Engin viðbrögð ennþá við tillögunni um hjólhýsagarð

Hverfi fyrir smáheimili er í umræðunni núna, var m.a. í fréttum ruv áðan. Enn hef ég ekki fengið svar við tillögunni um hjólhýsagarð. Borgarmeirihlutinn segir að það samræmist ekki stefnunni um þéttingu byggðar. Velferðarráð segir þetta ekki vera velferðarmál. Ég spyr er heimilisleysi ekki velferðarmál?

Tillagan var lögð fyrir í lok júlí og situr föst í meðförum velferðarsviðs:

Tillaga Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Borgarráð 31. júlí

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:
Það er brýnt að Reykjavíkurborg skapi þessum hópi fullnægjandi aðstæður til að vera með sín hjólhýsi eða húsbíla á stað þar sem þau geta verið örugg til framtíðar. Eins og staðan er núna er mikill húsnæðisvandi í borginni sem er tilkominn vegna langvarandi skorts á hagkvæmu húsnæði hvort heldur er til kaups eða leigu. Með því að vanda til verka við val og umgjörð hjólhýsagarðs þar sem slík byggð getur risið er komið varanlegt og öruggt heimilisúrræði fyrir þá sem kjósa að búa í aðstæðum sem þessum. Í löndum sem við berum okkur saman við eru tjaldstæði fyrir húsbíla og hjólhýsi þar sem fólk býr árið um kring og lætur vel að því. Nútíma hjólhýsi eru ódýr og húsnæði með öllum þægindum. Ný hjólhýsi fyrir t.d. tvær manneskjur kosta um 3 milljónir á Íslandi og 10 ára gamalt hjólhýsi í góðu standi um 1,.5 milljónir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fyrir einhverja kann þetta að vera raunhæfur kostur fáist framtíðarstaðsetning sem hentar hjólhýsi sem hugsað er sem heimili í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur sem upplifir meira frelsi við að búa í hjólhýsi en að búa í fjölbýlishúsi. Sumum hentar það vel og segjast njóta þess að geta einungis opnað einar dyr hurð og stigið út. Þeir sem hafa reynslu af þessu búsetuformi og líkar það hafa sagt þetta sé ekkert öðruvísi en að búa í litlu einbýlishúsi. Mikilvægt er að leiga sé lág fyrir hjólhýsi eða húsbíl í hjólhýsagarðinum enda eru margir þeir sem kjósa að búa í hjólhýsi efnaminna fólk. Leiga verður að vera í takt við greiðslugetu. Þjónusta Í hjólhýsagarði þarf að vera aðgangur fyrir hjólhýsi/húsbíl að tengjast heitu og köldu vatni og rafmagni. Fullnægjandi hreinlætisaðstaða þarf að vera til staður og möguleiki á aðgangi að eldhúsi og matsal. Í hjólhýsagarði verða að sjálfsögðu að gilda fastmótaðar umgengnisreglur og eftirlit. Gæta þarf þess að þar ríki friður og ró og að enginn setjist þar að sem gerir öðrum ónæði, skapi óróa eða ógn af neinu tagi hvort heldur með hegðun, framkomu eða neikvæðum lífsstíl. Á meðan verið er finna staðsetningu og undirbúa hjólhýsagarð er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring eða allt þar til staðsetning hjólhýsagarðs hefur verið ákveðin í Reykjavík og hjólhýsabyggð geti byrjað að rísa. Staðan í dag Staðan í þessum málum er óviðunandi eins og hún er í dag.

Hjólhýsabúendur hafa margir verið í Laugardalnum í óþökk rekstraraðila og borgarinnar. Leiga þar hefur verið hækkuð óheyrilega sem hefur hrakið suma á brott. Sumir hafa sagt þá sögu að þeim hafi verið ráðlagt að fara á tjaldstæði á Laugarvatni. En hængur á því er að þetta fólk er sumt hvert í vinnu í Reykjavík. Öðrum segist hafa verið ráðlagt að leigja rándýrt rúmpláss á gistiheimili sem er með öllu óraunhæft. Enn aðrir segja að þeim hafi verið bent á að búa í tjaldi og þeim jafnvel sagt að sækja síðan um rúmpláss í Víðinesi. Í Víðinesi býr hópur með fjölbreytt vandamál sem kemur og fer auk þess sem þar eru engar almenningssamgöngur. Ekkert af þessum ráðum hentar hópnum sem hér um ræðir, fólki sem vill stöðugleika og næði til að lifa sínu lífi. Þessi hópur vill búa í sínum eigin húsbíl /eða hjólhýsi sem sjálfstæðir einstaklingar. Grunnatriðið í þessu sambandi er að vera á Reykjavíkursvæðinu eða mjög nálægt því og það verður að vera hægt að komast þangað með almenningssamgöngum.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.


Bloggfærslur 30. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband