Að ráða til sín iðnaðarmenn. Reynslusögur

Þegar maður sjálfur er nýbúin að reyna svipaða hluti og lýst er á forsíðu og bls. 2 í DV 26. júní sl. undir fyrirsögninni Verktakar stefna Dögg finnst manni orðið knýjandi að skoðað verði gaumgæfilega eitt og annað sem lítur að iðnaðarmönnum/iðnaðarfyrirtækjum sem taka að sér verk í verktöku.

Allt of margar sögur hafa heyrst í gegnum tíðina þar sem fólk lýsir neikvæðum viðskiptum og samskiptum sínum við iðnaðarmenn. Ef til vill eru fáir sem eru að eyðileggja mikið fyrir stéttinni allri.

Mín reynsla:
Eftir að hafa greitt hálfa milljón fyrir skoðun/rannsókn á vandamáli húss, var afhent svokölluð ástandsskýrsla upp á ca. 5 línur, loðin og ruglingsleg, og þó ekki fyrr en Meistarafélag Iðnaðarmanna í Hafnarfirði hafði hlutast til um málið, að minni beiðni, en hjá því félagi var umrætt Húsaklæðningarfyrirtæki aðili að.

Útilokað reyndist að fá sundurliðað verktilboð frá umræddu fyrirtæki þar sem fram komu dagssetningar um hvenær verk skyldi hefjast, sundurliðun verks, hvenær áætlað væri að verkinu myndi ljúka og hvers væri að vænta tækist iðnaðarfyrirtækinu ekki að halda þeirri áætlun sem skráð væri í verktilboðinu. Engu breytti þótt það hafði verið bókað á fundinum hjá Meistarafélaginu að gríðarlega mikilvægt væri að verkkaupi fengi slíkt plagg í hendurnar og  að brýnt væri að það yrði sem ítarlegast.

Forstjóri verktakafyrirtækisins og verkfræðingur á hans vegum sögðust skyldu skila slíkum pappír inn og bókað var á fundinum að fullburða verktilboð myndi berast verkkaupa innan viku. Það kom hins vegar aldrei.
Nú er setið uppi með ónýta ástandsskýrslu og hefja þarf leikinn að nýju. Hálf milljón og rúmlega það var sem sagt greidd fyrir ekki neitt.

Hverju sætir það að svo erfitt virðist vera að fá sundurliðað, skriflegt verktilboð hjá a.m.k. sumum iðnaðarverktökum?
Vilja þeir hafa aðgang að opinni peningahít hjá verkkaupa?

Ég vil forðast að yfirfæra aðferðafræði e.t.v. fárra iðnaðarfyrirtækja yfir á heildina. 
En vá, hvað maður er brunnin eftir svona reynslu.

Ég hvet Neytendasamtökin, Neytendastofu og alla þá sem ætlað er að gæta hagsmuna neytenda að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Útköll iðnaðarmanna og verðlagning þeirra er eitt af því sem vel mætti t.d. fara ofan í saumana á og margt, margt fleira í þessu sambandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Því miður heyrir maður svona sögur allt of oft.  Hið versta mál og kemur illu orði á alla.  Vona að úr rætist hjá þér. Áttu ekki neinn rétt á þenna verktaka eftir að hafa greitt allan þennan pening?

Ásdís Sigurðardóttir, 28.6.2008 kl. 20:08

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Málið fór í samráði við Neytendasamtökin fyrir Úrskurðarnefnd Lausarfjár og Þjónustukaupa sem er nefnd á vegum Viðskiptaráðuneytis.

Í fyrstu lotu tók Nefndin alfarið stöðu með umræddu Húsaklæðningarfélagi.  Ég fór fram á endurupptöku eftir að hafa ráðfært mig að nýju við Neytendasamtökin og gekk það eftir.

Niðurstaða úr seinni lotu var sú að fyrirtækið skyldi afhenda mér teikningu sem þeir höfðu sagst eiga (og sagst hafa afhent mér), teikning sem þeir sögðu að ætti að sýna hvernig leysa mætti vanda hússins. Ef þessi teikning hins vegar bærist ekki innan 2ja vikna frá áliti Nefndarinnar skyldu þeir greiða mér 60.000 krónur. Hvorugt hefur skilað sér þótt komið sé langt fram yfir tímann og skylst mér að til að fá þessar 60. þúsund verði ég að höfða dómstólamál.

Mín upplifun er sú að mikið vanti upp á að hagsmuna neytenda sé gætt í þessum málum.

Kolbrún Baldursdóttir, 28.6.2008 kl. 21:45

3 identicon

Því miður er þetta alltof algengt.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 23:30

4 Smámynd: Hörður Finnbogason

Það fólk sem er að pæla í rándýrri verktakavinnu gleymir oft því hvað það sjálft hefur í laun.  Sumir sem svíða undan smá viðgerðavinnu eru oft sjálf á miklu betra kaupi.  Það skil ég ekki.  Þegar mánaðarlaun verktakans eru teknar til samanburðar að þá koma oft allt aðrar tölur en virðast í fyrstu sýn.  Launaði starfsmaðurinn oft á tíðum fær greidd laun í fríum og veikindafríum.  Verktakinn fær þá ekki krónu í bala.  Þegar allt er á botninn hvolft vantar honum 2 mánuði á árið launalaust.  Launatengd gjöld eru allt önnur en hjá launafólki o. s. frv.  Fríin geta launafólk planað á meðan verktakinn stelst í fríið.  Segjum svo að ef fengin er viðgerð.  Verktakinn kemur og lagar það á klukkutíma og tekur 3 til 4 tíma.  Af hverju?  Jú, er það ekki augljóst.  Næsti staður í vinnu kemur ekki strax á eftir.  Það tekur tíma að keyra á milli og byrja aftur.  Sé sá sami að vinna allan daginn á sama stað að þá tefst hann ekki og getur tekið raunhæfari tímafjölda.  Réttast er fyrir verkkaupa að óska eftir viðgerð sem tekur allan daginn. 

Mér þykir miður að þú hafir lent í þessu með úttekt á verki með allan þennan pening en enga úttekt að viti.  Vinnubrögð virðist eftir því sem ég hef oft heyrt ekki að gera sig.  Þau hafa oft ekki verið upp á marga fiska og hafa menn reynt að leita eftir þeim vertökum sem skila vinnunni vel og sómasamlega.  Til eru fullt af slíkum iðnaðarmönnum sem standa sig vel en innanum eru slóðar og menn sem smyrja tíma er ég að heyra um.  En auðvitað er best að leita eftir kostnaðaráætlun, vinnuplaggi eða verksamningi.

með kv.

Hörður Finnbogason, 29.6.2008 kl. 01:27

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Dóttir mín lenti í svipuðu máli, hún lét laga 4. fermetra baðherbergi.  Innifalið í verkinu var uppsetning á sturtubotni, smá flísalögn, og uppsetning á einu klósetti.  Hennar reikningur frá Handlaginn.is hljóðaði uppá 880.000 krónur fyrir nokkurra daga vinnu.  Hún borgaði reikninginn, sem mér fannst ekki rétt af henni.  Þetta var fyrir tveimur árum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.6.2008 kl. 02:13

6 Smámynd: Viðar Eggertsson

Til að allrar sangirni sé gætt, þá væri rétt að þú upplýstir hvaða fyrirtæki átti þarna hlut að máli. Þetta hlýtur hvort eð vera orðið opinbert mál, þar sem það hefur farið fyrir úrskurðarnefnd og úrkurður komið frá hénni. Að öðrum kosti sitja öll verktakafyrirtæki undir grun.

Viðar Eggertsson, 29.6.2008 kl. 09:09

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það er rétt Viðar, ferill þessa máls er birtur á síðu Neytendastofu en mér skylst að nöfn séu þurrkuð út.
Ég var einmitt að hugsa þegar ég skrifaði þessa færslu hvort ég ætti og mætti segja fullum fetum frá nafni þessa fyrirtækis. Ég sé reyndar að aðrir eru ófeimnir við að nefna nöfn fyrirtækja sem þeim finnst þeir hafa komið illa út í samskiptum við.
Maður spyr sig eflaust alltaf ákveðinnar siðferðislegrar spurningar og einnig er ekki meining mín að rústa hvorki sálarlífi verktakans né fyrirtæki hans.
En svo  er hitt að ef ekkert má segja þá munu e.t.v. fleiri brenna sig á þessu sama fyrirtæki. Ég hef rætt við nokkra aðila sem þáðu þjónustu þessa fyrirtækis en þá einungis viðgerð á steypuskemmdum. Samkvæmt því sem þeir sögðu var vinnan ekki illa unninn.  Allir nefndu þó að reikningar hefðu verið stjarnfræðilega háir og ekki gekk að fá sundarliðað, skriflegt verkferli með tímasetningum að heitið gat, heldur var rennt frekar blint í sjóinn og að fyrirtækið hafi borið við ýmsum fyrirvörum.
 Ef færslan er lesin gaumgæfilega má þó sjá hvaða fyrirtæki um er að ræða. Eins og þú bendir réttilega á Viðar, er óþarfi að öll fyrirtæki liggi undir grun.

Kolbrún Baldursdóttir, 29.6.2008 kl. 11:08

8 Smámynd: Hörður Finnbogason

Svakalegt að heyra með þetta baðherbergi uppá 880 þús.  Samt kemur ekki fram hvort verkkaupi hafi keypt inn á baðið þar fyrir utan.  En Handlaginn er rekið á annan hátt en að kaupa vinnu beint af iðnaðarmanni.  Þeir sem stjórna taka kommisjón af allri vinnu iðnaðarmanna sem vinna undir þeim en sjálfir sitja þeir með hendur í vösum og taka við aurunum.  Deila síðan því niður á sig og iðnaðarmennina.  Ég er sjálfur iðnaðarmaður og get sagt strax að þessi verðtala er bara bull.  Þetta er svæsnast sem ég hef heyrt og hefði stúlkan átt að kanna verðið svo að hún hefði tíma til að sparka þeim út.

En ég hef heyrt um svona svipaða vinnu á smá klósetti 4 fermetrum á 350 þús. í vetur og svelgdist mér á enda sátu menn í pásu og unnu letilega og reyktu mikið meðan enginn sá til.   Þetta var svona aftengingar og tengingar.  Eitt klósett, ofn og handlaug og smá flísalögn.  Engar breytingar og ekkert efni að heita má.

Hörður Finnbogason, 29.6.2008 kl. 18:17

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Svar til Rúnars Inga undir færslunni:
Stjarnfræðilega dýrt að planta trjám í Reykjavík.

Ég missti nefnilega af mínum eigin tímamörkum á þessa færslu og set því svarið hér.

Einn maður getur plantað 1000 bakkaplöntum á dag t.d. með geispu eða plöntustaf.
Enn fljótlegra er að planta með vél t.d. gróðursetningarplóg (s.s Markúsarplóg).
Með því að planta 1000 plöntum á dag verða daglaunin 120. þús.
Það eru dágóð laun, ekki satt.

Kolbrún Baldursdóttir, 29.6.2008 kl. 21:09

10 identicon

Heil og sæl Kolbrún

 Ég þekki til manna sem bjuggu yfir öllum þeim eigindum og verklagni,verkhagur til allra verka sem unnu við að laga steypusprungur á útveggjum húsa. Af einhverjum ástæðum fór sú vinna fyrir lítið gegn tímans tönn.Ég veit þess dæmi að steypa í 80 ára gömlu húsi sé orðin svo morkin að leikur einn er að skafa sig í gegnum steypta vegginn með skrúfjárni. Það er viðurkennt að íslensk veðrátta sé erfiðari en víðast hvar annars staðar. Lágrétt rigning er ekki óþekkt fyrirbæri. Það má velta því fyrir sér afhverju Noregur er ekki eins ginkeyptur fyrir steinkumöldum og steypumannvirkjun eins og við á Íslandi.Það er löngu komin sú tækni að byggja timurhús sem sameina auðvelda viðhaldið og endurbæturnar sem fylgja bárujárnsgleðinni, og hægt að klæða þau öllum þeim eigindum sem steypan hefur og timurhúsin með minni brunahættu heldur en hin. Í hverju liggur það? Í dag eru til fullkomlega brunaheldar plötur viðurkenndar af Brunamálastofnun og jafn aðgengilegar til vinnslu og spónarplötur sem allir þekkja.Ég er ekki að tala um gips, heldur trefjarfylltar steypuplötur sem þola meira hnjask en áður greindar spónaplötur. Þessar plötur þola líka að vera útiklæðning húsa. Er ekki komin tími til að leggja af allar steypuviðgerðir og leyfa timurhúsunum að blómstra eins og í Noregi sem dæmi.Að lokum er ekki sagt að heil góð timurhús gefi af sér heilbrigðari andrúmsloft sem á rætur sínar að rekja til þess að timur er lifandi en steypan ekki.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ  

B.N (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 23:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband