Nóg komið af aðgerðarleysi í húsnæðismálum

Aukafundurinn vegna vaxandi vanda heimilislausra er í borgarráði í dag kl. 11. Tillögur Flokks fólksins eru fjórar og eru býsna fjölbreyttar enda þarfir og væntingar heimilislausra ólíkar. Tillögurnar hafa verið unnar í samvinnu við fjölmarga sem eru heimilislausir eða búa við óstöðugleika í húsnæðismálum sem og fleiri.

Flokkur fólksins er einnig með í öðrum sameiginlegum tillögum stjórnarandstöðuflokkanna. 

Greinargerðir með þeim má sjá á kolbrunbaldurs.is

Tillögurnar eru eftirfarandi:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að útvega lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotuðu húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk sem er húsnæðislaust eða býr við óstöðugleika í húsnæðismálum

Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks sem er í húsnæðisvanda

Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðraBreiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband