Ég er ekki vofa

Í morgun eins og aðra morgna gekk fólk til vinnu sinnar, sumir léttir í spori, fullir orku og tilhlökkunar á meðan skref annarra voru þyngri, jafnvel blýþung. Þungu skrefin voru skref þeirra sem lagðir eru í einelti á vinnustað sínum.


Í dag 8. nóvember er hinn árlegi Dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum. Í tilefni dagsins verður í þessari grein fjallað um einelti á vinnustað.

Birtingarmyndir eineltis á vinnustað eru margar og mismunandi, allt eftir eðli og aðstæðum á vinnustaðnum og fólkinu sem þar starfar. Stjórnun og stjórnunarstíll hefur mikil áhrif á vinnustaðamenninguna en einnig fjölmargir aðrir þættir. Þar sem einelti hefur náð fótfestu geta þolendur og gerendur verið úr röðum stjórnenda/millistjórnenda eða almennra starfsmanna.

Dæmi um eineltishegðun í garð samstarfsaðila er: 

Sýna dónalega, ruddalega eða hrokafulla framkomu 
Gera grín að, lítilsvirða eða hæðast að, baktala
Sniðganga, hunsa, einangra og hafna
Leyna upplýsingum til að skaða frammistöðu
Kaffæra í verkefnum
Gagnrýna, finna viðkomandi allt til foráttu, bera röngum sökum

Sú birtingarmynd sem margir þolendur segja að hafi farið hvað verst með sig er hunsun, að vera sniðgenginn, einangraður, látið sem viðkomandi sé ósýnilegur, sé einfaldlega ekki á staðnum.

Fyrirgefið þið, en ég er ekki vofa, varð þolanda eineltis að orði þegar honum ofbauð hversu langt starfsfélagarnir gengu í að láta sem hann væri ósýnilegur. Það var ekki aðeins gengið fram hjá honum og hann sniðgenginn heldur var einnig horft í gegnum hann.

Sekur en veist ekki um hvað

Eineltismálin hafa verið helstu sérfræðimál mín sem sálfræðingur í þrjátíu ár. Með hverju máli sem ég tók að mér lærði ég sjálf eitthvað nýtt sem ég gat nýtt mér í næsta máli. Ekkert mál er þó nokkurn tímann eins. Engu að síður eru ákveðin grunnatriði í vinnsluferlinu sem mikilvægt er að fylgja og vinnan þarf að einkennast af heiðarleika, hreinskilni og alúð gagnvart öllum þeim sem að málinu koma.


Við vinnslu eineltismáls þarf að gæta að rétti beggja aðila, þolanda og meints geranda. Aðili sem er ásakaður um einelti eða kynferðisofbeldi á rétt á að vita hvert sakarefnið er sem hann þarf að taka afleiðingum af.

Bauðst tækifæri hjá valdhöfunum

Í nýju starfi sem borgarfulltrúi er ég í öðru hlutverki. Það var mín fyrsta hugsun þegar ég var kosin hvort ég myndi geta nýtt mér reynslu mína sem fagaðili m.a. í eineltismálum í þágu starfsmanna borgarinnar. Það tækifæri bauðst. Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var tillaga mín um að fá að leiða þverpólitískan stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar um einelti, áreitni og ofbeldi samþykkt. Afrakstur stýrihópsins var lagður fyrir borgarstjórn til samþykktar 19. mars 2019. Nokkrar mikilvægar breytingar voru gerðar á stefnu og verklagi borgarinnar í ofbeldismálum í meðförum stýrihópsins.

Helstu efnislegar breytingar í stefnu og verklagi borgarinnar

Aukið gegnsæi er ein mikilvægasta breyting sem gerð var við endurskoðunina. Málsaðilar, þolandi og meintur gerandi, hafa nú aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem tengjast málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónu- og upplýsingalaga nr. 140/2012. Þau sem rætt er við (vitni) fá að vita það fyrirfram að ferlið er opið og gegnsætt gagnvart aðilum máls sem munu sjá skráningar allra viðtala. Aðilar sem rætt er við fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að lagfæra framburð sinn óski þeir þess.

Ákvörðun var tekin um að breyta skilgreiningu eineltis lítillega. Stýrihópurinn var sammála um að nota ekki hugtakið síendurtekin en í reglugerð ráðuneytisins nr. 1009/2015 er það ófrávíkjanlegt skilyrði að hegðunin þurfi að vera síendurtekin. Við þetta gat stýrihópurinn ekki unað enda hefur reynslan sýnt að þessi þrenging hefur fælingarmátt. Sumir þolendur segja að ekki þýði að leggja inn kvörtun þar sem skilgreiningin sé allt of þröng. Einstaka rannsakendur hafa nefnilega gengið svo langt að fullyrða að síendurtekin hegðun merki að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast undir skilgreiningu um einelti.

Að lokum má nefna aðra mikilvæga breytingu og snýr hún að óhæði rannsakenda. Ef leita þarf til fagaðila utan borgarinnar skal leita samþykkis þess sem tilkynnti málið (þolanda). Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.

Endurskoðuð stefna og verklag 2019 er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Sú gullna regla sem stýrihópurinn fylgdi við endurskoðun stefnunnar og verklags var sanngirni, meðalhóf og gegnsæi. Það tókst að ég tel með ágætum.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins

Greinin er birt í Morgunblaðinu í dag 8. nóvember


Bloggfærslur 8. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband