Ágætt ávarp

Ávarp forseta rann ljúflega í gegn. Vel þegið að heyra hann hvetja til samstöðu og samhugar hvert með öðru. Öll höfum við sjálfsagt gott að því að vera minnt á að sýna umburðarlyndi og forðast að dæma og gagnrýna. Það skaðar alla vega ekki að byrja árið á hugsunum sem þessum þótt vissulega megi reikna með bakslagi.

Eitthvað íslenskt, á Skólavörðustíg 14

img_2499.jpgEf ykkur vantar óvenjulega og fallega íslenska hönnun til að gefa í jólagjöf þá kíkið í kjallarann á Skólavörðustíg 14.
Allt frá pennum og skartgripum úr íslenskum við yfir í stórar ávaxtaskálar og lampa úr margs konar viði.

Verðið er gott og svo er alltaf hægt að skipta vörunni hjá þeim sem hana framleiðir.

Skólavörðustígur 14, kjallari


Jólatiltektin hjá sumu fólki, að setja dýr í poka og fleygja?

Tiltekt einhvers fyrir þessi jól felur í sér að setja ketti í poka og fleygja þeim í rusl eða út á víðavang.

Hvað býr innra með manneskju sem gerir svona?

Illska og hatur?
Heimska?
Allt þetta þrennt og meira til?

Það er ekki oft sem manni hreinlega sortnar fyrir augun og gælir við hinar verstu hugsanir um hvað manni myndi langa til að gera við fólk sem þetta gerir. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir berast af viðurstyggilegum aðferðum við að losa sig við dýr.

Þessu fólki er ekki hægt að senda hugheilar jólakveðjur. 

Þeirra hlýtur að bíða reikningsskil gjörða sinna annars staðar.


Takk sömuleiðis

Mikið hafði ég gaman að því að heyra um hjónin sem tóku jólakortin sem þau fengu, skrifuðu á þau „takk sömuleiðis“ og sendu til baka til þeirra sem sendu þau.

Þetta kalla ég hugmyndaríki og góð nýting á fjármunum.

Ég heyrði að Lára Ómarsdóttir hafi sagt frá þessu í fréttum.

Svona lagað fær mann sannarlega til að brosa í skammdeginu og aðdraganda jóla.

Snilld.


Hræðsluáróður? Fjölmiðlar í hasarstuði??

Er þetta hræðsluáróður hjá rekstraraðilum Sólheima?
Legg til að nýir verða fundnir.

Átta mig ekki á þessum skilaboðum þeirra sem reka Sólheima. 

Skil heldur ekki af hverju fjölmiðlar hoppa á fyrirsögn eins og LOKA Á SÓLHEIMUM?

Fjölmiðlar oft óþolandi hasarkenndir.

 


Gói allur að gera sig

Mjög góður þáttur áðan með Góa, (Guðjóni Karlssyni).

Var farin að hlakka til að fylgjast með fleiri þáttum af Hringekjunni.

En svo bara kvaddi hann, að því er virtist endanlega. 

Það hefði þurft að gefa honum meiri tíma til að sanna sig.

Þátturinn og þáttarstjórnandinn var allavega vaxandi.

 Leitt að ekki verða fleiri þættir.


Ábyrgðarleysi að taka ekki þátt

Bændasamtökin taka ekki þátt.

Gera verður þá kröfu til Bændasamtaka Íslands, að þau skipti þegar í stað um afstöðu til samninganefndarinnar, taki þátt í því starfi sem þar fer fram og leggi sitt af mörkum til að samningarnir sem unnið er að, verði sem bestir fyrir land og þjóð, bændur jafnt sem aðra þegna þessa lands segir Ingimundur Bergmann.

Væri ég bóndi fyndist mér þessi afstaða Bændasamtakanna óþolandi. Að sitja heima sýnir ábyrgðarleysi. Hvort sem maður er fylgjandi eða á móti þá er aðalatriðið að mæta á svæðið og reyna að hafa áhrif samkvæmt sinni bestu sannfæringu og í þágu manna og málefna sem maður er umboðsaðili fyrir.


Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi

Kjördæmapot yrði úr sögunni ef landið væri eitt kjördæmi. Það hefur stundum borið á því að þingmenn kjördæma hafi hyglað mönnum og máefnum sem einskorðast við það kjördæmi sem þeir voru kosnir í.

Þetta er sögulega einn aðal ókosturinn við það kjördæmafyrirkomulag sem nú ríkir.

Reyndar var þetta enn verra hér áður fyrr. Halda mætti að um væri að ræða einhvers konar hefð sem erfitt er að komast út úr.

Tengsl hafa myndast, menn eru nánir hver öðrum, jafnvel frændur. Þetta á við um stærri sem smærri kjördæmi en er þó e.t.v. meira áberandi í þeim smærri vegna smæðarinnar.

Kjördæmaskipan þarf m.a. að taka fyrir á stjórnlagaþingi. Mjög margir eru sammála um það.


Viðtöl við frambjóðendur. RÚV stendur sig vel.

Ég vil þakka RÚV fyrir að gera sitt allra besta með að kynna frambjóðendur til stjórnlagaþings.

Í dag var ég ásamt fjölmörgum öðrum í fimm mínútna viðtali um af hverju ég gæfi kost á mér til stjórnlagaþings og  hverju, ef einhverju, ég vildi breyta í stjórnarskrá Íslands?

Skipulag var til fyrirmyndar. Viðhorf og móttaka starfsmanna var til fyrirmyndar.

Hvað svo sem mér finnst ég geta sagt um eigin frammistöðu í viðtalinu er klárt í mínum huga að RÚV er að sinna hér skyldu sinni með sóma. Smile

Takk fyrir það RÚV.


Hvorki betri né færari

Í hópi frambjóðenda er gríðarlegu fjöldi af hæfu og færu fólki.

Ég skil vel ef kjósendur eru í vanda með val sitt. Mikill kostur er þó að hafa úr slíkum fjölda að velja og að geta valið svo marga sem raun ber vitni. 

Ég geri mér góða grein fyrir að enda þótt ég telji mig góðan kost í þetta verkefni þá er ég hvorki betri né hæfari til að takast á við það en fjölmargir aðrir frambjóðendur.

Vonandi velst á þingið hópur af heiðarlegu fólki sem á gott með að eiga samskipti. Hópurinn ætti helst að vera sem næst því að vera þverskurður af samfélaginu. Stjórnlagaþingmenn þurfa einnig að hugsa stöðugt um á meðan á verkefninu stendur, hvernig samfélag gagnast best komandi kynslóðum.


Starfshættir Alþingis fyrr, nú og í framtíðinni

Í tilefni umræðunnar í tengslum við stjórnlagaþing set ég hér inn fróðlegt viðtal við Ragnhildi Helgadóttur fyrrv. alþingismann og ráðherra.

Við græðum yfirleitt á því að hlusta á reynslumikið fólk eins og Ragnhildi. Af henni getum við lært með hvaða hætti við viljum hafa eitt og annað í sambandi við t.d. starfshætti á Alþingi.


Bréf afhent útvarpsstjóra í dag

Við undirritaðir frambjóðendur til stjórnlagaþings skorum á Ríkisútvarpið til að sinna skyldum sínum fyrir komandi stjórnlagaþingskosningar.

Greinargerð
Samkvæmt lögum hefur Ríkisútvarpið ákveðnum skyldum að gegna í íslensku samfélagi. Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið er kveðið á um hlutverk þess og skyldur. Þar segir meðal annars.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.

 

Þann 27. nóvember næstkomandi fara fram sögulegar kosningar hér á landi til stjórnlagaþings og teljum við, undirritaðir frambjóðendur til stjórnlagaþings, það vera skyldu Ríkisútvarpsins að „veita hlutlæga upplýsingagjöf“ fyrir kosningarnar. Slík umfjöllun felst meðal annars í því að fjalla um frambjóðendur, hlutverk stjórnlagaþings og framkvæmd kosningarinnar.

Ríkisútvarpið virðist hafa tekið þá ákvörðun að fjalla sem minnst um stjórnlagaþingið, að því virðist vegna þess hversu margir frambjóðendurnir eru. Skiljanlega er erfitt að fjalla með viðunandi hætti um stefnu 523 frambjóðanda með hefðbundinni útvarps- og sjónvarpsdagskrá. Við sem erum í framboði teljum þó að Ríkisútvarpið geti sinnt skyldu sinni með margvíslegum hætti.

Við skorum því hér með á Ríkisútvarpið til að sinna skyldum sínum um „víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu.“

Frambjóðendur til stjórnlagaþings 2010

Undirskriftir um 160 frambjóðenda.



Hráki fyrir horn

Nú keppumst við frambjóðendur til stjórnlagaþings um að skrifa pistla um afstöðu okkar til ýmissa mála tengdum stjórnarskránni og endurskoðun hennar.  Auðkennisnúmer frambjóðenda svífa yfir hvert sem litið er.

Mér datt í hug að slaka aðeins á hvað þetta varðar enda óvíst hverju skrifin skila og segja frekar frá skondnu atviki í dag sem ég var óbeinn þátttakandi í.

Ég kom á hraðferð fyrir horn í Mjóddinni. Handan hornsins, í orðsins fyllstu merkingu, stóðu þrjú ungmenni úti að reykja. Á sama tíma og ég strunsa fyrir hornið hrækir eitt þeirra.
Ég sá þessa stóru hvítu slummu svífa í átt að buxnaskálminni, stífa vegna kuldans.  Sá sem hrákann átti sýndi svipbrigði undrunar og smá streitu.

Þetta var svo innilega óvart hjá greyið stráknum. Þess vegna gat ég ekki annað en haft gaman að þessu. Að fá á sig hráka fyrir horn með þessum hætti er sannarlega óvænt og dálítið skemmtilegt líka þótt það sé að sjálfsögðu mesti ósiður að hrækja á götuna.  Ég mun á efa muna eftir þessu atviki hverju svo sem kosningu til stjórnlagaþings líður.


Skerpa á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu

Eitt af því sem ég myndi vilja sjá í endurskoðaðri stjórnarskrá er að skerpt verði á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Rýmka mætti þann rétt og skilgreina hann nánar.

Ef í ljós kemur að  t.d. 20 prósent þjóðar er ósáttur við ferli eða framgang máls eða 45 prósent stjórnarandstöðu (sterkur minnihluti) má ætla að málefnið sé af þeim toga að kanna þurfi með marktækum hætti álit og mat fólksins í landinu.

 


Varasamt að færa of mikil völd í hendur eins aðila

Niðurstöður þjóðfundar eru í meginatriðum mjög góðar og eiga eftir að nýtast vel á stjórnlagaþingi. Frekari upplýsingar koma um þær síðar í dag.

Meðal þess sem fram kom á fundinum var að

"á Íslandi skuli valdhöfum settur skýr rammi með siðareglum þar sem mannvirðing, ábyrgð og skyldur við þegna landsins er haft að leiðarfrelsi"

og

"við viljum þrískiptingu valdsins, valdameiri forseta og varaforseta, aðskilja ríki og kirkju, sjálfstæða dómstóla, jafnan atkvæðisrétt og eitt kjördæmi"

Aukin ráðherraábyrgð og almennt gegnsæi eykur líkur á að það sem gerðist fyrir hrun gerist ekki aftur. Hvað varðar að færa meiri völd á hendur forseta er spurning.

Það getur verið varasamt að færa of mikil völd i hendur eins aðila hvort heldur forseta eða einhvers annars.  Í embætti forseta, eins og í önnur embætti, getur slæðst vanhæfur einstaklingur sem hvorki kann né getur farið með völd og eða beitir þeim að geðþótta og hentugleika sem ekki endilega þarf að vera í takt við þjóðarhagsmuni ef því er að skipta.


Fisksali eða forseti

fisksalimbl0066913.jpg

Það er engin stétt yfir það hafin að lúta siðareglum hvort heldur það er fisksalinn eða forsetinn. Að fylgja siðareglum er ekki merki vantrausts heldur er um að ræða gróf viðmið sem gagnast bæði þeim sem þjónustuna veitir og þiggjanda hennar.

Sjá meira á pressan.is

forsetimbl0088766.jpg


Skerpa á ákvæði um jöfnuð í Stjórnarskránni

mbl0181747.jpgSkerpa þarf á ákvæði í stjórnarskránni um jöfnuð í íslensku samfélagi.  Ástandið er slæmt eins og staðan er í dag.

Ójöfnuður virðist vera mjög mikill og bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist ef eitthvað er.

Þessi litla en kraftmikla þjóð á að geta leyst þetta vandamál og það fljótt og vel. Sáttmáli eins og stjórnarskráin þarf að orða þetta skýrt og greinilega.

Endilega takið þátt í umræðu um endurskoðun stjórnarskrár Íslands og stjórnlagaþing hér.


Stjórnlagaþing: Hvert viljum við stefna og hverjar eru veigamestu áherslurnar?

Ég hef mikla löngun til að taka þátt í að byggja upp þjóðfélagið sem við búum í og gera það enn betra. Þess vegna hef ég boðið mig fram til stjórnlagaþings. Margt í stjórnarskránni hefur staðið tímans tönn, stendur enn og mun gera ágætlega í komandi framtíð. Ekki þarf að breyta bara breytinganna vegna. 

Af hverju vil ég taka þátt í þessu verkefni?
Eftir áratuga reynslu af því að vinna með fólki finnst mér ég hafa nokkurn skilning á þörfum þess og væntingum til framtíðar og hvernig samfélag hentar að búa börnum okkar. Nú gefst tækifæri til að kryfja öll helstu grunnatriði þjóðarinnar með sjónarhorn fjöldans að leiðarljósi. Ein aðalforsenda framfara og vellíðunar er að eiga vandaða og góða stjórnarskrá. Til að eignast haldbæra og nýtilega stjórnarskrá þarf hún að vera auðskilin, beint lýðræði og stuttar boðleiðir þurfa að vera ríkjandi þar sem mannréttindi og samfélagsleg ábyrgð eru veigamiklir þættir.

Það er óskandi að þeir sem valdir verða á stjórnlagaþing verði hópur fólks sem ber gæfu til að vinna saman að þessu mikilvæga og virðulega verki sem endurskoðun stjórnarskrár Íslands er. Stjórnlagaþingmenn fá í hendurnar hráefni til að vinna úr sem m.a. er komið frá þjóðfundi. Mikilvægt er að raddir almennings nái eyrum stjórnlagaþingmanna.  Á þingið þurfa að veljast víðsýnir, andlega þroskaðir og vel gerðir einstaklingar sem kunna að hlusta, geta hugsað af skynsemi og innsæi og sem hafa það góða sjálfsmynd að þeir geri sér grein fyrir að enda þótt viðhorf þeirra og skoðanir kunni að mátast vel við þá sjálfa, er ekki víst að þær séu í þágu þjóðar sem heild.

Eftirfarandi þættir endurspegla það sem ég vil m.a. leggja áherslu á:

  1. Beint lýðræði hefur að gera með hvernig fulltrúar eru valdir til þess að stjórna. Beint lýðræði vísar til þess að einstaklingurinn sem slíkur eigi þess kost á að velja ráðamann án milligöngu annarra einstaklinga. Hver og einn fullveðja þjóðfélagsþegn á að eiga þess kost að hafa, með lýðræðislegri kosningu, áhrif á hverjum hann treystir til að gæta hagsmuna sinna í veigamiklum málum sem ekki bara lúta að nútíð og nánustu framtíð heldur hefur ekki síður að gera með komandi kynslóðir.

Hvernig er þetta í dag?
Eins og staðan er nú kjósum við menn og konur til valda sem velja síðan aðra til setu í nefndir og ráð. Í nefndum og ráðum eru síðan enn aðrir valdir og þeim fært upp í hendurnar völd til að taka ákvarðanir í veigamiklum, afmörkuðum þáttum, sumum hverjum sem varða mikla hagsmuni þjóðarinnar. Hér er langur vegur í það sem kallað er beint lýðræði. Ef litið er til baka má sjá mörg dæmi þess að fólkið í landinu fékk ekkert tækifæri til að koma sínum skoðunum og óskum á framfæri.  Oft hefur hópur aðila sem valinn er af einum eða fáum fengið tækifæri til að véla með dýrmætustu eign og auðlindir þjóðarinnar, skipulag og uppbyggingu borga og sveitarfélaga.  Hér hefur því verið um verulegan lýðræðishalla að ræða. Þegar aðstæður eru með þessum hætti eiga hagsmunaaðilar auðveldara með að véla um mikilvæg málefni þjóðarinnar. Þessu á stjórnarskráin að taka á.

Í hnotskurn: Allir þeir sem setjast í nefndir og ráð sem fara með stærstu og brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar þurfa að vera valdir beint af kjósendum.

  1. Landið ætti að vera eitt kjördæmi og atkvæðavægi allra jafnt.  Einnig yrði til bóta ef hin svokölluðu prófkjör (persónukjör) fari fram á sama tíma og kosinn er stjórnmálaflokkur/samtök. Þetta myndi þá virka þannig að í stað þess að stjórnmálaflokkur raði fólki á lista spilar hann fram hópi fólks sem kjósendur raða sjálfir innan þess flokks sem þeir kjósa.

Fáir og öflugir flokkar sem keppa um sæti á Alþingi er æskileg staða. Margir litlir flokkar eða stjórnmálasamtök sem koma manni á þing veikir þingið og bíður frekar upp á þá hættu að völd komist til hagsmunaaðila.

  1. Kveðið er á um þrískiptingu ríkisvaldsins í stjórnarskránni. Ég tel að ráðherrar eigi að koma úr  þingmannahópi. Ef ekki þá er hætta á að ráðherra verði einangraður og skorti viðeigandi bakland og stuðning. Ennfremur kann hann þá að skorta aðhald sem eykur líkur á agaleysi hans sjálfs. Ráðherra sem er einnig þingmaður ákveðins flokks hefur með því viðeigandi bakland. Flokkurinn þarf að taka ábyrgð á honum og getur skipt honum út fyrir annan sem betur er fallinn til embættisins hverju sinni. Áfram ætti að vera sá möguleiki að ráða tímabundið til embættisins fagráðherra án pólitískra tengsla þegar brýn nauðsyn vegna sértækra úrlausnarefna kallar á slíkt.
  2. Fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í framboði verði heimil en þurfa að vera opin á öllum tímum. Gegnsæi skiptir í þessu sambandi meginmáli. Með gegnsæi liggur fyrir með opinberum hætti hvaða hagsmunaafl/öfl hafa styrkt frambjóðanda og um hversu mikla fjármuni.
  3. Dómarar og aðrir þeir sem fara með löggjafarvaldið skulu metnir af óhlutbundinni ráðningarnefnd og skal sá hæfasti ráðinn til embættis hverju sinni. Ef einhver vafi leikur á um hæfi aðila í ráðningarnefnd við ráðningu einstaklings skal viðkomandi nefndarmaður víkja sæti.
  4.  Allar stéttir ættu að eiga siðareglur.
  5. Ákvæðið sem snýr að undirskrift forseta undir löggjafarmál má ætla að sé barn síns tíma.  Lög ættu að taka gildi ef meirihluti á Alþingi samþykkir þau. Þau þurfa ekki frekari staðfestingar við.
  6. Auðlindir ættu að vera eign þjóðarinnar og á engin, einstaklingur, hópur eða samtök, rétt á að nýta þær sjálfkrafa. Samningar sem hafa að gera með auðlindir skulu vera opinberir frá upphafi þ.e. aðdragandinn að slíkum samningi og samningarferlið.  Komi í ljós að 20% atkvæðabærra manna sé ósátt við þann gjörning sem fyrirhugaður er, ætti málið að vera borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  7. Það sem bera á undir þjóðina:
     a) Veigamikil mál sem varða nýtingu (leigu) eða afhendingu til lengri tíma á einni af helstu auðlindum þjóðarinnar.
    b) Mál sem varða þjóðina sem fullvalda ríki, þátttöku þjóðar eða tengsl við alþjóðasamfélagið eða önnur alþjóðasambönd/samtök skulu borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykki fæst með hreinum meirihluta þeirra sem greiða málinu atkvæði.
  8. Ísland ætti ávallt að vera hlutlaust þegar kemur að ákvörðun um ófrið eða innrásir í önnur lönd. Komi tillaga um að Ísland ætti að styðja eða ganga í stuðningslið með þjóð hvort heldur hún berst fyrir frelsi eða landi ætti sú tillaga einnig að vera borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
  9. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er tiltölulega nýr en betur má ef duga skal. Þennan kafla er hægt að betrumbæta enn frekar.
  10. Stjórnarskránni á að vera hægt að breyta þegar krafa kemur upp um breytingar. Ekki er nauðsynlegt að hún sé endurskoðuð ef það er mat þorrans að þess sé ekki þörf.

 


Samverustund í Guðríðarkirkju í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti

Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.

Helgistund og dagskrá tileinkuð fullorðnum þolendum og aðstandendum þeirra í Guðríðarkirkju föstudagskvöld kl. 20 í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti. Vöfflukaffi og umræður.

Þrátt fyrir vaxandi umræðu í samfélaginu og vilja fjölmargra til að fyrirbyggja einelti virðist sem vandamálið  spretti víða upp og lifi jafnvel ágætu lífi. Gera má því skóna að vandinn sé viðameiri en margur heldur vegna þess að fjölmargir þolendur treysta sér ekki til að opinbera einelti gagnvart sér. Á vinnustaðnum eru stjórnendur ábyrgir fyrir líðan starfsfólks. Í það minnsta ber þeim að sjá til þess að ekki viðgangist ofbeldi af neinu tagi á vinnustaðnum. Hvort takist að leysa vandann byggir alfarið á vilja og getu stjórnanda. Ef stjórnandi er jafnframt gerandi er ljóst að þolandi hefur oft ekki margra kosta völ en að hætta störfum.

Nánar um birtingarmynd eineltis

Hunsun og afskiptaleysi er ein birtingarmynd eineltis. Þolandinn lýsir þessu stundum þannig að það sé eins og hann sé ósýnilegur. Samstarfsmenn neita að vinna með honum, forðast að sitja hjá honum, litið er framhjá honum eins og hann sé ekki til staðar eða aldrei horft á hann. Upplýsingum er e.t.v. haldið frá viðkomandi, hann ekki látinn vita ef eitthvað stendur til og honum ekki boðið með þangað sem öðrum er boðið. Hvísl, baktal, undirróður, augnagotur eru jafnframt birtingarmyndir eineltis sem erfitt getur verið að staðreyna.
Meira áberandi birtingarmyndir er til dæmis þegar neikvæðum skilaboðum er komið áleiðis með rafrænum hætti. Búinn er til hópur á Facebook sem hefur það að markmiði að gera grín að, níða og hæða einhvern einn einstakling. Einnig þegar send eru skilaboð til eins eða fleiri með sms eða á MSN eða skrifað um hann á blogg- eða spjallsíðum.

Frekari dæmi eru t.d. beinar og óbeinar aðfinnslur við manneskjuna sem vísar til útlits eða atferlis. Stundum er eitthvað sagt á þessum nótum og síðan sagt að verið sé að grínast.  Slíkar aðfinnslur geta verið hvort heldur þegar enginn heyrir til eða í viðurvist annarra.  Einnig er ítrekuð gagnrýni, athugasemdir og jafnvel ásakanir um eitthvað sem ekki á við rök að styðjast.

Meira um þessi mál hér:
Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband