Börnin í Suðurlandsskjálftanum

Mörg börn urðu að vonum viti sínu fjær þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir.  Skyndilega var fótum kippt undan fólki í orðsins fyllstu merkingu.  Það sem fyrst kemur upp í hugann við þessar aðstæður er HVAÐ ER AÐ GERAST?  ER ÉG Í HÆTTU?

Flestir fullorðnir áttuðu sig eflaust fljótt á að um jarðskjálfta var að ræða. Börnin hins vegar, sérstaklega þau sem eru í yngri kantinum, skildu sennilega lítið sem ekkert í hvað var að gerast. Augu og eyru hafa opnast upp á gátt og allt þeirra skynfærakerfi verið skyndilega ræst. Þegar skjálftinn reið yfir og fyrstu sekúndurnar og mínúturnar á eftir hafa þau börn sem stóðu nálægt einhverjum fullorðnum fylgst náið með þeirra viðbrögðum. 

Þegar hættuástand myndast mjög skyndilega sýna flestir eðlilega sterk óttaviðbrögð. Því fyrr sem fullorðnir á staðnum ná yfirvegun og ró sem þau sýna í atferli og látbragði, því betra fyrir börnin sem nærstödd eru. Rétt viðbrögð í kjölfarið geta skipt sköpum fyrir hvort barnið verði fyrir djúpstæðu áfalli sem draga mun e.t.v.  dilk á eftir sér eða hvort það sleppi með létt sjokk sem það kemst jafnvel tiltölulega fljótt yfir. Takist hinum fullorðnu að halda yfirvegun og ró eins og hægt er í ljósi aðstæðna þá mun barnið njóta góðs af. Sjái barnið hins vegar að fullorðnir, fólkið sem það treystir á, er viti sínu fjær af ótta og halda áfram að sýna sterk óttaviðbrögð næstu klukkustund á eftir, er líklegra að áfall barnsins verði meira.

Börn sem búa við stríðsástand eða á hamfarasvæðum.
Ef öryggi barns er ógnað hvort sem það er vegna náttúruhamfara eða stríðs sem geisar í umhverfi þess er það stöðugt að leita upplýsinga um stöðu mála í svipbrigðum fullorðna fólksins, raddblæ, í orðum og atferli þeirra til að reyna að meta stig hættuástandsins sem það skynjar að það er í.
Þetta er þeirra gagnagrunnur. 

Gera má ráð fyrir að sálrænar afleiðingar Suðurlandsskjálftans munu verða talsverðar bæði á börn og fullorðna. Vissulega bregst fólk við með mismunandi hætti. Fólk er mis fljótt/lengi að vinna úr áfalli sem þessu og spilar þar margt inn í.

Þrátt fyrir að vel hafi tekist til og að foreldrum hafi tekist í kjölfar Suðurlandssjálftans að halda ró sinni og yfirvegun, sannfært börn sín um að þeirra verði vel gætt mun mjög sennilega kvíði og óöryggi fylgja mörgum um einhvern tíma. Þeim sem finnst að þeir séu rétt að ná áttum eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000 gætu sannarlega átt um sárt að binda næstu misseri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég horfði á nýjasta þáttinn Í nærveru sálar á www.inntv.is og var að mörgu leiti sáttur. Mér fannst þó dálítið milduð áhrif áfengis á heimili og fjöldskyldu. Frekast fannst mér t.d. áhrif þess á öryggiskend barna vera léttvæg hjá framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins. Ég held að eitt það svakalegasta ofbeldi sem barnið verður vitni verður til þegar fylleríislætin byrja. Mamma og pabbi byrja að rífast og allt tilheyrandi. Með hvoru foreldrinu á barnið að halda?-Og slíkt rifrildi er alls ekki síður ofbeldi konunnar gagnvart barni sínu því það þarf víst tvo til þess að ósættir geti átt sér stað. Í veisluhöldunum þar sem barnið innan um brennivínsgleðina horfir frá svefnherbergi sínu í átt til stofunnar þar sem allt logar í gleðilátum geta haft alvarlegri afleiðingar en jarðskjálfti fyrir barnið. Því það er ekki nokkur leið að ná sambandi við pabba og mömmu sem eru uppteknari af öðru en að svæfa liltla krýli sitt og koma værð á umhverfið. Sú hugmynd sem kom fram í þættinum að finna gott nýtt orð á Kvennaathvarfið og opna slíka hjálparþjónustu fyrir bæði kynin er í anda jafnrétti kynjanna.  

Ég á 4 ára gamla stelpu í Hveragerði sem var á leikskólanum þegar skjálfinn reið yfir. Ég var kominn á staðin eftir um eina klukkustund og barnið mitt hljóp í fang mér og vildi hvergi annars staðar vera. Mikið er gaman og mikil lífsfylling að eiga þessi litlu krýli og ég er forviða þegar fólk sækir og trúir að lífshamingjan búi í útvörðum bakkusar(flöskunni). 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 13:41

2 identicon

Æi já þau verða ekki minna skelkuð en þau fullorðnu

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 18:51

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Á morgun ætlum við hjónin að fá áfallahjálp, finnum að þetta gengur ekki svona, enda vorum við á fjórðu hæð og allt sveiflaðist til. 

Ásdís Sigurðardóttir, 1.6.2008 kl. 19:55

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta er góður punktur. Börnin gleymast nefnilega alltof oft. Við gerum ráð fyrir að þau séu búin að jafna sig um leið og þau hætta að gráta.

Steingerður Steinarsdóttir, 2.6.2008 kl. 14:27

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband