Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

Hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu?

Það á ekki nota núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld noti ekki viðkvæmt ástand vegna COVID-19 veirunnar til að þrýsta málum í gegn sem eru jafnvel í óþökk fjölda borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það blasa við að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld ætli að nota tækifærið í þessu ástandi til koma áformum sínum um að loka fyrir bílaumferð í miðbænum hraðar í gegn. Sagt er að rekstraraðilar vilji stækka staði sína til að virða tveggja metra regluna og leggur borgarstjóri til frekari lokanir gatna í því sambandi. Inn í umræðuna reyndi borgarstjóri að draga þá Þórólf og Víði sem hafa nú sagst ekki hafa neina skoðun á hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu.

Hverjir hafa viljað stækka staði sína? Eru það veitingastaðir? Hvað með aðrar verslanir, eiga þær að færa varning sinn út á götu? Þessar hugmyndir eru með öllu óraunhæfar og munu skaða miðbæinn. Með því að loka fleiri götum verður verra aðgengi fyrir bíla. Miðbærinn er nú mannlaus vegna veirufaraldurs. Borgarstjóri vill notfæra sér veirufaraldurinn til að loka fleiri götum fyrir umferð. Tveggja metra reglan er notuð sem yfirskyn og sagt að rekstraraðilar vilji þetta. Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilja sæta lagi og draga enn frekar úr ferðum bíla í miðbæinn. Ekki er verið að hugsa mikið um þá sem koma lengra frá, fólk sem býr í úthverfunum og landsbyggðafólk sem kemur akandi og langar e.t.v. að heimsækja miðbæinn. Bíllinn er öruggari ferðamáti en almenningssamgöngur ef horft er til tveggja metra reglunnar. Almenningssamgöngur eru nánast engar auk þess sem fólk er hrætt við að nota þær. Þær voru slakar fyrir og eru enn stopulli nú vegna COVID-19. 

Með því að loka fleiri götum munu enn færri koma í miðbæinn. Ekki verður ferðamönnunum fyrir að fara þetta árið. Sífellt er vísað til annarra borga, milljóna borga með þróað og öflugt almenningssamgöngukerfi og þar sem veðurfar er jafnvel ólíkt. Hvernig er hægt að bera Reykjavík saman við Osló eða Kaupmannahöfn í þessu sambandi? Hver vill sitja úti í vindinum á Laugavegi með kaffibolla en á þeirri götu er ekki oft sól og blíða. Einstaka sinnum þegar sólin gægist fram kemur fólk kannski í tvo tíma.

Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld hafa aldrei verið í góðu samstarfi við rekstraraðila, eiginlega bara engu. Í meirihlutasáttmálanum voru teknar einhliða ákvarðanir um að loka götum fyrir umferð og rekstraraðilar voru aldrei spurðir. Engu að síður var lofað að hafa samráð sem mest og best. Óskir verslunareigenda og skoðanir hafa verið hunsaðar. Skeytum/erindum ekki einu sinni svarað eins og fram kemur í viðtölum við verslunareigendur. Við eigum ekki að nota faraldur til að beyta skipulagi borgarinnar. Margir eiga um sárt að binda og væri nær að einblína frekar á aðgerðir til hjálpar en að einblína á að  finna smugu til að hindra aðgengi bíla enn frekar í miðbæinn.

Grein birt á visi.is 28.4.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

 


Auðvitað á að nota frístundakortið í sumarnámskeiðin

Sumarið er komið og standa börnum til boða ýmis konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á vegum skóla- og frístundaráðs. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinnipartinn af faraldri bíða mörg börn þess með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum.

Í undirbúningi hjá Flokki fólksins er að leggja aftur fyrir tillögu um að rýmka reglur frístundakortsins þannig að hægt sé að nota það á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar sem og önnur viðurkennd námskeið án tillits til lengdar námskeiðanna. Núgildandi reglur um frístundakort kveða á um að frístundastyrkinn, 50.000 kr., sé aðeins hægt að nýta í námskeið sem eru að lágmarki 10 vikna löng. Nú býður Fjölskyldu og húsdýragarðurinn börnum upp á 5 daga námskeið sem kosta 18.500 og 4 daga námskeið sem kosta 15.100. Skóla- og frístundaráð býður börnum einnig upp á námskeið sem kosta um 10.000 á viku.

Í borgarráði 2. maí 2019 lagði ég til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Ég hyggst gera aðra atrennu að regluverkinu von bráðar því það er öllum börnum afar mikilvægt að komast á námskeið í sumar eftir þennan óvenjulega vetur.

Að skilyrða notkun frístundakortsins við 10 vikna löng námskeið lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Það er ekki lengd námskeiðs sem skiptir máli heldur gæði þess og hvernig námskeiðið hentar barninu.

Fjárhagur foreldra er misjafn. Sumir hafa misst vinnu eða laun þeirra verið skert vegna COVID-19. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að leyfa börnum sínum að taka þátt í sumar- eða vetrarnámskeiðum. Það lítur sérkennilega út að sjá öll þau fjölbreyttu sumarnámskeið auglýst á vefsíðu ÍTR og skóla- og frístundaráðs og sjá á sama stað vísað í upplýsingar um frístundakort, sem þó er ekki hægt að nota vegna þess að ekkert námskeiðanna nær 10 vikum.

Gengisfelling frístundakortsins í gegnum árin

Auk þess að leggja fram tillögur um rýmkun á reglum frístundakortsins hef ég einnig lagt fram tillögur sem lúta að því að frístundakortið fái aftur upphaflegan tilgang. Til upprifjunar þá var frístundakortið hugsað sem tæki til jöfnuðar, til að gefa öllum börnum tækifæri til að stunda íþrótta eða tómstundastarf án tillits til efnahags foreldra þeirra.

Árið 2009 var byrjað að afbaka reglur frístundakortsins sem varð til þess að frístundakortið var ekki lengur það jöfnunartæki sem það átti að vera. Gengisfelling á frístundakortinu hófst þegar ákveðið var að hægt yrði að nýta rétt frístundakortsins til að greiða gjald frístundaheimilis. Sé kortið notað til að greiða frístundaheimili þá getur barnið ekki notað það til að fara á íþrótta- eða tómstundanámskeið. Hér hefði átt að finna aðrar leiðir til að styrkja foreldra sem ekki gátu greitt frístundaheimili fyrir barn sitt í stað þess að taka frístundakortið af barninu. Næst var tekið upp á að blanda rétti til nýtingar frístundakortsins saman við umsókn um fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við barn. Sú ákvörðun dró enn frekar úr líkum þess að barn gæti notað það til að velja sér tómstund eða íþrótt.

Barátta mín og Flokks fólksins fyrir rétti barnsins að nýta frístundakortið í samræmi við tilgang þess er hvergi nærri lokið en hefur þó skilað nokkrum árangri. Til stendur að gera þær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð að fellt verði úr gildi að skilyrða umsækjanda að nýta sér rétt sinn samkvæmt frístundakorti til að geta sótt um aðstoð vegna barns. Þetta er sannarlega fagnaðarefni. Drög af breytingum á reglunum eru nú í umsagnarferli.

Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt allt of stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera 10 vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þar sem styrkurinn er aðeins 50.000 geta efnaminni og fátækir foreldrar oft ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

Í gangi er stefnumótunarvinna um frístundakortið. Vonandi er sá hópur að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til. Ég mun áfram halda á lofti tillögum um breytingar sem miða að því að koma frístundakortinu aftur til uppruna síns sem stuðningstæki sem stuðlar að því að öll börn 6-18 ára í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortið er ætlað til jöfnunar og fjarlægja þarf annmarka við reglur kortsins til að börn í öllum hverfum geti nýtt kortið eins og tilgangur þess segir til um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2020


Ég var að vonum ánægð, eiginlega bara grátklökk

Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar 21.4 að vísa tillögu Flokks fólksins um að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) m.a. í þeim tilgangi að stytta biðlista til Stýrihóps um heildstæða þjónustu við börn með sérþarfir.

Ég var að vonum ÁNÆGÐ!
Í þessum málaflokki hef ég getað í borgarstjórn nýtt sérfræðiþekkingu mína sérlega vel:)

Tillögunni fylgdi fimm síðna greinagerð sem ég las upp í þremur lotum. Hlekk inn á hana er að finna á kolbrunbaldurs.is undir Borgarmál 2020.

Í tillögunni segir að með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið myndi t.d. snúa að málum þar sem skimun hefur leitt í ljós sterkar vísbendingar um ADHD. Í samstarfinu fælist að sálfræðingur skóla og sérfræðingar ÞHS færu saman yfir málin og afgreiddu þau með viðeigandi hætti. Þessi hópur barna fengi þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr en ella. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast og jafnframt stytta bið þeirra barna sem glíma við önnur vandamál en þau sem kalla á aðkomu barnalæknis.

Á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu voru í febrúar sl. 674 börn, 429 biðu eftir fyrstu þjónustu og 245 eftir frekari þjónustu. Mörg þessara barna hafa verið lengi á biðlista eftir fyrstu þjónustu. Þau börn sem þurfa síðan frekari þjónustu eftir að hafa fengið fyrstu þjónustu fara aftur á biðlista. Að lokinni fullri þjónustu hjá sérfræðingum skólaþjónustu er niðurstaðan stundum sú að vísa þarf málum barna til stofnanna á vegum ríkisins þ.m.t. ÞHS. Þá hefst enn á ný bið á biðlista.

Sjá frekari rök og upplýsingar um málið í greinargerð á kolbrunbaldurs.is.

Hópar sem hafa orðið út undan í Covid-19 aðstæðunum

Í borgarráði í morgun var umræðan m.a. um áhrif Covid-19 enda fátt annað sem á hug okkar þessa dagana. Ég bókaði um eldri borgara, leigjendur hjá Félagsbústöðum og dagforeldra, allt hópar sem mér finnst hafa orðið út undan í þessu Covid-19 aðstæðum.

Bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram nokkrar viðspyrnutillögur sem ekki er alveg ljóst hvernig afgreiðslu sumar þeirra muni fá. Ein af þessum tillögum var að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar hafa starfað sem framlínustarfsfólk og hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kæmi mögulega smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Fram kemur hjá borgarstjóra að ákveðin vinna sé í gang hvað varðar dagforeldra og muni sveitarfélög verða samferð í þessum aðgerðum. Ekki er vitað meira um hvað verður um málefni dagforeldra. Dagforeldrar geta ekki beðið mikið lengur eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið.

Aðrar áhyggjur Flokks fólksins eru hversu út undan leigjendur hjá Félagsbústöðum hafa orðið í öllu þessu ástandi. Ekki hafa borist svör við tillögu Flokks fólksins um niðurfellingu leigu í 2-3 mánuði eins og Flokkur fólksins lagði til strax í upphafi Covid- faraldursins. Boð Félagsbústaða um greiðsludreifingu nær allt of skammt. Ganga þarf lengra og fyrir því er nú þegar fordæmi hjá öðru leigufélagi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ályktun Landssamband eldri borgara LEB. Það er áberandi hvað eldri borgarar hafa orðið út undan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Hvar eru aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins? Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættri þjónustu við eldri borgara bæði á Alþingi og í Reykjavík en ekki haft árangur sem erfiði. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek og í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað.
Flokkur fólksins tekur undir áskorun stjórnar LEB að sveitarfélögin taki upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín og lækki fasteignagjöld. Það er margt fleira sem velferðayfirvöld borgarinnar geta gert til að létta undir með þessum hópi. Margir eldri borgarar hafa þurft að loka sig af, einangra sig vegna hættu á smiti. Fjárhagsáhyggjur er ekki á slíkt bætandi.


Braggaskýrslan undir stól

Þvílík afhjúpun.

Braggaskýrslan undir stól og reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standast ekki skoðun. Í tvö ár hefur engin úr endurskoðunarnefndinni stigið fram fyrr en nú og þá er sagt að nefndin hafi brugðist með því að fylgja ekki braggaskýrslunni eftir. 

Tvennslags afhjúpun er hér í gangi:

Það er annars vegar reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða sem standast ekki skoðun og hins vegar að Braggaskýrslunni var stungið undir stól.

Flokkur fólksins lagði til í júní 2018 í borgarstjórn að gerð yrði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Það er ýmislegt sem orkar tvímælis þegar rýnt er í rekstur félagsins en það skal ekki rekið í ágóðaskyni. Nú segist Einar segja sig úr nefndinni að reiknings-skilaaðferðirnar standist ekki skoðun, (segir í greinargerð með tillögunni)

Braggaskýrslan

Einar Hálfdánarson endurskoðandi segir í Fréttablaðinu í dag að "það sé ekki nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og  endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra" (haft eftir Einari í Fréttablaðinu)

 

Ég spyr af hverju sagði maðurinn ekkert fyrr þar sem hann var margspurður um hvað þeim þætti um þessa skýrslu og hvort ekki væri þarna meint misferil sem þyrfti að kanna. Þá var svarið alltaf Nei.

Ég er mjög fegin að  skýrslan sé nú komin í rannsókn til þar til bærra yfirvalda hvað svo sem kemur út úr því.

____________________________________

Hér er tillagan um úttekt á Félagsbústöðum í heild sinni frá 19.júní 2018, lögð fram í borgarstjórn

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Borgarstjórn samþykkir að fela innri endurskoðanda Reykjavíkur að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Úttektin skal liggja fyrir eigi síðar en á fyrsta borgarstjórnarfundi í september.

Greinargerð:

Leiguverð á íbúðum Félagsbústaða hefur í einhverjum tilfellum verið að hækka og er að sliga marga leigjendur. Einnig hafa fjölmargar ábendingar og kvartanir borist um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki haldið við sem skyldi.

Óskað er eftir úttekt á rekstri félagsins, þar sem farið er yfir launamál stjórnenda þess, stjórnarhætti og hlutverk fyrirtækisins m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Það er ýmislegt sem orkar tvímælis þegar rýnt er í rekstur félagsins en það skal ekki rekið í ágóðaskyni. Í ljósi þess er athyglivert að Félagsbústaðir hafi sýnt svo mikinn hagnað á liðnu ári. Óskað er eftir að svarað verði spurningum um það hvernig hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi félagsins.

Í úttektinni þarf m.a. að svara hvernig vinnubrögð eru viðhöfð við endurmat eigna og færslu bókhalds í því sambandi. Er núverandi rekstrarform sem best til að þjóna hagsmunum notenda?

Þessi tillaga var felld.


Hverjum hefði dottið þetta í hug?

COVID og kvíðabörnin

Margir eiga erfitt með að átta sig á þeim aðstæðum sem nú ríkja um heim allan. Hverjum hefði dottið í hug, t.d. um áramótin, að eitthvað þessu líkt biði okkar í upphafi árs.  Útbreiðsla hættulegrar veiru hefur snúið lífi okkar allra á hvolf. Hver og einn bregst við á sinn hátt, eftir eðli og aðstæðum, aldri og þroska, og í gegnum þennan erfiða tíma förum við saman. Þetta mun taka enda en eftir COVID-19 faraldurinn verðum við stödd í breyttum veruleika.

Mér er eins og mörgum umhugað um þá viðkvæmustu og vil tala hér um börn sem eru af ýmsum ástæðum sérlega viðkvæm fyrir aðstæðum sem ógna og skapa hættu. Þetta eru börnin sem glíma við meiri kvíða en þann sem er einfaldlega hluti af almennu þroskaferli. Stundum er talað um að barn sé kvíðabarn. Þetta eru börnin þar sem kvíði stýrir þeirra lífi of mikið og sum eru greind með kvíðaröskun.  

Almenn kvíðaröskun einkennist af miklum óraunhæfum kvíða eða áhyggjum. Flest börn og unglingar finna af og til fyrir kvíða til dæmis í tengslum við fjölskyldu sína, vini eða frammistöðu í skóla. Þau sem haldin eru almennri kvíðaröskun eru svo kvíðin að það hefur hamlandi áhrif á líf þeirra. Þau hafa óeðlilega miklar áhyggjur af því sem koma skal svo sem prófum eða félagslegum samskiptum. Einnig geta áhyggjurnar tengst því hvernig þeim gekk í fortíðinni, það að standast áætlanir, viðhalda venjum og af heilsufari. Hjá þessum börnum hefur nú bæst ofan á kvíðabunkann og það er hinn skaðlegi COVID-19 sjúkdómur. Hvernig þessi börn og öll önnur koma út úr þessu tímabili er í höndum okkar fullorðinna og samfélagsins.

Augu og eyru alls staðar

Ef barn upplifir kvíða yfir langan tíma geta afleiðingar orðið langvinnar. Einkenni kvíða, áhrif og afleiðingar fara eftir ótal þáttum og birtast líkamlega, tilfinningalega og félagslega. Kvíðinn er gjarnan bundinn við ytri aðstæður og snýst um hluti sem geta valdið skaða, meitt eða deytt. Eitt af því sem kvíðabörn eru hrædd við er að þeirra nánustu veikist og deyi. Óstöðugleiki og óvissa eru streituvaldar og að geta ekki fengið skýr svör við spurningum lætur börnin oft líða enn verr. 

Nú eru aðstæður með eindæmum erfiðar þegar kemur að streituvöldum. Mörg barna sem eru með kvíða eru einnig lokuð, ofhugsa alla hluti og eru með augu og eyru alls staðar. Þau soga í sig allar fréttir og draga eigin ályktanir sem taka mið af aldri þeirra og þroska hverju sinni. Orðræðan um faraldurinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft ógnvænleg. 

Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum vágestinn. Að reyna að leyna barni fréttum sem skilur og skynjar hvað er í gangi myndi bara gera illt verra. Samskipti, tjáning, umræða og fræðsla er börnum ávallt mikilvæg fyrir þroskaferil þeirra. Þau eru kannski oft búin að spyrja foreldra sína en finnst þau ekki fá nægjanlega skýr svör enda þau oft ekki til. Svör á borð við „þetta verður allt í lagi; ekki hafa áhyggjur; hættu nú að kvíða“ o.s.frv. eru oft aðeins skammgóður vermir.  

Í núverandi aðstæðum eru engar töfralausnir fyrir kvíðabörnin. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast með þeim og fá þau til að tjá áhyggjur sínar frekar en að loka þær inni. Börn horfa til fyrirmynda sem oftast eru foreldrar. Þau eru næm á líðan foreldra og skynja ef þeir eru stressaðir eða með áhyggjur. Þau horfa á líkamsmál eins og raddblæ og svipbrigði til að meta áhyggjustig þeirra. Það skiptir miklu máli að foreldrar sýni ró og yfirvegun í öllum sínum háttum nú þegar mest á reynir. Ef fullorðna fólkið sýnir taugaveiklun og stjórnlausa hræðsluhegðun í návist barna munu börnin verða skelfingu lostin. Ef börn sjá að þeir sem eiga að gæta öryggi þeirra eru lamaðir af ótta er öryggiskennd kippt undan fótum barnanna sjálfra. 

Áfallastreituröskun (Post-Traumatic Stress Disorder)


Áföll hafa alltaf einhver áhrif en mismikil. Alvarleiki atburða/aðstæðna og hversu langvinnt ástandið er eru mikilvægustu þættirnir varðandi áhættu á að þróa með sér áfallastreituröskun. Einkenni áfallastreituröskunar eru m.a. viðvarandi mikill ótti, hjálparleysi, lystarleysi, svefnvandi, martraðir og breyting á hegðun. Einkennin koma venjulega í ljós innan þriggja mánaða eftir áfallið en stundum þó talsvert síðar eftir atburðinn. Í kjölfar áfalls, næstu vikur á eftir, verða oftast einhverjar breytingar á atferli, hugarfari og tilfinningalífi.

Segja má að heimurinn sé í stríði og veiran er óvinurinn. Þegar stríðið er unnið þá bíður að koma hugsunum tengdum stríðinu úr hugum barnanna. Óttinn að „stríðið“ skelli aftur á er einn liður í áfallastreitu barna. Áfallastreituröskun er því aðeins greind jafni börnin sig ekki með tíð og tíma eftir áfallið, ef líf þeirra hefur ekki komist í jafnvægi þrátt fyrir að dagleg rútína og viðunandi stöðugleiki er komin á. Börn þurfa að vita að jörðin er góður staður og þau þurfa að sjá það í kringum sig. Umfram allt viljum við forðast að börn komi til með að glíma við áfallastreituröskun eftir að stríðið við COVID-19 hefur verið unnið. 

Grein birt í Morgunblaðinu 8.4. 2020


Rjúfa þagnarmúrinn sem umlykur börn áfengis- og vímuefnaneytenda

Engin sértæk þjónusta lengur fyrir börn alkóhólista

Sálfræðingunum hjá SÁÁ hefur verið sagt upp og ætla ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins og sálfræðingur, þess vegna að leggja aftur fram tillögu í borgarstjórn um að stofna sértæka stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Tillagan var lögð fram 16. nóvember en vísað frá. Þessum börnum var aðallega sinnt af sálfræðingum SÁÁ og var langur biðlisti eftir þjónustunni.  

Nú er engin sértæk þjónusta lengur í boði fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Úrræði af þessu tagi þarf að standa öllum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það, einnig án tillits til hvort þau eru sjálf metin í áhættuhópi eða ekki. Ekki ætti að vera þörf á tilvísun. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.

Áhrif og afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma eða vímuefnaneyslu foreldris

Börn alkóhólista og vímuefnaneytenda er hópur barna sem hvorki heyrist hátt í né mikið er rætt um. Þetta er oft falinn hópur. Mörg barnanna búa við aðstæður óöryggis, óvissu, ófyrirsjáanleika, ótta. Mikið og langvarandi álag og ábyrgð er oft langt umfram það sem aldur og þroski leyfir. Afleiðingarnar fyrir þennan hóp barna geta verið meðvirkni, sárar tilfinningar, brostnar vonir og sködduð sjálfsmynd.

Enda þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar í málaflokknum undanfarinn áratug ríkir enn þöggun og fordómar um alkóhólisma og neyslu vímuefna foreldris. Börn sem búa við vandann og eru hluti hans  halda honum oft leyndum, vilja ekki tala um hann og vilja afneita honum.

Meðvirkni er sjúkdómur sem herjar á aðstandendur alkóhólista og eru börn þar engin undantekning. Dæmi um meðvirkni í fjölskyldu alkóhólistans er þörfin að láta allt líta vel út á yfirborðinu og þegja yfir hinum raunverulega vanda. Að al­ast upp í aðstæðum sem ein­kenn­ast af meðvirkni getur leiður oft til þess að börnin verða meðvirk. Meðvirkni dregur úr færni barna að bregðast við áreiti sam­kvæmt innstu sann­fær­ingu. Stuðningsnet og aðstoð frá fagaðila getur skipt sköpum þegar kemur að neikvæðum áhrifum og afleiðingum bæði til skemmri og lengri tíma.

Sértækt úrræði á vegum borgarinnar

Reykjavíkurborg hefur styrkt  SÁÁ um 19 m.kr. á ári. Hluti af þeim styrk var varið í þjónustu barna áfengis- og vímuefnaneytenda. Þar sem sú þjónusta er ekki lengur í boði og óvíst hvort og þá hvenær hún kemst á aftur hjá SÁÁ verður Reykjavíkurborg að axla þessa ábyrgð. Vissulega hefur þessum börnum verið sinnt af velferðaryfirvöldum borgarinnar en hér er lagt til að stofnað verði sértækt úrræði í anda þess sem SÁÁ rak. Vonandi verða líka sálfræðingarnir endurráðnir til SÁÁ hið snarasta!

Barn sem fær tækifæri við öruggar aðstæður til að tjá sig um neysluvandamál foreldris getur losað um djúpstæða vanlíðan og áhyggjur. Börnin fá fræðslu um að neysluvandi foreldrisins sé ekki á þeirra ábyrgð. Fræðsla getur stuðlað að því að barn geti hafnað tilfinningum á borð við skömm og sektarkennd. Slík leiðrétting á íþyngjandi tilfinningum og hugsunum er börnum mikill léttir og markar jafnvel nýtt upphafi í lífi þeirra.

Með stofnun sértæks stuðningsúrræðis á vegum Reykjavíkurborgar eyrnamerktum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda þar sem börnin geta komið á eigin forsendum án tilvísunar er verið að viðurkenna að börn alkóhólista sé skilgreindur hópur. Rjúfa þarf þagnarmúrinn sem umlykur börn í þessum aðstæðum.

 

Birt á visi.is 4.4. 2020
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.


Amatörar í stjórnum byggðasamlaga?

Maður hefur í nokkur skipti orðið alveg kjaftstopp í því starfi sem ég gegni og þá helst vegna vinnubragða, framkomu og viðhorfa þeirra sem skipa meirihlutann. Ekki þó allra. Eitt er það sem ég hef gagnrýnt eru byggðasamlög enda er Reykjavík að koma illa út úr slíku samkrulli því í þeim ríkir mikill lýðræðishalli.

Annað sem ég velti fyrir mér er af hverju ekki sé valið fólk í stjórnir sem hafa eitthvað vit á málum fyrirtækjanna.
 
Þegar amatörar sitja í stjórnum eins og í stjórn Sorpu þá er kannski ekki von á góðu. Hugsa sér viðhorf fulltrúa borgarinnar þegar kemur að metani sem dæmi en það viðhorf skín í gegn í bókun sem stjórnarmaðurinn sendi frá sér á fundi borgarstjórnar þegar ég lagði til að metan yrði selt á kostnaðarverði.
Ofgnótt er af metani og offramboð og á eftir að vera meira þegar ný jarðgerðarstöð rís en stjórnarmaðurinn hneykslast hér á tillögunni og bókar:

Tillaga Flokks fólksins er vanhugsuð. Með henni er
borgarfulltrúi Flokks fólksins að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning.

Svo segir stjórnarmaðurinn: það er engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni“.

Úff, segi ég, er það furða að maður spyr sig um þessi byggðasamlög og fólkið sem ratar þar í stjórn. Í framhaldinu lagði ég fram nokkrar fyrirspurnir en þá tók Skipulags- og samgönguráð það upp að breyta texta þeirra og fjarlægja bókun stjórnarmanns Sorpu sem fyrirspurnirnar eru byggðar á.
En þetta eru fyrirspurnirnar:

Vegna ofangreindar bókunar vill Flokkur fólksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir. 1.Hver er kostnaður við að ,,framleiða metan og geyma“ og leiða það að brennslustað?

2. Hver er kostnaður við viðeigandi yfirbyggingu við að safna metani á urðunarstað, geyma og brenna síðan á báli?

3. Hve mörgum kg af metani er brennt árlega á báli? (nota má aðrar einingar svo sem lítra undir ákveðnum þrýstingi, eða rúmmetra undir ákveðnum þrýstingi)

4. Hefur stjórn Sorpu kannað hvort það brjóti í bága við samkeppnislög að selja metan fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að koma því til neytenda?

Ekki vænti ég nú mikils af svari en maður verður að reyna, eða hvað?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband