Ósiðleg umræða í borginni og tjáningarfrelsið

Ósiðleg umræða í borginni og hafa ALLIR frelsi til að tjá sig opinberlega?

Þrír borgarfulltrúar lögðu fram fyrirspurn um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi.
Á fundi borgarráðs 27.6. var lagt fram svar, nokkuð merkilegt svar reyndar að því leyti að það er fyrst svona almennt en fer síðan að taka á sig nokkurn varnarblæ.

Svar frá Skrifstofu borgarstjórnar:

"Allir starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa frelsi til að tjá sig opinberum vettvangi og er tjáning starfsmanna vernduð af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Enginn starfsmaður Reykjavíkurborgar hefur verið áminntur vegna ummæla á opinberum vettvangi enda er meginregla ákvæða kjarasamninga um áminningar bundin við atriði sem snúa að framferði eða háttsemi starfsmanns í starfi. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa einnig frelsi til að tjá sig um atriði er tengjast starfi þeirra, svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðarskyldur standi því ekki í vegi. Starfsmaður er þannig bundinn þagnarskyldu um upplýsingar sem eru trúnaðarmerktar á grundvelli laga eða annarra reglna, eða þegar að öðru leyti er nauðsynlegt að halda þeim leyndum til að vernda verulega opinbera hagsmuni eða einkahagsmuni."

Í fyrirspurninni er óskað eftir upplýsingum um það hvort starfsmenn sem hafa orðið uppvísir að því að vera með ósiðlega umræðu á opinberum vettvangi hafi fengið athugasemdir eða áminningu frá sínum yfirmönnum og stjórnendum þ.e. skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjórnar, borgarritara eða borgarstjóra.

Því er til að svara að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóta líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum.

Tjáningarfrelsið er vissulega háð ákveðnum takmörkunum en slíkar takmarkanir verða ávallt að eiga stoð í lögum líkt og fram kemur í lagaðskilnaðarreglu 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélag getur ekki takmarkað tjáningarfrelsi starfsmanna sinna án þess að hafa til þess skýrar heimildir. Ekki hafa verið sett lög um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga, en um réttindi og skyldur þeirra í starfi gilda fyrst og fremst ákvæði kjarasamninga og ráðningasamninga, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélög verða að reiða sig á framangreindar reglur í samskiptum sínum við starfsmenn sína og geta t.a.m. ekki lagt skorður við tjáningarfrelsi starfsmanna sinna eða beitt þá viðurlögum á sama hátt og ef um ríkisstarfsmenn væri að ræða, en þá koma lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til skoðunar. Engar kvartanir né ábendingar hafa borist yfirmönnum á þeim skrifstofum sem vísað er til í fyrirspurninni vegna sinna starfsmanna, hvort sem um er að ræða "ósiðlega umræðu" né nokkra aðra tjáningu sem gæti mögulega réttlætt athugasemdir og/eða áminningu frá yfirmanni. Í því samhengi er nauðsynlegt að benda á að hvers konar tjáning sem er greinilega sett fram í eigin nafni starfsmannsins, ótengdum við starf viðkomandi og varða ekki málefni sem starfsmaðurinn kemur að í störfum sínum, getur aldrei verið tilefni til afskipta yfirmanna enda væri þá um að ræða brot á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklingsins.

Fyrirspurnin er takmörkuð við tvær skrifstofur Ráðhúss Reykjavíkur þar sem starfa samtals á annan tug starfsmanna við ýmis störf. Með slíkri framsetningu er gefið til kynna að þeir starfsmenn hafi gerst sekir um ósiðlega umræðu á opinberum vettvangi án þess að það sé skýrgreint frekar. Í því samhengi er vísað til álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar frá 14. desember 2018 þar sem fram kemur að almennt hlýtur það að teljast óheppilegt að kjörnir fulltrúar geri störf starfsmanna sveitarfélaga að umtalsefni í opinberri umræðu, sérstaklega ef ummælin fela í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess. Sú verkaskipting sem er í gildi hjá Reykjavíkurborg samkvæmt 1. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga felur í sér að að það er borgarstjóri sem er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins. Eftirlit með störfum einstakra starfsmanna fellur samkvæmt þessari verkaskiptingu undir borgarstjóra en ekki kjörna fulltrúa, enda þótt sveitarstjórn hafi almennt vinnuveitenda- og eftirlitshlutverk." 

Virðingarfyllst Stefán Eiríksson, borgarritari Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar

Hér kemur svo bókun þriggja fulltrúa minnihlutans við þessu svari: 

Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband