Fokið í flest skjól í borginni

Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa segir í bókun sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar í nótt.

Einnig segir í bókuninni:

Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu? Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessi tillaga, ef einhver, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er. Notendasamráð er sannarlega í orði en staðreyndin er að það er enn sem komið er, ekki nema að hluta til á borði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna nýlegar upplýsingar frá notendum þjónustu sem segja að áherslur notenda nái oft illa fram að ganga og að enn skorti á raunverulegt samráð þótt vissulega sé það stundum viðhaft á einhverju stigi máls. Hér hefði verið kjörið tækifæri fyrir meiri- og minnihlutann að sameinast um enn frekari skuldbindingu þess efnis að Reykjavíkurborg hefði notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hagsmuni og hag hópa og almennings.

Hér er tillagan í heild sinni

Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings.

Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku  notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda.
„Notendasamráð“ hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í
lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.

Greinargerð:

Að hafa samráð við notendur um þá þjónustu sem þeim er ætlað eru bæði sjálfsögð og eðlileg mannréttindi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að vera þátttakandi í eigin lífi og taka sjálfur þátt í ákvörðunum sem varða eigin hag, líðan og almennar aðstæður. Engu að síður er notendasamráð tiltölulega nýtt í umræðunni og ekki síst í framkvæmdinni. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur hjá Reykjavíkurborg. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu. Öðruvísi mun ekki takast að innleiða hugmyndafræði notendasamráðs með markvissum hætti. Lagt er til hér að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg ákveði að hafa notendasamráð í öllum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendur einir geta upplýst um það hvort notendasamráð sé viðhaft og virkt alls staðar þar sem verið er að ákveða og þróa þjónustu og ólíkar aðstæður fyrir fólk. Þess vegna er mikilvægt að spyrja notendur reglulega með þar til gerðum spurningakönnunum. Grunnur notendasamráðs er að stjórnvöld hlusti á hvað notandinn er að segja þegar verið er að skipuleggja eða þróa þjónustu. Vinna á með fólki en ekki með fólk. Það er notandinn sem á að kenna fagaðilum og stjórnvöldum hvernig hægt er að mæta þörfum hans sem best. Notandinn
er sérfræðingur í eigin lífi. Mikilvægt er að notandinn sé með frá byrjun ekki bara á seinni stigum.

Fulltrúi Pírata fékk það hlutverk að slá þessa tillögu út af borðinu með "rökum". Henni var í kjölfarið vísað frá af meirihlutanum


Kötturinn flotti! 4.4 milljónir

Gaman væri að vita hvað jólaskreytingar kosta í borginni og hvernig þær skiptast eftir hverfum. Um þetta hefur verið spurt og munu eftirfarandi fyrirspurnir verða lagðar fram á fundi borgarráðs á fimmtudaginn:

Óskað er eftir upplýsingum um sundurliðaðan heildarkostnað við jólaskreytingar Reykjavíkurborgar fyrir jólin 2018. Jafnframt er óskað eftir sundurliðun á kostnaði eftir hverfum ef hann liggur fyrir. 

Kötturinn

Fyrir liggur kostnaður jólakattarins á Lækjartorgi, en ekki hver tók ákvörðun um kaup á honum og staðsetningu. Veit ekki hvort fólki finnst að það eigi bara að liggja milli hluta?


Spurning um ímynd borgarstjóra

Svar við fyrirspurninni er varðar sundurliðun á kostnaði vegna bílstjóra borgarstjóra sem er 11 mkr á ári liggur nú fyrir. Hér kemur bókun Flokks fólksins og tillaga í framhaldinu:
 
Nú liggur það fyrir að aksturshluti fyrir borgarstjóra er 36 % af 11 mkr. Þetta eru milljónir sem betur mætti nota í annað skynsamlegra að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Það væri góður bragur að því að borgarstjóri legði það af með öllu að aka um með einkabílstjóra. Hann, eins og aðrir borgarbúar, getur farið sinna leiðar með öðrum hætti, með því að ganga, hjóla, aka um á sínum einkabíl eða taka strætó.
 
Tillaga Flokks fólksins
Lagt er til að borgarstjóri sýni gott fordæmi og hætti með öllu að ferðast um með einkabílstjóra. Hér er ef til vil ekki um að ræða háa upphæð heldur mikið frekar hvaða ímynd borgarstjóri vill gefa af sér. Það að borgarstjóri hafi einkabílstjóra fer einfaldlega fyrir brjóstið á mörgum og einhverjum þykir þetta án efa hégómlegt. Þess vegna er lagt til að borgarstjóri, eins og aðrir borgarbúar, noti aðrar leiðir. Hér skapast jafnframt tækifæri til að nota þessar milljónir sem um ræðir í aðra hluti t.d. í þágu þeirra sem berjast í bökkum eða til að lækka ýmis gjöld sem fjölskyldur sem búa undir fátæktarmörkum þurfa að greiða fyrir börn sín hvort heldur það eru skólamáltíðir eða gjald vegna viðburða hjá félagsmiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt
 

Móttökuveislur borgarinnar 2018

Veislur borgarinnar 2018

Hér er yfirlit yfir móttökur/veislur borgarinnar það sem af er 2018. Til viðbótar eru veisla 8.10 á vegum velf.sviðs kr. 275,619, 10.10. í Höfða, Friðarsetur Höfða á vegum borgarstjóra kr. 267.460, 18.10. og í Höfða Bókmenntaverðlaun TG á vegum forseta borgarráðs kr. 180.738.
 
Flokkur Fólksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir í kjölfar þess að þessi listi var lagður fram á fundi Forsætisnefndar:
 
 
Hvernig skilgreinir Reykjavíkurborg „móttöku“?
Hver ákveður hvort halda eigi móttökur? Fá nöfn og ákvarðanaferli? 
Hver ákveður boðslista? Fá nöfn og hvernig ákvarðaferlið er?
Hvaða fyrirtæki eru þjónusta þessar móttökur/veislur?
Hvaðan eru vörurnar/aðföng (matur og áfengi) keypt?
Hvernig eru veitingar, samsetning veitinga, áfengi?
Hver er kostnaður við veitingar og áfengi fyrir hverja veislu, fá sundurliðun?
Hverjir þjóna, sjá um framreiðslu. Hver, hvað mikið og sundurliðun greiðslna?
Óskað er eftir að fá nöfn allra aðila/fyrirtækja og sundurliðanir ofan í smæstu atriði sem koma að þessum móttökum.
Þetta er liður í gegnsæi, að upplýsingar þessar sem aðrar liggi fyrir og séu aðgengilegar borgarbúum.

 


Af hverju mátti þessi blettur ekki fá að vera í friði?

Málefni Víkurgarðs hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Á þessum bletti skal rísa enn eitt hótelið.

Flokkur fólksins leggst gegn því að byggt verði hótel á þessu svæði. Víkurgarður og nánasta svæði þar í kring hefði átt að fá að vera í friði enda svæði sem er mörgum kært. Gróðavon og  stundarhagsmunir er það sem virðist ráða för hér á kostnað staðar sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Af hverju mátti þessi litli blettur ekki fá að vera í friði og þeir sem þar hvíldu, hvíla þar í friði? Fjarlægðar hafa verið minjar í þessum tilgangi og þykir Flokki fólksins að sá gjörningur hafi verið mistök og allt og langt gengið enda ekki skortur á byggingarsvæði. Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.


Hávaðamengun Reykjavíkurborgar

Á fundi borgaráðs í morgun var lögð fram tillaga af Flokki fólksins þess efnis að borgin tryggi að eftirlit með framkvæmd reglugerðar sem fjallar um hávaðamengun í borginni verði fylgt til hins ýtrasta og hafa þá í huga: 

a) Leyfisveitingar þurfa að fylgja reglugerð um hljóðvist og hávaðamörk. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008Oftar en ekki eru leyfi samþykkt umfram tíma sem tengist næturró, sem gildir frá klukkan 11pm til 7am, samkvæmt reglugerð. Einnig er áberandi að hávaðamörkum fyrir þann tíma er ekki fylgt. Til dæmis fær Airwaves tónlistarhátíðin leyfi til klukkan 2am föstudag og laugardag fyrir útitónleika í þaklausu porti Listasafns Reykjavíkur. Lýðheilsa íbúanna og friðhelgi einkalífs eru neðarlega á lista þeirra sem samþykkja slík leyfi hávaðaafla, sem halda vöku fyrir íbúum og hótelgestum, í boði Reykjavíkurborgar.

b) Mikilvægt er að beita viðurlögum, sektum og leyfissviftingum þegar leyfishafi brýtur lög og reglur um hljóðvist og hávaðamengun. í dag eru leyfi veitt ár eftir ár þrátt fyrir brot á reglugerð, sem hefur bein áhrif á lýðheilsu íbúanna. 

c) Íbúalýðræði, grenndarkynningar og samstarf við íbúasamtök þarf að vera virkt og lausnarmiðað með hag íbúa miðborgar í huga.

d) Gera þarf skýran greinarmun á vínveitingaleyfi og hávaðaleyfi sem tengist reglugerð um hljóðvist og hávaðamengun. 

e) Hátalarar utan á húsum skemmtistaða og veitingastaða miðborgar verði fjarlægðir. 

f)Samstarf lögreglueftirlits og íbúa þarf að vera skýrt, og hávaðamælar í farsímum ætti að vera hluti af vinnuaðferð lögreglunnar. Í dag berast kvartanir og ábendingar til lögreglunnar ekki inn á borð stjórnenda Reykjavíkurborgar.

g) Styrk hávaðans mældur í desíbelum

h) Tónhæð hávaðans.

i) Hvort hávaðinn er stöðugur eða breytilegur

j) Dagleg tímalengd hávaðans

k) Hvenær tíma sólarhringsins hávaðinn varir

l) Heildartímabil, sem ætla má að hávaðinn vari (dagar/vikur). 

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að kvartanir yfir hávaða m.a. vegna Airwaves, Inni/Úti púkans og fleiri útihátíða hafa borist frá þeim íbúum sem búa í nágrenninu. Svo virðist sem íbúar séu ekkert spurðir álits þegar verið er að skipuleggja hátíðar á borð við þessa sem er vís til að mynda hávaða. Minnt er á að til er reglugerði um þetta  og hvað varðar aðra hljóðmengun þá er ekki séð að eftirlit sem framfylgja á í samræmi við reglugerðina sé  virkt. Í reglugerð  er kveðið á um ákveðin hávaðamörk og tímasetningar. Fjölgun hefur orðið á alls kyns viðburðum sem margir hverjir mynda hávaða, ekki síst þegar hljómsveitir eru að spila.  Á tímabilum er gegndarlaus hávaði í miðborgin og erfitt fyrir fólk sem í nágrenninu að ná hvíld. Hér er um lýðheilsumál og friðhelgi einkalífs að ræða. 

Margt fólk hefur kvartað í lýðræðisgáttina en ekki fengið nein svör, eða ef fengið svör, þá eru þau bæði loðin og óljós. 

Þeir sem bent hafa á þetta segja að svo virðist sem ábendingar séu hunsaðar og að ábendingavefur borgarinnar sé bara upp á punt. Látið er í það skína að hlustað sé á kvartanir en ekkert er gert. Svo virðist sem deildir og svið borgarinnar starfi ekki saman í það minnsta er eitthvað djúpstætt samskiptaleysi í gangi.

Vínveitingaleyfi í borginni hafa margfaldast og er miðborgin að verða einn stór partýstaður. Minnt er á að í borginni býr fólk, fjölskyldur með börn.  

Íbúum miðborgarinnar er sýnd afar lítil tillitssemi og er gild ástæða til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd í tengslum við hina ‘grænu’ áherslu Reykjavíkurborgar að hávaðamengun er líka mengun.

 

 


Húrra! Gegnsæi og rekjanleiki eykst í borginni

tillaga Flokks fólksinsMig langar að segja frá því að tillaga Flokks fólksins er varðar að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál borgarfulltrúa og birtir á vef borgarinnar er nú komin í fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram í gær á fundi borgarstjórnar. Þetta má sjá í kaflanum Ný upplýsingarkerfi sem er fylgiskjal í fjárhagsáætluninni. 

Þessi tillagan var lögð fyrir af Flokki fólksins á fundi borgarráðs 16. ágúst sl. og hljóðaði svona:

Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal birt á ytri vef borgarinnar.


Rýmkun hlutverks fagráðs kirkjunnar

Í gær var minn fyrsti dagur á kirkjuþingi 2018 sem kirkjuþingsfulltrúi. Ég er framsögumaður þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að kirkjuþing samþykki að rýmka hlutverk fagráðsins. Í stað þess að fagráðið taki einungis á málum er varða meint kynferðisbrot gætu allir, ef ályktunin yrði samþykkt, sem starfa á vegum kirkjunnar eða eiga þar hagsmuna að gæta vísað þar tilgreindum málum sínum til fagráðsins. Þetta næði t.d. yfir mál er litu að hvers lags ofbeldi svo sem einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Lagt er til að skipuð verði nefnd sem hefði það hlutverk að móta starfsreglur, verklag og stjórnkerfi, sem og yfirfara skilgreiningar í tengslum við þær breytingar sem lagðar eru til.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband