Samskiptahættir á Alþingi; þingmenn kvarta yfir að vera lagðir í einelti

Alþingi er sérstakur vinnustaður að því leyti að hann er einmitt þess eðlis að þar gengur vinnan oftar en ekki út á að sannfæra aðra um réttmæti skoðana sinna og selja hugmyndir til lausna ýmsum samfélagslegum vandamálum. 

Vel er hægt að sjá fyrir sér að þrýstingur myndist þegar verið er að leita að meðflutningsmönnum með frumvarpi eða einfaldlega leita eftir stuðningi við einstaka mál hvort heldur þingmannamál eða stuðningi við stjórnarfrumvarp. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að þeir sem sækjast eftir því að starfa á þessum mjög svo sértaka og krefjandi vinnustað stígi klárlega í báðar fætur, hafi sterka sjálfsmynd, dómgreind og einfaldlega kalli ekki allt ömmu sína.

Ekki alls fyrir löngu kvörtuðu a.m.k. tveir þingmenn yfir því að þeir höfðu verið lagðir í einelti af öðrum þingmönnum og einn þingmaður (3. aðili) sagði frá því að ofbeldi hafi klárlega verið beitt þegar kom að atkvæðagreiðslu mikilvægs máls. 

Ekki skal gera lítið úr þessu.  Þegar þingmaður segir í fréttum að hann hafi verið lagður í einelti eða þegar 3. aðili (þingmaður) segir að hann hafi orðið vitni af því að þingmaður beitti annan ofbeldi þá er mjög mikilvægt að fylgja eftir hvað átt er við og biðja aðila um að útskýra nánar hvað liggur að baki orðum þeirra enda ef rétt reynist er hér um alvarlegar ásakanir að ræða.

Hvað varðar 3. aðilann er einnig áhugavert að skoða hvort sá sem segist hafa orðið vitni af ofbeldi kunni að vera að nýta uppkomnar ásakanir sem pólitískan þrýsting t.d. til að vekja athygli á hvað hinir eru vondir og hvað málstaður þeirra sé slæmur. 

Enda þótt vinnan á Alþingi gangi mikið út á að selja skoðanir sínar, sannfæra aðra þingmenn um að ein leið sé betri eða verri en önnur, ber þingmönnum eins og öðrum að varast að ganga ekki of langt í viðleitni sinni að fá aðra á sitt mál.  Sá sem vill sannfæra þarf að gæta þess að ganga ekki svo langt að hægt sé að segja að um áreitni sé að ræða og sá sem er í hlutverki þess sem verið er að reyna að sannfæra þarf einnig að geta sett mörk og sagt sem dæmi, nú er nóg komið, hingað og ekki lengra, ég hef gert upp minn hug og við það situr.  

Hvað sem þessu líður þarf Alþingi eins og allir aðrir vinnustaður að hafa sína starfsmannastefnu og í henni þarf að felast eineltisáætlun, ferli sem hægt er að setja mál af þessum toga í komi þau upp. 

Vert er að rifja upp hér í lok færslunnar hvernig ein af algengustu skilgreiningum á einelti hljóðar þannig að þeir sem lesa færsluna eigi betur með að setja innihald hennar í samhengi við það sem kallast einelti. Skilgreining á vef Fjármálaráðuneytisins er svona:

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.
(Af vef Fjármálaráðuneytis).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband