Í sporum þeirra sem stama

naerverusalarstakrm139.jpgSamkvæmt rannsóknum er áætlað að 4% barna stami og 1% fullorðinna. Stam er afar erfið máltruflun sem hefur oftar en ekki neikvæð áhrif á sálræna líðan þess sem stamar og gildir þá einu hvort stamið er lítið eða mikið. 

 

Stam getur birst með ýmsum hætti. Dæmi eru um að stam einstaklings sé  svo mikið að hann stami í hverju orði. Í öðrum tilvikum birtist stamið e.t.v. einungis í upphafi máls eða í upphafi setningar/orðs eða aðeins þegar viðkomandi ber fram ákveðin hljóð.

 

Vitað er að í mörgum tilvikum hverfur stamið, að hluta til eða að öllu leyti, með auknum þroska eða þegar viðkomandi fullorðnast.  Í öðrum tilfellum fylgir stamið manneskjunni áfram til fullorðinsára en kann þó að taka einhverjum breytingum. Það er ekki óalgengt að það minnki og hafi því ekki jafn truflandi áhrif á fullorðinsárum.

 

Sá sem hefur stamað frá barnsaldri hefur líka í tímans rás lært að fara í kringum stamið og fundið leiðir til að komast frekar hjá því með því að forðast þau hljóð sem kalla það helst fram. Sem dæmi, sé stamið bundið við ákveðin hljóð þá veigrar viðkomandi sér við að hefja setningu á því hljóði.  Sumir sem hafa glímt lengi við stam hafa sagt að ef þeir reyna að tala mjög hratt komist þeir frekar hjá því að stama. Aðrir fullyrða að tali þeir hægar og jafnvel hægt er síður líklegt að þessi máltruflun komi fram. Enn öðrum finnst þeir ná betri tökum á framsetningu málsins ef þeir hafa það sem þeir ætla að segja skrifað fyrir framan sig. 

 

Vitað er fyrir víst að börn sem stama er frekar strítt og þau lögð í einelti. Afleiðingar stríðni og langvarandi eineltis hafa oftar en ekki langvarandi neikvæð sálræn áhrif á þá sem fyrir eineltinu verður.  Börn sem stama og sem hefur sérstaklega verið strítt vegna þess finna oft til innri vanmáttar og félagslegs óöryggis. Tilfinningar eins og skömm geta gert vart við sig. Mörg þessara barna vilja draga sig í hlé og séu þau í félagslegum aðstæðum forðast þau oft í lengstu lög að tjá sig. Sé um að ræða aðkast vegna stamsins til lengri tíma getur sjálfsmynd þeirra orðið fyrir varanlegu  hnjaski.  Eftir að komið er á fullorðinsár og stamið er enn til staðar eru þessir einstaklingar oft áfram hlédrægir  og forðast að taka þátt í umræðum eða leggja orð í belg.  Séu þeir í félagsskap ókunnugra líður þessum einstaklingum oft sérlega illa með sjálfa sig og kjósa að sitja þögulir.

 

Hvernig meðferð stendur börnum sem stama til boða og hvernig er hægt að aðstoða foreldra þannig að þau geti aðstoðað börn sín við að draga úr þessari erfiðu máltruflun?
Hvernig meðferð stendur fullorðnum einstaklingum sem stama til boða?

 

Stam hefur ekkert að gera með tungumálið. Orsakir eru líffræðilegar og tengjast taugaboðum. Hvernig stamið birtist og hversu mikið það er byggist oft á aðstæðum sem viðkomandi er í hverju sinni. Líðan sem tengist staminu er einnig mjög einstaklingsbundin.  Sem dæmi ef sá sem stamar kennir streitu, kvíða eða finnst hann þurfa að vera snöggur að tjá sig, má leiða líkum að því að stamið verði jafnvel meira og tíðara. Taka skal fram að margir sem eiga við þessa málatruflun að stríða sérstaklega ef hún er væg, eru afslappaðir gagnvart henni ekki hvað síst eftir að komið er á fullorðinsár.

 

Í nærveru sálar 15. mars mun Jóhanna Einarsdóttir,  lektor við HÍ fræða okkur um stam. Umræðan mun ekki hvað síst snúast um sálræn áhrif og neikvæðar afleiðingar stams á börn og fullorðna sem glíma við þessa erfiðu máltruflun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband