Í blíðu og stríðu

brúðkmyndSambandsvandi á sér ýmsar birtingamyndir. Stundum eru árekstrar vegna mismunandi væntinga, gildismats eða ólíkra persónuleikaþátta sem rekast illa saman. Einnig vegna trúnaðarbrests, tortryggni og vantrausts sem stundum á rætur að rekja til framhjáhalds eða tilfinningalegra samskipta annars aðilans við aðra manneskju.

Stundum liggur vandinn í "valdabaráttu", þörfinni að stjórna. Þá einkennast samskiptin af því að annar eða báðir aðilar finnst þeir þurfa ávallt að hafa síðasta orðið og telja sig alltaf hafa rétt fyrir sér. Í öðrum tilfellum liggur vandinn í andlegum og/eða líkamlegum erfiðleikum eða ofbeldishegðun sem má rekja til skapgerðabresta og/eða geðrænna erfiðleika. Pör sem eru mikið að þrasa, rífast um allt og ekkert eru stödd á einhverjum óskilgreindum stríðsvettvangi en vita ekkert endilega alltaf um hvað þau eru að rífast eða út á hvað ágreiningurinn gengur. Stundum er vandinn fjölþættur og á rætur að rekja í mörgum þáttum Langvarandi vandi er oftar en ekki farinn að hafa skaðleg áhrif á alla fjölskylduna.

Sé "valdabarátta" til staðar í upphafi sambands eða fljótlega eftir að aðilar byrja saman er líklegt að hún loði við og verði til staðar áfram nema aðilar geri sér grein fyrir vandamálinu og taki meðvituð, ákveðin skref til að leysa það. Pör sem eru hætt að tala saman lýsa því oft að fyrst í sambandinu hafi þau geta talað endalaust saman en svo hafi samskiptavandi með tilheyrandi vansæld, svekkelsi og öðrum fylgikvillum leitt þau smám saman inn í þögn eða langvinna "fýlu."

Ráðgjöf 
Í mörgum tilfellum tekst með aðkomu þriðja aðila að bæta sambandið sé á annað borð vilji beggja til þess. Stundum hefur annar aðilinn ákveðið að yfirgefa sambandið en vill fara milda leið að því með því að fara í ráðgjöf og geta þá sagt við sjálfan sig og aðra að allt hafi verið reynt. Með því að fara í ráðgjöf fær sá aðili sem hefur ákveðið innra með sér að vilja skilnað frekari fullvissu um hvort það sé sú leið sem hann vill raunverulega fara. 

Rót vandans leitað
Eitt af fyrstu skrefum fagaðilans er að skoða rót vandans eða upphaf hans og hvernig hann hefur þróast. Í sumum tilfellum, t.d. ef vandinn liggur í íþyngjandi hegðun annars eða beggja aðila þarf að fara hina leiðina í vinnslunni þ.e. að breyta/stilla/milda eða aðlaga atferlið sem um ræðir til að gefa rými og tíma til að skoða nánar rót vandans. Til að skilja vandann og þróun hans betur er oft gagnlegt að skoða á hvaða forsendum aðilar byrjuðu saman og á hvernig grunni sambandið er byggt? Stundum segir fólk að "hjónabandið" hafi meira svona "atvikast", eitt leitt að öðru og að eðlilegt framhald hafi verið hjónaband.

Í öðrum tilfellum segir fólk að sambandið sé byggt á traustum grunni ástar og virðingar og vissu um að hjónabandið væri eins skotheldur ráðahagur og hugsast gæti. Dæmi eru þó um að fólk segi að það hafi skynjað að "þetta" myndi hvorki ganga vel né lengi en samt ákveðið að ganga í hjónaband í þeirri von að hlutirnir myndu þróast með jákvæðum hætti. Það er einnig nokkuð algengt að ákvörðun um að ganga í hjónaband sé tilkomin til að tryggja erfðarréttindi enda séu þá komin börn og eignir og aðilar ákveðnir í að vera saman. Flestir ganga vissulega í hjónaband með væntingar um að hjónabandið haldi í gegnum súrt og sætt, í blíðu og stríðu.

Í para- og hjónaráðgjöf er skoðað hvaða tilfinningar og væntingar eru tengdar við aðstoð fagaðila. Báðir aðilar tjá sig um hvað þeim finnst jákvætt í sambandinu og hvað þeim finnst að þurfi að laga. Kanna þarf hvort aðilar vilja fara í að byggja upp og laga sambandið eða hvort öðrum aðilanum eða jafnvel báðum finnist sambandið hreinlega hafa runnið sitt skeið og séu þeir þá allt eins að leita eftir skilnaðarráðgjöf. Í mörgum tilfellum eru aðilar óvissir hvað þeir vilja, hugsanir og tilfinningar sveiflast til og óttast eiginlega bæði að halda sambandinu áfram en kannski enn meira "að skilja."

Þessi mál eins og önnur geta verið afar ólík. Stundum eru aðilar komnir til sálfræðings til að fá aðstoð hans við að breyta maka sínum, jafnvel í grundvallaratriðum. Vissulega geta allir gert breytingar á eigin hugsun, viðhorfum sem leiðir til breyttrar og þá bættrar hegðunar. Til að sjá nauðsyn þess að breyta eigin atferli þarf viðkomandi að hafa innsæi í "sjálfan sig", vera tilbúinn að horfa með gagnrýnum augum á sinn hlut í málum, viðurkenna eigin mistök og geta sýnt sveigjanleika í samskiptum. Að baki breytingum sem þessum þarf að vera einlæga löngun til að vilja leggja sitt að mörkum til að bæta samskiptin við makann. Oft vill fólk leggja mikið á sig til að bæta sambandið þegar komið er inn á gólf sálfræðings.

Vinnslan
Fyrir fagaðilann er að finna út hvað aðilar vilja gera og hvort það er samhugur um að laga sambandið þannig að báðum geti liðið vel í því. Í vinnslunni felst að hjálpa aðilum að greina aðalatriði frá aukaatriðum, hvað það er sem aðilum finnst skipta máli þegar upp er staðið. Greina þarf hvort um er að ræða einhvern einn grunnvanda sem leitt hefur til ýmiskonar fylgivanda, eða hvort sambandið er komið í einhvern vítahring sem finna þarf leið til að klippa á. Í vinnslunni felst m.a. að setja markmið og gera áætlanir um hvernig nálgast skuli markmiðið. Allar tillögur og hugmyndir um betrumbætur eru unnar í samráði við parið enda vinnan þeirra þegar heim er komið. Fólk er "misopið" og oft finnst hinum "lokaða" einstaklingi betra að ræða viðkvæm mál sem þessi með aðstoð þriðja aðila.

Mál eru misalvarleg og djúpstæð. Erfiðustu málin eru þau sem orðið hefur tilfinningarlegt trúnaðarbrot milli aðila sem dæmi vegna framhjáhalds eða að annar aðilinn hefur verið í tilfinningalegu skriflegu sambandi við einhvern annan án tillits til hvort um stefnumót hafi verið að ræða eða ekki. Verði trúnaðarbrot er fótum trausts oft kippt undan þeim sem óttast að hann hafi verið svikin eða sé um það bil að verða svikin. Þegar tortryggni og vantraust hefur sáð sér getur verið afar erfitt að ná aftur fyrri stað í sambandinu. Tortryggni er eins og eitur sem býr um sig í iðrunum og skýtur upp kollinum við hið minnsta áreiti. Minning um trúnaðarbrot er iðulega geymd en ekki gleymd og er afar mismunandi hvort fólk nái takti að nýju og hvort þá sá taktur endist. 

Öllum pörum er það hollt að spyrja sig hvort og hversu mikið þau þekkja hvort annað. Spyrja:

Ríkir traust, virðing, samheldni og gagnkvæmur skilningur milli okkar?
Getum við bæði átt okkar einstaklingslíf og samlíf/fjölskyldulíf án þess að eiga von á gagnrýni, óheiðarleika eða óeðlilegum höftum

Ákvarðanir sem varða alla fjölskylduna svo sem þær sem hafa að gera með fjármál, búsetu, tímasetningu viðburða og tímalengd, börnin og annað grundvallarskipulag fjölskyldunnar verða að vera sameiginlegar.“

Góð samskipti eru númer eitt og því meira gegnsæi, opin samskipti, hreinskilni og einlægni sem ríkir í sambandinu því meiri líkur eru á að það lifi og verði farsælt. Lífsstíll beggja þarf einnig að eiga saman og fólk þarf að geta talað saman, skilið hvort annað, hlustað á hvert annað og sett sig í spor hvers annars ef sambandið á að verða farsælt fyrir báða aðila. Farsælt samband einkennist ekki bara af því að vera rekið eins og gott fyrirtæki heldur að aðilar hlakki til að koma heim, hlakki til að hittast og vera saman og langi í nánd og samveru við hvort annað.

Þessi grein er byggð á viðtali við KB sem birtist í Brúðkaupsblaði Morgunblaðsins 15. apríl 2016

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband