Meðvirkni í uppeldi á stundum rætur að rekja til vanlíðunar og óöryggis foreldra

Uppeldi sem samanstendur af kærleika, festu, hvatningu, hrósi og fræðslu er líklegt til að skila góðum árangri. Markmiðið er að barnið vaxi og verði sjálfstæð, gefandi, ábyrg og hugsandi manneskja sem skilur og skynjar með hvaða hætti hún getur stuðlað að betra samfélagi fyrir sjálfa sig og aðra. Ekkert barn er nákvæmlega eins og annað. Engu að síður er ákveðinn kjarni sem skiptir sköpum í uppeldi ef það á að takast eins vel og kostur er.

Öskur

Það er aldrei of mikið af ástúð í uppeldinu. Hins vegar rugla sumir foreldrar saman ástúð og ofdekri. Dæmi um þetta er þegar foreldrar allt að kæfa barnið sitt af því sem þau telja vera umhyggju og góðsemi en er í raun eftirlæti, markaleysi og jafnvel meðvirkni. Þegar þannig er háttað er stundum verið að uppfylla þarfir foreldranna frekar en barnsins. Enda þótt um góðan ásetning er að ræða á meðvirkni með barni sínu oft rætur að rekja til vanlíðunar og óöryggis foreldranna. Foreldrum sem glíma sjálfir við andlega vanlíðan skortir stundum þrek og áræðni til að setja börnum sínum mörk. Sektarkennd verður til þess að þeir gefa frekar eftir og treysta sér ekki til að gera kröfur sem hæfir aldri barnanna og þroska. Þannig geta sálræn veikindi foreldra veikt þau í foreldrahlutverkinu.

Neikvæð áhrif markaleysis

Sumir foreldrar segja e.t.v. að þeir séu eftirlátir við börn sín vegna þess að þeir elski þau svo mikið og séu jafnvel „slæmir“ foreldrar ef þeir banni barni sínu of oft eða neiti kröfum þeirra. En væntumþykja hefur ekkert að gera með hversu mikið barnið fær að stjórna eða fær af veraldlegum gæðum. Mörgum foreldrum verður þetta ljóst þegar neikvæð áhrif markaleysis eða ofdekurs sýna sig t.d. þegar, í stað þakklætis og ánægju koma enn meiri kröfur, vansæld og óánægja. Þegar svo er komið getur verið þrautinni þyngri að ætla þá að fara að setja reglur og ramma. Grundvöllur foreldrakærleiks er að setja hagsmuni barnsins ávallt í forgang. Í því felst að leiðbeina því, setja því mörk, veita því festu og aðhald. Foreldrarnir ráða. Þeir vita hvað barninu er fyrir bestu og þeir bera ábyrgð á því til 18 ára aldurs.

Reglurammi samfélagsins er til þess gerður að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Markmiðið er að vernda og kenna barninu nauðsynleg atriði sem það þarfnast til að auka líkur á velfarnaði í lífinu. Oft kemur sá tími að barnið líkar illa við reglurnar, finnst þær ósanngjarnar og finnst foreldrar sínir vera bæði vondir og leiðinlegir. Þegar sú staða kemur upp verða foreldrar að standa fast á sínu og minna sig á hvers hagsmuna verið er að gæta með reglunum og hvaða tilgangi þeim er ætlað að þjóna. Vissulega er mikilvægt að hlusta á barnið sitt og nauðsynlegt er að geta sýnt sveigjanleika þegar svo ber við. Með viðeigandi festu og aðhaldi í uppeldinu sem hæfir aldri og þroska hverju sinni eru foreldrar að sýna í verki að þau elska barnið sitt og vilja gera allt sem þarf til að hámarka möguleika þess á að skapa sér hamingjuríkt líf.

Hvað er svona mikilvægt við ramma, reglur, festu og aga?

Með því að skorast undan að setja upp viðhlítandi ramma í kringum barnið, setja því mörk og gera viðeigandi kröfur til þess er verið að svíkja barnið um tækifæri til frekari félags- og persónuþroska. Það er verið að svíkja það um að öðlast aukinn skilning og innsæi í fjölmargar leikreglur umhverfisins; að læra ýmsa færniþætti, standast kröfur, setja sig í spor annarra, beita sjálfsaga, þekkja eigin takmörk, átta sig á persónulegum mörkum annarra, getu til að taka ábyrgð, sinna skyldum og margt fleira. Áhrif og afleiðingar af markalausu uppeldi koma ekki einungis fram í persónulegum þáttum heldur einnig þegar barnið þarf að eiga samskipti við aðra, axla ábyrgð og taka afleiðingum á eigin gjörðum.

Er hægt að hrósa of mikið?

Hvatning, hrós og örvun eru meðal kjarnaþátta farsæls uppeldis og getur, ef rétt er notað, aldrei orðið of mikið. Vissulega er hægt að kæfa barnið af innantómu hrósi eins og öllu öðru. Ef barnið sér sjaldan tengingu milli hróss sem það fær og þess sem verið er að hrósa því fyrir, missir hrósið gildi sitt smám saman. Barn sem alið er upp við mikla og viðvarandi hvatningu og hrós þegar við á er líklegt til að þroska með sér jákvæða og sterka sjálfsmynd sem stuðlar að auknu persónulegu og félagslegu öryggi. Barn sem býr yfir slíkum styrkleikum, finnur og veit að það getur með jákvæðri hugsun og hegðun náð markmiðum sínum og haft góð áhrif á umhverfið. Þetta barn er líklegt til að þróa með sér sjálfsvirðingu en það er einmitt hún sem er öflugasta vörnin gegn ytri vá. Einstaklingur sem ber virðingu fyrir sjálfum sér er síður líklegur til að ákveða að gera eitthvað sem t.d. getur skaðað heilsu hans. Fátt annað er eins skotheld forvörn og sjálfsvirðing sem og jákvæð sjálfsmynd.

Fræðsla í uppeldi

Fræðsla í uppeldi verður seint ofmetin. Hægt er að fræða barnið sitt með því að nota:

  1. Umræður, samtöl, bein fyrirmæli og leiðbeiningar
  2. Með sýnikennslu, (barnið horfir á fyrirmyndir) og einnig með leikrænni tjáningu
  3. Kennsluefni: bækur, sjónvarpsefni, hljóðbækur og annað efni sem hlustað er á í sjónvarpi, tölvu eða útvarpi.

Þessar aðferðir eru ýmist notaðar í sitt hvoru lagi eða saman, allt eftir aldri og þroska barnsins og hvað verið er að kenna hverju sinni. Mikilvægt er að nota sem oftast dæmi úr persónulegu lífi barnsins því þá á það mestu möguleikana á að tileinka sér skilaboðin.

Það sem kenna þarf um leið og aldur og þroski leyfir:

Samkennd, setja sig í spor annarra, hlúa að þeim sem þess þarfnast þegar þess er kostur. Að koma ávallt vel fram við aðra líka þá sem manni finnst ekki skemmtilegir eða áhugaverðir.

Að hirða vel um sjálfan sig og umhverfi sitt (í samræmi við aldur og þroska).

Að tjá tilfinningar, þarfir, segja hvað maður vill og þarf, hvers maður óskar og væntir.

Að hlusta á hvað aðrir eru að segja.

Að gæta að sér í umhverfinu, fara varlega og meta áhættur (í samræmi við aldur og þroska).

Að hlíta fyrirmælum foreldra, kennara og annarra sem annast uppeldi barnsins.

Að gera ávallt sitt besta.

Að beita sjálfan sig aga, læra að stundum þarf að bíða og einnig læra að æfingin skapar meistarann.

Að taka ábyrgð á eigin gjörðum þar á meðal mistökum, ekki kenna öðrum um ef illa fer heldur horfa í eigin barm og spyrja, hvað gat ég gert öðruvísi? Hvað kenndi þetta mér?

Gera má ráð fyrir að flest allir foreldrar vilji aðeins það besta fyrir börn sín. Uppeldi er þar engin undantekning. Finnist foreldrum þeim skorta frekari fræðslu og þjálfun við uppeldi barna sinna bjóðast þeim tækifæri til að sækja uppeldistækninámskeið eða sækja viðtöl hjá fagaðila.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband