Meirihlutinn meðvirkur

Tillögur felldar hver af annarri. Á fundi borgarráðs í gær var önnur tillaga Flokks fólksins er varðar Félagsbústaði felld. Tillögur er varða Félagsbústaði eru tilkomnar vegna fjölmargra kvartanna sem borist hafa allt frá því í kosningabaráttunni.

Eftirfarandi bókun var gerð á fundinum í gær:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi starfs verið að reyna að koma því áleiðis til borgarmeirihlutans að hjá Félagsbústöðum er margslunginn vandi m.a. viðmótsvandi og viðhaldsvandi og er álit þetta byggt á þeim fjölmörgum kvörtunum sem borist hafa. Ein tillaga  Flokks fólksins, sem lögð var fyrir borgarstjórn 19. júní og varðaði úttekt óháðs aðila á Félagsbústöðum s.s. leigusamningum og hvernig þeir eru kynntir leigjendum hefur nú þegar verið felld af meirihlutanum. Tillagan um að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi Félagsbústaði aftur undir A-hluta borgarinnar  hefur nú einnig verið felld. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst hann tala fyrir daufum eyrum meirihlutans og upplifir meirihlutann jafnvel vera meðvirkan með ástandinu enda hefur ekki verið tekið undir neinar ábendingar eða athugasemdir sem fram hafa verið lagðar í þessu sambandi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins væri ekki að vinna vinnuna sína ef hann hlustaði ekki á borgarbúa í þessu efni sem öðru. Fyrirtæki undir B hluta borgarinnar á ekki að vera fjarlægt hvorki minnihlutanum né fólkinu sem það þjónar. Starf borgarfulltrúa felst m.a. í því að fylgjast með öllum borgarrekstrinum og hafa afskipti ef á þarf að halda og mun borgarfulltrúi halda áfram að gera það í þeirri von að tekið verði á vandanum fyrir alvöru og til framtíðar.

Tvær aðrar tillögur þessu tengdar verða lagðar fyrir fund borgarstjórnar næstkomandi þriðjudag:

  1. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða. Lagt er til að fenginn verði óháður aðili til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þá sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð. Greinargerð fylgir
    https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/64_tillaga_f_konnunfb_0.pdf

 

  1. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla. Lagt er til að þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða verði fenginn óháður aðili til að leggja mat á viðhaldsþörfina. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti. Greinargerð fylgir.
    https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/58_tillaga_f_vidhaldfb_0.pdf

 

 

 

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

Netfang: kolbrun.baldursdottir@reykjavik.is

  1. 899-6783

 


Mannekla í leikskólum virðist viðvarandi vandamál í borginni, enn eru 128 börn á biðlista

Vetrarstarfið er nú hafið í leik- og grunnskólum og enn vantar í margar stöður á leikskólum borgarinnar. Eftir er að ráða í 61,8 stöðugildi í leikskólum miðað við grunnstöðugildi ásamt 22,5 stöðugildum sem vantar í afleysingu og enn eru 128 börn á biðlista eftir leikskólaplássi.

Þessi staða er með öllu óásættanleg. Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því þykir það sérkennilegt að borgin hafi ekki geta tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu, byrgt brunninn áður en vandinn varð svo stór að hann virðist óviðráðanlegur.

Ýmsar tillögur að lausn liggja fyrir og margar sannarlega metnaðarfullar.  Álagið sem þessu fylgir er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna.

Ganga þarf lengra til að staðan verði fullnægjandi og til þess þarf meira fjármagn í málaflokkinn. Einkum tvennt hlýtur að skipta hvað mestu máli og það eru launin annars vegar og álag hins vegar. Alltof lengi hefur borgin sýnt stétt leikskólakennara og starfsmönnum leikskólanna lítilsvirðingu að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að launamálum. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu.

Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau á borgin að setja í forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns.

 


Ekki þörf á annars konar húsnæðiskerfi er mat fjármálaskrifstofu borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að leggja til lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé um fyrirtæki að ræða sem hefur það ekki að markmiði að græða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.

Greinargerð

Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrissjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innan- sem utan lands svo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.

Lagt fram í borgarráði og afgreitt 23. ágúst með því að tillagan var felld.
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminni fólk 

Umsögn fjármálaskrifstofu

Bókun Flokks fólksins:
Borgarfulltrú Flokks fólksins harmar að þessi tillaga hafi ekki fengið frekari skoðun hjá meirihlutanum. Svo virðist sem borgin telji nóg gert eða áætlað í húsnæðismálum samkvæmt upptalningu í umsögn fjármálaskrifstofu og meirihlutans og því óþarfi að leggja drög að nýjum hlutum eins og mögulegri samvinnu eða samtarfi við lífeyrissjóði. Einhverjir þeirra hafa síðustu ár verið að taka á hendur fjölbreyttari verkefni, jafnvel samfélagsverkefni.

Í tillögunni fólst að eiga frumkvæði að samtali, borgin með lóðir og lífeyrissjóðirnir með fjármagn. Auðvitað er það ákvörðun sjóðanna hvort þeim hugnast verkefni eins og hér um ræðir, hvort þeir hafi yfir höfuð áhuga á að leita leiða til að bæta aðbúnað sjóðsfélaga sinna hvað húsnæðismál varðar. Leiguíbúðir á viðráðanlegu verði myndu gjörbylta kjörum margra sjóðsfélaga auk þess sem lengi hefur verið vitað að fjárfesting í steypu er góð fjárfesting. Hér hefði því verið kjörið tækifæri fyrir borgina að hugsa út fyrir boxið og sjá hvar ný tækifæri kunna að liggja fyrir fólkið í borginni. Hvað varðar löggjafann telur Flokkur fólksins að á þessu upphafstigi sé óþarfi að ætla að hann komi til með að verða óyfirstíganleg hindrun.


Innflytjendur í Fellahverfi einangrast félags- og menningarlega

Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust.
 
Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti. Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega vel, hvorki menningarlega né félagslega. Eftirfarandi fyrirspurnir voru lagðar fyrir borgarráð 23. ágúst sl.
1. Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun innflytjenda í Fellahverfi?
2. Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma.
3. Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?
 
 

Enginn nema óháður aðili sem kemur til greina í þetta verkefni

Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Þess vegna mun eftirfarandi tillaga verða lögð fyrir fund borgarráðs á morgun 23. ágúst. 

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

Greinargerð

Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Leigjendur segjast ýmist ekki fá nein svör eða sein og þá ófullnægjandi viðbrögð. Beiðni um viðgerð er einfaldlega oft ekki sinnt og gildir þá oft einu hvort íbúar leggi fram læknisvottorð vegna heilsubrests, myndir af skemmdum vegna myglu og jafnvel vottorð frá öðrum sérfræðingum sem skoðað hafa húsnæðið.

Kvartað hefur verið undan myglu og rakaskemmdum í íbúðum og fullyrt að um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði. Veikindi hafa verið tengd við myglu og raka í húsnæði sem Félagsbústaðir leigir út. Fjölskyldur hafa stundum þurft að flýja húsnæðið. Þetta fólk hefur sumt hvert ítrekað kvartað en ekki fengið lausn sinna mála hjá Félagsbústöðum sem hefur hunsað málið eða brugðist við seint og illa. Margir kvarta yfir að hafa verið sýnd vanvirðing og dónaskapur í samskiptum sínum við Félagsbústöðum. Oft er skeytum einfaldlega ekki svarað.

Þeir sem hafa kvartað yfir samskiptum sínum við Félagsbústaði segja að starfsfólk hafi sagt þeim bara að fara í mál. Hér um að ræða hóp fólks sem leigir í félagslegu húsnæðiskerfinu vegna þess að það er láglaunafólk, efnalítið og fátækt fólk. Þetta fólk hefur ekki ráð á að fara í mál við Félagsbústaði. Sumir hafa neyðst til þess og eru í kjölfarið skuldsettir umfram greiðslugetu. Það fólk sem stigið hefur fram með kvörtun af þessu tagi segir að Félagsbústaðir hafi ýmist neitað að þessi vandi sé til staðar eða hunsað hann. Í öðrum tilfellum hafa komið viðgerðarmenn og gert eitthvað smávegis en ekki ráðist að grunnvandanum. Mygla og annað sem fólk hefur verið að kvarta yfir hefur því haldið áfram að aukast og haft alvarleg áhrif á heilsu íbúa.  Reynslusögur fólks sem leigt hafa hjá Félagsbústöðum eru orðnar margar. Í einni slíkri segir kona frá að í íbúð á vegum Félagsbústaða hafi verið mygla og hafði hún ítrekað kvartað. Múrari hafi komið frá Félagsbústöðum til að athuga með leka og hafi sagt sér að ekki mætti fara í miklar aðgerðir sem kosta mikið. Því var bara settur „plástur“ á skemmdirnar sem dugði í ár. Það sem hefði þurft að gera var að rífa klæðningar inn að steypu og leyfa henni þorna. Þess í stað var farið í að múra upp í og loka. Hér má einnig lesa um sambærilega sögu mæðgna sem ítrekað þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði á vegum Félagsbústaða

http://www.visir.is/g/2018180529713

Haldnir hafa verið fjölmargir fundir vegna sambærilegra mála bæði við notendur/leigjendur og Félagsbústaði m.a. hjá Umboðsmanni borgarbúa. Svo virðist sem Félagsbústaðir séu ekki að greina nægjanleg vel hver viðhaldsþörfin er þegar kvörtun berst og þá til hvaða viðhaldsverka þarf að grípa til að leysa vanda með fullnægjandi hætti. Almennt viðhald virðist vera ábótavant á mörgum eignum Félagsbústaða.  Þegar kvörtun berst vísar Félagsbústaðir til heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við sjónpróf og lyktarpróf sem dugar oft ekki til til að finna hver grunnvandinn er. Iðulega er sagt við notendur „loftaðu bara betur út“. Af þessu að dæma er líklegt að endurskoða þurfi aðferðir sem heilbrigðiseftirlitið notar í málum af þessu tagi. 

Í mörgum tilvikum þarf ítarlegar greiningar til að komast að vandanum. Önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki bjóða upp á nánari greiningu og kostnaðinn þurfa leigjendur iðulega sjálfir að bera en sem hafa eðli málsins samkvæmt enga fjárhagslega burði til. Í mörgum þessara tilvika er um lekavanda að ræða, vanda sem hefur e.t.v. verið mörg ár að þróast. Af frásögnum að dæma hjá mörgum virðist vera einhver mótþrói hjá Félagsbústöðum í að horfast í augu við að það þarf að setja fjármagn í fullnægjandi viðhald og bregðast við kvörtunum með fullnægjandi hætti. Ekki dugir að senda sífellt lögfræðinga á notendur Félagsbústaða. Nú er svo komið að taka þarf á þessu ástandi fyrir fullt og allt. Horfast þarf í augu við að Félagsbústaðir hafa víðtækum skyldum að gegna gagnvart öllum skjólstæðingum sínum. Hér er ekki um að ræða einkafyrirtæki eða banka. Félagsbústaðir getur ekki alltaf sett þessi mál bara í átakaferli. Hafa skal í huga að fólk er einnig misviðkvæmt gagnvart myglu. Mikilvægt er því að horfa á hvert tilvik fyrir sig í stað þessa að setja alla undir sama hatt. Endurskoða þyrfti alla verkferla Félagsbústaða af óháðum aðila og gera þá gagnsæja. Eftirlit með hvort Félagsbústaða séu að fylgja verkferlum virðist verulega ábótavant.

 

Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá  leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaða með einum eða öðrum hætti.


Sumir eru hræddir við að koma fram undir nafni

Vegna fjölmargra kvartana um meiðandi þjónustumenningu Félagsbústaða gagnvart notendum sínum verður eftirfarandi tillaga lögð fram í borgarráði á morgun 23. ágúst.

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þá sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð.

Greinargerð

Í langan tíma hafa notendur Félagsbústaða kvartað yfir neikvæðri framkomu starfsmanna í sinn garð. Kvartað er yfir neikvæðu og jafnvel meiðandi viðmóti, að þeim séu sýndir fordómar og dónaleg framkoma. Kvartað er yfir stjórnsýsluháttum Félagsbústaða, að notendur fái ekki svör við spurningum fyrr en seint og síðar meir og sumum erindum sé einfaldlega aldrei svarað. Notendur þjónustu Félagsbústaða kvarta yfir að þeir þurfi oft að hafa mikið fyrir hlutunum og að mikið vanti upp á að þeim sé sýnd virðing og tillitssemi. Sumir hafa jafnvel talað um að þeim hafi verið hótað af starfsfólki Félagsbústaða, ógnað og lítillægðir. Sumir notendur hafa sagst ekki þora að koma fram með kvörtun sína undir nafni af ótta við að verða með einhverjum hætti refsað. Margir hafa leitað til Umboðsmanns borgarbúa með mál sín. Fjölmargir notendur Félagsbústaða hafa auk þess kvartað yfir að þeir séu ekki upplýstir um réttarstöðu sína í þessum málum. Hafi þeir samband við Félagsbústaði með kvörtun sína er þeim vísað á lögfræðinga fyrirtækisins.

Á það skal bent að markmið Félagsbústaða er að þjónusta sem best fólk sem nýtir þjónustu þess.  Félagsbústaðir ættu að hafa sín gildi á hreinu.  Af þeim fjölmörgu kvörtunum skráðum og óskráðum sem notendur Félagsbústaða hafa borið á borð, má lýsa ástandinu við stríð, eins og Félagsbústaðir séu í stríði við notendur þjónustunnar í stað þess að sinna því þjónustuhlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt reglum.

Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá notendum og leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaði með einum eða öðrum hætti.

 


Ég er ekki komin í borgina til að láta fara vel um mig í þægilegum stól og hafa það huggulegt

Mér finnst áhugavert að lesa og heyra alls kyns skýringar bæði sérfræðinga og annarra á því sem gengið hefur á í borginni í vikunni. Sumar finnst mér alls ekki passa við það sem ég, sem borgarfulltrúi hef verið að upplifa síðustu daga og í sumar.

Varðandi þessi mál í vikunni höfum við í D M og F einfaldlega verið að bregðast við atferli og hegðun sem við erum ekki tilbúin að láta bjóða okkur og sem ég held að fæstir vildu láta bjóða sér. 

Í sumar hef ég nokkrum sinnum talað beint við meirihlutann um að vinna saman, vera meira saman í málum og á síðasta Velferðarráðsfundi stakk ég upp á að við stæðum saman að tillögu sem við vorum hvort eða er sammála um. 

Svo ég tali bara út frá sjálfri mér þá er ég þarna komin til að reyna að hafa áhrif til breytinga á því sem mér og Flokki fólksins finnst brýnt að breyta í borginni. Ég er ekki komin þarna til að hafa það huggulegt, fara í inniskóna og láta fara vel um mig í þægilegum stól. 

Síðustu árin hefur mér og fjölmörgum öðrum blöskrað aðgerðarleysi meirihlutans m.a. í málefnum er varða húsnæðismál og biðlista. Enda þótt margt hafi verið gert gott er einfaldleg líka mikið að sem við sem nú skipum meiri- og minnihluta verðum að laga. 

Ég hef verið með fjölmargar tillögur að úrbótum, margar unnar í samráði við borgarbúa og ég vil einfaldlega að þessar tillögur fái alvöru hlustun og skoðun hjá meirihlutanum og að einhverjar verði jafnvel að veruleika með eða án einhverra breytinga sem ég skil að stundum þurfi vissulega að gera á tillögum.

Meirihlutinn hefur völdin og hefur þess vegna allt í hendi sér hvaða tillögur okkar í stjórnarandstöðunni fá framgang og hvaða tillögum er ýtt út af borðinu.

Ein af mínum tillögum á síðasta borgaráðsfundi var einmitt um  samstarf og samvinnu til að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig.  Mig langar bara virkilega að hjólin fari að snúast varðandi það sem brýnt er að bæta og breyta.

Hér koma tvær tillögur Flokks fólksins sem alls lagði fram sjö tillögur í borgarráð 16. ágúst. Þessar varða samstarf, samvinnu og skilvirkni.:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að stýrihópur um þjónustustefnu á velferðarsviði hafi samráð við önnur svið sem málið varðar 

Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). 

Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

Og önnur um meiri skilvirkni en að mínu viti ganga hlutirnir oft allt of hægt í borginni

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar málsmeðferð, fyrirkomulag mála og fleira því tengt

1. Lagt er til að öllum erindum frá borgarbúum sem berast sviðum, ráðum, borgarfulltrúum og starfsmönnum Ráðhússins verði svarað innan 14 daga, ýmist með stuttu svari um móttöku eða efnislega. Í svari um að skeytið hefur verið móttekið komi fram að efnislegt svar berist eins fljótt og auðið er. 

2. Lagt er til að fyrirspurnum sem borgarfulltrúar leggja fram á fundum ráða eða nefnda sé svarað innan 20 daga

3. Lagt er til að mál (tillögur) borgarfulltrúa séu afgreidd innan mánaðar frá því að málið er lagt fram og komi þá aftur á dagskrá. 4. 

Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal uppfært mánaðarlega og birt á heimasíðum borgarfulltrúa á ytri vef borgarinnar.

Flest önnur mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í sumar má finna á kolbrunbaldurs.is

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband