Andlegt ofbeldi

andlegt ofbeldi mynd 1Þegar talað er um að einhver sé beittur andlegu ofbeldi er oftast átt við ofbeldi sem varir yfir einhvern tíma frekar en t.d. einstaka neikvæða framkomu sem sýnd er vegna mikils pirrings eða skyndilegrar reiði. Þá getur verið um að ræða ákveðnar aðstæður þar sem ágreiningur er í gangi, deilur eða óvæntar uppákomur hafa átt sér stað.

Andlegt ofbeldi í sinni verstu mynd getur verið afar dulið, stundum þannig að það tekur þann sem fyrir því verður jafnvel einhvern tíma að átta sig á að hann er beittur því. Í andlegu ofbeldi felst ekki alltaf bara ljót orð eða hótanir heldur er "ofbeldið" sýnt með ýmsu líkamsmáli s.s. tónninn í röddu getur verið ógnandi, einnig svipbrigði og fleira í tjáningunni sem ætlað er að styðja við ljótu orðin og svívirðingarnar.

Sem dæmi, væri ég beitt grófu andlegu ofbeldi af einhverjum er ég að vísa í orðbundna og/eða táknræna hegðun/framkomu sem ég upplifi særandi, niðurlægjandi, hótandi eða meiðandi á einhvern hátt.

Ég væri að skynja/upplifa a.m.k.eitthvað eða allt af eftirfarandi:
Fjandsamlega framkomu viðkomandi gagnvart mér og að hann/hún vilji stjórna mér

Niðurlægingu, skömm þar sem viðkomandi, stundum í viðurvist annarra, gerir lítið úr mér, gagnrýnir mig, reynir að gera mig að athlægi eða vill sem oftast benda á og gera mikið úr "göllum" sem honum eða henni finnst ég hafa. Gagnrýnin er yfirleitt mjög persónuleg og varðar þá oft vitsmuni (vera heimskur) og/eða útlit.

Gerandi andlegs ofbeldis í sinni verstu mynd gagnrýnir e.t.v. einnig ákvarðanir sem ég hef tekið eða ekki tekið, eða eitthvað sem ég hef gert eða ekki gert, sagt eða ekki sagt, hvernig ég hef staðið mig o.s.frv.

Í stuttu máli hvað eina í mínu fari og atferli er ekki nógu gott heldur vill gerandinn benda stöðugt á hversu ómöguleg manneskja ég er. Hann gerir sér því far um að koma því á framfæri sem oftast og með sem skýrustum hætti og jafnvel við sem flest tækifæri.

Í andlegu ofbeldi felst oft illkvittni, eins og sá sem beitir því óski þess að illa fari fyrir manneskjunni sem hann beitir ofbeldinu eða í það minnsta óskar hann þess að hún geri mistök. Þá er jafnvel eins og hlakki yfir gerandanum. Þá hefur hann einnig enn meira milli handanna til að spila úr þegar hann vill sverta og svívirða manneskjuna sem hann beitir ofbeldinu. 

Ef einhver segist vera beittur andlegu ofbeldi er hann eða hún oftast að vísa í eitthvað viðvarandi, endurtekið, eitthvað sem manneskjunni finnst hún búa við (á heimili eða vinnustað) og sem vofi yfir henni. Um er að ræða eitthvað sem hún getur vænst en veit kannski ekki alveg nákvæmlega hvenær, í hvernig mynd eða við hvaða aðstæður það birtist næst.

Það sem einkennir persónuleika geranda andlegs ofbeldis er ekki bara að vera gagnrýninn og dómharður heldur vill hann gefa af sér mynd þess aðila sem veit allt best, sé sterkur og sá sem hefur valdið. Þess vegna notar hann tækifæri sem gefast til að niðurlægja manneskjuna sem hann beitir ofbeldinu því þá finnst honum hann vera að upphefja sig. Þá finnst honum hann vera að styrkja sig og skerpa enn frekar á þessum mikla mun á sér og "hinum", sér í hag, hinum síðarnefnda í óhag.

Í framkomu geranda andlegs ofbeldis (í sinni verstu mynd) má iðulega finna mikla stjórnsemi, ósveigjanleika, óbilgirni og ósanngirni sem er liður í að valda manneskjunni sem beitt er ofbeldinu sem mestri vanlíðan og sérstaklega vanlíðan með sjálfa sig. 

andlegt ofbeldi mynd 2

Hvar eru mörkin?

Sá sem sýnir annarri manneskju neikvæða framkomu er ekki endilega gerandi "andlegs ofbeldis", sér í lagi ef viðkomandi sýnir ekki slíka framkomu að öllu jöfnu og jafnvel mjög sjaldan. Sennilega hafa flestir einhvern tíman sagt ljóta hluti við manneskju t.d. í bræðiskasti eða í ergelsi t.d. ef deilur eru í gangi eða ef manni ofbýður eitthvað í fari einhvers.

Reglan er engu að síður ávallt sú að þegar einhver segist beittur ofbeldi að gera þá aldrei lítið úr upplifun manneskjunnar hvort heldur hún sé að andlegu eða líkamlegu ofbeldi þar með talið ofbeldi eins og einelti. Á vinnustöðum skal þess vegna ávallt skoða slíkar kvartanir vandlega. Sama gildir um heimilisofbeldi. Þann vanda verður samfélagið að berjast gegn, allir sem einn.

Samantekt

Sá sem beitir andlegu ofbeldi notar það til að stjórna og brjóta niður sjálfsmynd og sjálfsvirðingu manneskjunnar sem hann beitir ofbeldinu. Afleiðingin verður m.a. sú þolandinn fer að líta á sig með neikvæðum augum og trúa að hann/hún sé ómöguleg manneskja, ónýt manneskja, síðri en aðrir, manneskja sem geti ekkert, kunni ekkert, skilji ekkert og sé gagnslaus. Markmiðið með ofbeldinu, meðvitað eða ómeðvitað er að „minnka“ manneskjuna og planta inn í hana vanlíðan og óöryggi um sjálfa sig. Mjög oft er markmið gerandans einnig að gera manneskjuna háða sér, eða aðstæðunum, fá hana til að trúa að hún geti ekki staðið ein eða verið sjálfstæð og megi bara þakka fyrir að einhver vilji vera með henni eða að ekki sé bara búið að reka hana sé um að ræða vinnustað.

Hvað býr innra með geranda andlegs ofbeldis er efni í annan pistil.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband