Tillagan um bifreiðastæðaklukkur í Miðbæ Reykjavíkur enn óafgreidd

Ekkert bólar á að tillaga Flokks Fólksins um bifreiðastæðaklukkur í Miðbæ Reykjavíkur komi til afgreiðslu, ekki það að auðvitað verður hún felld. Tillagan var lögð fram 20. febrúar í skipulags- og umhverfisráði og vísað til meðferðar hjá starfandi stýrihóp um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum.

TILLAGA FLOKKS FÓLKSINS UM AÐ TEKNAR VERÐI UPP BIFREIÐASTÆÐAKLUKKUR Í MIÐBÆ REYKJAVÍKUR

Lagt er til að Reykjavíkurborg innleiði bifreiðastæðaklukkur í þar til gerð merkt stæði í miðbænum og nágrenni hans. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eins og oft er kallað gæti komið að gagni ekki einungis í miðbænum heldur líka næst háskólanum og víðar.
Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu einmitt í borgum á stærð við Reykjavík. Framrúðuskífa hentar sérlega vel ekki bara fyrir borgir af þessari stærðargráðu heldur einnig á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík. Misjafnt yrði eftir stæðum hversu lengi má leggja, frá einni upp í tvær klst. eftir því hve nálægt miðbænum stæðið er. Leyfilegur tími er tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er, klukka rangt stillt eða engin klukka sjáanleg í framrúðu er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá.
Greinargerð:
Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel t.d. á Akureyri og ríkir með það almenn ánægja. Hægt er að hafa þann tíma sem fólk leggur frítt breytilegan eftir staðsetningu. Reynslan á Akureyri hefur jafnframt verið sú að tekjur bílastæðasjóðs bæjarins urðu meiri. Sé farið fram yfir tímann hefst gjaldtaka og síðan sekt ef ökutæki er lagt fram yfir leyfilegan tíma. Með þessu fyrirkomulagi nýtast stæðin betur og leiða má sterkar líkur að því að verslun í miðbænum muni taka fjörkipp, verði þessu kerfi komið á. Eins og vitað er, er verslun t.d. á Laugavegi að dala og eru kaupmenn verulega uggandi, hinn almenni borgar leita frekar annað vegna hárra bílastæðisgjalda. Fjölmargar verslanir við Laugaveg eru nú að loka og flytja sig annað. Haldi sem horfi mun Laugavegurinn verða einungis með minjagripaverslanir.
Það er löngu tímabært að skoða til hlítar möguleika á að taka upp bifreiðaklukkur í Reykjavík í stað gjaldmæla og skorar Flokkur fólksins á borgaryfirvöld að koma á samstarfshópi borgarinnar og hagsmunaaðila í miðborginni sem myndu kynna sér betur kosti þessa kerfis með það fyrir augum að innleiða það. Með þessu kerfi eykst sparnaður umtalsvert við gjaldmælakostnað og viðhald á þeim.
Með tilkomu nýrra gjaldmæla hefur reynst auðvelt að taka stæði í gíslingu dögum saman án þess að hægt verði að beita sektarákvæðum. Það hefur borið við að á bifreiðastæðum fyrir framan hótel við Laugaveginn hafi bifreið staðið í sama stæðinu dögum saman, líklega meðan leigjandi/eigandi bifreiðarinnar hefur brugðið sér í nokkurra daga ferð út fyrir borgina. Þetta þarf að hindra að geti gerst og besta leiðin við því er að taka upp bifreiðarklukku. Hagkvæmni hennar er ótvíræð.

Bloggfærslur 19. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband