Ég ætla að bíða

Ég ætla að bíða er yfirskrift auglýsingar Kaupþings og Samfó (samstarf um forvarnir) sem ég rak augun í í sjónvarpsdagskrá vikunnar.
Ég er ekki alveg sátt við þessa auglýsingu en hún beinist að unglingum sem ætla að bíða.

Bíða eftir hverju spyr ég?  Jú, ef betur er að gáð eru skilboðin þau að hópur unglinga vill bíða, bíða þar til þau verða eldri eða hafa náð tilskildum aldri til að nota áfengi. Ég er þó að geta mér þetta til enda segir ekki beint í auglýsingunni hvað átt er við nema þá að ástæðan fyrir því, að ungmenni sem ætla að bíða vilja gera það m.a. vegna þess að:

Þau eru nokkuð forvitin um framtíðina og vilja ekki missa af henni
Þau langar til að vita hvernig þau virka í þessum heimi.
Þau eru ástfangin 
Það er nógu flókið að vera unglingur.

Fleiri ástæður fyrir því að þau ætla að bíða eru tilteknar í auglýsingunni.

Ég vil gera athugasemdir við það viðhorf sem liggur að baki þessarar auglýsingar sem og annarra af sama meiði. Þau skilaboð sem þær fela í sér eru villandi og óréttlátar í garð þeirra sem hvorki nú né síðar á ævinni hafa hug á að neyta áfengis né annarra vímugjafa ef því er að skipta.

Athugasemdir mínar hafa að gera með það að með auglýsingu sem þessari er ekki verið að taka tillit til þeirra fjölmörgu ungmenna sem hvorki sem unglingar, né fullorðnir hafa hug á að nota áfengi. Hópur ungmenna er sem sagt ekki að bíða eftir einu eða neinu hvað þessu viðkemur.
Ég vil fullyrða eftir áralanga vinnu með unglingum og foreldrum þeirra að vímugjafar, þótt löglegir séu, eru ekki endilega á óska,- eða biðlista allra unglinga eins og virðist gefið í skyn í auglýsingu sem þessari.  Í allri umræðu um forvarnir finnst mér það vilja gleymast að til eru þau ungmenni sem hvorki nú né síðar, sjálfráða eða löggildir áfengiskaupendur hafa það á sinn stefnuskrá að bragða eða nota áfengi sem hluta af sínum lífstíl. Forvarnarumræðan ætti einmitt ekki að gleyma tilvist þessara krakka heldur mikið frekar að minnast á þá og hvetja aðra unglinga til að taka þá sér til fyrirmyndar.
 
Þegar svona auglýsingar eru birtar mætti halda að möguleikarnir í stöðunni væru þessir:
1. Að vera barn (ósjálfráða unglingur) sem drekkur.
2. Að vera sjálfráða unglingur sem byrjar að drekka.
3. Að vera ungmenni sem náð hefur 20 ára aldri og ákveður að drekka þar sem hann hefur náð tilskildum aldri til að kaupa áfengi.

Skilaboð þessarar auglýsingar virka þannig á mig að gengið sé út frá því að unglingar almennt séð vilji drekka áfengi og ætli að gera það þegar þau hafa aldur til.  Vissulega er það mikilvægt að bíða. Allir þeir sem vinna með börnum og unglingum geta verið sammála um að því meiri þroska sem unglingurinn hefur öðlast þegar hann neytir fyrst áfengis því betra.  Þessi skilaboð eru góð og gild en það má ekki stilla þeim upp með þeim hætti að sá möguleiki að DREKKA ALDREI  sé ekki meðal valkosta.  

Ég myndi því vilja sjá þessar annars ágætu auglýsingar taka smá breytingum og þá með þeim hætti að bætt verði í þær að sumir unglingar hafa tekið þá ákvörðun að neyta ekki áfengis hvorki nú né síðar á ævinni. Ef þau hyggjast taka ákvörðun um annað muni sú ákvörðun bíða betri tíma þ.e. þar til þau hafa náð fullorðinsaldri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl, Kolbrún !

Þakka þér góða grein. Forsmán, hvernig ýtt er undir neyzlu áfengisins, sem og annars óþverra, í landi okkar. Gróðaöflin eira öngvu, látið er að liggja; að ófínt sé, að fylgja ei heimskulegum tízku bábiljum, hverjar plagast í okkar samtíma, oftsinnis til stórtjóns ungmennum; og ístöðulitlum sálum. Nær væri, að draga úr flæði áfengisins og annnarra eiturefna, hérlendis; en að hvetja til misbrúkunarinnar.

Ei skyldi standa upp á mitt ryckti, þá blásið skyldi til sóknar gegn óværunni, hvar sem fyndist; á landi okkar.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 22:43

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Sammála þér Kolbrún, það er valkostur sem fólk tekur sér að drekka ekki áfengi.  Ég á einn 17 ára sem finnst áfengi ekki vera spennandi valkostur og mér skilst að hann sé í miklum minnihluta í sínum aldurshópi.  Almenn neysla áfengis er mikið áhyggjuefni.

Ester Sveinbjarnardóttir, 27.6.2007 kl. 05:02

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill og þarfur.

Marta B Helgadóttir, 27.6.2007 kl. 08:18

4 Smámynd: lipurtá

Mikið er ég sammála þér í þessu. Það endurspeglar mjög alkóhólískt viðhorf að það sé sjálfsagt mál að nota áfengi. Ég hefði haldið að miðað við hvað áfengi (sem og önnur vímuefni) valda miklum skaða þá væri það einmitt mun skárri valkostur fyrir fólk að bíða ekkert með að nota það, heldur taka ákvörðun um að nota það alls ekki. kv. L

lipurtá, 27.6.2007 kl. 15:18

5 Smámynd: andrea marta vigfúsdóttir

Ég hef svo oft tuðað yfir þessu þegar ég sé þessa auglýsingu! Þetta er mjög undarlegt. Ég vil ekkert frekar að unglingar fari að drekka og neyta eiturlyfja þegar þeir eru orðnir 18 eða 20 ára. Best er að sleppa því, og ég vona að þessi börn í auglýsingunni átti sig á því hversu skringilega þetta hljómar í raun!

andrea marta vigfúsdóttir, 27.6.2007 kl. 15:33

6 identicon

Markhópur þessara auglýsinga er einmitt þeir sem eru ekki byrjaðir að drekka en hafa kannski hugsað sér það. Ekki þeir sem aldrei ætla sér það. Það er fráleitt að eyða orku og fjármunum í að eltast við vandan þar sem hann er ekki. Þessi snilldarlega röksemdarfærlsa þín er sú sama og BNA stjórn og kaþólikkar hafa frammi þegar þeir tala um kynlíf unglinga. Hugsaðu aðeins um málið og endurskoðaðu skoðun þína, það margborgar sig. Sér í lagi þar sem þú virðst vera að vinna við málefni unglinga.

Auk þess hafa þessar auglýsingar alveg þveröfug áhrif og ætti að stoppa sýnigar á þessu óskapnaði.

Elvar Berg (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:10

7 identicon

Afsakið tvípóstið. Lipurtá, ef þú tækir tánna úr glasinu sæir þú að það að nota alkóhól skynsamlega, eins og til dæmis með því að bíða þar til eisntaklingurinn hefur aldur til, hefur ekkert með alkóhólisma að gera nema síður sé. Það er ekki heldur verið að segja að fólk eigi skilyrðislaust að byrja að neyta vímuefna um leið og það hefur aldur til, heldur að það geti í það minnst tekið meðvitaða og upplýsta ákvörðun um það þegar það loks fær aldur og þroska til þess. Þetta skylduð þið ef þið kæmuð af ykkar háa stalli og létuð renna af ykkur.

Takk fyrir

Elvar Berg Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:17

8 identicon

Hættið þessu væli... auglýsingin vitnar auðvitað í það að bíða með þá ákvörðunartöku hvort unglingarnir í umtalaðri auglýsingu ætli sér að drekka þar til þau hafa þroska og aldur til að taka þá ákvörðun. Það er biðin, ekki biðin eftir því að komast í okkar elskulega ÁTVR. 

Varð bara að koma að þessari skoðun. 

Birgir Þór (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:23

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

fólk reynir að gera góða hluti og gerir auglýsingar sem höfða til flestra , segi og skrifa flestra.. en það er aldrei hægt að ná til allra en það er þess auðveldara að rífa níður þá sem þó eru að reyna...

sumum er aldrei hægt að gera til hæfis

Óskar Þorkelsson, 27.6.2007 kl. 20:27

10 Smámynd: halkatla

heyr heyr! ég var ekki að fatta hvað þú værir að meina, fyrren ég fór að hugsa aðeins, ég þekki ungt fólk sem hefur aldrei drukkið, og mér finnst þetta bara sniðug grein sem kemur inná þeirra veruleika líka.

ég hef reyndar ekki séð auglýsinguna og ætti kannski ekkert að vera að tjá mig. En mig langar að vita hvernig það kemur inní þetta að þau séu ástfangin???

Ég hélt reyndar fyrst að þetta yrði grein um annarsskonar bið... þessa sem tíðkast mjög að boða í USA

halkatla, 2.7.2007 kl. 17:26

11 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þetta að vera ástafangin(n) er texti í auglýsingunni
„Ég ætla að bíða“.
Hvernig er þetta boðað í USA?

Kolbrún Baldursdóttir, 2.7.2007 kl. 20:36

12 identicon

Ég skildi þetta alltaf þannig, að þau "ætluðu að bíða" og sjá hvort þau hreinlega hefðu áhuga á að drekka þegar aldurinn kæmi.
Vera ekkert að spenna sig yfir einhverju sem má ekki, heldur bíða og sjá hvort þeim muni langa seinna.
Sem er ekkert endilega víst að verði.

Maja Solla (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 20:47

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband