Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Hópur stúlkna gengur í skrokk á jafnöldru sinni. Upphafið rakið til misskilnings á netinu

Hópur stúlkna nemur aðra á brott og gengur í skrokk á henni.
Enn eitt tilvik hefur orðið sem á eftir að hafa langvarandi, alvarlegar afleiðingar fyrst og fremst fyrir stúlkuna sem varð fyrir árásinni en einnig fyrir þær sem beittu ofbeldinu með þeim afleiðingum að stórsér á stúlkunni. 

Í frétt um málið segir að þetta hafi átt upphaf sitt vegna einhvers misskilnings á netinu. Það vekur okkur til umhugsunar hvernig börnin umgangast netið og aukningu svo kallaðs rafræns eineltis samhliða aukinni tölvunotkun. Í þessu sambandi vil ég minna á þáttaröð um einelti á ÍNN. Þátturinn á mánudaginn er einmitt tileinkaður rafrænu einelti og hvaða úrbætur er hægt að leggja til í því sambandi. Sýnt verður myndbrot úr myndinni Odd girl out sem sýnd er í heild sinni á You Tube og fjallar um einelti á netinu.

Í þessu tilviki sem hér um ræðir hefði sannarlega getað farið verr því eitt högg á höfuð getur auðveldlega skilið milli lífs og dauða eða leitt til örkumlunar.

Málið er sannarlega allt hið sorglegasta.


Síðan hvenær hefur þurft að kjósa um það hvort ræða megi saman?

Ég óttast mjög að sú málamiðlunarleið Samfylkingar og VG í Evrópusambandságreiningnum verði á þá leið að VG knýi fram að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara eigi í viðræður. 

Komi sú staða upp sé ég fyrir mér sérkennilega atburðarás fara af stað. Tvær fylkingar, með og á móti, munu með öllum ráðum og þá ekki endilega með málefnalegum hætti, keppast um að sannfæra aðra um annars vegar kosti þess að fara í viðræður með það fyrir augum að sækja um aðild og hins vegar hversu áhættusamt það er að tala við ESB og galla þess að sækja um aðild. 

Fyrir þá sem hafa undanfarin ár látið sér þessa umræðu í léttu rúmi liggja munu e.t.v. varla vita í hvort fótinn þeir eiga að stíga þegar áróðursmeistarar með og á móti byrja að lobbýera. Þeir sem hafa bitið það í sig að vilja ekki kanna þennan möguleika af því að þeir telja sig vita hvað í honum felst þótt þeir hafi e.t.v. aldrei kynnt sér það,  munu láta einskis ófreistað við að sannfæra mann og annan um skaðræði þess að ganga til viðræðna við ESB
  

Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að ganga til viðræðna á þann veg að ekki verði tekið það skref, fær þjóðin ekki að vita hvernig samningsplaggið við ESB gæti litið út í reynd. 


H
var stöndum við þá. Allir þeir fjölmörgu sem vilja viðræður, vilja kanna þetta mál til hlítar, sitja eftir ófullnægðir og óánægðir með að hætt hafi verið við, áður en var byrjað..


Ertu ein eða einn? Vantar þig félagsskap? Viltu koma út að leika?

solo_paris_naerverusalar46.jpgKristín frá Sólóklúbbnum og Sigríður frá félaginu París eru í heimsókn á ÍNN í kvöld og kynna starfssemi sína.

Í nærveru sálar, 27. apríl.
Sértu ein(n) og langar til að stunda virkara félagslíf, fylgstu þá með þessari umræðu.

París og Sólóklúbburinn standa opnir öllum þeim sem eru einhleypir og langar til að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki.

www.paris.is
www. soloklubburinn.is


Atvinnu- og efnahagsmálin verða ekki aðskilin frá umræðu um aðild að ESB

Ekki er hægt að aðgreina umræðuna um atvinnu- og efnahagsmálin frá umræðu um aðild að ESB og upptöku evru með inngöngu í myndbandalag. Allt hangir þetta saman.

Hvernig er hægt að ætla að leggja áherslu á efnahagsmálin, peningastefnuna og gjaldmiðil landsins og hunsa á sama tíma umræðuna um aðildarviðræður og mögulega upptöku evru á þessu landi?

Sá sem þetta vill gera er ekki að taka á málinu nema að litlu leyti.

Það hefði verið svo mikið auðveldara ef landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði borið gæfu til að álykta um að sameinast um að fara í viðræður við ESB. Þá hefði gengi hans í þessum kosningum orðið mun öflugra.


 


 


Færsla frá 27. september 2007 um ESB og evruna. Tími er kominn til að taka næsta skref

Það er áhugavert nú að líta aðeins til baka og skoða hvernig þróun umræðunnar um ESB og evru hefur verið.  Þessa færslu birti ég á blogginu í lok september 2007.

Málið er búið að vera í umræðunni eiginlega á sama plani í eflaust meira en 2 ár.
Það er þess vegna greinilega tímabært að taka næsta skref, ekki einungis að velta vöngum, spá og spekúlera heldur fara að kanna hvað það er sem raunverulega kemur upp úr poka merktum ESB og Ísland.

27. september 2007.
Umræðan um evruna og mögulega aðild Íslendinga í ESB hefur orðið æ áleitnari síðustu mánuði og er nú einnig farin að heyrast úr fleiri áttum. Lengi hafa menn þó velt vöngum yfir kostum og göllum upptöku evrunnar, hvenær íslenskt efnahagslíf verði tilbúið og hvort aðild að ESB sé nauðsynleg eða hvort hægt sé að taka hana upp einhliða.

Ég hef fylgst með þessari umræðu eins og aðrir, hlustað á  fjölda fyrirlestra um málið þar sem rök með og á móti hafa verið reifuð.

Undanfarna daga hefur heyrst talað um hvort Íslendingar eigi og geti tekið upp evruna einhliða. Í því sambandi minnist ég þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra fullyrti á sínum tíma að sá möguleiki væri raunhæfur og fannst mér hún fá fyrir það mikla gagnrýni og allt að hneykslun margra. Nú hins vegar virðast allar hliðar umræðunnar leyfilegar og æ fleiri vilja taka þátt í henni, sem er auðvitað alveg frábært.

Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en sé í hendi mér að upptaka evrunnar yrði ekki einungis mikill kostur fyrir viðskiptalífið heldur einnig hinn almenna borgara.

Eins og stendur þá er munur á kaup- og sölugengi gjaldmiðils. Bankarnir fá þennan mismun sem er verulegur. Þessi kostnaður yrði úr sögunni fyrir almenning væri evran okkar gjaldmiðill. Aðrir kostir eru hversu auðvelt yrði að bera saman verð hér og annars staðar í Evrópu. Verðlagseftirlit yrði því mun árangursríkara.

Fleira mætti nefna. Sú spenna sem fylgir því að kaupa varning erlendis frá hyrfi.  Íslendingar hafa eytt mikilli orku í að hitta á rétta tímann, þegar gengið er hagstætt og kaupa áður en það fellur síðan aftur.
Ég er þeirrar skoðunar að þessi þáttur hefur á sumum tímabilum jafnvel ýtt undir ótímabær kaup okkar eins og á bílum og öðrum dýrum erlendum varningi. Ekki hefur mátt bíða með að kaupa því að hætta hefur verið á að varan hækkaði við gengisbreytingar.

Aðild að ESB eða ekki.
Málflutningur fjölda þeirra sérfræðinga sem rætt hafa um nauðsyn þess að ganga í ESB ef taka á upp evru er afar sannfærandi. Öðruvísi verðum við ekki aðilar að Evrópska seðlabankanum og höfum þar að leiðandi engan stuðning þar frá.

Aðild að ESB er stórt mál enda varðar það margt fleira en upptöku evrunnar. Menn óttast hvað helst að það sé sjávarútvegurinn sem ekki verði hægt að standa nægjanlegan vörð um.
Aðild eða ekki aðild verður ekki ákveðin nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað sem öllu líður fagna ég því að æ fleiri vilja skoða málið með opnum huga enda var vitað að umræðu um evruna og ESB aðild yrði ekki umflúin.
Fyrir mitt leyti get ég ekki betur séð en að evran sé framtíðin og spái því að hún verði með einum eða öðrum hætti orðin okkar gjaldamiðill innan 10 ára.  Nú við þetta má bæta að eins getur verið að við tökum upp einhvern annan gjaldmiðil en evruna, eða höldum krónunni en spyrðum hana við evru já eða dollar ef því er að skipta.


Rökræða vs. kappræða í Krossgötum Hjálmars Sveinssonar

Áhugavert viðtal í Krossgötum Hjálmars við þau Vigdísi Finnbogadóttur og Pál Skúlason.

Einangrunarhyggja einkennir okkur Íslendinga, segir Vigdís.  Við notum kappræðu frekar en rökræðu. Erum ávallt að reyna að sannfæra aðra um að taka upp þá skoðun sem við búum yfir og bregðumst jafnvel illa við ef einhver hefur aðra skoðun.  Meira mætti vera um rökræðu þar sem fólk ræðir saman opinskátt, rökstyður sínar skoðanir en hlustar jafnframt á skoðanir annarra og ber fyrir þeim virðingu.

Okkur skortir mörgum hverjum gagnrýna hugsun.  Sem dæmi, menn ganga til liðs við stjórnmálaflokk/söfnuð  þar sem þröngur hópur hefur e.t.v. lagt línurnar um hvernig þorri félagsmanna skuli hugsa.  Með því að ganga í flokkinn telur sá hinn sami jafnvel að honum beri skylda til að taka upp allar þær skoðanir sem lagðar eru á borðið fyrir hann. Vilji sá hinn sami hugsa með gagnrýnum hætti, kanna með sjálfum sér hvað honum finnst og fylgja sinni sannfæringu í einstaka máli þá er jafnvel litið á hann sem svikara, eða ekki sannan félagsmann. 

Fleira áhugavert kemur fram í þessu viðtali. Hvet fólk til að hlusta. 


Einhverjir hyggjast borða kjörseðlana í stað þess að skila þeim

Hópur fólks hyggur á kjörseðlaát sem andóf við skorti á lýðræði. Það felst, eins og nafnið ber glögglega með sér, í því að borða kjörseðilinn í stað þess að skila honum.

Verði þeim að góðu.
Væri ekki bara mátulegt á þá ef þeir fengju smá í magann?Shocking


Af hverju skila sumir auðu?

Það er alltaf einhverjir sem skila auðum kjörseðli. Með því að gera það telja þeir sig vera að tjá ákveðna afstöðu.  En hvaða afstöðu eru þeir að lýsa með þessu?

Gaman væri ef við reyndum að orða það með einhverjum hætti. Með því að gera það gæti verið að í ljós komi að ástæður að baki því að skila auðu séu margvíslegar.


Átti eflaust að vera hræðsluáróður

Allsherjarhrun íslensks efnahagslífs blasir við segir formaður Framsóknarflokksins sem ákvað að tjá sig um niðurstöður á mati sem birt er í skýrslu Endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og matsfyrirtækisins Oliver Wyman en þessir aðilar hafa unnið að mati á verðmæti eigna sem fluttar verða úr gömlu bönkunum í þá nýju. Sjá nánar þessa frétt:

 Skýrslan ekki birt en forsendur skýrðar.

Sennilega hefur þetta átt að vera einhvers konar kosningarhræðsluáróður hjá Framsókn til að byrja með sem nú hefur verið leystur upp í að vera í besta falli misskilningur formannsins.

Jæja,  gott að vita að viðskiptaráðherra telji að allsherjarhrun íslensks efnahagslífs sé ekki handan við hornið.


Sko Grím!

Frambjóðandi í 6. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi talar tæpitungulaust og lætur sér standa slétt á sama þótt flokksfélagar hans kunni að rísa upp og gera að honum hróp og köll.

Í grein Gríms Atlasonar í Fréttablaðinu í dag hvetur hann til þátttöku í samfélagi Evrópuríkja með þeim hætti að gengið verðir til viðræðna við ESB. Eins og við vitum, hins vegar, er það einmitt ekki á stefnuskrá VG.

Þarna er frambjóðandi sem þorir að taka þjóðarhagsmuni og hagsmuni fólksins fram yfir flokkshagsmuni.  Það er að mínu viti eitt af megineinkennum góðs stjórnmálamanns.  

Margir kunna að spyrja hvort Grímur væri ekki betur settur í flokki sem hefur það á stefnuskrá sinni að þjóðin gangi til aðildarviðræðna?

Ekkert endilega segi ég. Þetta er alveg sambærilegt og það sem við höfum séð og heyrt af Benedikt Jóhannssyni. Hann er Sjálfstæðismaður í húð og hár en vill að þjóðin gangi til aðildarviðræðna þrátt fyrir að ekki hafi fengist meirihlutasamþykkt fyrir því á síðasta landsfundi Sjálfstæðismanna.

Það er ekkert heillagt lögmál til sem segir að allir þeir sem tilheyri sama stjórnmálaflokki þurfi að vera hundrað prósent sammála um öll mál. 

Finni fólk almennt séð skoðunum sínum og sannfæringu stað í grunnstefnu stjórnmálaflokks, má segja að það sé þeirra flokkur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband