Metantillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn í júní skilar árangri

Strætó bs. skoðar nú fýsileika þess að metanvæða hluta
af bílaflota fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta mikla umframframleiðslu Sorpu bs. á gastegundinni. Nýlega festi Strætó kaup á tveimur metanvögnum. Annar þeirra var tekinn í notkun í byrjun september og hefur reynslan af akstrinum verið góð.

Þetta er fagnaðarefni sér í lagi að þetta er einmitt tillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júní 2019 og hljóðar þannig að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Ég vil bara trúa að þessi tillaga hafi haft þessi áhrif. Henni var vísað til stjórnar Strætó bs. Auðvitað mun Flokkur fólksins aldrei fá neina staðfestingu á því að þessi tillaga hafi leitt til frekari skoðunar á málinu með þessari góðu niðurstöðu. 

Ég hef fylgt eftir þessari tillögu  í fjölmörgum bókunum um orkuskipti, nota öll tækifæri til að minnast á metan sem framleitt er mikið af en brennt á báli þar sem ekki er hægt að hleypa því út í andrúmsloftið. Því er það  svo upplagt að nota það á strætisvagna og þess vegna lagði ég þetta til

 

Hér er tillaga í heild sinni ásamt greinargerð og bókun mín við afgreiðslunni:

Borgarstjórn
18. júní 2019
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Strætó á nú tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er metan sem ekki selst brennt á báli. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs nýti metan sem byggðasamlagið Sorpa framleiðir en nýtir ekki.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er hins vegar dýr, en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn.

Greinargerð

Í ljósi þess að  metan er til og ekki nýtt er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti.

Nokkur orð um metan.
Metangas  myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni. Í Álfsnesi er lífrænt sorp urðað og þar myndast metangas og því gasi er safnað. Metanið er orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða um 30 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Sé það ekki nýtt er betra að  brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa.

Eins og framan greinir kom fram í svari frá Strætó bs við fyrirspurn borgarfulltrúa um málið að fyrirtækið hefur óskað eftir tilboðum í vetnisbíla en ekki metanbíla þótt  nóg sé til af metani. Það er vægast sagt sérkennilegt.

Skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist  fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Þar sem Reykjavíkurborg á meirihlutann í báðum þessum byggðasamlögum, Strætó bs og Sorpu ætti borgin að geta haft einhverja skoðun á því hvernig þeim er stjórnað þegar kemur að hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki geta selt allt það metangas sem hún framleiðir og í þess stað þurfi að brenna því engum til gagns. Það er óskiljanlegt af hverju annað fyrirtækið geti ekki nýtt sér það sem hitt framleiðir, fyrirtæki sem  bæði eru að stórum hluta í eigu borgarinnar.

Rökrétt er að reyna að nýta metangasið á stóra bíla, þar sem illa hefur gengið að koma því á almenna bílaflotann. Að nota gasið á strætisvagnana er því sjálfsagt mál. Það er sóun að brenna gasinu til einskis nema í þeim tilgangi að minnka gróðurhúsaáhrifin að sjálfsögðu.  Metangassöfnun í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra og hefur varla minnkað síðan. Þarna er nægt gas til að nýta á fjölmarga strætisvagna sé vilji til.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillögunni er vísað til stjórnar Strætó bs og vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs fái upplýsta umræðu þar.

Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnibíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá  hvernig  metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.   Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en  svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Mynd 4 17.12

 

 


Frítt að borða í skólum. Reykjavík er nískasta sveitarfélagið

Enn eitt sveitarfélagið hefur ákveðið að bjóða grunnskólabörnum fríar skólamáltíðir. Ég hef reynt þetta tvisvar í Reykjavík með tillögu um alveg fríar máltíðir og tvisvar um lækkun bæði þriðjungs- og helmingslækkun en án árangurs. Síðasta tilraun sem Flokkur fólksins gerði var 3. des í síðari umræðu um fjárhagsáætlun og sjá má hér hvernig atkvæði féllu. Hér er tillagan og sjá má hvernig atkvæði féllu:
 
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar. Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr. á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.
Greinargerð fylgir tillögunni (sjá hana á kolbrunbaldurs.is).

Tillagan er felld með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Fríar skólamáltíðir  á Hellu

Borgarbúar komnir með upp í kok af umferðartöfum

Allar þrjár umferðartillögur Flokks fólksins sem miðast m.a. að bættu umferðarástandi við Hörpu voru felldar í skipulags- og samgönguráði í morgun.
Lagt var til :
1) Að umferðarflæði verði bætt í borginni með því að vinna betur við ljósastýringu og að gera fráreinar án ljósa við hægri beygju þar sem hægt er

2) Að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn

3) Að taka svæðið Geirsgata, Kalkofnsvegur móts við Hörpu til endurskoðunar til að lágmarka tafir
Sjá greinargerðir á kolbrunbaldurs.is borgarráð 28. nóvember

Halda mætti að skipulagsyfirvöld vilji hafa þarna kaos til að fæla frá þá sem koma akandi.
Hvernig á annars að túlka þetta?

Hér eru bókanir:
Bókun umferðartillaga 1
Það er ábyrgðarleysi ef skipulagsyfirvöld í borginni ætla ekki að taka á þeim umferðarvanda sem er í miðborginni. Ekki gengur að stinga hausnum í sandinn. Umferðartafir eru komnar upp í kok á borgarbúum og borgaryfirvöld reyna að láta sem ekkert sé. Haldi sem horfi á þetta eftir að stórskaða miðborgina og fólk einungis að mæta á svæðið sé það tilneytt. Tillögur Flokks fólksins sem hér eru lagðar fram eru til að bæta það sem hægt er að bæta og þá er fyrst að nefna að leiðrétta ljós og gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut þótt enginn sé að fara yfir er ekki til að bæta útblástursvanda. Skipulagsyfirvöld eru sífellt að kvarta yfir bílum og bílamengun en gera svo ekkert til að draga úr slíku öðruvísi en að vilja banna öll ökutæki í bæinn. Það er afleitt að bílar bíði í röðum eftir að taka af stað þegar engin ástæða er til? Því hefur verið fleygt fram að skipulagsyfirvöld í borginni skapi þennan vanda að ásettu ráði svo hægt sé að draga upp en svartari mynd af „bílnum í miðborginni“. Það eru hæg heimatökin þegar kemur að skynsamlegum lausnum eins og tímastillingar ljós og hægri beygjuslaufur eins og t.d. fram hjá ljósunum af Kalkofnsvegi inn á Geirsgötu.

Bókun við umferðartillögu 2
Það kemur á óvart að skipulagsyfirvöld sjái ekki hvernig gönguljós sem loga þótt enginn sé að fara yfir telur umferð og eykur á mengun. Ljósastýring á þessu svæði er öll í ólestri, ekkert samhengi er milli þeirra og þess vegna er endalaus umferðarteppa á þessu svæði. Ein af gönguþverunum þarna er með ljósastýringu og eru gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Hér skortir alla heilbrigða skynsemi og spurt er hvort þetta sé gert af ásetningi, til að stöðva akandi umferð að óþörfu. Engin hefur farið varhluta af andúð skipulagsyfirvalda borgarinnar og formanns skipulagsráðs hvað helst gegn heimilisbíl fólks og skilaboðin að akandi fólk er ekki velkomið í bæinn eru ítrekað send út. Með þessu áframhaldi munu fleiri verslunar- og rekstraraðilar skaðast og ef ekki verður úr bætt mun þeim fækka enn meira öðrum en þeim sem ferðamanna halda gangandi.

Bókun við umferðartillögu 3
Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld og borgarmeirihlutinn í borgarstjórn hafa brugðist skyldum sínum að sjá til þess að umferðarflæði í borginni sé viðunandi með því að fella þessa tillögu. Ástandið er ekki síst slæmt víða í miðborginni en einnig annars staðar. Með snjallljósastýringu og betur stilltum ljósum væri hægt að bæta verulega flæði. Hægri slaufubeygja er einnig möguleiki sem breytt gæti umferð til hins betra. Fráreinar án ljósa er víða hægt að koma við væri vilji til þess sem myndi bæta flæði til muna og þar með draga úr útblæstri bíla. Ástandið við Hörpu er ekki boðlegt sér í lagi nú á meðan framkvæmdir eru einnig í gangi á þessu svæði. Bílar sitja fastir þarna á stuttu svæði oft í langan tíma. Á meðan ekki annar ferðakostur er fyrir fólk sem kemur lengra frá er ekki hægt að bjóða upp á svona ófremdarástand á svæði sem geymir megnið af menningu og skemmtanalífi borgarinnar. Taka þarf þetta svæði til athugunar með það fyrir augum að leysa málið en ekki gera það verra. Flokkur fólksins kallar eftir að borgarmeirihlutinn sýni hér skynsemi og taki ábyrgð.
umferð hjá hörpu1

JUST BROWSING skilar ekki pening í kassann

Það er eiginlega bara átakanlegt að hlusta á viðtöl við rekstrar- og verslunareigendur við Laugaveginn í þætti á Hringbraut þegar þeir lýsa hvernig fólkið sem býr í landinu treystir sér ekki inn á þetta svæði lengur vegna þess að aðgengi er slakt og erfitt að finna bílastæði utandyra. Bláköld staðreynd er sú að ekki allir treysta sér í bílastæðahús. 
Allt er gert af borgaryfirvöldum til að útiloka þá sem koma á einkabíl sínum í bæinn. Meirihlutinn í borgarstjórn er andvígur bílum í miðbæinn, vilja hann burt. Þessi stefna gengur ekki ef við viljum fá Íslendinga í miðbæinn eins og áður var. 
Þetta er ekki bara röfl í Flokki fólksins í borgarstjórn þegar við segjum að bærinn okkar er að verða einsleitur, í honum eru bara ferðamenn og þeir sem koma til að skemmta sér. Þetta er bláköld staðreynd. Ég óttast að fleiri verslanir taki á flótta en nú þegar hafa tugir verslana flúið. Og hvað með Kolaportið þar sem m.a. öll þessi fallega prjónavara er til sölu. Þar er fátt um landann eftir því sem ég frétti þegar ég fór í heimsókn þangað um daginn.

Meira segja litla Jólabúðin þrífst illa, engir Íslendingar, ferðamenn koma sem kaupa oft ekki neitt, og sama á við um aðrar verslanir, just browsing! en það skilar engu í kassann.


Þarf ekki bíl til að sækja opinbera þjónustu

Ég er kjaftstopp yfir málflutningi formanns skipulags- og samgönguráðs á fundi borgarstjórnar sem nú fer fram. Því miður hef ég bara 200 orða bókunarsvigrúm en þetta langar mig að segja:
Það er dapurt að hlusta á meirihlutann lýsa aðferðarfræði sem felur í sér að útiloka einn þjóðfélagshóp í umferðinni, þá sem þurfa að nota bíl. Talað er eins og borgarlína sé komið og að almenningssamgöngur séu fullnægjandi. Sagt er að enginn eigi að þurfa bíl til að sækja sé opinbera þjónustu. Allt skuli rafrænt. Flokki fólksins blöskrar þessi rörsýn, meinloka og hvernig farið er í að loka leiðum og möguleikum áður en aðrir valmöguleikar liggja fyrir.
 
Klifað er á loftlagsmálum og hvað bíllinn mengar en enginn í meirihlutanum hugsar um það þegar ferðast er um heima og geima á kostnað borgarbúa. Málflutningur meirihlutans er með öllu órökréttur og mótsagnir miklar. Eru börnin send og sótt rafrænt í leikskólann. Hvernig eiga fjölskyldur að koma börnum sínum í og úr leikskóla/skóla/tómstundir, koma sér í og úr vinnu, sinna ýmsum erindum þegar þær geta ekki lengur nota bíl sinn nema á afmörkuð svæði í borginni. Enn eru mörg ár í borgarlínu og strætókerfið eins og það er, langt því frá að vera viðundani. Stefna þessa meirihluta er að gera sumu fólki ómögulegt að búa í úthverfum borgarinnar, eiga börn og sækja vinnu miðsvæðis sem bráðum verður með öllu lokað bílum.

Ég er þrjósk og þetta er réttlætismál

Tillaga um fríar skólamáltíðir var felld í fyrra og þá sagði ég í þessari frétt á visi.is að ég ætla að halda áfram málinu og það mun ég gera á morgun á fundi borgarstjórnar þegar síðari umræða fer fram um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og fimm ára áætlun. Ég er þrjósk og þetta er réttlætismál enda eina leiðin til að tryggja að börn eru ekki svöng í skólanum. Sjá nánar hér neðar um hvernig ég legg til að fjármagna tillöguna.

Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar.
Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr.á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband