Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Ég nenni ekki að vera að halda hári á meðan verið er að æla

Þetta voru orð ungrar stúlku sem sagðist vera búin að gefast upp á að skemmta sér með sumum skólasystrum sínum.  Þau tilvik hafi ítrekað átt sér stað að einhver úr hópnum fór yfir strikið, varð ofurölvi og þurfti að æla.  Eins var ekki óalgengt að undir áhrifum áfengis átti dramatíkin það til að ná hæstu hæðum.  Þar sem stúlkan notaði ekki áfengi sjálf tók hún það að sér að hjálpa öðrum stúlkum sem drukkið höfðu meira en þær réðu við. Hjálpin fólst í að styðja, hugga þær sem grétu og halda hári frá andliti þeirra ef þær þurftu að æla.

Þessi stúlka er ein af þeim unglingum sem hefur tekið ákvörðun að neyta ekki áfengis hvorki nú né síðar á ævinni.  Í umræðu um málefni unglinga og forvarnir er ekki nógu oft minnst á þá krakka sem hafa ákveðið með sjálfum sér að neyta ekki áfengis, hvorki í náinni framtíð né þegar þeir verða sjálfráða eða enn síðar þegar þeir verða löggildir áfengiskaupendur. Ákvörðunin felst í því að áfengi verði ekki hluti af þeirra lífstíl.

Huga þarf að þessum krökkum  því margir eiga í heilmikilli baráttu við sjálfa sig og umhverfið.  Annars vegar eru þeir að reyna að halda sínu striki þrátt fyrir félagaþrýsting en á sama tíma vilja þau eðlilega vera hluti af hópnum.  Mikilvægt er að samfélagið styðji við bakið á þeim t.d. með því að minnast oftar á þau í almennri umræðu, hvetja þau til að halda ótrauð sínu striki og einnig að hvetja aðra unglinga til að taka þau sér til fyrirmyndar.

Það er mikið álag að vera í sporum þessarar stúlku í þeim aðstæðum sem hún lýsti.  Henni fannst hún verða að taka ábyrgð og fara í hlutverk aðstoðarkonu séi hún á annað borð á staðnum.  Nú var hins vegar svo komið að hana langaði ekki lengur að vera viðstödd ef átti að hafa áfengi um hönd. Með þeirri ákvörðun fannst henni jafnframt sem félagsleg staða hennar kynni að vera í uppnámi. Hún óttaðist að einangrast og velti fyrir sér hvar hún gæti fundið félagsskap sem hún taldi sig passa betur inn í.


Kínversk alþýða upplifir höfnun

Það eru að minnsta kosti tveir fletir á hverju máli og oftast fleiri.  Oftar en ella reynir maður að sjá að minnsta kosti tvær hliðar og ef vel tekst til sér maður fleiri en tvær og jafnvel fleiri en þrjár.

Fyrir dyrum stendur að halda ólympíuleika í Peking. Margir vesturlandabúar eru ósáttir við stefnu Kínverja í mannréttindamálum og því ósáttir við staðsetningu leikana. Vesturlandabúar (að sjálfsögðu ekki allir) hafa mótmælt og hafa mótmælin borist til Kína þar sem um þau hefur verið fjallað.

Eins og fram kom hjá íslenskri konu sem býr í Peking upplifa margir Kínverjar þessi mótmæli einfaldlega sem árás á Kínversku þjóðina fremur en sjá og skilja þann jarðveg sem þau eru sprottin úr.  Það er ómögulegt að átta sig á hversu stór hluti Kínverja er meðvitaður um aðgerðir stjórnvalda og/eða mannréttindabrot í landinu.  Á þessu er allur gangur enda landið stórt og fjölmenni mikið. Gera má því skóna að einhver hluti, stór eða lítill, skilji ekki af hverju vesturlandabúar eru svona neikvæðir í þeirra garð og eru því e.t.v að upplifa heilmikla höfnun og sárindi.


Finn til með Guðnýju Hrund vegna umfjöllunar um jómfrúræðu hennar

Ég var að fletta 24 stundum og rak augun í umfjöllun um Guðnýju Hrund Karlsdóttur, varaþingmann og hvernig henni tókst til með jómfrúræðuna sína á Alþingi.

Mín fyrsta tilfinning og hugsun þegar ég las þessa umfjöllun var að það er óskemmtilegt fyrir Guðnýju að opna blöðin og lesa lýsingar á hvernig flutningurinn tókst til og vangaveltur um af hverju henni fórst þetta ekki betur úr hendi. Bent er á að hægt sé að sjá myndbrot af ræðunni líklega ef einhver skyldi vilja skemmta sér yfir þessu. Woundering

Vonandi hefur Guðný Hrund harðan skráp. Eitt sinn stóð ég í þessum sporum og man einmitt vel eftir að hafa áhyggjur af því að frjósa eða bulla einhverja vitleysu.  Flutningur jómfrúræðu er að ég tel einn af þessum atburðum sem þingmenn og varaþingmenn langi til að takist vel. Dæmi eru um að þingmenn hafi kviðið mjög fyrir þessari fyrstu ræðu og langur tími hafi jafnvel liði hjá sumum áður en þeir höfðu safnað nægjanlegum kjarki til að stíga í pontu í fyrsta sinn á Alþingi.
 
Vonandi lætur Guðný þetta ekki slá sig út af laginu.

 


Ráðist gegn verðbólgudraugnum

Stýrivextir hækkuðu enn í morgun og eru nú 15.5 prósent.  Áhrifin eru eins og fyrr, súr - sæt.  Meginmarkmiðið er að halda verðbólgunni í skefjum.  Þetta fjárhagslega umhverfi er sannarlega mörgum erfitt og þeir sem hafa fjárfest mikið með lánum munu eiga á brattan að sækja hvað varðar endurgreiðslu. Lífstíll mun klárlega verða að breytast hjá þorra manna næstu misseri. Margir vilja kannski segja núna „ég sagði ykkur þetta" og það er e.t.v. rétt en stundum verður maður bara að læra eins og segir á enskunni „the hard way" eða „by error."

Þessi þjóð hefur áður gengið í gegnum erfiða tíma en vegna þess hversu mikil þrautseigja er í blóðinu á Íslendingum þá komumst við út úr þessum óveðursstormi einn góðan veðurdag.  Smile

Þjóðin í aldanna rás
Komin er krepputíð,
kólgubakkar upp hrannast.
Til sældar brjótumst uns birtir um síð,
baráttuþrekið aftur sannast.

Hungruð forðum mátti hún dúsa,
í hjöllum, torfkofum, heimili músa.
Í lágreistum hýbýlum pesta og lúsa,
lá leiðin bein upp til háreistra húsa.

(KB)


Siðferðileg ábyrgð bankastjóra viðskiptabankanna

Öll viljum við trygga efnahagsstjórn og með öllum ráðum stuðla að trúverðugleika hennar gagnvart öðrum þjóðum sem við eigum samskipti við. Bankar sem standa traustum fótum er hluti af jákvæðri ímynd Íslendinga á erlendri grund.  Staðan í dag er hins vegar sú að:

1. Erlend lán standa bönkunum ekki til boða á sömu kjörum og áður

2. Bankanna skortir tilfinnanlega lausafé til að geta haldið viðskiptum sínum gangandi

Ríkisstjórnin leitar nú lausna á lausafjárkreppu bankanna. Telja má sennilegt að verið sé m.a. að skoða hvort Ríkissjóður taki hugsanlega erlent lán til að lána bönkunum og koma þeim þannig til bjargar. Ríkissjóður er í eigu þjóðarinnar og þegar Ríkið  tekur lán er fólkið í landinu að taka lán. Öll lán þarf einn góðan veðurdag að borga.

Samhliða er kallað eftir sameiginlegu átaki þegna landsins að halda að sér höndum. Sérstaklega er biðlað til þeirra sem hafa eytt um efni fram að endurskoða lífstíl og óþarfa eyðslu. Þess er vænst að einstaklingar og fyrirtæki taki höndum saman og fresti a.m.k. tímabundið fjárfestingum sem kalla á lánsfjármagn.

Þá er komið að kjarna þessarar færslu og hún er sú spurning hvort bankastjórar viðskiptabankanna ætli mitt í allri þessari aðhaldsumræðu að halda í sín stjarnfræðilegu laun?

Það kæmi ekki á óvart þótt almenningi fyndist það skjóta skökku við að ef til kæmi að Ríkissjóður taki lán til að bjarga bönkunum úr lausafjárkreppu þeirra, greiði bankarnir áfram bankastjórum himinhá laun, jafnvel margfalt þau sem vel launaðir almennir launþegar eru að þiggja.


Kolsýrlingseitrun úr gasofni. Tímbært að byrgja þennan eiturbrunn í eitt skipti fyrir öll

Á fáum árum hafa 6 manns látist í tveimur slysum af völdum kolsýrlingseitrunar frá gasofni.  Slysin áttu bæði sér stað í veiðikofum þar sem fólkið kveikti upp í litlum gasofni til kyndingar. Eldur eyðir súrefni og við skort á súrefni myndast eiturlofttegundin kolsýrlingur.  Sé búið að kveikja upp í gasofni skiptir öllu að súrefni eigi greiða leið inn í rýmið svo eiturlofttegund nái ekki að myndast. Annars þarf vart að spyrja að leikslokum.

Um nákvæman aðdraganda þessara slysa veit ég í sjálfu sér ekki meira en það sem fram kemur í fréttum.  Gera má því skóna að fólkið komi inn eftir langan dag þar sem það hefur verið við veiðar. Kalt, þreytt og slæpt kveikir það upp í ofninum. Í þessum tilvikum hefur komið í ljós að loftræsting var ábótavant. Fólkið hefur væntanlega fljótt orðið fyrir einhverjum eituráhrifum. Áhrif eitursins á heilann veldur dómgreindarleysi og hugsun hættir að vera skýr.  Jafnvel þótt fólkið sé meðvitað um hættuna og ætli sér að opna glugga þá verða eituráhrifin þess valdandi að slen og svefn ná að taka völdin og fólkið einfaldlega lognast út af. 

Svona hörmungarslys hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir með einhverjum ábyggilegum og varanlegum hætti. Helst dettur mér í hug að fært verði í lög að þeir sem eiga kofa með gasofnum beri ábyrgð á því að loftræsting sé alltaf nægjanleg t.d. að allir kofar hafi reykrör (stromp). Skilti eða aðrar viðvaranir nægja ekki til að koma í veg fyrir slys sem þessi enda þekkingarskortur kannski sjaldnast orsökin. 

Ég vil hvetja eigendur veiðikofa um allt land og aðra sem að þessum málum standa beint eða óbeint að byrgja þennan eiturbrunn áður en fleiri falla ofan í  hann.   


Af hverju að ráðast á vinaliðið? Við borgum öll sama háa bensínverðið

Þeir sem líða hvað mest vegna mótmæla atvinnubílstjóra sem hafa einna helst falist í að stöðva umferð á háannatíma eru upp til hópa stuðningsmenn þeirra og sitja sömu megin borðs og þeir. 
Allir þeir sem verða fyrir barðinu á þessum töfum eru að borga sama háa bensínverðið og atvinnubílstjórarnir og eru ekkert ánægðari með það en þeir.  Margir sem hafa orðið fyrir því að sitja fastir í bílum sínum vegna þessara aðgerða hafa mikinn og góðan skilning á þessum pirringi  atvinnubílstjóranna og vilja gjarnan styðja þá með einhverjum hætti. Það er ekki bara bensínverðið heldur tengjast mótmælin einnig hvíldartímatilskipuninni og skorti á salernisaðstöðu svo fátt eitt sé nefnt. 

En hverju skilar það að níðast á vinum sínum öðru en að fæla þá frá sér?
Þessi tegund af mótmælaaðgerð er sérlega slæm vegna þess að hún skapar mýmörg og margslungin óþægindi fyrir fólkið sem situr fast í bílum sínum þegar það á að vera að sinna öðrum skyldustörfum.  Í bráðatilvikum getur aðgerð sem þessi líka orðið til þess að ekki næst að bjarga í tíma. Ekki má gleyma því að stundum eru það sekúndur sem skilja að líf og dauða. Það yrði óskemmtilegt fyrir atvinnubílstjóranna að þurfa að hafa það á samviskunni að umferðartöfin af þeirra völdum hafi ollið óbætanlegu tjóni eða jafnvel dauða.  

Það er sjálfsagt að finna áberandi og kraftmiklar leiðir til að mótmæla,  láta rödd sína heyrast þegar manni finnst ríkisvaldið hafa sofnað á verðinum eða sé með eitthvert slen í brýnum málefnum.  Aðrar leiðir en þessi eru færar eins og atvinnubílstjórar hafa sýnt þegar þeir söfnuðust saman fyrir utan Alþingishúsið og ræddu við forseta Alþingis. Í slíkum mómælaaðgerðum þar sem ekki er ráðist á vinaliðið er auðvelt að finna til samhugar enda er þetta mál okkar allra.


Er Hannes sáttur við að verið sé að safna fé honum til handa?

Fjársöfnun stendur nú yfir til stuðnings Hannesi Hólmsteini þar þess íslenskur auðmaður sækir fast að honum fyrir að hafa nýtt málfrelsi sitt á Íslandi eins og segir í fréttatilkynningu.

Nú er það gjarnan svo að safnað er fyrir þá sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni t.d. vegna stóráfalla svo sem hafi heimili skemmst í eldsvoða eða til að létta undir bagga með fjölskyldu langveiks barns svo einhver algeng dæmi séu nefnd.

 

Sjaldnar sér maður að staðið sé fyrir fjársöfnun fyrir velmegandi einstakling sem auk þess gegnir a.m.k. tveimur launuðum stöðum hjá ríkinu. Sú aðför sem stuðningsmenn Hannesar vísa til er einnig að mati, alla vega sumra, aðstæður sem Hannes sjálfur valdi að koma sér í og hefur jafnvel haft tækifæri til að komast út úr hafi hann haft á því áhuga.

 

Vinir Hannesar vilja honum vel með þessari söfnun en er Hannes sjálfur sáttur við hana?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband