Blogg, ein leið til að tjá viðhorf sín og skoðanir

Það eru margir kjörnir fulltrúar hvort heldur í sveitarstjórnum eða á Alþingi sem almenningur veit í raun ekki svo mikið um, fyrir hvað þeir standa og hvað þeir eru að gera í þágu fólksins sem greiddi þeim atkvæði sitt.

Ein leið sem kjörnir fulltrúar geta farið til að brúa bilið milli þeirra og almennings er að halda úti bloggsíðu.

Sá sem heldur úti bloggsíðu hefur á þeim miðli fulla stjórn. Bloggsíðan er að því leytinu til ólík ljósvakamiðlunum og dagblöðunum. Í þeim síðarnefndu velja blaða- og fréttamenn hvaða efni skuli fjallað um, þeir ákveða við hverja skuli rætt, móta spurningarnar og matreiða síðan efnið.
Þess utan geta útvarps- og sjónvarpsstöðvar aldrei miðlað nema broti af því sem teljast mætti annars fréttnæmt og sem almenningur gæti haft gagn og gaman að vita.

Blogg og bloggsíður.
Ef áfram er horft til kjörinna fulltrúa geta þeir í gegnum skrif sín á bloggsíðum upplýst fólkið í landinu um skoðanir sínar í einstaka málum, hugmyndir, umræður og ótal aðra hluti sem tengjast starfi þeirra sem þingmenn eða sveitarstjórnarmenn.

Ákveðin tenging hefur jafnframt myndast milli bloggmiðla og annarra miðla sem dæmi að undanfarin ár hefur fjölmiðlafólk í vaxandi mæli vitnað í einstaka bloggfærslur sem þeim finnst mikilvægt að vekja athygli almennings á.

Kostir fjölmiðils eins og bloggs.
Þeir stjórnmálamenn sem hafa nýtt sér þennan fjölmiðil til að komast í samband við kjósendur og aðra landsmenn eru einmitt þeir fulltrúar sem líklegt er að fólk þekki hvað best. Nú þegar eru nokkrir þingmenn sérlega vel kynntir m.a. vegna þess að þeir halda úti bloggsíðu sem þeir skrifa reglulega á.

Leiðir til að tjá sig.
Kjörnir fulltrúar hvort heldur á þingi eða í sveitarstjórnum eru mjög misvirkir í að tjá sig opinberlega. Þessi störf eru þó eitt af þeim störfum sem beinlínis krefjast þess að menn tjái sig í ræðu og/eða riti, geri reglulega grein fyrir skoðunum sínum og viðhorfum og með hvaða hætti þeir eru vinna að málefnum í þágu lands og lýðs.

Að öðrum kosti vita kjósendur e.t.v. takmarkað um hvernig eða jafnvel hvort þeir séu að vinna að þeim málefnum sem þeir stóðu fyrir þegar þeir voru í framboði.

Ef litið er til þingmanna og varaþingmanna er það mjög einstaklingsbundið hversu oft þeir kjósa að flytja ræður. Sumum hugnast það betur að tjá sig í rituðu máli, enn aðrir tjá sig einfaldlega lítið hvort heldur í ræðu eða riti.

Að halda úti bloggsíðu er tímafrekt.
Rök sumra sem hafa kosið að nýta sér ekki bloggmiðilinn eru þau að það sé svo tímafrekt að blogga. Sumum finnst það jafnvel fyrir neðan sína virðingu að blogga. Nokkrir fordómar gagnvart bloggi og bloggurum virðast einnig leynast í samfélaginu. Raddir eins og að þeir sem blogga mikið nenni ekki að vinna eða noti vinnutímann til að blogga ofrv.
Rétt er að blogg getur verið tímafrekt sérstaklega ef fólk skrifar margar færslur á dag.

En hverjir eru kostir þess að nota bloggmiðilinn?
Ávinningurinn er fyrst og fremst sá að með bloggi kemst viðkomandi í samband við aðra á tiltölulega fljótvirkan og þægilegan hátt.
  Eins og fyrir kjörna fulltrúa hlýtur upplýsingamiðlun til almennings um störf þeirra að vera meðal forgangsatriða. Kjósendur og skattborgarar eiga rétt á því að vita hvað lykilaðilar í ábyrgðarstöðum eru að hugsa og gera í þágu almennings sem greiðir laun þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

algjörlega sammála þessu Kolbrún/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 16.11.2008 kl. 16:21

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband