Kynning Strætó bs á framtíðarsýn fyrirtækisins eins og falleg auglýsing

Fulltrúar frá Strætó bs voru með kynningu á fundi borgarráðs. Vænsta fólk. Verð samt að segja að þessi kynning var meira eins og falleg auglýsing. Ekki eitt orð um að reyna að taka á öllum þeim fjölda kvartana sem fyrirtækinu berast. Strætó er í meirihlutaeigu borgarinnar, byggðasamlag eins og Sorpa. Ég fann mig knúna til að skrifa bókun eftir þessa kynningu og hún er hér:

Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig á að framkvæma þær. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki 2030. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr og er aðeins gerð hér í takmörkuðum mæli. Það á að kolefnisjafna segir í kynningunni en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en það metan er ekki nýtt og því þess vegna brennt á báli. Ekki er unnið að því að auka hlut metans frá Sorpu sem eldsneyti hjá Strætó en það ætti að vera sjálfsagt í hagræðingar og sparnaðarskyni.

Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni kvartana. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hjá Strætó bs en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær oft ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu Strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en á þessum vanda ætti að vera hægt að taka strax af krafti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband