Færsla frá 27. september 2007 um ESB og evruna. Tími er kominn til að taka næsta skref

Það er áhugavert nú að líta aðeins til baka og skoða hvernig þróun umræðunnar um ESB og evru hefur verið.  Þessa færslu birti ég á blogginu í lok september 2007.

Málið er búið að vera í umræðunni eiginlega á sama plani í eflaust meira en 2 ár.
Það er þess vegna greinilega tímabært að taka næsta skref, ekki einungis að velta vöngum, spá og spekúlera heldur fara að kanna hvað það er sem raunverulega kemur upp úr poka merktum ESB og Ísland.

27. september 2007.
Umræðan um evruna og mögulega aðild Íslendinga í ESB hefur orðið æ áleitnari síðustu mánuði og er nú einnig farin að heyrast úr fleiri áttum. Lengi hafa menn þó velt vöngum yfir kostum og göllum upptöku evrunnar, hvenær íslenskt efnahagslíf verði tilbúið og hvort aðild að ESB sé nauðsynleg eða hvort hægt sé að taka hana upp einhliða.

Ég hef fylgst með þessari umræðu eins og aðrir, hlustað á  fjölda fyrirlestra um málið þar sem rök með og á móti hafa verið reifuð.

Undanfarna daga hefur heyrst talað um hvort Íslendingar eigi og geti tekið upp evruna einhliða. Í því sambandi minnist ég þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra fullyrti á sínum tíma að sá möguleiki væri raunhæfur og fannst mér hún fá fyrir það mikla gagnrýni og allt að hneykslun margra. Nú hins vegar virðast allar hliðar umræðunnar leyfilegar og æ fleiri vilja taka þátt í henni, sem er auðvitað alveg frábært.

Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en sé í hendi mér að upptaka evrunnar yrði ekki einungis mikill kostur fyrir viðskiptalífið heldur einnig hinn almenna borgara.

Eins og stendur þá er munur á kaup- og sölugengi gjaldmiðils. Bankarnir fá þennan mismun sem er verulegur. Þessi kostnaður yrði úr sögunni fyrir almenning væri evran okkar gjaldmiðill. Aðrir kostir eru hversu auðvelt yrði að bera saman verð hér og annars staðar í Evrópu. Verðlagseftirlit yrði því mun árangursríkara.

Fleira mætti nefna. Sú spenna sem fylgir því að kaupa varning erlendis frá hyrfi.  Íslendingar hafa eytt mikilli orku í að hitta á rétta tímann, þegar gengið er hagstætt og kaupa áður en það fellur síðan aftur.
Ég er þeirrar skoðunar að þessi þáttur hefur á sumum tímabilum jafnvel ýtt undir ótímabær kaup okkar eins og á bílum og öðrum dýrum erlendum varningi. Ekki hefur mátt bíða með að kaupa því að hætta hefur verið á að varan hækkaði við gengisbreytingar.

Aðild að ESB eða ekki.
Málflutningur fjölda þeirra sérfræðinga sem rætt hafa um nauðsyn þess að ganga í ESB ef taka á upp evru er afar sannfærandi. Öðruvísi verðum við ekki aðilar að Evrópska seðlabankanum og höfum þar að leiðandi engan stuðning þar frá.

Aðild að ESB er stórt mál enda varðar það margt fleira en upptöku evrunnar. Menn óttast hvað helst að það sé sjávarútvegurinn sem ekki verði hægt að standa nægjanlegan vörð um.
Aðild eða ekki aðild verður ekki ákveðin nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað sem öllu líður fagna ég því að æ fleiri vilja skoða málið með opnum huga enda var vitað að umræðu um evruna og ESB aðild yrði ekki umflúin.
Fyrir mitt leyti get ég ekki betur séð en að evran sé framtíðin og spái því að hún verði með einum eða öðrum hætti orðin okkar gjaldamiðill innan 10 ára.  Nú við þetta má bæta að eins getur verið að við tökum upp einhvern annan gjaldmiðil en evruna, eða höldum krónunni en spyrðum hana við evru já eða dollar ef því er að skipta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband