Ætluðu að negla borgarfulltrúann í beinni

Á fundi borgarstjórnar 18. júní var á dagskrá Reglur um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa sem er ekki frásögu færandi nema vegna þess að þar átti sér stað sérkennilegur hlutur. Borgarfulltrúi meirihlutans sem einnig var að ljúka tíma sínum sem forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á einn fulltrúa sem átti sér einskis ills von og krafði hann svara um eignarhlut sinn í "fyrirtæki".
Þetta var með öllu óviðeigandi hegðun enda ekki verið að ræða persónulega hagsmuni einstakra borgarfulltrúa heldur almennar reglur. Þessi árás var augljóslega undirbúin enda þegar litið var upp á áheyrendapallanna mátti sjá ruv var mætt með upptökuvélina. 

Ég er sennilega frekar barnaleg því ég hef ekki viljað trúa því að meirihlutinn hefði það í sér að skipuleggja svona persónulega árás á einstaka fulltrúa og ætla að negla hann í beinni.

Fyrir fráfarandi forseta borgarstjórnar er leiðinlegt að ljúka forsætistíð sinni með svona sprengju því þetta kallað á hörð viðbrögð og gagnrýni á hana.

Í dagskráliðnum á undan var verið að samykkja siðareglur. Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að samþykkja siðareglur en þó með ákveðnum fyrirvara. Sá fyrirvari tengist nokkrum hlutum sem ég rek í bókun (sjá neðar). En hér koma tvær bókanir, sú fyrri sem tengist liðnum: reglur um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa og sú síðari við liðnum siðareglur.

Bókun Flokks fólksins um reglur skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa

Undir þessum lið, endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa átti sér stað afar óviðeigandi hlutur þegar forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa.  Í liðnum á undan var verið að samþykkja siðareglur sem sami fulltrúi meirihlutans hafði rétt svo lesið upp af stolti. Ekki mikið um alvöru þar! Borgarfulltrúi Flokks Fólksins sat hjá undir liðnum um siðareglur enda vissi að valdhöfum er ekki alvara með hvorki þessum né öðrum siðareglum. En að efni liðsins: Afar mikilvægt er að kjörnir fulltrúar skrái fjárhagslega hagsmuni sína. Óskað hefur verið eftir að Persónuvernd veitti Reykjavíkurborg samráð í samræmi við ákvæði 30. gr. laga og er málið eðlilega ekki tækt fyrr en sá úrskurður liggur fyrir.  Það er gott að meirihlutinn í borginni hefur séð af sér að ætla að samþykkja þessar reglur hér í borgarstjórn með fyrirvara um úrskurð Persónuverndar eins og til stóð. Nú á að vísa því í borgarráð sem er afar sérkennilegt því málið var á dagskrá forsætisnefndar sl föstudag. Ekki er alveg ljóst hvaða snúninga verið er að taka hér með því að vísa málinu til borgarráðs og situr því borgarfulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu siðareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki mótfallinn þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn hef ég hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvara. Alla vega ekki á meðan stjórnunarstíll meirihlutans er litaður af slíkri valdbeitingu sem ég hef áður lýst í bókunum.  Það „verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til að starfsmenn eigi greiða leið að kvarta yfir borgarfulltrúum ber ekki mikinn vott um vilja til góðra samskiptahátta eða samvinnu. Hvað þá sá óhróður sem borgarritari dreifði á sameiginlegu vefsvæði með stuðningi borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og sagði þá vera „eins og tudda“ með þeim orðum „þeir sem bregðast við orðum hans eru þeir seku“. Einn fulltrúi meirihlutans kynnti undir á sama vefsvæði með því að nafngreina „hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Varla samræmist þetta nokkrum siðareglum? Borgarmeirihlutinn núverandi sem að hluta til hefur setið í mörg ár hefur heldur ekki sýnt gott fordæmi þegar kemur að reglum um gott siðferði. Í gögnum um t.d. úttekt braggans er staðfest að valdhafar hafi farið á svig við siðareglur t.d. þær sem kveða á um að  forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband