Grét þegar bíllinn var dreginn burtu

Hluti viðtals sem birtist í Helgarblaði DV.

Kolbrún Baldursdóttir hefur um árabil verið einn öflugasti málsvari barna.  Sem starfandi sálfræðingur til 25 ára, hefur hún unnið mikið með börnum sem eiga mjög bágt. Nú ætlar hún að að færa baráttuna gegn óréttlæti, mismunun og fátækt inn í sal borgarstjórnar sem oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. Kolbrún var gift Vigni Jónssyni, sem kom út úr skápnum sem samkynhneigður maður árið 1983. Kristinn hjá DV ræddi við Kolbrúnu og Vigni.

Féll strax fyrir stefnu Flokks fólksins

Kolbrún er fædd og uppalin í Reykjavík og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur síðan árið 1992 eftir að hún sneri heim úr námi frá Bandaríkjunum. Hún hefur auk þess starfað í góðgerðarmálum og var formaður Barnaheilla frá 2012-2018. Kolbrún leiðir nú lista Flokks fólksins, sem býður fram í fyrsta sinn til borgarstjórnar í Reykjavík. Hún er þó ekki ókunn stjórnmálunum því hún er varaþingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún kynntist Ingu Sæland síðasta sumar en fannst þó einhvern veginn eins og þær hefðu alltaf þekkst og verið vinkonur. Á þeim tímapunkti var flokkurinn að mælast hátt í skoðanakönnunum og Inga sífellt að verða meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

„Stefna Flokks fólksins var eins og snýtt út úr nösunum á mér og Inga var kona sem mig langaði að kynnast. Hún segir hlutina hreint út og eignast kannski fullt af óvinum fyrir vikið. En henni er bara alveg sama. Það sama á við um mig, ég berst af hugsjón fyrir fallegan málsstað, ég er ekki í neinni vinsældakeppni.“

Kolbrúnu bauðst að vera oddviti Flokks fólksins í Reykjavík og svo sannarlega tók ég því af auðmýkt. Það eru svo mörg málefni sem eru mín hjartans mál. Þess vegna vil ég komast að stjórnartaumunum. Ég hreinlega brenn fyrir því að mega hjálpa fólkinu okkar sem á um sárt að binda.  Skólamálin og börnin eru mér sérstaklega hugleikin enda hef ég mikla reynslu af störfum mínum með þeim, bæði sem skólasálfræðingur og gegnum störf mín hjá Heilsugæslunni. Ég mun aldrei gleyma að börnin okkar eru fjársjóður framtíðar og við verðum að gæða líf þeirra eins mikilli hamingju og barnslegri gleði og nokkur kostur er.

Að eiga öruggt heimili er algjör forsenda fyrir velferð fjölskyldunnar. Algjör forsenda fyrir öryggi barnsins.  Stefna Flokks fólksins í húsnæðismálum er því algjör hornsteinn til betra lífs í borginni fyrir alla.  Við viljum afnema ríkjandi lóðaskortsstefnu og koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi. Til þess þurfum við að fá lífeyrissjóðina og ríkið til liðs við okkur.  Við mismunum ekki borgurunum og viljum aðgengi fyrir alla. Við viljum tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  Við munum þrífa götur borgarinnar, stórefla almenningssamgöngur og losa um flöskuhálsa í umferðinni. Einkabíllinn er vinur okkar sem og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni.

Ánægjulegt hvað nánast allir flokkar aðhyllast stefnu Flokks fólksins

 „Mér finnst merkilegt að sjá aðra flokka vera að gera stefnuna okkar að sinni.  Það segir mér einfaldlega að þeir hafa enga hugsjón sjálfir fyrir því sem þeir eru að gera. Nei þeir eru að gera út á það sem þeir telja að muni selja og fá kjósendur til að kjósa sig.  Ég trúi því hins vegar ekki að það sé nóg að tileinka sér stefnu annarra um málefni sem viðkomandi hefur ekki virt viðlits í stjórnartíð sinni. Kjósendur sem búa við verkin þeirra hafa engu gleymt. Nú er t.d oddvit VG farinn að tala um að endurreisa verkamannabústaðakerfið. En það er eitt af aðalbaráttumálum Flokks fólksins og hefur verið frá stofnun hans.  Hvar eru 3000 íbúðirnar sem átti að byggja á kjörtímabilinu?  Félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar hefur mörgum verið illa við haldið, eru heilsuspillandi, fangnar af myglu og raka.  Hver trúir þessum hola hljómi sem er án nokkurs raunverulegs vilja til að breyta í þágu þeirra sem þurfa á hjálpinni að halda? Ekki ég.  Þess vegna bið ég ykkur að varast eftirlíkingar, þær virka aldrei eins og hið sanna.

Skóli án aðgreiningar er að eyðileggja framtíð þúsunda barna

Hún er alvarleg í bragði þegar hún segir:

„Skóli án aðgreiningar eins og hann er rekinn nú er ekki að virka.  Þetta er ónýtt kerfi sem er að eyðileggja framtíð þúsunda barna.  30% drengja útskrifast eftir 10 ára skólagöngu, illa læsir og með eða með lélegan lesskilning.  Þetta er algjör þjóðarskömm.  Það þarf miklu meira utanumhald með hverju og einu barni, hætta að troða þeim öllum í sama boxið þrátt fyrir gjörólíkar þarfir þeirra. Það þarf að fullnægja þörfum þeirra allra, þurfum fleiri sálfræðinga, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, aðstoðarfólk. Skólahúsnæði víða er ekki einu sinni hentugt fyrir þá sem eru þroskahamlaðir. Þú getur ekki sett alla undir sama hatt í einhverri byggingu. Við erum að sliga kennara af álagi og um leið erum við að missa þá frá okkur til annarra starfa og fæla unga fólkið frá því að fara í kennaranám. Við verðum að gjörbreyta kennsluháttum í grunnskólanum og það í samvinnu við kennarana og það strax.  Allt of mörgum börnum líður mjög illa í skólanum.

Sem sálfræðingur fæ ég mörg þessara barna til mín. Sum þeirra treysta sér ekki til að vera í skólanum lengur. Þau hætta að mæta. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar. Þau eru buguð af vanlíðan og kvíða segjast jafnvel vilja deyja.

Allt þetta er í boði núverandi borgarstjórnar. Lítið sem ekkert er gert úr vandanum og gagnrýni afskrifuð sem dylgjur og rugl.

Kolbrún vill berjast fyrir meira sjálfstæði skólanna, að þeir velji hvaða reglur og stefnur þeir setja sér. Hverfin séu mörg hver ólík og þarfir nemendanna ekki alltaf þær sömu. Þá vill hún efla sérskólana til muna og gera börnum auðveldara um vik til að komast inn í þá.

„Börn sem eru rétt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru varðandi vitsmunaþroska þeirra, lenda í almennum bekkjum og eiga þá oft mjög erfitt uppdráttar. Þau börn sem hins vegar komast í sérskóla kynnast venjulegu skólalífi á sínum forsendum. Þar geta þau lært eins og aðrir, sinnt félagslífi og verða ekki fyrir aðkasti enda eru þar meðal jafninga. Skóli án aðgreiningar er falleg hugsjón sem er alls ekki að virka

Ertu hlynnt einkarekstri í skólum?

„Það eru kostir og gallar en ég er alltaf dálítið hrædd við einkarekstur því að þegar rekstur er hagnaðardrifinn, kemur það því miður oft niður á þjónustunni. Ég vil frekar sjá sérúrræði innan opinberu skólanna og aukið fjármagn.“

Ekki lengur miðborgin mín

Annað höfuðmálefni Flokks fólksins er að allir geti fengið þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði. Kolbrún segir að sú þéttingarstefna sem rekin er af meirihlutanum nú, sé ekki gerð fyrir hinn almenna borgara og þá sem haldið er hér í fátækt.

„Við sáum í fréttum að það er verið að byggja fjögur hundruð milljóna króna íbúðir með útsýni að Hörpunni.  101 er ekki lengur miðborgin mín. Ég er alin upp í Vesturbænum og lék mér í kringum Tjörnina. Þessi miðborg er aðeins fyrir auðjöfra og ferðamenn. Við hin, hinn sauðsvartur almúginn, getum verið annars staðar. Kannski einhvers staðar í tjaldi, þó ekki lengur í Laugardalnum.“

Hvar viljið þið byggja?

„Hvar sem hægt er að byggja. Það vantar íbúðir á við heilan Mosfellsbæ Það er neyðarástand í húsnæðismálum og það þarf neyðaraðgerðir, rétt eins og í Eyjagosinu og þegar við byggðum upp Breiðholtið á sínum tíma“. Það er til nóg af lóðum innan borgarmarkanna.

Hvernig á að fjármagna alla uppbygginguna?

„Ég hef áður vísað til þess að við viljum samvinnu við lífeyrissjóði og ríkið. Ef allir leggjast á árarnar þá munum við lyfta algjöru grettistaki í því að koma fólkinu okkar í öruggt skjól.  Þessi sérstaka uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis mun ekki einkennast af græðgisvæðingu heldur verður hún algjörlega óhagnaðardrifin.  Kjörorðið okkar er Fólkið fyrst

Bent hefur verið á að nágrannasveitarfélög beri einnig ábyrgð og Kolbrún tekur heilshugar undir það. Hún segir að borgin geti þó ekki vikist undan ábyrgð með því að benda á vankanta annars staðar. Stefna Flokks fólksins er skýr í þessum efnum, það er að sameina eigi öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, til að samrýma kerfi og minnka yfirbyggingu.

„Við getum ekki haft bæjarfélög fyrir útvalda eins og til dæmis Seltjarnarnes og Garðabæ. Álagið lendir þá af meiri þunga á Reykjavík sem er ekkert annað en mismunun. Ég held að það verði stutt í að þetta komist til tals á Alþingi.“

Kolbrún vill minnka flækjustigið hjá stjórnsýslu borgarinnar, fækka nefndum og einfalda kerfið. Borgarstjóri beri á endanum ábyrgðina en langar boðleiðir til hans og úrvinnsluferli þar sem einn bendir á annan valdi óréttlætanlegum töfum á málefnum þeirra sem reiða sig á kerfið.

Grét þegar bíllinn var dreginn burtu

Núverandi meirihluti borgarstjórnar er með algjörlega brenglaða forgangsröðun að mati Kolbrúnar. Henni fallast hendur þegar umræðan beinist sífellt að grænni borg, þéttingu byggðar og borgarlínu. Í samgöngumálum vill Flokkur fólksins efla strætisvagnakerfið, þannig að það virki fyrir allra með tíðum ferðum. En þrenging gatna og fá bílastæði er orðið stórt vandamál að mati Kolbrúnar.

„Ég fékk símhringingu frá Landspítalanum þar sem mér var sagt að móðir mín væri að deyja. Ég þusti af stað en fann hvergi bílastæði við spítalann. Í örvæntingu lagði ég á ólöglegum stað og hljóp inn. Þegar ég kom út af spítalanum, tveimur tímum síðar var búið að draga bílinn minn í burtu. Ég settist niður á götuna og fór að hágráta.“

Auk þess er margt í samgöngu kerfinu sem virkar ekki eins og til dæmis ljósakerfið. Karl Berndsen, öryrki og hárgreiðslumeistari, er í öðru sæti á listanum. Hann er lögblindur og gerði úttekt á gönguljósum.

„Hann komst að því að um 60 til 80 prósent ljósanna virkuðu ekki fyrir blinda. Þessu er komið upp en síðan er því ekki haldið við. Þetta er dæmi um nauðsynlega þjónustu fyrir fatlað fólk og það gengur ekki að þetta sé svona.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband