Sameining eða lokanir skóla oftast í óþökk foreldra

Í morgun var lagt fram 6 mánaða uppgjör borgarinnar. Yfir þessum tölum hvíldi mikil leynd þar til Kauphöllin opnaði. Nú hefur allri leynd verið aflétt. Það sem kemur mest á óvart er staða Skóla- og frístundarráðs. 49% af nettó útgjöldum í hlutfalli af skatttekjum borgarinnar fer til Skóla- og frístundarsviðs. Sviðið er með 1 m.kr umfram fjárheimildir. Engu að síður er vandi víða í skólamálunum. Öll vitum við orðið um ástand skólahúsnæðis víða vegna viðhaldsleysis sl. 10 ára með tilheyrandi afleiðingum, raka og leka (myglu). Nú liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda sem staðfestir þetta og fleiri vandamál. Í skýrslunni segir að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna og gripið er til sameiningar og lokana oftast í óþökk foreldra og jafnvel skólastjórnenda. Í sérkennslu fara um 5 milljarðar en sérkennslan er ekki árangursmæld og því óljóst hvort hún sé að skila sér sem skyldi til barna sem hennar njóta.

Það er erfitt að átta sig á hvert borgarmeirihlutinn er að fara í skólamálum borgarinnar. Kapp er lagt á að allt lítið vel út á yfirborðinu, skóli án aðgreiningar og allt það. Af þessu að dæma má e.t.v. hlýtur það að liggja í augum uppi að fé sem veitt er í skólakerfið sé einhvern veginn ekki að nýtast.


Enga forræðishyggju og engar öfgar í skólamötuneytum

Svakalegt að hlusta á Kastljós. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 13. september að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út. Í greinargerð með tillögunni segir að markmiðið er að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða í nágrannasveitarfélögunum, Hafnarfirði, Garðabæ og fleiri. Í þessu þarf að horfa til hráefnis, launa og rekstrarkostnaðar.
Tillagan var felld.

Til að hægt sé að hafa þetta almennilegt verður að vera aðstaða í öllum skólum, ekki bara sumum. Að draga úr dýraafurðum eins og Líf Magneudóttir boðar eru miklir öfgar. Vissulega á að draga úr unnum kjötvörum ef það hefur þá ekki þegar verið gert. Þeim má skipta út fyrir hreina vöðva eða lítið unna og grófhakkaða kjötrétti, með fáum innihaldsefnum. Kannski er þetta dýrara en þá komum við að fyrirkomulaginu í borginni varðandi skólamötuneytin. Fyrirkomulagið sem nú ríkir í mörgum skólum bíður ekki upp á hagkvæmni.
 
Enga forræðishyggju og engar öfgar í skólamötuneytum
 
Í skólamatnum á að vera val, bjóða ætti upp á tvo rétti, aðalrétt sem er hefðbundin matur skv. ráðleggingum Landlæknisembættisins um mat í mötuneytum grunnskóla, en samhliða því er boðið upp á annan rétt, svokallaðan „hliðarrétt“, sem er „vegan“ matur, þ.e. matur án dýraafurða. Það er sennilega rúmlega 10% nemenda og starfsfólks sem nýta sér síðari kostinn. Með þessu er hægt að koma til móts við þarfir „grænkera“ en einnig að kynna þennan valkost fyrir öllum. Varðandi kolefnisfótspor grænkerafæðis þá þarf að gera sérstaka úttekt á því áður en ályktað er um það, eða vitna í rannsókn. Mjög gott væri ef hægt er að bjóða upp á „meðlætisbar“ þ.e. salatbar með ávöxtum og tegundum af grænmeti, alla daga. Þetta má bjóða fram á aðlaðandi hátt til að auka neyslu á ávöxtum og grænmetis meðal nemenda. Hollur og ferskur matur er aðalatriðið fyrir börnin og að hann sé sem mest eldaður frá grunni í eldhúsum skólanna. Ég kalla hér með eftir fleiri skólamötuneytum sem elda matinn sem mest frá grunni! Undirbúa má margt í miðlægu eldhúsum en elda á aðalréttinn í skólaeldhúsinu sjálfu.
 
 

Pína og kvalir að sækja um rekstrar- og/eða byggingarleyfi í borginni

Hátt flækjustig er á mörgu í borginni. Regluverkið er eins og bandormur, alls konar skilyrði og kvaðir og fullt af smáu letri. Að sækja um rekstrar- eða byggingarleyfi veldur pínu og kvölum hjá mörgum.  Sumt er hægt að senda rafrænt en annað ekki sem flækir málið enn frekar. Stundum er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri á að gera. Borgarbáknið er stórt og flókið þótt borgin teljist lítil í samanburði við borgir í Evrópu. Þeir sem sækja um rekstrarleyfi hafa verið komnir að því að reita hár sitt.

Á fundi borgarráðs lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram eftirfarandi tillögu:

Flokkur fólksins leggur til að borgin og skipulagsyfirvöld í borginni gangi í það verk  að einfalda rekstrar- og byggingarreglukerfið. Sveitarstjórnir hafa skipulagsvaldið og ættu að geta einfaldað kerfið ef þær vilja. Margir kvarta yfir hversu þungt í vöfum umsóknarferlið er og flókið. Það er t.d. ekki hægt að senda öll gögn rafrænt. Afgreiðsla umsókna tekur oft langan tíma og framkvæmdaraðili veit oft ekki hvenær hann fær leyfið og getur því ekki skipulagt sig. Setja þyrfti skýr tímamörk um hvenær afgreiðsla liggur fyrir eftir að umsókn berst

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.


Yfir 200 stöðugildi ómönnuð í skólum og á frístundarheimilum

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra Skóla- og frístundarráðs um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði að enn á eftir að ráða í 60.8 grunnstöðugildi í leikskólum, 40 stöðugildi í grunnskólum og 102,5 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Enn er óljóst hvort staða ráðningarmála seinki áætlun um inntöku barna í leikskóla. 

Það má sjálfsagt deila um hvort þetta sé slæmt eða viðunandi í ljósi þess að það taki tíma að ná inn fólki. Staðreyndin er sú hvernig sem litið er á málið að það er langt í land með að fullmanna þessar stöður. Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Það að sé biðlisti í leikskóla yfir höfuð er óverjandi. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að ná í fólk með öllum ráðum.  Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur falið samninganefnd sinni að koma með tillögur í samningaviðræður sem stuðla að því að störfin verði eftirsóttari t.d. stytta vinnuviku til að létta á álagi. Ofan á þetta bætast viðgerðir á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Þá eru ótalin veikindatilfelli sem rekja má beint til myglu í skólabyggingum.


Tillagan um bifreiðastæðaklukkur í Miðbæ Reykjavíkur enn óafgreidd

Ekkert bólar á að tillaga Flokks Fólksins um bifreiðastæðaklukkur í Miðbæ Reykjavíkur komi til afgreiðslu, ekki það að auðvitað verður hún felld. Tillagan var lögð fram 20. febrúar í skipulags- og umhverfisráði og vísað til meðferðar hjá starfandi stýrihóp um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum.

TILLAGA FLOKKS FÓLKSINS UM AÐ TEKNAR VERÐI UPP BIFREIÐASTÆÐAKLUKKUR Í MIÐBÆ REYKJAVÍKUR

Lagt er til að Reykjavíkurborg innleiði bifreiðastæðaklukkur í þar til gerð merkt stæði í miðbænum og nágrenni hans. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eins og oft er kallað gæti komið að gagni ekki einungis í miðbænum heldur líka næst háskólanum og víðar.
Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu einmitt í borgum á stærð við Reykjavík. Framrúðuskífa hentar sérlega vel ekki bara fyrir borgir af þessari stærðargráðu heldur einnig á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík. Misjafnt yrði eftir stæðum hversu lengi má leggja, frá einni upp í tvær klst. eftir því hve nálægt miðbænum stæðið er. Leyfilegur tími er tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er, klukka rangt stillt eða engin klukka sjáanleg í framrúðu er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá.
Greinargerð:
Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel t.d. á Akureyri og ríkir með það almenn ánægja. Hægt er að hafa þann tíma sem fólk leggur frítt breytilegan eftir staðsetningu. Reynslan á Akureyri hefur jafnframt verið sú að tekjur bílastæðasjóðs bæjarins urðu meiri. Sé farið fram yfir tímann hefst gjaldtaka og síðan sekt ef ökutæki er lagt fram yfir leyfilegan tíma. Með þessu fyrirkomulagi nýtast stæðin betur og leiða má sterkar líkur að því að verslun í miðbænum muni taka fjörkipp, verði þessu kerfi komið á. Eins og vitað er, er verslun t.d. á Laugavegi að dala og eru kaupmenn verulega uggandi, hinn almenni borgar leita frekar annað vegna hárra bílastæðisgjalda. Fjölmargar verslanir við Laugaveg eru nú að loka og flytja sig annað. Haldi sem horfi mun Laugavegurinn verða einungis með minjagripaverslanir.
Það er löngu tímabært að skoða til hlítar möguleika á að taka upp bifreiðaklukkur í Reykjavík í stað gjaldmæla og skorar Flokkur fólksins á borgaryfirvöld að koma á samstarfshópi borgarinnar og hagsmunaaðila í miðborginni sem myndu kynna sér betur kosti þessa kerfis með það fyrir augum að innleiða það. Með þessu kerfi eykst sparnaður umtalsvert við gjaldmælakostnað og viðhald á þeim.
Með tilkomu nýrra gjaldmæla hefur reynst auðvelt að taka stæði í gíslingu dögum saman án þess að hægt verði að beita sektarákvæðum. Það hefur borið við að á bifreiðastæðum fyrir framan hótel við Laugaveginn hafi bifreið staðið í sama stæðinu dögum saman, líklega meðan leigjandi/eigandi bifreiðarinnar hefur brugðið sér í nokkurra daga ferð út fyrir borgina. Þetta þarf að hindra að geti gerst og besta leiðin við því er að taka upp bifreiðarklukku. Hagkvæmni hennar er ótvíræð.

Fólkið sem kvartar ekki

Óskað var eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu.

Svarið var lagt fram í borgarráði í morgun og má sjá hér neðar.

En hér er bókun Flokks fólksins í málinu
Það kemur á óvart að verið sé að rukka leigjendur fyrir rafmagn og hita og þrif og annað sem þarna er nefnt. Eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá leigjendum eru þeir sjálfir að greiða reikninga fyrir þrif og rafmagn sem dæmi. Spurningarmerki er sett við snjómokstur. Snjómokstur og fleira af þessu sem nefnt er kannast ekki allir leigjendur við þegar spurt er. Hvað varðar öryggishnappinn ætti hann að vera valkvæður. Þetta svar í heild sinni vekur því upp margar spurningar og vangaveltur sem dæmi hvort ekki sé verið að seilast helst til of mikið í vasa leigjenda með öllum þessum gjöldum sem þeir eru sjálfir að hluta til að greiða beint eins og t.d. rafmagn og þrif. Þegar allt er talið, hússjóðsgjöld og þjónustugjöld ofan á leigu íbúða sem eru í afar misgóðu ástandi er hér orðið um ansi háar upphæðir að ræða. Nokkrar áhyggjur eru af málum hjá Félagsbústöðum. Leigjendur eru viðkvæmur hópur og margir kvarta ekki, hafa ekki vanist að kvarta og aðrir þora hreinlega ekki að kvarta

Svarið frá Félagsbústöðum má sjá hér


Ætla freista þess að leggja þessa tillögu fram í borgarráði á morgun

Tillaga um að borgarfulltrúar fundi reglulega með borgarbúum
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráhússins a.m.k. tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sé ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum t.d. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur t.d. ef eitthvað málefni brenna á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gegnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa. Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartanna um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg mál, stór sem smá.
 

Spilað með tilfinningar kaupenda í Árskógum

Í tilkynningu til kaupenda íbúða í Árskógum 1-3 frá Félagi eldri borgara (FEB) vegna 400 m.kr. viðbótarkostnaðar sem kaupendum var gert að greiða má sjá hvernig reynt er að spila með tilfinningar þeirra í því skyni að fá þá til að samþykkja viðbótargreiðsluna. Reynt er að vekja upp meðvirkni og samviskubit hjá kaupendunum gagnvart FEB með því að segja „að virkni samtakanna væri stefnt í voða ef félagið lendir í erfiðum og löngum málaferlum við félagsmenn sína“ eins og segir í tilkynningunni. Einnig segir „að meirihluti hafi samþykkt að greiða og almennt hafi fólk sýnt málinu skilning“. Með þessu er verið að þrýsta á þá sem eiga eftir að greiða viðbótargreiðslu um að sýna því skilning. Reynt er að vekja upp einhvers konar þakklætistilfinningu hjá kaupendum með því að minna á að margir hafi haft áhuga á að kaupa íbúðirnar, enda undir markaðsverði. Segir í tilkynningunni „Þegar framkvæmdir hófust hafi rúmlega fjögur hundruð félagsmenn lýst yfir áhuga“. Tilgangurinn er augljós, að láta þá sem ætla að kanna rétt sinn fá samviskubit og upplifa sig vanþakklát.

Ekki vera með vesen!   

Kaupendur, sumir með þinglýsta kaupsamninga, voru grunlausir um hvað biði þeirra og einhverjir komnir langleiðina með að flytja inn. Áfallið er því mikið. Skyndilega er fótunum kippt undan hópi eldri borgara sem eru fullir tilhlökkunar. Afleiðingar eru trúnaðarbrestur gagnvart FEB og fjárhagsáhyggjur þar sem ekki allir eldri borgarar eiga 5-7 m.kr. í handraðanum. Í ofanálag er reynt að láta þá sem ekki eru tilbúnir að láta valta yfir sig fá samviskubit og líða illa vilji þeir kanna rétt sinn. Í tilkynningunni er ekkert minnst á „skekkjuna“, mistökin sem leiddu til viðbótarkostnaðarins og hverjir bera ábyrgð á honum. Þeir sem bera ábyrgðina eiga auðvitað að axla hana. Ég spyr hvernig framkoma er þetta eiginlega?

Pistill birtur í Fréttablaðinu 13.8. 2019

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins


Fatlaðir látnir ofgreiða. Tillaga um aukna upplýsingagjöf til borgarbúa felld

Frábært viðtal á bls. 6 í Fréttablaðinu í dag.
Ég hvet ykkur til að lesa þetta viðtal þar sem Ásta Kristrún Ólafsdóttir móðir þroskahamlaðs manns segir frá hvernig fatlaðir ofgreiða þjónustu vegna skorts á upplýsingum og tekur hún í því sambandi nokkur dæmi. Það er því kaldhæðnislegt að tillaga Flokks fólksin um bætta upplýsingagjöf til borgarbúa sem ættu sértæk réttindi var felld í júní. 
Sjá nánar í viðtalinu: Í apríl síðastliðnum lagði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, fram tillögu um að allir borgarbúar sem ættu sértæk réttindi yrðu upplýstir með fjölbreyttum hætti. Meðal annars símtölum, tölvuskeytum, bréfum, auglýsingum og heimsóknum. Einnig að útbúinn yrði heildstæður upplýsingabæklingur. Oft gerist það að upplýsingar um breytingar skili sér ekki nægilega vel til almennings og erfitt getur reynst að fá svör símleiðis. Var tillagan felld í júní.

Tillagan í heild sinni og bókun:

Tillaga um fjölbreyttar leiðir til að upplýsa borgarbúa um réttindi þeirra þar með talið útgáfa upplýsingabæklings:

 

Það er staðreynd að ekki tekst að upplýsa allar borgarbúa sem eiga tilkall til sértækra réttinda um réttindi þeirra. Það er skylda borgarmeirihlutans að láta einskis ófreistað til að koma upplýsingum til þessa hóps með eins fjölbreyttum hætti og mögulegt er. Leiðir sem hægt er að fara er að hringja í fólk, senda tölvuskeyti, auglýsa, heimsækja fólk eða senda bréfapóst. Með hverju ári sem líður er borgin að vera æ meira bákn og flækjustig fjölmargra ferla hefur aukist. Nú glittir vissulega í einhverja einföldun á einhverju af þessu og er það gott. Flokkur fólksins leggur til að borgarmeirihlutinn ráðist í að gefa út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar.

 

Greinargerð:

Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um réttindi á aðgengilegan hátt. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar. Oft heyrist talað um að fólk viti ekki hver réttindi sín eru eða hafa frétt af þeim mörgum mánuðum eftir að þau komu til, jafnvel árum. Stundum hafa upplýsingar misfarist vegna þess að það hefur gleymst að segja fólki frá þeim eða talið að fólk sé þá þegar upplýst um þau. Stundum er ástæðan sú að „réttindin“ hafa tekið breytingum vegna breytinga á reglugerðum eða samþykktum borgarinnar og ekki hefur náðst að upplýsa fólk um breytingarnar. Ýmist reynir fólk að hringja til að fá upplýsingar eða leita að þeim á netinu. Það eru ekki allir sem nota netið og stundum næst heldur ekki í starfsmenn í síma. Sé viðkomandi beðin að hringja til baka gerist það ekki alltaf.  Oft er kvartað yfir því að illa gangi að ná í starfsmenn/fagfólk sem eru t.d. mikið á fundum, að skeytum sé ekki svarað og að ekki sé hringt til baka. Gera má því skóna að upplýsingabæklingur sem er skýr og aðgengilegur, jafnvel sendur til þeirra sem talið er að eigi tilkall til þjónustunnar muni leysa að minnsta kosti hluta þess vanda þeim sem hér er lýst.

 Frestað

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019, um aukna upplýsingagjöf til borgarbúa um réttindi þeirra. Einnig er lögð fram umsögn upplýsingastjóra, dags. 24. júní 2019. R19040142

Tillagan er felld.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. Áhugavert væri að vita í hvað marga í þessum aldurshópi hefur verið haft samband við símleiðis?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband