Er hægt að semja við þjóf?

Hin óvenjulega auglýsing sem bar titilinn „Þjófur“ fór líklega ekki fram hjá neinum sem las Morgunblaðið sl. fimmtudag. Í auglýsingunni höfðar maður til þjófs sem hafði tekið ófrjálsri hendi persónulegar eigur hans um að þjófurinn selji sér munina aftur.
Hann segir í auglýsingunni að hann velti því fyrir sér hvort ekki sé hægt að komast að samkomulagi sem báðir hafi hag að.

Vel er hægt að skilja hvað þeim sem stolið var frá gengur til með þessari beiðni sinni enda um að ræða muni sem hafa persónulegt gildi fyrir hann, eitthvað sem honum finnst óbærilegt að missa. Hann er því tilbúinn til að leita allra leiða til að fá hlutina til baka.

Er hægt að semja við þjóf?
Spyrja má hvort sá sem á annað borð leggur sig svo lágt að hrifsa með sér eigur annarra sé nægjanlega traustur til að hægt sé að gera við hann einfaldan samning? 
Satt að segja óttast ég að þegar þjófurinn og þjófar almennt séð fá slík tilboð þá sjái þeir möguleika á að færa út kvíarnar á glæpabraut sinni.  Skyndilega eru þeir komnir með samningsstöðu og hana bara nokkuð sterka. Þeir komast upp með glæpinn og fá auk þess greiðslu frá eigendum þýfisins fyrir það eitt að skila því til baka. 

Hinar nýju víddir á afbrotabrautinni gætu nú allt eins falið í sér að stela einmitt svona persónulegum hlutum eins og tölvum sem geyma myndir, e.t.v. persónuleg, viðkvæm gögn, eitthvað sem hefur tilfinningarlegt gildi fyrir eigendurna og síðan að semja um greiðslu fyrir að skila því. 

Komi upp sú staða að þolandinn þráist við að ganga til samninga við þjófinn gæti hinn síðarnefndi allt eins hótað að opinbera gögnin fái hann ekki greitt, þ.e. gert tilraun til að múta. 
Jafnvel þótt eigandi þýfisins greiði umsamið gjald getur hann ekki verið viss um að málinu sé lokið. Þjófurinn gæti allt eins séð sér enn áframhaldandi leik á borði og hagað málum þannig að hann geti haldið áfram að krefjast greiðslna.

Að semja við þjóf er áhættusamningur þar sem engin trygging, nema síður sé, er fyrir því að þjófurinn standi við samkomulagið.  Það er sorglegt að finna sig knúin til að semja við glæpamann sem brotið hefur gróflega gegn mann.   

Til að draga úr líkunum á að verða fórnarlamb þjófa og annarra óprúttinna aðila dugar fátt annað en að vera stöðugt á varðbergi,  hafa augun á eigum sínum ef ókunnugir eru nærri, læsa mannlausum bílnum jafnvel þótt um sé að ræða örfáar mínútur og einfaldlega haga sér eins og ávalt sé von á hinu versta. 
Þetta eru óskemmtilegar hugsanir en á maður nokkurra annarra kosta völ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Sæl.

Þetta er nokkuð góð ábending.  Kemur í raun í sama stað niður og þegar skoðuð eru rökin að baki því að semja ekki við gíslatökumenn og almennt við terrosista.

Persónuleg gögn sem engum öðrum nýtast en eiganda færu að kosta meira á peningalegan mælikvarða - og þeirra er alla jafna ekki eins vel gætt og auðvelt að nálgast. 

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 19.1.2008 kl. 14:37

2 Smámynd: Beturvitringur

Það er alltítt að svona samningar fari fram. Það er látið fréttast í undirheimum að hluturinn sé á leið úr landi og ef e-r hefur minnstu tengsl við þessa glæpaheima, getur hann í gegnum mann, í gegnum mann sem þekkir mann, - náð allavega því sem eigandanum var sárast um. Oftast eru það tölvurnar. Þótt þær séu tryggðar sem búnaður, vitum við á ómetanlegt efni er geymt í þeim.

Þrjótarnir stunda innbrotin; ránin og þjófnaðina til að komast yfir reiðufé og þeim er andsk.... sama hvort það kemur frá "viðskiptavinum" sínum erlendis eða bara "sauðnum sem LÉT stela þessu frá sér.

Ekki það að ég sé ekki sammála skrifunum þínum. En það er erfitt að kyngja þessum veruleika.

Beturvitringur, 20.1.2008 kl. 04:26

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já. það er undarleg staða sem margir lenda í þessa dagana. Ég þekki manneskju sem gerði svona samning til að fá tölvuna sína til baka með MA-ritgerðinni í. Það er illt að þurfa að semja við hinn vonda sjálfan en það var happadrýgra þegar upp var staðið að borga þjófnum fyrir tölvuna en að skrifa ritgerðina upp á nýtt.

Steingerður Steinarsdóttir, 20.1.2008 kl. 19:15

4 Smámynd: Beturvitringur

Ömurlegar staðreyndir. Og aldrei erum við of oft minnt á að afrita (bakkuppa) það sem ó-(ill-)metanlegt er, eins og þú Steingerður segir frá MA-ritgerðinni.

Beturvitringur, 21.1.2008 kl. 01:02

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Svo er líka spurning um hverjir eru þjófar og hverjir ekki.  Hvenær er maður þjófur og hvenær ekki.  Þá á ég við menn sem stela af almenningi, eins og ólögleg verðsamráð, eða að selja vörur sem menn keyptu á gömlu verði á nýlega hækkuðu verði, það er líka þjófnaður.  Eða þeir sem hygla sér og sínum á kostnað annara.  Ég veit satt að segja ekki hver er versti þjófnaðurinn.  En mín samúð liggur samt meira hjá þeim sem stela sér til matar, eins og mennirnir sem stálu kjötlærinu og lyfrarpylsunni.  Þeir sem eru í innbrotum eru líka oft fórnarlömb lífsins, ég er ekki að afsaka neinn.  En oftast eru innbrotsþjófar fíklar sem eru annað hvort að fjármagna neyslu, eða er stjórnað af öðrum aðilum, sem þeir eru skuldsettir, sem senda þá út til að stela.  Það er því oftar en ekki, ekki endilega þjófurinn sjálfur sem er með tölvuna eða tækið, heldur hvítflibba aðilar, rétt eins og aðrir hvítflibbaþjófar sem við leiðum fram hjá okkur, og ekkert er gert til að reyna að finna. 

En þetta er nú bara svona hugleiðing frá mér.  Þjófnaður, lygar og slíkt er auðvirðileg gjörð, og því auðvirðilegri sem þjófurinn stundar hana meira af gróðavæntingum, en ekki örvæntingu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2008 kl. 11:27

6 identicon

Þekki dæmi um svona.Fólk borgar þjófinum fyrir tölvurnar sínar óskemmdar.Yfirleitt verið að fjármagna neyslu með þessum hætti en þó ekki alltaf.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 13:58

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég myndi sjálf án efa gera samning við þjóf um greiðslu hafi hann stolið ritgerð eða öðru sem ég væri búin að leggja mikla vinnu í og ætti engin afrit af.  Svona þurfa þeir sem verða fyrir barðinu á þjófum að meta allt eftir verðmæti þess sem var stolið.

Það er aldrei nógu oft ítrekað að taka afrit af verkefnum sem í liggur mikil vinna og geyma á öruggum stað því maður veit aldrei hvað getur gerst. Það þarf ekki endilega að vera þjófnaður/innbrot, heldur gæti einnig orðið bruni eða bara að harði diskurinn myndi hrynja.

Kolbrún Baldursdóttir, 21.1.2008 kl. 21:15

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband