velstad).

Fyrir tveimur vikum var þessi tala 2049 börn

Flokki fólksins finnst það átakanlegt að hlusta á kall barnanna sem því miður kalla bara út í tómið. Ég sem sálfræðingur til meira en 30 ára og skólasálfræðingur um 10 ára skeið vil sjá sálfræðingana vera hluta af menningu skólanna, með aðsetur í skólum og að börnin, foreldrar og kennarar hafi auðvelt aðgengi að þeim.

Með því að hafa sálfræðingana staðsetta á Miðstöðvum hefur myndast gjá á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Ef aðsetur allra sálfræðinga væru í skólunum sjálfum gætu þeir betur sinnt ráðgjöf við kennara og starfsfólk og verið til taks komi upp erfið mál. Tími sálfræðinganna myndi nýtast betur og fjármagn sparast. Sem borgarfulltrúi stóð ég í þeirri meiningu að þegar verkefnið Betri borg fyrir börn var sett á laggirnar, fyrst í Breiðholti, ætti að færa sérfræðiþjónustu meira út í skólana enda hafa skólastjórnendur kallað eftir því í mörg ár.

Hlutverk sálfræðinga eins og það gagnast börnum best

Hlutverk skólasálfræðinga ætti að vera fyrst og fremst að vera nálægt börnunum: Þeir ættu reglulega að ganga í bekkina í forvarnarskyni, ræða við börnin um einelti og bjóða foreldrum einnig upp á reglulega fræðslu.

Starf skólasálfræðinga er afar margbreytilegt en felur í megin dráttum í sér ráðgjafarviðtöl, skimun, greiningu, fræðslu, og stuðning, eftirfylgd með málum og aðra aðkomu vegna vanda barna í leik- og grunnskólum.

Horfa verður á þá staðreynd að vanlíðan og óhamingja barna hefur verið að aukast síðustu misseri og hefur það verið staðfest með fjölda rannsókna m.a.frá Landlæknisembættinu og Velferðarvaktinni sem hefur gert reglulegar kannanir. Nýlega kom út ársskýrsla velferðarsviðs. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um algengustu ástæður tilvísana eftir faglegri þjónustu fyrir börn og af hverju unglingar leita eftir viðtölum við sálfræðinga.

Langmesta aukningin milli ára er vegna tilfinninga- og félagslegs vanda eða um 63%, og vegna málþroskavanda, 62%. Börnum með hamlandi einbeitingarvanda hefur fjölgað frá 280 í 456 börn. Fjölgun tilvísana/beiðna vegna vitsmunaþroskavanda hefur einnig aukist t.d. vegna lesskilningsvanda.

Börn í vanda og vanlíðan þurfa aðstoð sálfræðinga.Birtingamyndir vanlíðan barna og unglinga er kvíði, þunglyndi, skólaforðun og sjálfsskaði en sjálfsskaði hefur færst í vöxt meðal barna. Börn sem stunda sjálfskaða fela atferlið iðulega fyrir foreldrum eins og þau geta. Nýjustu rannsóknir sýna að um 18% unglinga stunda sjálfsskaða.

Vandinn hverfur ekki þótt hunsaður

Ef tilfinninga-, vitsmuna- og/eða félagslegur vandi barna er hunsaður, hverfur hann ekki. Því lengur sem börn bíða án nauðsynlegrar þjónustu vegna sálræns vanda aukast líkur á að vandinn versni og verður þá enn flóknari og erfiðari viðureignar. Ef barn fær ekki hjálp við hæfi er hætta á að sjálfsmyndin beri hnekki. Verið er að leika sér að eldinum með því að láta börn bíða eftir viðeigandi aðstoð við sálrænum vanda sem og öðrum vanda að sjálfsögðu. Biðin er foreldrunum ekki síður erfið og óvissan með öllu óþolandi.

Fjölmörg dæmi eru um að börn hafa beðið í allt að 2 ár á biðlista eftir sálfræðiaðstoð skólanna sem er lögbundin þjónusta. Mörg hafa útskrifast án þess að fá faglega þjónustu eða jafnvel fyrstu hjálp. Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að kaupa þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Líklegt má telja að ákveðinn hópur barna með náms-, félags- og tilfinningalegan vanda haldi út í lífið án þess að hafa fengið nokkra aðstoð.

Höfundur er sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.


Heimgreiðslutillaga Flokks fólksins lögð fram enn á ný í borgarstórn

Tillaga okkar Flokks fólksins í borgarstjórn á morgun er að borgarstjórn samþykki að greiða foreldrum styrk kjósi þeir að vera áfram heima með börnum sínum eftir fæðingarorlof. Við höfum kallað þetta heimgreiðslur.
Þessi tillaga hefur verið lögð fram áður af Flokki fólksins bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta en var hafnað af meirihlutanum. Eftir því sem ég best veit kom þessi hugmynd fyrst fram hjá Ingu Sæland fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 og var hún meðal okkar kosningaloforða. Fleiri flokkar hafa tekið upp þessa tillögu Flokks fólksins sem er auðvitað ánægjulegt

Hér er tillagan:

Borgarstjórn Reykjavíkur 7. febrúar 2023

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi í ljósi manneklu á leikskólum

Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss sé foreldrum boðnar heimgreiðslur þ.e. mánaðarlegan styrk á meðan að beðið er eftir  leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta á biðlistum leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið.

Sjá má greinagerðina með tillögunni hér:
https://kolbrunbaldurs.is/borgarstjorn-7-februar-2023/


Heimgreiðslur, mannekla í leikskólum og  viðbrögð skólayfirvalda vegna skólaforðunar

Næstu mál Flokks fólksins í borgarstjórn 7. febrúar snúa annars vegar að tillögu um heimgreiðslu vegna alvarlegra manneklu í leikskólum og langs biðlista og hins vegar að umræðu um orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks skóla þegar barn glímir við skólaforðun.

 

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til í borgarstjórn að foreldrar yngstu barnanna hafi val um að þiggja heimgreiðslur meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin. Heimgreiðsluúrræðið myndi því mögulega stytta biðlista leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið.

 

Skólaforðun, orsakir og úrræði

Hitt mál Flokks fólksins fyrir borgarstjórn er umræða um  orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks skóla þegar barn glímir við skólaforðun.

Umræða um skólaforðun hefur aukist nokkuð síðan Velferðarvaktin fór að kanna umfang hennar. Nýlega var haldið málþing um skólaforðun. Skólaforðun felst í því að börn og ungmenni forðast að fara í skólann af einhverri ástæðu/ástæðum. Um þúsund íslensk börn eru talin glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann.

Skólaforðun er ekki nýtt vandamál.  Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar eru mest raktar til andlegrar vanlíðunar og kvíða. Ástæður og orsakir kvíða geta verið margvíslegar og margslungnar.

Borgarfulltrúi  Flokks fólksins kallar eftir umræðu um helstu orsakir og það faglega umhverfi, ferli sem mál af þessu tagi fara í Reykvískum grunnskólum. Kallað er eftir umræðu um samræmd viðmið við að greina skólaforðun og hvernig þau viðmið geta nýst. Einnig er óskað eftir viðbrögðum meirihlutans við þeirri staðreynd að fagfólki skólans hefur ekki fjölgað síðustu ár samhliða fjölgun nemenda.

Öll þekkjum við biðlistann hjá Skólaþjónustunni í Reykjavík. Með hverri viku lengist listinn. Gera má því skóna að ákveðinn fjöldi barna á biðlistanum glími við skólaforðun.

Allir helstu lykilaðilar hafa rætt um biðlista barna til sálfræðinga og öðru fagfólki jafnt í ræðu, riti og á málþingum. Margir foreldrar  í angist sinni upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu og fjölskyldunni.

Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er til innihalds  Barnasáttmálans má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.

Í þessum málum sem öðrum tengdum börnum er ekki í boði að gera ekki neitt, eða gera lítið sem ekkert.  Áhrif og afleiðingar langvinnrar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum hans að fara í frekara nám eða að stunda vinnu. Ef ekki næst að finna viðunandi lausn getur það litað allt líf þessara einstaklinga sem er ekki aðeins skaði þeirra heldur samfélagsins alls.

Það er von okkar í Flokki fólksins að um þessi mál verði gagnleg umræða á þriðjudaginn næstkomandi og að tillögunni um heimgreiðslur verði vísað til frekari skoðunar en ekki vísað frá eða felld.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

 Birt á visi.is 3. febrúar 2023


Stappið með Klappið

Stappið með Klappið tekur engan enda. Í gær lagði ég fram fyrirspurn vegna Klapp vandræða eftir að hafa fengið símtal frá notanda Strætó bs.


Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölda ábendinga vegna Klapp greiðslukerfisins og vandamála með notkun þess. Það má nefna reynslu notenda sem hafa keypt Klappkort og eru til dæmi um notendur sem kaupa 4 kort sem hvert um sig á að duga í 10 ferðir. Kortin hafa verið keypti í Mjódd og nýtt í heimferð með strætó. Til þess að komast úr Mjóddinni heim getur verið nauðsynlegt að skipta um vagn og nota klappkortið aftur í næsta vagn. Í stað þess að greiða far með gömlu strætómiðunum og fá skiptimiða þurfa notendur að „klappa“ fjórum sinnum sömu leið, og þá eru eftir sex ferðir af tíu sem hvert kort býður upp á. Erlendir ferðamenn og trúlega fólk utan af landi getur ekki borgað með peningum og er talið að margir útlendingar geti verið í vandræðum því þeir fá ekki far nema þeir séu með Klapp. Svo er líka óskað upplýsinga um gildistíma kortanna en notendur hafa bent á að hafa fengið athugasemdir um að bílstjórar hafi talið að kortið væri útrunnið stuttu eftir kaup.


Vin dagsetur, áframhaldandi óvissa

Eins og þekkt er var ein af breytingartillögum meirihlutans í borgarstjórn sem lögð var fram 6. desember sl. að leggja niður starfsemi dagsetursins Vinjar. Flokkur fólksins mótmælti þessu strax harðlega og lagði fram tillögu um að meirihlutinn myndi endurskoða þessa ákvörðun. Hvatt var til að starfseminni yrði að mestu haldið óbreyttri. Þessi sparnaðartillaga meirihlutans ásamt nokkrum öðrum sambærilegum, m.a. þeirri að leggja niður unglingasmiðjurnar Tröð og Stíg, voru kaldar jólakveðjur frá meirihlutanum til fólks í viðkvæmri stöðu. Flokkur fólksins hefur einnig mótmælt harðlega að leggja eigi niður starfsemi unglingasmiðjanna og lagt til að sú tillaga meirihlutans verði endurskoðuð. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir mikilvægan vettvang þar sem þeir njóta félagsskapar eða frá unglingum sem finna öryggi og félagsskap í unglingasmiðjum.

 

Vin er dagssetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár og hvílir starfsemin á sterkum grunni. Þar er ákveðinn kjarnahópur gesta sem hefur ekki getað nýtt sér önnur úrræði og er þessi þjónusta þeim afar mikilvæg. Margir sem sækja Vin líta á staðinn sem sitt annað heimili. Flokki fólksins finnst ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari.

 

Dropinn holar steinninn

Flokkur fólksins er í minnihluta í borgarstjórn og er þar með valdalaus. Nánast öllum tillögum flokksins sem lagðar hafa verið fram síðastliðinn fjögur og hálft ár og sem telja mörg hundruð hefur verið hafnað, þær felldar eða vísað frá.

Flokkur fólksins lætur ekki deigan síga og trúir því staðfastlega að dropinn holi steininn. Það má sannast reyna því á  fundi velferðarráðs 11. janúar sl. viðurkenndi meirihlutinn að hafa hlaupið á sig. Þetta má sjá í bókun þeirra þar sem segir „Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði telja nauðsynlegt að úrræðið Vin verði rekið í óbreyttri mynd út þetta ár og eins á meðan ekki hefur fundist ásættanleg lausn sem notendur þjónustunnar, hagsmunaaðilar og fagfólk móta í sameiningu. Umræddir fulltrúar bera fullt traust til þess starfshóps sem skipaður hefur verið til þess að yfirfara fyrirkomulag úrræðisins til framtíðar litið. Nauðsynlegt er að engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda, hagsmunaaðila og fagfólks“.

 

Óhætt er að segja að þessi umsnúningur er vandræðalegur en batnandi fólki er best að lifa. Því miður er það aðeins tryggt að Vin verði rekið í óbreyttri mynd til áramóta.

Flokkur fólksins fagnar því að meirihlutinn hafi séð að sér en þykir á sama tíma leiðinlegt hvað málið hefur valdið gestum Vinjar miklum kvíða og að ekki hafi tekist að eyða allri óvissu um framhaldið.

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Hægt er að sjá greinina alla á www.kolbrunbaldurs.is

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi

Birt í Fréttablaðinu 13.1 2023

 

Mynd Vin


Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra

Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra barna sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. (Lögð fram á fundi borgarstjórnar 17. janúar næstkomandi)

Lagt er til að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðslu úrræðið mun sennilega létta á biðlistum.

Greinargerð

Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna mikils álags, slæmrar starfsaðstöðu og lágra launa. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Framsóknarflokkurinn hefur einnig sagst vilja skoða heimgreiðslur sem einn hluta af mótvægisaðgerðum á meðan ástandið er svo slæmt í leikskólamálum.

Margir foreldrar búa við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá með öllum ráðum. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt og er ljóst að hugsa þarf út fyrir boxið til að finna leiðir til að laða fært fólk til starfa. Launin eru léleg og álag mikið.

Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Í byrjun hausts 2023 fengum við borgarfulltrúar bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til. Vegna manneklu eru leikskólabörnin ítrekað send heim eða foreldrar fá tilkynningu að kvöldi um að þau  verði að halda barni sínu heima vegna manneklu. Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Staðan er óbærileg fyrir alla aðila líka starfsmenn leikskólanna. Við verðum að bregðast við þessari neyð strax og tína til öll úrræði sem finnast í verkfærakistunni. Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína? Í ljósi þessara þátta m.a. er mikilvægt að skoða með opnum huga tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur. Það fjármagn sem úrræðið krefst er vel varið og hefur jákvæð áhrif á fjölmargt annað þessu tengt.

 

 


Hvað er verið að gera til að leysa umferðarhnúta í borginni?

Ég legg þessa fyrirspurn fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag.
Fyrirspurnir um hvort til standi að leysa umferðarteppur í borginni?

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til s.l. 4 ár að farið verði að skoða ljósastýringar í borginni og bæta og laga erfiðustu gatnamótin með ýmsum leiðum sem stungið hefur verið upp á í gegnum tíðina. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld séu með einhverjar hugmyndir í farvatninu sem létt geta á umferð s.s. að bæta ljósastýringar þar sem verst lætur?
Hvaða aðgerðir eru í gangi hjá borginni til að draga úr umferðarteppu?

Þegar horft er til samgöngumála er ekki um marga valkosti að ræða. Borgarlína verður ekki komin og farin að virka fyrr en eftir nokkur ár. Komu hennar hefur verið seinkað eins og allir vita. Strætósamgöngur er slakar og hefur dregið úr þjónustu sérstaklega eftir að nýja greiðslukerfið kom. Margir treysta sér ekki til að nota það. Þeir sem hefðu getað nýtt sér einstaka ferð með strætó finna aðrar leiðir, taka jafnvel frekar leigubíl, þeir sem hafa ráð á því þ.e.a.s. þar sem ekki tekur því að setja sig inn í Klapp kerfið eða taka sér ferð á hendur  á á bækistöð Strætó til að kaupa sér Klapp tíu. Klapp tíu er aðeins fyrir  annaðhvort fullorðna, ungmenni (12-17 ára) eða aldraða (67+).

 


Vetrarþjónusta Reykjavíkur í borgarstjórn

Ég er komin á borgarstjórnarfund og á dagskrá er m.a. fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík.

Hér er bókun Flokks fólksins í málinu:
Snjóhreinsun þarf að ganga snurðulaust. Bæta þarf þjónustu í húsagötum. Auka þarf afköst, breyta fyrirkomulagi, vinnulagi og fjárfesta í tækjum. Tjalda þarf öllu til þegar reiknað er með mikilli snjókomu og opna leiðir fljótt milli húsagötu og stofnvega og slóð á stéttum og stígum.
Í fyrstu er nægilegt að ryðja 60-80% af breidd húsagötu og láta ruðninga vera á götunni, ekki ryðja upp á gangstéttir hvað þá fyrir innkeyrslur. Ef innkeyrslur eru opnar skapast svæði til að mætast á bíl á meðan að ruðningar eru enn á götunni.
Ef rutt er upp á gangstétt þarf annað tæki að koma og ryðja aftur út á götuna. Úrsalt er ódýrasta saltið og sjálfsagt að nota það og spara það ekki.
Þegar farið er í útboð þurfa að vera skýrar línur til hvers er ætlast. Sagt er að til séu teikningar af öllum götum og þarf verktaki að vita, hvert á að ýta ruðningum. Stytta á upplýsingaferla milli þátttakanda, öll vandamál þarf að leysa. Mun betri tengsl og samskipti þurfa að vera milli pólitíkunnar og yfirstjórnar og yfirstjórnar og starfsmanna og verktaka.
Bæta þarf hönnun saltkassa þannig að úrkoma komist ekki í þá, annars verður saltið fljótt illmokanlegt. Saltgeymslur er kapítuli út af fyrir sig. Borgin á ekki þessar geymslur en borgin greiðir fyrir viðhald þeirra.

Ó, borg mín borg

Nú líður að lokum þessa árs. Nýtt kjörtímabil hófst á árinu og stimplaði Flokkur fólksins sig aftur inn í borgarstjórn. Vonir stóðu til að fá tækifæri til að komast í meirihluta borgarstjórnar til þess að geta tekið þátt í ákvörðunum sem leiða mættu til bættra lífskjara hinna verst settu og þeirra sem standa höllum fæti. Það varð hins vegar ekki hlutskipti borgarfulltrúa Flokks fólksins. Fáum óraði fyrir hversu slæm staða borgarinnar er í kjölfar stjórnarsetu Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og VG. Allt of stór hópur barna, öryrkja og eldra fólks á um sárt að binda og líður ekki vel. Of margar fjölskyldur og einstaklingar geta ekki séð sér farborða og hafa áhyggjur af grunnþörfum sem eru fæði, klæði og húsnæði.

Vissulega er ekki allt svart. Ýmislegt gengur vel í Reykjavík og margir hafa það gott. Börnum upp til hópa líður vel í sínum aðstæðum og mörgum fjölskyldum og eldra fólki finnst gott að búa í Reykjavík.

 

Óveðurský hafa hrannast upp

Þrátt fyrir það hafa óveðurský hrannast upp undanfarin ár sem rekja má til slakrar stjórnunar borgarinnar. Fátækt hefur aukist og sýna rannsóknir að vanlíðan barna, öryrkja og ákveðins hóps eldri borgara vex. Fjárhagur Reykjavíkurborgar hefur tekið lóðrétta stefnu niður á við. Lengi hefur verið ljóst hvert stefndi og sýndu vísbendingar það áður en faraldurinn skall á. Flokkur fólksins hefur bent á óábyrga fjármálastjórnun Reykjavíkurborgar frá árinu 2018. Ákveðin svið t.d. þjónustu- og nýsköpunarsvið hafa nánast leikið sér með útsvarsfé borgarbúa. Einnig má nefna mikla þenslu á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Það hlaut að koma að skuldadögum.

 

Fátækt er staðreynd

Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börnin í þeim fjölskyldum sem bágast standa. Iðulega eru það einstæðir foreldrar, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með flóknar og umfangsmiklar þjónustuþarfir. Talið er að einstæðir foreldrar, öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk þar sem er einungis ein fyrirvinna búi við fátækt eða hættu á að falla í fátæktargildruna. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að ójöfnuður hefur aukist og þá einnig innan menntakerfisins. Umræða um húsnæðisskort í Reykjavík hefur verið hávær allt árið. Þeir sem koma verst út eru einstæðir foreldrar og öryrkjar sem eru á leigumarkaði. Ekki bólar á neinum úrræðum til að styðja sérstaklega við þessa hópa.

Flokkur fólksins vill að gripið verði til sértækra og markvissra aðgerða í þágu þeirra verst settu. Horfa þarf sérstaklega til barnafjölskyldna þar sem áhrifin eru neikvæðust á börn. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett og félagslega útskúfuð. Til þess þarf skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flokkur fólksins lagði til að farið verði með kerfisbundnum hætti í að vinna að innleiðingu Barnasáttmálans. Tillögunni var vísað til borgarstjórnar og er þar enn óafgreidd.

 

Flokkur fólksins er óþreytandi í umræðunni um biðlista

Áhersla þessa og síðasta borgarstjórnarmeirihluta snýst um aðra hluti en grunnþarfir fólks. Biðlistar barna eftir þjónustu fagfólks, einna helst sálfræðinga og talmeinafræðinga, hefur farið frá 400 börnum árið 2018 í 2049 börn í lok árs 2022.  Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu foreldra og barna. Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa einnig aukist. Ein af afleiðingum þess ástands sem ríkir nú í Reykjavíkurborg er vopnaburður eggvopna og barefla ungmenna. Í borgarstjórn á haustdögum lagði flokkurinn fram tillögu um að stýrihópur yrði settur á laggirnar sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Tillögunni var vísað til ofbeldisvarnaráðs en hefur ekki fengið frekari skoðun þar.

 

Strætó úr byggðasamlagskerfinu og kanna hagkvæmni með útboð hjá SORPU

Strætó og SORPA eru byggðasamlög sem eru í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Byggðasamlag er ólýðræðislegt kerfi og hefur Flokkur fólksins verið óþreytandi í að benda á dæmi þess. Reykjavík, sem er stærsti eigandinn, hefur miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna stærðar sinnar en hlutfallslega minnstu aðkomu að ákvarðanatöku. Minnihlutinn í borginni hefur þess utan engan aðgang og fær aldrei tækifæri til að hafa áhrif.

Nú hefur það verið viðurkennt af æ fleirum að byggðasamlagskerfið hentar illa í rekstri t.d. Strætó. Eins varlega og Flokkur fólksins vill stíga til jarðar þegar kemur að útvistun er sjálfsagt að skoða hvort einhver hluti af rekstri þessara fyrirtækja væri hagkvæmari ef þeim væri útvistað. Nefna má viðhald vagna Strætó og einnig sorphirðu, að hluta til eða öllu leyti.

Varhugavert yrði þó að bjóða að fullu út rekstur Strætó enda er þar um að ræða beina þjónustu við fólkið (maður á mann þjónusta).

 

Þjónusta við viðkvæma hópa skert á meðan staðið er vörð um miðlæga stjórnsýslu og þjónustu- og nýsköpunarsvið

Við fyrri umræðu voru teknar ákvarðanir um gjaldskrár. Flokkur fólksins lagði til breytingu á viðmiðunartekjum til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig var lagt til að frysta gjaldskrárhækkanir á vetrarstarfi frístundaheimila og hjá sértækum félagsmiðstöðvum um eitt ár vegna mikillar verðbólgu. Meðal annarra tillagna var að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þar sem flestir hundaeigendur þiggja enga þjónustu frá Reykjavíkurborg. Flokkur fólksins vill einnig að gjaldskrá Árbæjarsafns verði breytt þannig að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði eingöngu gjald fyrir annað foreldrið og að börn frá 0 til 17 ára og nemendur með gilt skólaskírteini fái ókeypis aðgang.

Við síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2022 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram 17 sparnaðartillögur um breytta forgangsröðun í þágu viðkvæmra hópa. Lagt var til að foreldrar undir ákveðnu tekjuviðmiði fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín. Meðal tillagna var að hagræða og forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu og að ekki komi til uppsagna starfsfólks á leikskólum. Margt smátt gerir eitt stórt og vill fulltrúi Flokks fólksins að dregið verði úr útgjöldum vegna leigubílaferða starfsmanna og utanlandsferða. Styrkja þarf dagforeldrakerfið og gera úttekt á húsnæðismálum öryrkja. Fara þarf í nauðsynlegar úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar. Úrbótatillögur Flokks fólksins við fyrri og seinni umræðu fjárhagsáætlunar voru allar felldar.  

Flokkur fólksins lagði til að sótt verði fjármagn til Þjónustu- og nýsköpunarsviðs með því að hætta kaupum á áskrift erlendrar ráðgjafar sem þar hefur verið í gangi í heilan áratug án sýnilegs ávinnings þeirrar ráðgjafar. Forgangsröðun á verkefnum virðist fara að mestu leyti eftir því hvað sé skemmtilegast að gera í stað þess hvað sé brýnast að gera, eins og berlega hefur komið í ljós í allri hugmyndavinnu og rannsóknum sviðsins sem lítið hefur komið út úr.

Fara hefði átt strax í náið samstarf við hin sveitarfélögin og Stafræna Ísland í stað þess að vera ein á ferð í stafrænni vegferð eins og Þjónustu- og nýsköpunarsvið lagði upp með og kostað hefur borgina háar fjárhæðir. Flokkur fólksins lagði til við seinni umræðu að breytingar yrðu gerðar á skipuriti og innra skipulagi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og skrifstofur og deildir sameinaðar sem höfðu með sömu málaflokka að gera auk þess sem millistjórnendum yrði fækkað.

Stafrænar lausnir eru framtíðin og munu flýta fyrir þjónustu. Það sem hefur hins vegar skilað sér í tilbúnum stafrænum lausnum er í engu samræmi við þær fjárhæðir sem búið er að ausa í sviðið.

Það virðist vera sem stór hluti þeirra fjármuna sem úthlutað hefur verið í stafræna umbreytingu hafi endað inn á sviðinu sjálfu í margvíslegar innri breytingar sem margar hverjar munu þýða enn meiri útgjöld þegar fram líða stundir. Það er hlutverk innri endurskoðunar að fara gaumgæfilega yfir rekstur sviðsins með framangreinda kostnaðaraukningu í huga.

Úrbótatillögur meirihlutans voru margar en því miður voru einnig tillögur sem skerða mikilvæga þjónustu til barna og annarra viðkvæmra hópa. Leggja á niður starfsemi unglingasmiðja, stytta opnunartíma félagsmiðstöðva og segja upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27. Leggja á niður starfsemi Vinjar og unglingasmiðjurnar Tröð og Stígur. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að hvort tveggja verði endurskoðað.

 

Nýi meirihlutinn og framtíðin

Flokkur fólksins vill sjá meira samráð við borgarbúa t.d. hversu langt á að ganga í þéttingu byggðar og þrengingu gatna eða skreytingu torga. Ótal margir þættir fara í gegn án þess að hagsmunasamtök fatlaðs fólks fái nokkuð um það að segja. Stæðiskorthöfum er gert að greiða gjald í bílastæðahúsum sem er brot á lögum og aðgengismál flestra biðstöðva er ábótavant svo dæmi séu tekin. Það gleymdist að huga að þessum hópi þegar Klapp greiðslukerfi Strætó var tekið í notkun.

Nú er hálft ár liðið með örlítið breyttum meirihluta og reyna margir án efa að sjá fyrir sér hvernig þetta kjörtímabil verður. Verða áherslur allar þær sömu eða verður eitthvað nýtt ívaf? Ef marka má þá mánuði sem eru liðnir er hér um afskaplega svipaðan meirihluta að ræða og áður. Framsóknarflokknum er þó vorkunn því fulltrúum hans óraði sennilega ekki fyrir hversu alvarleg fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er. Í þessu ástandi verðum við að huga að fólkinu í borginni.

Hér hafa verið reifuð helstu mál Flokks fólksins á árinu sem er að líða og reynt að draga upp raunsæja mynd af ástandinu í borginni eins og það birtist í dag. Flokkur fólksins í borgarstjórn þakkar samstarf og samveru á árinu sem er að líða og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og friðar.

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Grein birt á Kjarnanum 28. desember 2022


Breytingatillögur Flokks fólksins lagðar fram við seinni umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar

Flokkur fólksins leggur fram 17 tillögur við seinni umræðu fjárhagsáætlunar í borgarstjórn næstkomandi þriðjudag.

Um er að ræða sparnaðartillögur og tillögur um tilfærslu fjármagns frá verkefnum sem mega bíða yfir í að bæta og auka þjónustu við viðkvæma hópa.

Tillaga er um að foreldrar með tekjur undir 461.086 kr. á mánuði (þ.e. 5.533.032 kr. á ári) fái fríar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börn sín og að fjárhæðin 30.2 milljónir komi til hækkunar á fjárheimildum Skóla- og frístundasviðs. Upphæðin komi til  lækkunar áskriftargjalda og lækkunar innlendrar og erlendrar ráðgjafar hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON).

Aðrar tillögur eru um hagræðingu og forgangsröðun í þágu m.a.lögbundinnar þjónustu og styttingu biðlista:

Tillaga um tilfærslu starfsfólks innan leikskóla í stað þess að segja fólki upp

Tillaga um að hagræðingarkrafa verði hækkuð á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

Tillaga um að laun formanna íbúaráða verði lækkuð til jafns við laun annarra í ráðum.

Tillaga um lækkun útgjalda vegna leigubílaferða 

Tillaga um að lækka kostnað vegna utanlandsferða

Tillaga um styrkingu dagforeldra vegna flótta úr stéttinni

Tillaga um að hækka enn frekar viðhaldskostnað til skólabygginga og annarra bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir. Verkefni eins og endurgerð Lækjartorgs, Kirkjustrætis eða annarra skreytingatorga/mannvirkja verði sett á bið og fjármagnið verði flutt þaðan í skólabyggingar.

Tillaga um aukið fjármagn til námskeiða fyrir börn og foreldra

Tillaga um tilraunaverkefni á útboði sorphirðu í einu póstnúmeri

Tillaga um úttekt á húsnæðismálum öryrkja í Reykjavík  

Tillaga um úrbætur á aðgengi í skólum Reykjavíkurborgar 

Tillaga vegna úrbóta á biðstöðvum 

Tillaga um breytingar á skipuriti Þjónustu- og nýsköpunarsviðs

Tillaga um fjölgun á þjónustuþáttum fyrir eldra fólk í eigin húsnæði


Sjá má tillögurnar ásamt greinargerð á kolbrunbaldur.is


Af hverju getum við ekki sinnt eldra fólkinu okkar almennilega?

Það er alveg átakanlegt að heyra þessa og fleiri frásagnir og lýsingar á umönnunarþáttum eldra fólks hvort heldur það býr heima eða á hjúkrunarheimili.
Ég hvet alla til að hlusta á þættina Lífið eftir vinnu, að eldast á Íslandi.
Það bíður okkar allra að eldast ef við erum yfir höfuð svo heppin að fá að eldast. Af hverju getum við ekki gert betur þegar kemur að umönnun við okkar elstu þegna?
Allar tillögur Flokks fólksins til að bæta stöðu eldri borgarar í Reykjavík hafa verið felldar í borgarstjórn og í Velferðarráði. Allt er þetta spurning um fjármagn og útdeilingu peninga úr borgarsjóði. Vissulega er stór hluti málaflokksins á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg getur gert svo miklu betur til að bæta þjónustu við eldra fólk, ekki síst þeirra sem vilja reyna að búa heima sem lengst.
 

Inn-, útvistun eða blanda af hvoru tveggja

Útvistanir til einkaaðila hafa gengið misvel auk þess sem útvistanir geta leitt til lægri launa, verra starfsumhverfis og verri þjónustu. Flestir eru sammála um að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er t.d. engin töfralausn. Rannsóknir á áhrifum einka­væðingar öldrunarþjónustunnar í Svíþjóð sýndu fram á að hlutdeild hagnaðardrifinna fyrirtækja og erlendra fjárfesta varð mikil og afleiðingin leiddi til verri þjónustu til tekjulægra eldra fólks og verri kjara starfsfólks. Reynslan á útvistun hér á landi hefur einnig verið mismunandi og sporin hræða. Í sumum málaflokkum er hagkvæmasta leiðin einhvers konar blanda af inn- og útvistun þannig að sveitarfélagið annist beina þjónustu og grunnþjónustu en öðrum þáttum sé útvistað. Flokkur fólksins hefur sem dæmi viljað sjá þetta skýrar í vegferð stafrænnar umbreytingar hjá Reykjavíkurborg. Eðlilegt er að innvista grunnþjónustu en útvista hugbúnaðarsmíði og uppfærslu á þeim vefum/kerfum sem nú eru til staðar hjá borginni.

 

Matarþjónusta á velferðarsviði

Ef horft er til fleiri dæma t.d. matarþjónustu á velferðarsviði þá erum við í Flokki fólksins ekki sannfærð um að henni eigi að útvista. Það gæti leitt til þess að þjónustan færist fjær fólkinu sem hana nýtir og að persónulegar þarfir fólks verði virtar að vettugi. Útvistun er ekki ávísun á sparnað og reynist oft dýr kostur. Hafa skal í huga að varla er nokkurt fyrirtæki að óska eftir verkefni nema komið sé út í hagnaði. Það leiðir líkum að því að gjöld kunni að hækka fyrir þjónustuna í kjölfarið. Engu að síður eru tilfelli þar sem útvistun skilar sparnaði fyrir samfélagið og betri þjónustu.

Er hægt að spara í sorphirðu?

Horfa þarf á hvert mál sérstaklega þegar kemur að ákvörðun um inn- eða útvistun. Aldrei má gleyma aðalmarkmiðinu, að bæta þjónustu við borgarbúa og gera hana sem allra best úr garði. Flokkur fólksins hefur tjáð sig um sorphirðu og fyrirhuguð kaup á sorphirðubílum þ.m.t. hvort borgin hyggist fjárfesta í metan sorphirðubílum í ljósi mikillar framleiðslu af metani hjá SORPU. Flokkur fólksins hefur einnig spurt um hvort hægt er að ná meiri hagkvæmni í sorphirðu án þess það sé á kostnað góðrar þjónustu.

Samkvæmt skýrslu norrænu samkeppniseftirlitsstofnana er sveitarfélögum ráðlagt að skoða að bjóða út meðhöndlun úrgangs. Í skýrslunni kemur fram ábending um að með slíku megi ná fram allt að 10-47% sparnaði auk þess sem samkeppni geti skapað nýjar og skapandi lausnir, hagræðingu og skilvirkni. Það væri ábyrgðarhluti ef Reykjavíkurborg ætlar að hunsa þessarar ábendingar. Reykjavíkurborg er ekki á neinn hátt öðruvísi en þau sveitarfélög sem skoðuð voru í umræddri skýrslu. Ábendingar samkeppniseftirlitsins koma ekki til af ástæðulausu og skulu því skoðaðar með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi. Í ljósi þessa lagði Flokkur fólksins fram tillögu í skipulags- og umhverfisráði þess efnis að SORPA kanni ávinning þess að bjóða út sorphirðu með því að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri Reykjavíkur til að byrja með. Flokkur fólksins leggur áherslu á að tekið sé eitt skref í einu og þess vegna sé byrjað á því að bjóða verkið aðeins út í einu póstnúmeri og skoða síðan hvort og hver ávinningur af slíku gæti orðið.

Með því að bjóða út sorphirðu í einu póstnúmeri og meta árangurinn er hægt að kanna kosti og galla þess verklags. Er þjónustan góð og eru fyrirtæki sem sinna slíkri þjónustu samfélagslega ábyrg? Þessum spurningum verður aðeins svarað með reynslu. Hafa má í huga í þessu sambandi að öll  sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Ef horft er til annarra sveitarfélaga hefur enn ekkert komið fram sem bendir til þess að útvistun sé verri kostur hvorki hvað varðar þjónustu eða kostnað. Flokkur fólksins er ekki með þessari tillögu að kasta rýrð á gæði þjónustu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þeir sem þekkja Flokk fólksins og fyrir hvað hann stendur vita að velferð og velsæld borgarbúa og starfsmanna borgarinnar eru ávallt í fyrirrúmi hjá Flokki fólksins.


Horfa í allar matarkistur

Flokkur fólksins vill stíga varlega til jarðar þegar kemur að útvistun opinberra verkefna til einkaaðila, sérstaklega þegar kemur að beinni þjónustu við viðkvæma hópa. Til að ná fram markmiðum Flokks fólksins sem er að bæta þjónustu, t.d. að eyða biðlistum barna eftir sálfræðiþjónustu, og auka grunnþjónustu borgarinnar er nauðsynlegt að velta við hverri krónu. Spyrja þarf hvort og hvar hægt sé að gera betur án þess að dregið sé úr gæðum þjónustunnar. Hvar er hægt að ná meiri hagkvæmni, nýta fjármagn betur til að nota í þá grunnþætti sem þarf að efla og bæta?

 

 

Kveikjum neistann í Reykjavík

Lestrarkennsla og lestrarfærni hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og það ekki af ástæðulausu. Ef lestrarfærni er skoðuð má sjá að 34% drengja og 19% stúlkna 15 ára eiga í erfiðleikum með að skilja þann texta sem þau lesa. Þetta veldur áhyggjum. Það sem veldur ekki síður áhyggjum er að kannanir sýna fjölgun barna sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi s.s. kvíða og streitu. Við vitum að frammistaða og eigið mat á færni er nátengd líðan og upplifun um eigið ágæti. Sé vandamál með lestur og lesskilning má leiða sterkar líkur að það hafi áhrif á andlega líðan barna.

Kjarninn í Kveikjum neistann

Kveikjum neistann er verkefni sem ætlað er að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun á skólastarfið. Kveikjum neistann tekur mið af vísindum og samstarfi við erlenda fræðimenn.  Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Áherslur tengjast jafnframt þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Verkefnið hefur verið innleitt í Vestmannaeyjum með góðum árangri.

Kjarninn í verkefninu er að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli er staldrað við til að fullvissa um að helst allir nemendur séu búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar.

Nota það sem virkar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur fylgst með þessu verkefni. Í ljósi þess að það hefur sýnt einstaklega góðan árangur á stuttum tíma ætti að skoða að innleiða það í grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið.  Tillaga Flokks fólksins þess efnis hefur verið lögð fram í borgarráði. Miðja máls og læsis er að gera góða hluti en vel er hægt að gera betur. Einnig þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð. Þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil  2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d.  tengjast sjónskyni. Sum þurfa sem dæmi að fá stærra letur og læra bókstafi með hljóði og myndum.

Fyrstu rauðu flöggin við málþroska sjást í 18 mánaða skoðun. Þá er mikilvægt að bregðast strax við með t. d fræðslu til foreldra þessara barna. Leikskólinn er mikilvægur og málþroskinn áríðandi fyrir lesskilninginn. Vísbendingar um vanda má einnig oft sjá í niðurstöðum fjögurra ára skoðunar hjá heilsugæslunni. Þess vegna er mikilvægt að heilsugæslan og skólinn séu í góðu samstarfi. „Hljóm“ sem lagt er fyrir 5 ára nemendur hefur einnig forspárgildi fyrir lestrarnám.

Lestur og lesskilningur er fjárfesting til framtíðar. Barn sem á í vanda á þessu sviði tapar oft sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi. Þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Börnum sem útskrifast úr grunnskóla með slakan lesskilning hefur farið fjölgandi með hverju ári. Ef verkefni eins og Kveikjum neistann er að virka svo vel sem raun ber vitni er ábyrgðarhluti að líta fram hjá því. Við hljótum að vilja gera allt sem við getum,  láta einskis ófreistað til að börn nái sem bestum tökum á lestri og lesskilningi.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Birt í Fréttablaðinu 25. ágúst 2022


Leikskólamál í lamasessi í Reykjavík

Ástandið í leikskólamálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Fyrst þegar hugmyndin um hinar svokölluðu ævintýraborgir, hreyfanlegir einingarleikskólar, var lögð á borð borgarstjórnar fylltust allir von og trú um að nú væri að nást utan um þennan gamla gróna vanda sem er hvað áþreifanlegastur á haustin. Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu.

Vandinn hefur aldrei verið eins átakanlegur og nú. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt, alla vega ekki nógu eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Hvað fór úrskeiðis með  þessar færanlegu einingar og  húsnæðismálin er óljóst. Flokkur fólksins hefur spurst fyrir um þessi mál og einnig óskað eftir umræðu um þau í umhverfis- og skipulagsráði.

Reykjavíkurborg þarf að taka sig verulega á þegar kemur að leikskólamálum. Reykjavíkurborg getur litið til þeirra lausna sem önnur sveitarfélög hafa beitt. Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Ekki bara lofa heldur einnig að standa við loforðin

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið iðinn við að lofa en öðru máli gegnir um efndir. Hér þarf að gera betur. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til.  Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Skylda Reykjavíkurborgar sem sveitarfélag með lögbundna þjónustu er að koma til aðstoðar með öllum mögulegum ráðum. Komið er að þolmörkum.

Lausnir

Flokkur fólksins, sem situr í minnihluta, hefur lagt fram tillögur til sérstakra lausna á meðan ástandið er slæmt. Ein af tillögum Flokks fólksins er að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið að að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er, að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun létta á biðlistum.

Nóg er komið

Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína?

Flokkur fólksins vill að fólkið í borginni verði í fyrsta sæti. Þjónustu er víða ábótavant og er skemmst að minnast langra biðlista í nánast alla þjónustu. Nú bíða 2012 börn eftir þjónustu t.d. sálfræðinga og talmeinafræðinga á vegum skólaþjónustu borgarinnar. Vonir stóðu til að Framsóknarflokkurinn myndi hrista rækilega upp í „gamla“ meirihlutanum . Vissulega er kjörtímabilið nýhafið með Framsóknarflokk sem nýrri viðbót. Fólk, börn og viðkvæmir hópar geta ekki beðið lengur. Það komið nóg af bið, afsökunum og sviknum loforðum. Mikilvægt er að meirihlutinn í borgarstjórn, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið bregðist við þessu vandræðaástandi og sendi frá sér skýr skilaboð um að grípa eigi til alvöru aðgerða.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt á visi.is 15. ágúst 2022


Dýrkeypt fjarlægð milli barna og sálfræðinga

Árum saman hef ég sem sálfræðingur og borgarfulltrúi barist fyrir því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum sjálfum frekar en á þjónustumiðstöðvum. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur hunsað þetta mikilvæga mál.

Hinn 27. júní 2018 lagði ég sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í Skóla- og frístundarráði um að skólasálfræðingur væri í hverjum skóla í Reykjavík og að skólar yrðu valdefldir með þeim hætti að þeir réðu sjálfir til sín skólasálfræðinga með aðsetur í skólum og tækju við verkbeiðnum frá nemendaverndarráðum. Í lögum segir að börn skuli hafa aðgang að sérfræðiþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Tillögunni var vísað til velferðarráðs þar sem henni var hafnað.

 

Biðlisti barna lengst á kjörtímabilinu vegna m.a. fjölgunar tilvísana

Sálfræðingar hafa aðsetur á þjónustumiðstöðvum og ferðast þaðan út í þá skóla sem þeim ber að sinna til að þjónusta börn. Á biðlista eftir fagfólki skóla eru nú rúmlega 1800 börn og þar af rúmlega 1000 börn sem bíða eftir sálfræðiþjónustu af einhverju tagi, ýmist viðtölum eða greiningu. Stöðugildi sálfræðinga eru 25,8 sem þjónusta 80 leikskóla og 44 grunnskóla. Áætlað er að u.þ.b. 10 stöðugildi sinni leikskólum og 15,8 sinni grunnskólum borgarinnar.

Hinn 4. maí fékk ég svar frá velferðarsviði við eftirfarandi fyrirspurn um kostnað við ferðir sálfræðinga út í skólana, sundurliðun eftir hverfum og eftir ferðamáta:

Kostnaður við ferðir sálfræðinga út í skóla með leigubíl er 1.555.359
Kostnaður vegna aksturssamninga er 1.821.255
Heildarkostnaður 2.852.968

Af svari má sjá að kostnaður við ferðir sálfræðinga til og frá skóla er talsverður en sálfræðingar fara ýmist með leigubílum eða eru með aksturssamninga. Um er að ræða 31 sálfræðing og er meðalkostnaður á hvern tæp hálf milljón.

Ef horft er á þetta raunsætt vekur það ekki  mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga og annarra fagaðila skóla s.s. talmeinafræðinga.  Biðlistinn hefur lengst gríðarlega en hann var 400 börn árið 2018. Við listann hafa bæst um 1500 börn á kjörtímabilinu.

Hvorki í þágu barna né kennara

Óskiljanlegt er af hverju þessu er ekki breytt. Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en út í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barnanna né kennara. Sálfræðingar eiga að hafa aðsetur í skólum til að sinna málum barnanna í nálægð og þá sparast háar upphæðir sem fara í leigubílakostnað svo ekki sé minnst á tímann sem tekur að fara á milli staða.

Ég var sjálf um 10 ára skeið skólasálfræðingur í Hafnarfirði og var með skrifstofu í skólanum. Þar gat ég verið til taks, veitt ráðgjöf til kennara og foreldra eftir atvikum milli þess sem ég var með börn í viðtölum og greiningu. Ein af þeim rökum sem nefnd hafa verið sem stríðir gegn því að sálfræðingar hafi aðstöðu í skólum er plássleysi. Það kann að vera raunverulegt í sumum skólum en dæmi eru um lausnir. Ein slík er að hjúkrunarfræðingur skóla og sálfræðingur skipti með sér skrifstofu.

Það er sýnilegur hagur allra að hafa sálfræðinga skóla alfarið innan veggja skólanna og því má telja víst að plássleysi verði ekki ástæða til að hindra það. Fái Flokkur fólksins framgang í komandi kosningum 14. maí mun það vera eitt af fyrstu verkum flokksins að skoða með markvissum hætti með skólastjórnendum og skólastjórnendum hvort hægt sé að flytja aðsetur þeirra út í skólanna. Annað brýnt verkefni er að auka fjárheimildir til velferðarsviðs til að hægt sé að fjölga sálfræðingum skóla svo vinna megi markvisst að því að eyða biðlistum sem hefur verið svartur blettur borgarstjórnarmeirihlutans í mörg ár.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur, oddviti Flokks fólksins  skipar 1. sæti á lista flokksins í komandi borgarstjórnakosningum

Greinin var fyrst birt á vef Mannlífs 10. maí 2022

 


Þegar björgunarskipið siglir fram hjá

Eitt af helstu baráttumálum Flokks fólksins er að útrýma biðlistum í borginni. Biðlistar eru rótgróið mein í Reykjavík. Aðeins hafa skitnar 140 milljónir verið settar til að stemma stigu við lengingu listanna sem hafa fimmfaldast á kjörtímabilinu.Um 1900 börn bíða nú eftir aðstoð fagaðila s.s. sálfræðinga og talmeinafræðinga hjá Skólaþjónustu borgarinnar. Covid faraldurinn leiddi til aukningar á tilvísunum til fagfólks skóla sem þyngdi enn frekar ástandið sem var slæmt fyrir.

 

Tökum dæmi:

Nú er tveggja ára bið í þroskamat hjá skólasálfræðingi hjá borginni sem kallast frumgreining. Liggi slík undurstöðugreining ekki fyrir er oft rennt algerlega blint í sjóinn með réttu viðbrögðin og úrræðin fyrir barnið. Tugir barna eru á þessum biðlista með sterkar vísbendingar um ADHD vanda. Dæmi eru um að börn séu útskrifuð úr grunnskóla þegar röðin kemur að þeim. Ekki þarf að spyrja um afleiðingarnar.

 

Þessi mismunun og ójöfnuður hefur aukist á vakt Samfylkingar sem vill þó láta kalla sig jafnaðarmannaflokk. Sláandi dæmi um óréttlætið undir forystu Samfylkingar er að á meðan börn efnaminna fólks og fátækra foreldra bíða mánuðum og árum saman eftir að fá þörfum sínum og vanda mætt, geta efnameiri foreldrar farið með barn sitt á einkarekna stofu. Kostnaður við skimun og greiningu hleypur á 200 þúsundum og viðtal hjá sálfræðingi út í bæ kostar um  20.000 kr.

 

Þegar björgunarskipið siglir fram hjá

Til þess að hægt sé að halda úti hugmyndafræðinni  „skóla án aðgreiningar“ svo að sómi sé að, duga ekki orð heldur verður fjármagn að fylgja. Annars er einfaldlega ekki hægt að ráða fagfólk til að sinna mismunandi þörfum barna.  Þess vegna er stoðþjónusta og önnur sértæk þjónusta við börn ófullnægjandi í Reykjavík. Auk þess eru börn af erlendum uppruna, sem eru útsettur hópur vegna tungumálaerfiðleika,  á biðlista eftir að komast í íslenskuver.

 

Sýndarmennskan sem felst í því að ætla kennurum að uppfylla drauma stjórnmálamanna um „skóla án aðgreiningar“í fjársveltu skólakerfi er svo skaðleg gagnvart foreldrum og börnum sem gera sér væntingar um allt annað. Bið eftir nauðsynlegri fagþjónustu getur valdið óbætanlegu tjóni fyrir viðkvæma einstaklinga og getur hreinlega kostað líf. Meðan börnin bíða siglir björgunarskipið framhjá og þau svamla í ísköldum sjónum bjargarlaus.

 

Barnasáttmálinn

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur ekki enn verið innleiddur í Reykjavík.  Nýlega lagði Flokkur fólksins til að skipaður verði stýrihópur sem leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í  innleiðingaferli á  Barnasáttmálanum líkt og gert var í Kópavogi. Tillögunni var vísað til borgarráðs þar sem hún er enn óafgreidd. Mörgum tugum mála, sem Flokkur fólksins hefur lagt fram á tímabilinu, hefur ýmist verið vísað frá eða þau felld. En er fjölda tillagna og fyrirspurna ósvarað.

 

Fái Flokkur fólksins umboð kjósanda í komandi borgarstjórnarkosningum verður hans fyrsta verk að útdeila fjármagni borgarsjóðs í að bæta þjónustu og vinna niður biðlista Skólaþjónustunnar. Skortur á fjármagni er ekki vandamálið heldur hvernig því er dreift til verkefna, sumra fjárfrekra sem geta beðið betri tíma.

Taka þarf á bruðli og sóun sem víða má finna í borgarkerfinu. Það hefur þanist út einna helst í miðlægri stjórnsýslu og á þjónustu- og nýsköpunarsviði, borgarbúum að engu gagni.

Flokkur fólksins hefur í fjögur ár barist með kjafti og klóm fyrir auknum lífsgæðum þeirra sem búa við skort og er tilbúinn að berjast áfram fái hann umboð borgarbúa.

 

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

 

Helga Þórðardóttir, varaþingmaður og kennari við Barnaspítala Hringsins, skipar 2. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

kolla og helga

 

 

 

                                                                                                                                             

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband