Dýrkeypt bið

Það styttist í skólabyrjun. Stundum er eins og stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir hversu dýrkeypt það getur verið fyrir börn að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila s.s. skólasálfræðinga. Í febrúar voru 674 börn á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu, af þeim biðu 429 börn eftir fyrstu þjónustu. Ákall foreldra og skóla má sjá í fjölmörgum greiningum sem gerðar hafa verið á þörfum skólasamfélagsins. Kallað er eftir auknum stuðningi við bæði nemendur og starfsfólk og markvissari og aukinni þverfaglegri samvinnu. Skólastjórnendur hafa kallað eftir að fá fagfólk skólaþjónustunnar meira inn í skólana til að létta álagi á kennara. Það hlýtur að vera flestum ljóst að skólasálfræðingum þarf að fjölga til að möguleiki verði á að taka á áralöngum kúfi og nýjum kúfi sem spáð hefur verið að komi í haust vegna áhrifa og afleiðinga COVID-19.

Dýkeyptar afleiðingar biðar

Börn sem fá ekki aðstoð með vandamál sín þróa oft með sér djúpan sálrænan vanda sem vex og getur allt eins orðið óviðráðanlegur. Sagt er að málum sé forgangsraðað og að þau mál sem ekki þoli bið séu tekin framar á biðlistann. En þola einhver mál bið? Hér er verið að tala um börn en ekki fullorðna. Þau mál sem fá forgang eru oft komin á alvarlegt stig. Börn sem eru jafnvel farin að skaða sjálfa sig og eru jafnvel með sjálfsvígshugsanir. Vandi af því tagi skellur ekki á á einum degi heldur er hann jafnvel búinn að krauma mánuðum saman. Börn sem hafa ekki fengið faglega greiningu á vanda sínum líða kannski sálarkvalir alla skólagönguna. Þetta eru oft börnin sem láta lítið fyrir sér fara í skólanum, eru e.t.v. með athyglisbrest, eru feimin og óörugg. Smám saman laskast sjálfsmatið og sjálfsöryggið hverfur. Þetta eru stundum börnin sem lögð hafa verið í einelti sem ýmist hefur farið dult eða ekki náðst að taka á. Hvað er að gerast í huga barns sem beðið hefur mánuðum saman eftir aðstoð til að létta á vanlíðan og leysa vanda þess? Vanlíðan sem fær að krauma og grafa um sig getur á einni svipstundu orðið bráðavandi sem ekki hefði orðið ef fullnægjandi hjálp hefði verið veitt fyrr. Margra mánaða bið eftir aðstoð getur reynst dýrkeypt og jafnvel kostað líf.


Oft eru íslensk börn borin saman við börn í nágrannalöndum. Þar eru ekki svona margar greiningar segja yfirvöld. En munurinn er sá að í þeim löndum sýna kannanir einnig að börnum líður mun betur en á Íslandi. Skóla- og velferðaryfirvöld bera íslensk börn gjarnan saman við börn nágrannalanda okkar þegar hentar t.d. þegar þarf að rökstyðja að ekki þurfi að láta meira fé í málaflokkinn. Miklu fé er vissulega varið í sérkennslu en hún er hvorki samræmd milli skóla né árangursmæld. Vanlíðan barna á Íslandi og þróun í þeim efnum má sjá m.a. í niðurstöðum PISA, skýrslum landlæknisembættisins og fleiri rannsóknum. 

Tilvísunum hefur fjölgað

Af einhverjum orsökum hefur fjölgun beiðna eftir þjónustu fagfólks skólaþjónustu aukist um 23% á milli ára. Þetta er áhyggjuefni og er það á ábyrgð skóla- og velferðaryfirvalda Reykjavíkurborgar að komast að hverju þetta sætir. Þessari fjölgun þarf að mæta með öðru en að láta börn dúsa á biðlista.

 

Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur til lausna sem ýmist hefur verið vísað frá eða felldar. Nýlega lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að leitað verði eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að stytta biðlista. Um væri að ræða mál þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Af þessu er nú þegar kominn vísir en mikilvægt er að formgera samstarfið til að gera það gegnsætt og skilvirkara. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Þessari tillögu var vísað í vinnuhóp.

 

Tillögur sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og hafa verið felldar eða vísað frá eru:

1. Að fjölga stöðugildum sálfræðinga 
2. Að færa aðsetur skólasálfræðinga frá þjónustumiðstöðvum inn í skólana 
3. Að börn skulu ávallt hafa biðlistalaust aðgengi að fagfólki skólaþjónustu 
4. Að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundarráð í stað velferðarráðs 

Einnig hafa verið lagðar fram fyrirspurnir, m.a. um samsetningu biðlista, ástæður tilvísunar og hvað sé verið að gera fyrir börnin og foreldrana á meðan á biðinni stendur.

 

Til að uppræta biðlista eða stytta þá þarf að fjölga stöðugildum sálfræðinga. Málum hefur fjölgað en ekki stöðugildum sálfræðinga. Ef horft er til fjölda stöðugilda má gróflega áætla að hver sálfræðingur/stöðugildi þjónustar 1000 börn. Í raun má því segja að það sé útilokað fyrir sálfræðing að sinna þessum fjölda barna svo vel sé, jafnvel þótt megnið af þessum börnum þurfi aldrei á þjónustu sálfræðinga að halda. Dæmi eru um að einn sálfræðingur sinni þremur skólum. Fyrir þann sálfræðing fer einnig tími í að fara á milli skóla og þjónustumiðstöðvar sem hann hefur aðsetur á. Þessi staða og skortur á úrræðum og almennum bjargráðum hafa ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum.

Grein birt í Morgunblaðinu 8.8. 2020


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband