Í háskólum, á vinnustöðum, á elliheimilinu. Á ólíklegustu stöðum fyrirfinnast gerendur eineltis.

Þátturinn frá 18. maí kominn á Vefinn.

Einelti/kynferðislegt áreitni á vinnustöðum.
Sérsveitarhugmyndin til lausnar eineltismálum í framhaldsskólum eða á vinnustað.

Hugmyndina um sérstakt teymi fagfólks má allt eins sjá fyrir sér í heimi fullorðinna.
Teymið er virkjað, hafi ekki tekist að leiða mál til lausnar með úrræðum sem framhaldsskólar/háskólar eða vinnustaðir hafa yfir að búa með þeim hætti að sá sem upplifir sig hafa verið lagður í einelti finnist að unnið hafi verið í málinu með hagsmuni hans að leiðarljósi.
Þeir sem geta óskað eftir að virkja teymið:
1. Einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir einelti/ofbeldi í framhaldsskóla, háskóla eða á vinnustað.
2. Skólastjórnendur framhaldsskóla, atvinnurekendur/stjórnendur fyrirtækja.

Eins og alkunna er,  koma reglulega upp alvarleg eineltismál á vinnustöðum. Staða þolanda eineltis á vinnustað getur verið mjög slæm enda vinnsla og úrlausnir á höndum yfirmanna og eigenda fyrirtækis sem viðkomandi starfar hjá. 


Eins og staðan er í dag getur þolandi eineltis á vinnustað leitað eftir ráðgjöf til síns stéttarfélags og einnig til Vinnueftirlitsins. Sá meinbugur sem finnst á þessum tveimur stofnunum þegar kemur að eineltismálum, er sá að þessi kerfi geta ekki einskorðað sig við að sinna einum starfsmanni umfram annan, hvort heldur hann er þolandi eða gerandi.  Sem dæmi getur lögfræðingur stéttarfélags eða Vinnueftirlitsins illa sinnt aðila sem segist vera þolandi eineltis þar sem hann er allt eins lögfræðingur geranda. 

 

Með öðrum orðum nær hugmyndafræði og aðgerðir t.d. Vinnueftirlitsins ekki nema hálfa leið þar sem ekki er gengið í að vinna í málinu með það fyrir augum að ná einhvers konar niðurstöðu.  Hvort unnið sé í málum af þessum toga á vinnustöðum yfir höfuð veltur í öllum tilvikum á vilja og ákvörðun stjórnenda/atvinnurekenda. Sé stjórnandi eða atvinnurekandinn gerandi í máli segir það sig sjálft að staða þolandans er afleit. Dæmi hafa sýnt að sé málum þannig háttað bíði fátt annað fyrir þolandann en að yfirgefa vinnustaðinn. Vissulega gefst honum kostur á að sækja mál sitt fyrir dómstólum. Allir þeir sem eitthvað þekkja til þessara mála vita að sú leið er ekki bara kostnaðarsöm heldur afar tyrfin.  Eftir situr einstaklingurinn með málið óuppgert en með allar þær fjölmörgu skaðlegu afleiðingar sem sýnt hefur verið fram á að einelti geti valdið svo sem félagslegt óöryggi og brotna sjálfsmynd.

Hugmyndin sjálf.
Hugmyndin um að þolandi geti leitað til sérstaks utanaðkomandi, hlutlauss fagteymis er fýsilegur kostur telji viðkomandi sig ekki vera að fá lausn sinna mála á vinnustaðnum. Yrði sérsveitarhugmyndin að veruleika á þolandi eineltis á vinnustað það ekki lengur undir yfirmanni sínum hvort mál hans verði skoðað eða að tilraun verði gerð til að leysa það.

Atvinnurekandi/stjórnandi getur að sama skapi óskað eftir liðsinni teymisins telji hann sig hafa reynt að leiða málið til lykta en án árangurs.   Fagteymið getur þannig komið öllum aðilum til góða. Sé um að ræða vinnustað er mjög mikilvægt að auk sálfræðings sé um borð lögfræðingur þar sem sennilega myndi oftar en ekki koma upp spurningar er lúta að lögfræðilegum réttindum þolanda.

Fagteymi til lausnar í eineltismálum er ekki ný af nálinu. Á árum mínum innan BHM, þegar ég var formaður Stéttarfélags Sálfræðinga og átti síðar einnig sæti í stjórn BHM, átti ég einnig sæti í eineltisnefnd BHM. Þá kom ég með þá hugmynd að aðildarfélögin myndu sameinast um að reka svona teymi sem hægt væri að kalla út að ósk þolanda eða atvinnurekanda. Þessi hugmynd átti ekki upp á pallborðið á þeim tíma.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kolbrún, ég hef fylgst með eineltisumræðunni sem að þú hefur hrundið af stað, bæði hér á blogginu og einnig á ÍNN. Virkilega þörf umræða og nýtt að fjallað sé um einelti frá svo mörgum sjónarhornum eins og þú gerir. Fagmannlega og vel unnið.

Bæði ég og sonur minn hafa orðið þolendur alvarlegs eineltis, ég í 7 ár á vinnustað og sonur minn í 7-8 ár í grunnskóla.

Þakka þér fyrir að halda þessari umræðu opinni, ekki veitir af.

Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 02:57

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Afskaplega þörf umræða. Allir geta orðið fórnarlömb eineltis á vinnustað. Ég hef einu sinni orðið fyrir tilraun til eineltis á vinnustað mínum fyrir mörgum árum. Sá sem fór þar fremstur í flokki varð þó illilega á í messunni, því að í mér fann hann ofjarl sinn.

Ég lét viðkomandi og stuðningsmann hans heyra það og þegar það dugði ekki snéri ég mér til míns næsta yfirmanns, sem gerði ekki neitt í málinu. Að lokum fór ég á toppinn og þar var hlustað á mig. Skömmu síðar hætti eineltið. Ég hef verið yfirmaður um nokkurra ára skeið og hef alltaf tekið strax á þessum málum þegar ég hef orðið þess var.

Það eru ekki allir nógu sterkir til að verja sig í málum sem þessum og því mikilvægt að vinnufélaga, skólafélagar og fólk almenn - auk yfirmanna - sé sér mjög meðvitaðir um þetta vandamál! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.5.2009 kl. 08:03

3 identicon

Sæl verið þið! Ég er vissulega sammála Guðbirni, að erfitt getur verið að verja sig á vinnustöðum gegn einelti og bolun. - Því miður er hræðsla fólks mikil ef gerandi er yfirmaður, þá þorir fólk almennt ekki að standa með þolandanum, af ótta við að missa vinnu sína.

Það er sorgleg staðreynd að lögmenn stéttarfélaga, sitja oft báðu megin borðsins og jafnvel í hringinn í kringum borðið(eru sem sé hringormar), þegar kemur t.d að málefnum sem tengjast einelti, bolun og/eða kynferðisáreiti á vinnustöðum.

Forsvarsmenn stéttarfélaga eru í erfiðri stöðu þar sem margir aðilar eins og sama vinnstaðarins eru oft í einu og sama stéttarfélaginu. Því gerist það að þolendur eru oft hreinlega neyddir til starfslokasamninga, eða bolað í burtu.

Þess vegna er Sérsveitarteymið lífsnauðsynlegt, bakland fyrir þolandann sem eins og fyrr segir, stendur oft einn og óvarinn vegna afskiptaleysis samstarfsfólks á vinnustað og jafnvel félagsmanna stéttarfélaganna.

Hægt væri að taka á málinu á fyrsta degi og koma í veg fyrir miklar þjáningar þolandans og þeirra sem næst honum standa.

Að sýna fólki afskiptaleysi í svona stöðu er í raun skortur á siðferðisþreki þess sama, og sýnir í raun veikleika þess, sem leiðir eineltið hjá sér.

- Stillum siðferðiskompásinn, - Lyftum mennskunni í æðra veldi. - Með samstilltu átaki getum við útrýmt einelti, bolun og kynferðisáreiti. Helga Björk Magnúsdóttir Grétudóttir.

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband