Tíðar ferðir valdhafa borgarinnar erlendis tómt bruðl

Tugum milljónum árlega er varið í ferðir borgarstjóra, aðstoðarmanns hans, borgarfulltrúa og miðlægrar stjórnsýslu til útlanda ýmist á fundi, ráðstefnur eða í skoðunarferðir. Á sama tíma er þessi meirihluti sífellt að tala um losun gróðurhúsalofttegunda og að draga verði úr mengun. Í þessu tali þeirra er sjónum venjulega beint að bílaumferð og bíleigendum en minna fer fyrir umræðu um mengun og losun eiturefna út í andrúmsloftið á stærri mælikvarða.

Í borgarráði líður varla sá fundur að meirihlutinn samþykki ekki ferð borgarstjóra með fríðu föruneyti. Slík ferð þriggja aðila var samþykkt á síðasta fundi og skulu þeir fara á loftlagsráðstefnu til Madrid. Ég gat ekki setið á mér að bóka um þetta og lýsa því yfir að þetta væri bruðl og tal um kolefnisspor væri hreinn tvískinnungsháttur.

Mér finnst þetta hin mesta sóun og þurfi að senda einstakling í eigin persónu nægir að senda einn. Mér finnst lítið að marka allt þetta tal þessa meirihluta um kolefnisspor á sama tíma og ekkert lát er á ferðum valdhafa borgarinnar erlendis.

Hvar er Skype? Hvar er fjarfundatæknin? 

Hvað varðar skoðunarferðir fara oft margir af fagsviði eða úr fagráði. Ég spyr mig hverju þetta skilar? 
Engu fyrir borgarbúa svo mikið er víst. Þetta er jú gaman fyrir þann sem fer því reynslan og jákvæðar minningar frá skemmtilegri skoðunarferð í boði borgarbúa eru jú hans og hans eins.


Biðlistar, fríar skólamáltíðir, styrkir til dagforeldra, opnun á göngugötum og ráðstöfun innri leigu

Í titli má sjá nöfn á fimm breytingartillögum sem lagðar verða fram á þriðjudag í borgarstjórn en þá er síðari umræða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020. Greinargerðir með tillögunum má sjá á kolbrunbaldurs.is undir Borgarmál 2019.
 
F-1 Biðlistar vegna þjónustu við börn (SFS)
Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 40,5 m.kr. til þess að vinna niður biðlista í þjónustu við börn. Lagt er til að sú leiði verði farin að ráða inn hóp fagfólks tímabundið til að taka niður biðlistann. Ráðnir verði 2 sálfræðingar til viðbótar og einn talmeinafræðingur til eins árs til að byrja með fyrir leik- og grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. sem fjármagnað verði með tilfærslu af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

F-2 Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar.
Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr.á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.
 
F-3 Styrkir til dagforeldra (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 61,4 m.kr. Viðbótarútgjöld verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum til menningar- og ferðamálasviðs um sömu fjárhæð, nánar tiltekið verði fjárheimildir til annarrar menningarstarfsemi kostn.st. 03550 lækkaðar um 25 m.kr., til landnámssýningar kostn.st. 03710 lækkaðar um 25 m.kr. og fjárheimildir til listaverka á opnum svæðum kostn.st. 03350 lækkaðar um 12,1 m.kr.
 
F-4 Opnun á göngugötum í miðbænum
Flokkur fólksins leggur til að opna aftur göngugötur fyrir umferð a.m.k. þar til að framkvæmdir hefjast og nota tímann sem framundan er til að ræða við rekstraraðila á svæðinu
 
F-5 Ráðstöfun innri leigu í viðhaldskostnað
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi.

Bloggfærslur 29. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband