Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Afreksbörn í íþróttum

naerverusalara_afresks145.jpgEnginn efast um jákvætt gildi íþróttaiðkunar barna og unglinga.

Íþróttaiðkun hefur uppeldisfræðilegt gildi sem styrkir sjálfsmyndina, sjálfsöryggi og felur í sér fræðslu og þjálfun í félagslegum samskiptum. Íþróttaiðkun að staðaldri er talin vera ein sú allra mikilvægasta forvörn gegn ytri vá.

Það að vera afreksbarn í einhverri íþróttagrein er eins og gefur að skilja stórkostlegt fyrir barnið sjálft og foreldra þess sem eðlilega eru fullir af stolti fyrir hönd barns síns. Væntingar barnanna sjálfra eru einnig oft miklar og stundum svo miklar að þær eru óraunhæfar.

En eins og á öðru eru á þessu tvær hliðar. Að vera í hópi barna sem flokkast sem afreksíþróttafólk krefst mikillar vinnu, skipulagningar og úthalds ef viðkomandi einstaklingur á að geta stundað æfingarnar samhliða öðru.

Fyrir ómótaðan einstakling getur þetta verið erfitt, jafnvel ofraun. Oftar en ekki þarf margt annað að sitja á hakanum svo sem skólinn, félagarnir og aðrar tómstundir. Sum börn ráða mjög vel við þessar kringumstæður sérstaklega ef námið liggur vel fyrir þeim og ef þau er vel skipulögð og eiga auk þess góðan stuðning fjölskyldu sinnar.

En þannig er því ekki farið hjá öllum börnum.  Sumum börnum reynist þetta býsna erfitt og í stað þess að geta notið hæfileika sinna á sviði íþrótta upplifa þau sem álag og streitu.

Um þetta ætlar Jón Páll Pálmarsson, fótboltaþjálfari ræða Í nærveru sálar á ÍNN hinn 29. mars.  Þá mun hann mun upplýsa áhorfendur m.a. um Afreksskóla FH í Hafnarfirði og afreksbraut Flensborgarskólans. Sá fyrrnefndi hefur verið við líði í 5 ár og inn í hann eru börnin sérvalin.

Segja má að hér á landi sé áhersla á afreksíþróttir tiltölulega nýleg. Frammistaða íslenskra íþróttaafreksmanna á alþjóðakeppnismótum hefur verið glæsileg. Skemmst er að minnast á frammistöðu  íslenska handboltaliðsins á Ólympíuleikum í Peking og í EM nú nýlega. Til að ferlið megi haldast glæst er mikilvægt að hlúa vel að íslenskum afreksíþróttamönnum. Þeir eru fyrirmynd nýliðanna. Gott gengi íslensks íþróttafólks skiptir máli fyrir útbreiðslu íþrótta, til að  skapa breidd í liðum og einstaklingsíþróttum og vekja áhuga ungmenna á iðkun íþrótta almennt séð svo ekki sé minnst á að laða að sjálfboðaliða til að sinna íþróttastarfinu. Afreksíþróttamenn og konur eru fyrirmyndir sem hvetja aðra til að leggja sig fram um að ná hámarksárangri. Við unnin afrek vex sjálfstraust og framtakssemi einstaklinga, hópa og jafnvel heillar þjóðar.

En það geta ekki allir orðið afreksmenn hvorki í íþróttum né á öðrum sviðum. Þau sjónarmið hafa heyrst að afreksíþróttamönnum sé e.t.v. of mikið hampað á kostnað annarra sem vilja stunda íþróttir en eru ekki endilega efniviður í afreksíþróttafólk.  Í raun er aðeins lítil prósenta barna sem nær því marki að komast á þann stað að þau teljist til afreksfólks í þeim skilningi sem hér um ræðir.


Þörfin að vita framtíð sína

Þátturinn um hverjir og af hverju fólk leitar til spákonu og hverjir eru það sem starfa við að spá fyrir fólki. Smella hér.

Spákonur, spámiðlar og fólk sem leitar til þeirra

naerverusalarspa1kro42.jpgÞörfin að vilja vita hvað framtíðin ber í skauti sér blundar í brjósti fjölmargra. Af hverju vill fólk fá að vita hvað verður eða verður ekki?

Við þessu er ekkert eitt svar. Ekki er ósennilegt að ástæðan sé m.a. sú að fólk vill vera undir eitt og annað búið sem kann að bíða þeirra handan við hornið. Sumir eru e.t.v. kvíðnir, óttast að eitthvað slæmt gerist og leita þess vegna til spákonu til að freista þess að fá áhyggjum sínum eytt.

Aðrir leita til spáfólks til að fá góð ráð, hvað þeir eigi að gera undir ákveðnum kringumstæðum, hvort verið sé að taka réttar ákvarðanir eða hvaða ákvörðun sé heppilegust í einstaka málum og svona mætti lengi telja.

Oft leitar fólk til spákonu og spámiðla þegar það hefur orðið fyrir áfalli og finnst t.d. fótunum hafa verið kippt undan sér, eða ef það á við einhvern sérstakan vanda að glíma og vill heyra hvort vænta megi bata innan tíðar eða annarra lausna.

Fjöldi þeirra, sem starfa við það að spá fyrir öðrum um framtíðina liggur ekki fyrir og enn síður er hægt að segja til um hve stór hópurinn er sem hefur leitað til spákonu eða leitar eftir slíkri þjónustu með reglubundnu millibili.

Í nærveru sálar 29. mars leiðir Sigrún Elín Birgisdóttir áhorfendur inn í heim þeirra sem starfa við það að segja fyrir um framtíð fólks.

Við ræðum um fjölmarga vinkla málsins bæði út frá sjónarhóli þeirra sem leita til spáfólks og einnig út frá sjónarhornum spáfólksins.

Við skoðum kynjamismun í þessu sambandi t.d. hvort það séu frekar konur en karlar sem sækjast eftir því að láta spá fyrir sér og ef svo er hver skyldi vera skýringin?

Einnig hvaða eiginleika/hæfileika/þekkingu hafa þeir sem eru hvað færastir í að skyggnast inn í framtíð fólks hvort heldur með aðstoð spila t.d. Tarrotspila eða með því að lesa úr táknum í kaffibolla? Er það skyggnigáfan sem gildir?

Hvernig er samkeppni háttað innan spástéttarinnar?
Hvað ef spákonan er illa upplögð og á vondan dag?

Margir hafa reynslu af því að fara til spákonu en þegar fram líða stundir kemur í ljós að fátt ef nokkuð hefur ræst.
Tekur spádómurinn e.t.v. bara mið af núverandi stöðu og ástandi viðkomandi, vonum og óskum sem þegar upp er staðið verða e.t.v. aldrei að veruleika?

Allir vilja heyra um að þeirra bíði fjölmörg ferðalög, ríkidæmi og þeir sem eru ólofaðir vilja gjarnan heyra hvort stóra ástin sé nú ekki brátt væntanleg inn í líf þeirra.
Hvað ef ekkert slíkt sést nú í spilunum heldur jafnvel bara tóm ótíðindi, veikindi og gjaldþrot?

Svo er það efahyggjufólkið sem þykir þetta allt hin mesta vitleysa, slær sér á lær og segir sveiattan, að þú skulir trúa á þetta bull!

Á hinn bóginn má spyrja hvort þetta sé nokkuð meiri vitleysa en hvað annað? Spáfræði og spámenn er ekkert nýtt fyrirbæri. Sú var tíðin að litið var til spámanna af virðingu og á þá var hlustað með andakt.

Hvað sem öllum skoðunum, trú og viðhorfum til spáfólks og spádóma líður getur það varla skaðað að heimsækja spákonu a.m.k. einu sinni á ævinni. Sumum kann að finnast það vera skemmtileg reynsla og smá krydd í tilveruna.  Aðalatriðið hlýtur að vera að varast að taka spádóma of alvarlega og minnast þess ávallt, hverju svo sem spáð er, að hver er sinnar gæfu smiður. Það siglir engin hinu persónulega fleygi nema skipstjórinn og á þeirri leið er bara einn ábyrgur, hann sjálfur.

 


Í skugga eineltis

Í SKUGGA EINELTIS

Enn einn dagur að kveldi,
einmana sorgbitin sál.
Vonlaus, vesæl ligg undir feldi,
vafra um hugans sárustu mál.

Svíður í hjartað, stingir í maga,
sárkvíði morgundegi.
Háð, spott og högg, gömul saga,
hrópa eftir hjálp, ÞETTA ÞARF AÐ LAGA.
 
Til Liðsmanna Jerico með þökk fyrir það góða starf sem samtökin hafa unnið að í baráttu gegn einelti og til allra þeirra sem hafa verið og eru þolendur eineltis.
Frábært framtak að fá Tony og Kathleen til landsins.

Börn sem stama verða frekar fyrir stríðni og einelti

Þátturinn um STAM er nú kominn á vefinn. Smella hér.

Í sporum þeirra sem stama

naerverusalarstakrm139.jpgSamkvæmt rannsóknum er áætlað að 4% barna stami og 1% fullorðinna. Stam er afar erfið máltruflun sem hefur oftar en ekki neikvæð áhrif á sálræna líðan þess sem stamar og gildir þá einu hvort stamið er lítið eða mikið. 

 

Stam getur birst með ýmsum hætti. Dæmi eru um að stam einstaklings sé  svo mikið að hann stami í hverju orði. Í öðrum tilvikum birtist stamið e.t.v. einungis í upphafi máls eða í upphafi setningar/orðs eða aðeins þegar viðkomandi ber fram ákveðin hljóð.

 

Vitað er að í mörgum tilvikum hverfur stamið, að hluta til eða að öllu leyti, með auknum þroska eða þegar viðkomandi fullorðnast.  Í öðrum tilfellum fylgir stamið manneskjunni áfram til fullorðinsára en kann þó að taka einhverjum breytingum. Það er ekki óalgengt að það minnki og hafi því ekki jafn truflandi áhrif á fullorðinsárum.

 

Sá sem hefur stamað frá barnsaldri hefur líka í tímans rás lært að fara í kringum stamið og fundið leiðir til að komast frekar hjá því með því að forðast þau hljóð sem kalla það helst fram. Sem dæmi, sé stamið bundið við ákveðin hljóð þá veigrar viðkomandi sér við að hefja setningu á því hljóði.  Sumir sem hafa glímt lengi við stam hafa sagt að ef þeir reyna að tala mjög hratt komist þeir frekar hjá því að stama. Aðrir fullyrða að tali þeir hægar og jafnvel hægt er síður líklegt að þessi máltruflun komi fram. Enn öðrum finnst þeir ná betri tökum á framsetningu málsins ef þeir hafa það sem þeir ætla að segja skrifað fyrir framan sig. 

 

Vitað er fyrir víst að börn sem stama er frekar strítt og þau lögð í einelti. Afleiðingar stríðni og langvarandi eineltis hafa oftar en ekki langvarandi neikvæð sálræn áhrif á þá sem fyrir eineltinu verður.  Börn sem stama og sem hefur sérstaklega verið strítt vegna þess finna oft til innri vanmáttar og félagslegs óöryggis. Tilfinningar eins og skömm geta gert vart við sig. Mörg þessara barna vilja draga sig í hlé og séu þau í félagslegum aðstæðum forðast þau oft í lengstu lög að tjá sig. Sé um að ræða aðkast vegna stamsins til lengri tíma getur sjálfsmynd þeirra orðið fyrir varanlegu  hnjaski.  Eftir að komið er á fullorðinsár og stamið er enn til staðar eru þessir einstaklingar oft áfram hlédrægir  og forðast að taka þátt í umræðum eða leggja orð í belg.  Séu þeir í félagsskap ókunnugra líður þessum einstaklingum oft sérlega illa með sjálfa sig og kjósa að sitja þögulir.

 

Hvernig meðferð stendur börnum sem stama til boða og hvernig er hægt að aðstoða foreldra þannig að þau geti aðstoðað börn sín við að draga úr þessari erfiðu máltruflun?
Hvernig meðferð stendur fullorðnum einstaklingum sem stama til boða?

 

Stam hefur ekkert að gera með tungumálið. Orsakir eru líffræðilegar og tengjast taugaboðum. Hvernig stamið birtist og hversu mikið það er byggist oft á aðstæðum sem viðkomandi er í hverju sinni. Líðan sem tengist staminu er einnig mjög einstaklingsbundin.  Sem dæmi ef sá sem stamar kennir streitu, kvíða eða finnst hann þurfa að vera snöggur að tjá sig, má leiða líkum að því að stamið verði jafnvel meira og tíðara. Taka skal fram að margir sem eiga við þessa málatruflun að stríða sérstaklega ef hún er væg, eru afslappaðir gagnvart henni ekki hvað síst eftir að komið er á fullorðinsár.

 

Í nærveru sálar 15. mars mun Jóhanna Einarsdóttir,  lektor við HÍ fræða okkur um stam. Umræðan mun ekki hvað síst snúast um sálræn áhrif og neikvæðar afleiðingar stams á börn og fullorðna sem glíma við þessa erfiðu máltruflun.

 


Flugfreyjan, draumastarf margra

naerverusalarflugf136_skorin_967871.jpg

Svo lengi sem menn muna hefur flugfreyjustarfið verið draumastarf fjölmargra ungra kvenna. Síðasta áratuginn hefur það einnig færst í aukana að piltar/menn sækjast í að starfa sem flugþjónar.

Starfið hefur á sér ákveðinn ævintýrablæ sem felst ekki hvað síst í þeirri staðreynd að þeir sem starfa í háloftunum eru á ferð og flugi út um allan heim. Engu að síður er hér um afar venjulegt þjónustustarf að ræða sem fram fer um borð. Starfið er krefjandi og segja þeir sem því sinna að á meðan á flugi stendur er álag mikið sem felst í að þjóna farþegum, m.a. færa þeim mat og drykk.

Í nærveru sálar á ÍNN 11. mars mun Guðmunda Jónsdóttir sem um þessar mundir á 25 ára starfsafmæli sem flugfreyja leiða áhorfendur inn í allan sannleikan um starfið, kosti þess og ókosti. Meðal þess sem við ræðum um er hvernig gengur að samhæfa vinnu af þessum toga og fjölskyldulíf?
 
Er starfið eins heillandi og margir telja?

Eitt er að heimsækja fjarlægar stórborgir sér til ánægju og yndis en síðan allt annað að staldra rétt sem snöggvast við á flugvöllum og bíða á flughótelum þar til næst vinnutörn hefst.

Farþegar eru eins og gengur eins misjafnir og þeir eru margir. Þeirra þarfir, kröfur og væntingar eru ólíkar og hverjum og einum þarf að sinna af alúð og natni.
Hvernig annast flugfreyjur t.d. um þá farþega sem glíma við alvarlega flughræðslu?

Þetta og margt annað þessu tengt Í nærveru sálar,  mánudaginn 15. mars kl. 21.30.


Ömmurnar orðnar fyrirsætur

naerverusalararf133_966940.jpgFrændfólkið, Kolbrún, Björk og Heiðar skoða arfleifðina. Þátturinn kominn á vef ÍNN.

Hér

Ömmurnar frá Krossum eru nú einnig orðnar fyrirsætur hvernig svo sem þeim líkar það nú_mmurnar_og_urintop.jpg

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband