Já elskan mín, fáðu þér að smakka, en bara lítið..

Er svar sumra foreldra þegar barnið vill fá að smakka áfengi heima hjá sér.
Tökum tilbúið dæmi:
 Foreldrarnir eru með vín um hönd, barn/unglingur vill prófa að drekka og þeir segja, já þú mátt smakka.  Oftar en ekki er barnið komið á unglingsárin og hefur áður séð foreldra sína nota vín.  Allt gott um það að segja, gefið að foreldrarnir kunna að fara með áfengi.

Eitt kvöld e.t.v. þegar gleðskapur er á heimilinu og mamma og pabbi e.t.v. komin (smá) í glas, spyr unglingurinn: Má ég ekki líka fá smá rauðvín/hvítvín/bjór, bara svona prófa??
 

Foreldrar sem hafa sagt já við þessari beiðni kunna að segja:
Og hvað er svona mikið athugavert við þetta? Er ekki betra að unglingurinn byrji að smakka áfengi heima, í faðmi fjölskyldunnar, þar sem við fullorðna fólkið erum nærri og getum fylgst með hvernig það fer í hann. Er eitthvað betra að það byrji að drekka með vinunum eða fikta við eitthvað hálfu verra?
 

Viðbrögð þeirra sem finnst ofangreint samþykki skaðlegt unglingnum myndu hins vegar væntanlega vera einhvern veginn svona:
Nei það er ekki í lagi að gefa barninu ykkar leyfi til að drekka áfengi hvort heldur á heimilinu eða annars staðar. Þið eruð ekki bara aðalfyrirmynd barnanna ykkar heldur skipta viðhorf ykkar og afstaða til unglingadrykkju miklu máli fyrir þær ákvarðanir sem barnið tekur á unglingsárunum og einnig þær sem einstaklingurinn tekur á fullorðinsárum.
Ef foreldrar gefa grænt ljós á EINHVERJA DRYKKJU, þó það heiti bara að SMAKKA þá er ekki ósennilegt að hugsun barnsins sé eitthvað á þessa leið: Hva..aaa mamma og pabbi leyfðu mér meira að segja að drekka heima.

Til umhugsunar:

Hvar á að draga mörkin, t.d. einn, tvo sopa og svo ekki meir?

Hver á að draga mörkin, unglingurinn eða foreldrarnir?
Hvað má unglingurinn smakka, bjór, léttvín?
Er raunhæft að ætla að unglingurinn drekki ekki líka með jafnöldrum sínum? 

Nú þegar útihátíðir eru brátt í algleymingi, sumarið að nálgast hápunktinn og æ styttist í hina stóru útihátíðarhelgi, Verslunarmannahelgina fara áhyggjur margra foreldra vaxandi. Yfirvöld eru uggandi og einnig fagstéttir sem að málefnum barna koma. Skemmst er að minnast frétta frá svokölluðum Bíladögum á Akureyri, lýsingar á ölvun og ölvunartengdri hegðun. Á þeirri samkomu voru það ekki einu sinni unglingar sem léku aðalhlutverkið. Svo eru það allir hinir dagarnir:  Fiskidagar á Dalvík, Ástarvikan á Bolungarvík… já og svo þjóðhátíð í Eyjum. 

En af hverju þetta stress þótt krakki á unglingsaldri drekki?
Rifjum upp ástæðurnar:

Á þessu aldursskeiði á unglingurinn langt í land með að hafa náð fullum vitsmunaþroska, tilfinningar- og félagsþroska.
Hann er áhrifagjarn, óttalaus, hefur ranghugmyndir um eigin getu og hæfni.
Áfengisáhrifin auka áhættuhegðun.
 
Áfengi er slævandi efni, dómgreind þverr, heilinn sofnar eftir visst mikið magn.
Áhrifin eru einstaklingsbundin og oft óútreiknanleg enda margir áhrifaþættir sem spila inn í.
Persónubreytingar verða nánast undantekningarlaust.
Skynfærin dofna, sjón, heyrn, lykt og almenn skynjun á umhverfið og mögulegar hættur þess. 
Hreyfingar verða ómarkvissar, sjálfsstjórn minnkar.
Hugsun brenglast, tilfinningar dofna.

Vegna þessa eru auknar líkur á slagsmálum, slysum, nauðgunum og annarri ofbeldishegðun.
Aukið virðingarleysi gagnvart sjálfum sér og öðrum.
Aukin hætta á afbrotum af öllu tagi.

Þess vegna er allt þetta stress.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þakka þér þennan frábæra pistil.

Átti einmitt líflegar umræður um það í gær við vinkonu mína sem fór í ríkið fyrir menntaskólanemann sinn "því annars myndi hann jafnvel kaupa sér landa".  Ég verð svo pirruð. 

Við brjótum ekki lög á börnunum okkar.  Hvernig eiga þau að bera virðingu fyrir foreldrum sem segja eitt og gera annað?

Gleðilegan 19. júní Kolbrún.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.6.2008 kl. 11:18

2 Smámynd: Kolgrima

Tek undir með Jenný, þetta er frábær pistill.

Kolgrima, 19.6.2008 kl. 12:15

3 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Hjartanlega sammála þér Kolbrún. Þörf áminning er þú segir:  "Ef foreldrar gefa grænt ljós á EINHVERJA DRYKKJU, þó það heiti bara að SMAKKA þá er ekki ósennilegt að hugsun barnsins sé eitthvað á þessa leið: Hva..aaa mamma og pabbi leyfðu mér meira að segja að drekka heima."

Guðmundur Pálsson, 19.6.2008 kl. 14:07

4 Smámynd: Sigurjón

Ég er gjörsamlega ósammála.  Um leið og áfengið er hætt að vera eitthvað tabú, verður það ekki spennandi lengur.  Ég veit nokkur dæmi, þar á meðal mig.

Ég byrjaði opinberlega að drekka á 16. aldursári.  Það var á ferðalagi með mínum foreldrum og höfðu þau vakandi auga yfir mér allan tímann.  Eftir þetta fór ég í menntaskóla og þar á fyrsta balli var ástæða til að fá sér neðan í því.  Vegna þess að ég hafði fengið að drekka áður, var þetta ekkert nýtt eða spennandi.  Ég bað því hreinlega foreldra mína um að útvega mér vodka, til að ég gæti drukkið með félögum mínum í skólanum.  Það var sjálfsagt mál (en þau þynntu víst vínið aðeins, svo ég yrði mér ekki að voða, sem var gott) og skemmti ég mér vel.

Félagi minn í skólanum var ekki farinn að drekka opinberlega á sama tíma og hans foreldrar bönnuðu honum stranglega að smakka áfengi undir hvaða kringumstæðum sem var.  Á téðu balli var hann búinn að redda sér landa hjá einhverjum gæjum úti í bæ (sem hann hafði víst gert áður, aðallega vegna banns foreldranna) og blandaði það allt of sterkt og varð gjörsamlega ofurölvi með tilheyrandi spýju og timburmönnum.

Ég er á þeirri skoðun, þegar unglingar eru orðnir forvitnir um áfengi og drykkju, að foreldrar útskýri hvað felst í góðri vínmenningu og kenni þeim að þetta er ekkert til að vera hræddur við, ef þú bara veist hvað þú ert að gera.  Bönnin virka ekki!

Sigurjón, 19.6.2008 kl. 17:53

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábær pistill, hjartanlega sammála þér.

Guðríður Haraldsdóttir, 19.6.2008 kl. 19:15

6 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Ég er raunar sammála öllum, sem er undarlegt þegar ég, sem vanalega fer þvert á allt og alla (enda leiðir slíkt oft til hinna ágætustu samræðna og orðaskylminga) á í hlut.

Tel þó að þetta umræðuefni, hvort eigi að leyfa börnum að smakka áfengi eður eigi, bjóði ekki upp á svart eða hvítt svar. Mér dettur helst í hug þrjú atriði sem skipt geta máli í þessu samhengi:

A: Andleg viðbrögð barna við áfengi. Koma viðhorf og neyslumynstur foreldra hér sterkt inn. Barn sem hefur séð foreldrana sulla vikulega í ár eða meira lítur væntanlega áfengi öðrum augum en barn sem sem hefur aðeins séð þetta gerast tvisvar.

B:  Líkamleg viðbrögð barna við áfengi. Ég hef séð táning bragða áfengi í fyrsta skipti og fara hreinlega á hvolf. Faðirinn átti við þetta vandamál að stríða svo og aðrir í fjölskyldunni.

C (og þetta miðar aðallega við A hér að ofan): Tegund áfengis sem barninu er leyft að bragða. Barn sem bragðar vín, líkjör eða romm og kók gæti væntanlega fundist bragðið í lagi og dregið þá ályktun að áfengi væri gott. Barn sem tekur vænan sopa af viskí ákveður líklega að láta þetta eiga sig um ókomna framtíð.

Niðurstaða (ekki það að ég hafi neina sérþekkingu á þessu sviði fyrir utan það að tilheyra þeim flokki sem sá foreldrana léttölvaða aðeins ÞRISVAR á lífsleiðinni): Forvitni knýr mannskepnuna áfram og löngunina í þekkingu fá hvorki boð né bönn kæft. Brennt barn forðast eldinn en aðeins EFTIR að það hefur brennt sig. Hvað veldur bruna?  Viskí.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 20.6.2008 kl. 03:07

7 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Flottur og þarfur pistill hjá þér Kolbrún! Það er ekki auðvelt að vera foreldri í dag og hefur sennilega alldrei verið. Veit ekki hvort maður hefði farið útí þetta ef maður hefði gert sér grein fyrir hversu vandasamt það er, því eins og maðurinn sagði við konuna sína

"Áður en við eignuðums börn vissum við allt um barnauppeldi, nú þegar við

eigum 2, vitum við ekki neitt."

Það var fyrst eftir að ég annaðist mann á sjúkrahúsi sem kom inn eftir höfuðhögg og ég sá afleiðingarnar af því sem ég gerði mér grein fyrir hvers vegna aldurstakarkið er 20 ár. Maðurinn var nákvæmlega eins og hann væri fullur, bæði í göngulegi og tali, þó hann hafi alldrei drukkið. Hann varð svona eftir höfuðáverka. Heilinn er fullþroska um 20 ára aldur og það hefur veriir áhif á heilann að verða fyrir áfengi, fyrr en hann er fullþroskaður.

Einnig er það hlutverk okkar foreldra að kenna börnum okkar að virða lögin. Ef maður er ósammála þeim, þurfum við að kenna börnunum leiðina til að reyna að breyta lögunum, en ég tel að 14-19 ára unglingar séu ekki nógu þroskuð til að fara að velja, hvaða lög eigum við að virða og hver ekki. Þess vegna er ég allgjörlega ósammála Sigurjóni. Reynslan sýnir okkur að þeim bun eldri sem krakkar eru þegar þeir byrja neyslu, þeim mun minni skaða gerir það. Svo þarf ekki að ganga út frá að allir eigi að byrja að drekka einhvern tíman. Maður getur faktist lifað góðu lífi án þess að nokkurn tíma eitra fyrir sér. Þegar ég var táningur fyrir vestan í gamla daga, var því haldið fram að það væri betra að krakkar hefji brykkju snemma, því annars verða þeir vittlausir með víni. við vitum betur í dag.

Ásta Kristín Norrman, 20.6.2008 kl. 07:19

8 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Hefur þú eitthvað ráð fyrir foreldra, þegar maður veit að barnið er byrjað að drekka 16-17 ára, samþyggir það ekki, en sleppir barninu út með vinunum og hefur fulla ástæðu til að ætla að áfengi verði notað?

Ásta Kristín Norrman, 20.6.2008 kl. 08:24

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það eru margir sem spyrja einmitt þessara spurninga.
Nú er auðvitað spurningin hvernig grunnurinn, hinn uppeldislegi er, hvernig tengslin milli foreldrana og barnsins hafa þróast og margt annað. 
Þegar ég tala við foreldra yngri barna þá minni ég á mikilvægi þess að ræða strax við barnið um ÁBYRGÐ, auðvitað þarf að matreiða þá umræðu hverju sinni eftir aldri og þroska þess. En hafi það hugtak og skilningur á hvað í því felst verið vel kynnt frá upphafi skólagöngu þá hjálpar það í þeirri stöðu sem þú ert einmitt að lýsa nú.

Sem sagt barnið og ekki hvað síst þegar orðið stálpað verður að taka ábyrgð á eigin gjörðum, eigin hegðun, eigin ákvörðunum.  Þau er oft mjög lítil þegar þau byrja að skilja þetta t.d. barn sem kennir öðrum um, ég gerði þetta af því að hann sagði mér að gera þetta eða að því að þú ert svo leiðinleg... fær að heyra að hann eða hún er fyrst og fremst ábyrg fyrir eigin ákvörðunum og það er því sjaldnast nokkrum öðrum að kenna. Allir hafa val í nánast öllum aðstæðum, líka börn/unglingar. Við þurfum bara fljótt að kenna þeim það svo þau geti nýtt sér það að velja það sem þeim er fyrir bestu hverju sinni.

Svo ég komi mér nú að svarinu þá eru skilaboðin þín til barnsins þíns þessi:
Þú vilt kannski segja við unglinginn þetta:
Ég er alfarið á móti því að þú drekki, mun ekki samþykkja það undir neinum kringumstæðum fyrr en þú hefur aldur til. Hitt er að ég hvorki get né vil vakta þig allan sólarhringinn þannig að hvað þú gerir í svona og svona aðstæðum er á þína ábyrgð. Þetta er þitt líf og ég hef gert mitt besta til að undirbúa þig undir það, með fræðslu og umhyggju og festu. Ég er til staðar ef þú þarfnist og ef þig vantar leiðbeiningu. Hins vegar hvaða ákvarðanir þú tekur í hinum ólíku aðstæðum sem þú ert í, ert þú á eigin ábyrgð.

Sem sagt kæra Ásta mín, svona er þetta þegar börnin eru orðin stálpuð en þú trúir ekki hvað þín afstaða gegn neyslu hefur í raun mikið að segja beint og óbeint. Krakkar sem vita að foreldrar eru alfarið á móti því að þau drekki (og reyki), líður innst inni oft hundilla séu þau að drekka. Börn sem hafa fengið samþykkið eða finnast afstaða foreldranna jákvæða eða bara óræðin, neyta áfengis afslappaðra ef hægt er að orða það svo. Þau eru að mínu mati í meiri áhættu að drekka meira en börn foreldra sem hafa tekið skýra afstöðu gegn allri neyslu.

Í verstu tilvikum þar sem grunur er um mikla neyslu hjá barni sínu og vinum þess, eru mörg dæmi þess að foreldri tengir sig við foreldra þessara vina. Margt annað er vissulega hægt að gera en það yrði of langt mál að tíunda það allt hér.
Mál eru líka svo ólík og því mikilvægt að skoða hvert og eitt þeirra einstaklingslega.
Vona að þetta hjálpi.

Kolbrún Baldursdóttir, 20.6.2008 kl. 09:49

10 identicon

Vá hvað þetta er frábær pistill hjá þér!!!

Ása (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 22:58

11 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er mjög góður pistlill  hjá þér elsku Kolbrún mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 20.6.2008 kl. 23:53

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.6.2008 kl. 02:39

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Er ekki lykillinn sá að þekkja eigin börn og þeirra skapgerð. Það er sjálfsagt mál að reyna að koma í veg fyrir drykkju þeirra, en stundum þarf að grípa til dómgreindar og heilbrigðar skynsemi og velta fyrir sér hvað best er að gera í hverri stöðu. Ef það væri hægt að fylgja einhverjum alheimsreglum í þessu máli væri lífið sjálfsagt mun auðveldara en það er, en það er bara ekki alltaf hægt.

Hrannar Baldursson, 22.6.2008 kl. 03:27

14 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Frábær pistill hjá þér sem mætti gjarnan birtast víða. 

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 22.6.2008 kl. 20:04

15 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Einmitt þess vegna er svo gott að geta viðrað sínar hugsanir og fengið álit annarra. Síðan ákveður maður sjálfur hvað maður gerir. Börnin eru svo mismunandi. Sum hafa sterka sjálfsmynd og eiga auðvelt með að standast þrysting. Önnur hafa lélegri sjálfsmynd þó þau hafi fengið saman uppeldi. ég á 4 börn og öll gjörólík. Það er líka auðveldast að ala upp annarra manna börn. Ég meina að það er auðveldara að vita þar hvað er rétt. Ég held að flestir foreldrar séu að burðast með slæma samvisku. Maður gerir eins gott og maður getur, en finnst maður alldrei nógu góður uppalandi. Þá er gott að einhver utanaðkomandi geti hrist í manni og sýnt manni framá að börnin mans hafa það bara gott og það sé allt í lagi að setja kröfur á þá. Eg held ég sé þessi týpiski "Curling" foreldri. Það kalla svíar foreldra sem eru á fullu að sópa burtu alla erfiðleika fyrir krakkana sína.

Ég vil þakka Kolbrúnu fyrir að opna fyrir þessa umræðu, því ég held að ég sé ekki eina foreldrið sem ekki hefur lausn á öllum vandamálum

Ásta Kristín Norrman, 22.6.2008 kl. 20:24

16 Smámynd: Sigurjón

Gott og vel, reynum að kryfja þetta til mergjar.

Að bera fyrir sig lagabókstafnum ber vott um örlítinn dómgreindarskort, eða hugsanlega sjálfsblekkingu.  Þetta reyndu foreldrar mínir og sögðu: ,,Við ætlum ekki að fara að brjóta lög með því að leyfa þér að drekka áfengi".  Þá var ég nýorðinn 15 og fannst að ég ætti að fara að prófa þetta.  Ég svaraði því til að þau gætu einmitt ekkert ráðið því hvaða lögum þau færu eftir og hvaða lögum ekki.  Ég vissi til þess að þau hefði nokkrum sinnum brotið lög og þetta væri því ekkert nýtt.

Þið foreldrar þurfið að átta ykkur á því að ef þið ætlið að berja unglinginn með lagabókstafnum, þurfið þið að þola hann líka.  Ef þið svo mikið sem keyrið einu sinni einum kílómetra á klst. yfir hámarkshraða, eruð þið að brjóta lög.  Foreldrar sem gera slíkt (sem ég myndi telja að væru u.þ.b. 100%), fyrirgera rétti sínum til að reyna að fá unglinginn til að virða lögin.

Það er einmitt mergurinn málsins: Foreldrarnir geta ekki ætlast til þess af unglingunum að þeir geri ekki það sem þeir gera sjálfir.  Foreldrar sem byrjuðu að drekka 15 ára geta ekki búist við öðru en að þeirra eigin börn byrji að drekka á svipuðum aldri.  Annað er bara hræsni.

Hvað varðar að byrja að drekka sem seinast, vildi ég gjarnan trúa því, en því miður finnst mér það ekki trúverðugt.  Ég þekki sjálfur mörg dæmi í kringum mig sem benda til hins gagnstæða. 

Sigurjón, 23.6.2008 kl. 02:44

17 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Áður en tímamörk fyrir athugasemdir renna út, langar mig að þakka ykkur fyrir að vilja deila viðhorfum ykkar gagnvart þessu málefni.

Þakka þeim sem tjáðu sig um að þeim hafi fundist færslan að einhverju leyti gagnleg fyrir sig og sína fjölskyldu.

Kolbrún Baldursdóttir, 23.6.2008 kl. 08:48

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband