Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Töframáttur samtalsins

Á þriðjudaginn 2. febrúar mun ég leggja fram tillögu Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila.[1]
 
Notkun geðlyfja er oft nauðsynleg. Ef marka má gögn eru eldri borgurum þó gefin geðlyf án þess að greining liggi fyrir. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst. 
Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna minnkar, auk þess sem aðstæður geta breyst t.d. vegna ástvinamissis. Töframáttur samtalsins og félagslegrar samveru er óumdeildur. Samtalið hefur frá örófi verið álitið árangursríkt meðferðarúrræði. Samtalsmeðferð þar sem á sér stað gagnkvæm hlustun, nærvera, ráðgjöf og stuðningur í málum skjólstæðingsins getur í sumum tilfellum leyst geðlyf af hólmi, fyrirbyggt eða seinkað notkun þeirra. Í innihaldsríku samtali er hægt að milda tilfinningar, veita viðbrögð við hugsunum, áhyggjum, vonum og væntingum; gefa fólki tækifæri til að segja sögu sína og sögu niðja.
 
Greinargerð

Enda þótt margt sé gert fyrir eldri borgara þá er það almenn vitneskja að líði fólki illa á efri árum er gjarnan byrjað að gefa geðlyf jafnvel án þess að geðsjúkdómsgreining liggi fyrir. Tillaga Flokks fólksins miðar að því að fyrsta úrræði sem gripið verði til sé ekki að gefa fólki geðlyf heldur veita því sálfélagslega samtalsmeðferð. Markmiðið er að draga úr óþarfa geðlyfjanotkun í þessum aldurshópi. Lyfjanotkun er aldrei án aukaverkana. Aldraðir eru einnig viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Andleg líðan er beintengd líkamlegri líðan og öfugt. Þeim sem líður illa andlega kenna frekar líkamlegra verkja. Að sama skapi draga líkamlegir verkir úr andlegu þreki.
 
Ekki hefur enn verið gerð heildræn rannsókn á geðsjúkdómagreiningum og geðlyfjanotkun íbúa á íslenskum öldrunarstofnunum. Þróun þessara þátta hefur heldur ekki verið lýst. Fram hefur komið í rannsóknum að algengt er að finna þunglyndi og kvíða meðal íbúa hjúkrunarheimila. Þá er gripið til þess að gefa geðlyf sem meðferðarúrræði. Þeim er jafnvel ávísað án þess að geðsjúkdómagreiningar hafi verið gerðar.
 
Ekki kemur á óvart að kvíði, þunglyndi og önnur geðræn vandamál geri vart við sig þegar komið er á þetta æviskeið. Tengja má andlega vanlíðan við skerta færni til athafna daglegs lífs og sjúkdóma sem fylgja efri árum og ævikvöldi. Auk þess er um að ræða að fólk á andlega erfitt vegna einmanaleika, einangrunar og þrá eftir ástvinum ásamt því að sakna þess sem liðið er.
 
Í COVID-faraldrinum síðustu mánuði hafa þróast tæknilausnir eins og samskipti með viðræðum gegnum tölvuskjái. Slíkar „skjáheimsóknir“ geta þó aldrei komið í staðinn fyrir persónuleg tengsl og spjall þar sem fólk talar saman maður við mann og geta varla flokkast sem sálfélagslegt meðferðarúrræði.
Sú tillaga sem hér er lögð á borð í borgarstjórn er nálgun sem felur í sér að samtalið er sett í forgrunn:  virk hlustun, skilningur, stuðningsviðbrögð og ráðgjöf til að bæta líðan ákveðins hóps án þess að til komi þörf á notkun geðlyfja.
 
Gefa ætti því aðeins geðlyf að undangenginni greiningu þar sem fram kemur með óyggjandi hætti að viðkomandi þarfnast geðlyfja samhliða öðru úrræði eins og sálfélagslegri samtalsmeðferð, hreyfingu, birtu, samveru við gæludýr, svo fá dæmi séu nefnd. 
Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar hugi að því að stofna með formlegum hætti úrræði sem byggist ekki aðeins á ávísun lyfja heldur skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu.
Auk aldurstengdra vandamála á fólk fortíð, sumir erfiða reynslu og jafnvel óuppgerð mál eins og gengur.  Að eiga þess kost að eiga reglulegt samtal fagaðila getur komið í staðinn fyrir geðlyfjanotkun. Markmiðið með samtalsþjónustunni er að hjálpa eldri borgurum, í gegnum samtal við fagaðila, að finna til öryggis, ekki síst séu þeir í nýjum og ókunnum aðstæðum og draga að sama skapi úr þörf á neyslu geðlyfja. Í viðtalsmeðferðinni gefst skjólstæðingum kostur að ræða á persónulegum forsendum um tilfinningar sínar, erfiða reynslu, áföll, sársauka, ótta og aðlagast breyttri stöðu þeirra í lífinu og vissulega mun meðferðaraðilinn í samráði við lækni meta hvort þörf sé á lyfjameðferð samhliða samtalsmeðferðinni.
 
[1] Sjá t. d. þessa grein: Páll Biering og Ingibjörg Hjaltadóttir. Algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003 til 2018. Læknablaðið 1. tbl. 107. árg. 2021. (https://www.laeknabladid.is/tolublod/2021/01/nr/7580).

Hafnartorg og Kirkjusandur kassalaga og kalt

Sýndar voru myndir frá nýju hverfi sem rísa skal á Kirkjusandi á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun. Mér fannst þær kuldalegar. Byggingar eru kassalaga og er upplifunin svolítið þannig að þarna vanti karakter og sjarma. Ekki hefur verið kannað hvort eða hvernig vindstrengir slái niður að jörð, eins og gerist á Höfðatorgi.

Sama má sjá á Hafnartorgi, en þar er óvenju kuldalegt og hráslagalegt. Línur eru af húsaröðum sem fáar kalla á sérstaka athygli. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um hvort og þá hvernig skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli  beita sér til að gera það svæði meira aðlaðandi? 

Fyrirspurn:

Hafnartorgið er í  hjarta bæjarins. Nú eru þar  miklar byggingar og er svæðið  kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur  á götum við Hafnartorgi hefur  Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra  um borgina fái að koma fram.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli  beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað?

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum.

Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp ( t.d Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina  vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

 


Hundaeigendalistinn birtur á netinu

Mikið fer þessi listi með nöfnum og heimilaföngum þeirra sem fengið hafa hundaleyfi í taugarnar á mér. Listinn er lagður fram reglulega á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs og í kjölfarið birtur á netinu. Þetta er sérkennilegt í ljósi tillögu stýrihóps um endurskoðun gæludýrareglna að fella niður hundaleyfisskyldu.
Ég bókaði um þetta 15. desember og þá sagt að þetta myndi breytast eftir áramót, þá yrði svona listi ekki lengur lagður fram. Samt er listinn áfram lagður fram á fundi 20. janúar.

Flokkur fólksins lagði til í desember að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum. Tillagan var felld. Ef leggja á niður hundaleyfisskyldu er ekkert sem réttlætir lengur hundaeftirlitsgjald.

Stýrihópurinn leggur engu að síður til að haldið verði áfram að innheimta eftirlitsgjald þ.e. af þeim sem láta skrá hunda sína hjá Reykjavíkurborg. Það eru í mesta lagi eigendur 2.000 hunda af áætluðum 9.000 hundum í borginni. Þessi samviskusömu hundaeigendur sem greiða eftirlitsgjaldið eiga að standa straum af allri gæludýraþjónustu í borginni. Ekki er rukkað gjald fyrir nein önnur gæludýr.

Loksins, seint á síðasta ári, voru vinnuskýrslur hundaeftirlitsmanna birtar sem ég hafði margbeðið um að fá að sjá en sagt að ekki væri hægt að afhenda þar sem í þeim væru persónurekjanleg atriði (vaktir tveggja hundaeftirlitsmanna). En skýrslurnar sýndu síðan eins og vitað var að hundaeftirlitið hafði nánast ekkert að gera. Allt árið í fyrra voru málin aðeins 21 fyrir utan desember, þetta er ein eftirlitsferð á viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann. Málefni gæludýra og hundaeigenda eru eins og aftur úr fornöld. Reykjavík getur varla talist vera hundavinsamleg borg. 

Ferðalög borgarstjóra og hans fólks erlendis liðin tíð?

Í borgarráði í vikunni var lagt fram boð Eurocities um stuðning við yfirlýsingu um loftslagsmál sem kennd er við París og birt var 11. desember 2020 á 5 ára afmæli Parísarsamkomulagsins. Fulltrúi Flokks fólksins styður og fagnar öllum samskiptum Reykjavíkur í tengslum við Parísarsamkomulagið en vill hnykkja á mikilvægi þess að samskipti í framtíðinni fari fram í gegnum fjarfundarbúnað.
Árum saman hefur ríkt ákveðið bruðl og hefur almannafé verið sóað m.a. í ótal ferðir erlendis sem ekki aðeins borgarstjóri, hans aðstoðarmaður heldur sægur embættismanna hafa farið.
Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að ekki verði farið aftur á þann stað sem var fyrir COVID í þeim efnum.

Nú má vænta þess að með reynslu af fjarfundatækni þá sé ekki lengur nauðsynlegt fyrir borgarstjóra, borgarafulltrúa eða embættismenn að ferðast erlendis nema brýna nauðsyn beri til. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning enda hægt að eiga nánast öll samskipti í gegnum fjarfundarbúnað.

Um þetta bókaði fulltrúi Flokks fólksins í borgaráði 21. janúar 2021.


Sálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur

Tillaga um að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur er lögð fram á fundi borgarstjórnar í dag:

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna. Einnig er lagt til að skólasálfræðingar heyri undir skólastjórnendur sem ákvarði í samráði við nemendaverndarráð verkefnalista sálfræðings án miðlægra afskipta. Fjarlægð skólasálfræðinga frá skólunum dregur úr skilvirkni. Biðlisti til skólasálfræðinga er í sögulegu hámarki. Nú í janúar 2021 bíða 837 börn ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu. Barn bíður mánuðum saman eftir að hitta skólasálfræðing og foreldrar hafa upp til hópa ekki hugmynd um hver sálfræðingur skólans er.
Með því að færa aðsetur sálfræðinga til skólanna væru þeir í daglegri tengingu við börnin og kennara og yrðu hluti af skólasamfélaginu. Skilvirkni yrði meiri og þjónusta við börnin betri. Þverfaglegt samstarf sálfræðinga á þjónustumiðstöð gæti haldið áfram engu að síður, nú t.a.m. einnig í gegnum fjarfundabúnað.
Lagt er jafnframt til að yfirboðarar skólasálfræðinga verði skólastjórnendur en ekki þjónustumiðstöðvar. Enda þótt nemendaverndarráð hafi áhrif á verkefnalista sálfræðingsins, er nærtækast að skólastjórnendur og nemendaverndarráð stýri beiðnum til skólasálfræðingsins. Fram hefur komið hjá einstaka skólastjórnendum að þeir upplifi að þeir fái litlu ráðið um forgang mála til sálfræðings, jafnvel í brýnum málum.
 
Greinargerð
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í upphafi kjörtímabils tillögu um að aðsetur skólasálfræðinga færðist út í skólana og hefur margrætt þetta allar götur síðan. Umræðan hefur engu skilað. Skólasálfræðingar koma ekki oftar út í skólanna til að vera hluti af skólasamfélaginu. Nær öll snerting skóla við skólasálfræðinga er í gegnum Þjónustumiðstöðina.
Skólasálfræðingarnir þurfa að komast í mun betri tengsl við börnin bæði í tíma og rúmi og einnig þurfa samskipti þeirra og tengsl við skólastjórnendur og skólasamfélagið að verða nánara. Allt of langt er á milli skólastjórnenda og kennara og skólasálfræðinga. Alls konar flækjustig er í gangi. Ef skólastjóri er sem dæmi ósáttur, kvartar hann við sinn yfirmann sem ræðir við yfirmann skólasálfræðings o.s.frv. Þetta skapar óþarfa hindrun og lengir samskiptaleiðir sem bitnar fyrst og síðast niður á börnunum. Með því að fá skólasálfræðingana inn á gólf er flestum svona hindrunum rutt í burt. Sáfræðiþjónusta skóla getur aldrei verið almennilega með puttann á púlsinum á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti.
Börnin og foreldrar þekkja ekki skólasálfræðinginn. Dæmi eru um að foreldrar og börn hafi aldrei séð skólasálfræðinginn. Dæmi er einnig um að foreldrar vissu ekki að sálfræðingar væru í leik- og grunnskólum borgarinnar. Til að sinna verkefnum koma þeir í flugumynd og ná þar af leiðandi ekki að vera sýnilegir börnum og foreldrum. Halda mætti allt eins að það væri markmið skóla- og frístundasviðs og þjónustumiðstöðva að fela skólasálfræðinga, kannski til að hlífa þeim við frekara áreiti sem er sannarlega mikið í ljósi þess að 800 börn eru á biðlista. Ef upp koma brýn mál þar sem óskað er eftir því að skólasálfræðingur sitji fundi með foreldrum með skömmum fyrirvara er það oft einfaldlega ekki hægt.
Í þessari tillögu leggur fulltrúi Flokks fólksins jafnframt til að skólinn sjálfur (skólastjórnendur og nemendaverndarráð) haldi utan um verkefnalistann og stýri alfarið röðun tilvísana. Framkvæmdin nú er þannig að umsjónarkennari/foreldra vísa máli barns til nemendaverndaráða telji þeir að barn þurfi sérstaka aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Það er því nærtækast að nemendaverndarráð stýri sjálft beiðnum til sálfræðinga eða annarra fagfólks sem sinnir viðkomandi skóla en ekki utanaðkomandi aðili.
 
Lang eðlilegasta fyrirkomulagið er að skólarnir forgangsraði sjálfir málum sínum til fagaðila skólanna frekar en það sé gert á þjónustumiðstöðvum eða miðlægt. Enginn þekkir betur barnið, líðan þess og atferli en foreldrar og kennarar, sem og starfsfólk skólans. Skóli á ekki að þurfa að eiga það við einhverja utan skólans ef barn þarf að komast strax til skólasálfræðings. Miðlægt vald getur aldrei áttað sig eins vel á þróun mála barns en skólinn sjálfur sem er í beinu og milliliðalausu sambandi við foreldra.
Fjölga þarf sálfræðingum í skólum
Til að taka á biðlistavandanum fyrir alvöru þarf stöðugildum sálfræðinga skóla að fjölga. Öðruvísi verður ekki tekið á mörg hundruð barna biðlista. Tilvísunum hefur fjölgað með tilkomu COVID-19. Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum skólasálfræðinga um þrjú og einnig talmeinafræðinga um tvö, var AFTUR felld í desember s.l. Fyrir skóla með meira en 400 nemendur er þörf fyrir allt að 100% sálfræðingi. Hlutverk skólasálfræðinga er fjölþætt þótt þeir stundi ekki hefðbundna meðferð. Þeir annast skimanir og greiningar sem kennari, skólasálfræðingur og foreldrar telja nauðsynlegt að framkvæma til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvaða og hvernig náms- og félagslegt úrræði barnið þarf í hverju tilviki. Önnur verkefni, ekki síður mikilvæg sem þeim ber að sinna, er stuðningur og ráðgjöf til barna, kennara og foreldra auk fræðslu eftir ósk skólans. Í núverandi fyrirkomulagi virðist sem skólasálfræðingar sinni aðeins greiningarþættinum. Börnum er vísað annað í viðtöl og þá tekur aftur við bið. Hluti af starfi skólasálfræðings á að vera að sinna viðtölum bæði fyrir og eftir greiningar í þeim tilfellum sem greininga er þörf. Það eru engin meðferðarúrræði eins og t.d. viðtöl af hálfu þjónustumiðstöðvar, eingöngu skilafundur eftir greiningar.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu árið 2019 um að skólasálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundarsvið til að komast í betri tengingu við skólasamfélagið, börnin og kennarana. Eðlilegast væri því að skólasálfræðingar skólanna heyrðu undir undir skóla- og frístundaráð en ekki velferðarráð/svið sem hún er í dag. Með því að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundaráð/svið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt enda stuðningur við börn og ungmenni í skólastarfi og allt utan um hald þá undir sama þaki ef svo má segja.
Tillagan var felld.
 
Meirihlutinn í borgarstjórn, velferðarráði og skóla- og frístundaráði hunsar ákall skólastjórnenda sem kom skýrt fram í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019. Þar segir að skólastjórnendur upp til hópa vilja að sálfræðingar komi meira inn í skólanna til að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að stytta biðlista. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna.
 
Nokkrir hagnýtir þættir
Í einhverjum skólum þar sem húsnæði er sprungið gæti reynst erfitt að finna skólasálfræðingnum aðstöðu. En það er vandamál sem vel er hægt að leysa ef allir leggjast á eitt. Skólasálfræðingur þarf stól og borð og dæmi eru um að sálfræðingur noti aðstöðu hjúkrunarfræðings þegar hann er ekki í skólanum.
 
Samstarf við heilsugæslu: Sálfræðingar eru vissulega á heilsugæslustöðvum en þar er margra mánaða bið. Í flestum skólum eru því miður mjög takmörkuð samskipti við heilsugæsluna þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur af heilsugæslustöð sé um leið skólahjúkrunarfræðingur.
 
Í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu, eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma, ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Foreldrar sem gefist hafa upp á að fá aðstoð fyrir barn sitt hjá skólasálfræðingi hafa stundum þurft að kaupa sálfræðiþjónustu, þar með talda greiningu frá sálfræðingi úti í bæ. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt, og því sitja börnin ekki við sama borð hvað kemur að tækifærum til að fá þá þjónustu sem þau þarfnast.
 
Vandinn er þess utan mismikill eftir hverfum sem þýðir að það fer eftir því í hvaða hverfi þú býrð hvort barnið þitt komist til skólasálfræðings eftir mánuð eða eftir eitt ár. Með þessu er verið að mismuna börnum eftir því hvar þau búa. Er komið að því að foreldrar þurfi að huga að hvort þessi þjónusta sé til staðar fyrir barnið þeirra þegar ákveða skal hvar í borginni fjölskyldan vill búa ? Aðgengi að sálfræðiþjónusta barna á hvorki að vera háð efnahag eða búsetu.

Stytting vinnuvikunnar má ekkert kosta

Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk.

Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnum þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Álag á starfsfólk kemur niður á því sjálfu, börnunum og utanumhaldi starfseminnar. Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni.

Þess vegna lagði Flokkur fólksins það til í borgarráði í vikunni að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum:

Þetta er lagt til í ljósi þess að forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki er að breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verður óbreyttur.

Í greinargerð segir að til að tryggja trúverðugleika er mikilvægt að könnun sem þessi verði gerð af óháðum aðilum. Meta þarf áhrif styttingar vinnuvikunnar (bæði kosti og galla) á börnin, starfsmenn og starfið á hlutlausan og faglegan hátt.

Þeir sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafa lýst ánægju sinni með verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði þessu verkefni og batt ávallt vonir við að það myndi verða til framtíðar. Engar upplýsingar hafa þó borist um að styttingin hafi haft einhver áhrif á faglegt starf, öryggi og gæði og því ber að fagna. Eðli málsins samkvæmt leiðir stytting vinnuviku til þess að fleiri börn eru á starfsmann sem þýðir minni tími er til að sinna hverju barni fyrir sig og þá sérstaklega þeim börnum sem höllum fæti standa.  Vel kann að vera að þetta jafnist út, að einhverjir  foreldrar sæki einfaldlega börnin sín fyrr t.d. þeir sem vinna sjálfir “styttri vinnuviku”. En það eru margir foreldrar sem eru ekki með styttingu vinnuvikunnar og ef svo er þá er útfærslan oft ólík milli stétta. Því er ekki hægt að stóla á að slík aðlögun/jöfnun verði.

Í ljósi alls ofangreinds leggur fulltrúi Flokks fólksins til að skoðað verði með markvissum hætti hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsfólk, starfið og börnin.

 


Borgin lagi veðrið

Hafnartorg. Skemmtileg fyrirsögn:)
laga 4
 
Hér er tillaga Flokks fólksins um Hafnartorg, lögð fram á fundi skipulags- og samgönguráðs í vikunni:
Hafnartorgið er í hjarta bæjarins. Nú eru þar miklar byggingar og er svæðið kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. 
Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur á götum við Hafnartorgi hefur Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra um borgina fái að koma fram.
 
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað? Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum. Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp ( t.d Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

Ströng inntökuskilyrði - enginn biðlisti

Ég fékk svar í vikunni við fyrirspurn um biðlista eftir sérskólaúrræði. Fram kemur að heilt á litið bíða á þriðja tug barna eftir sérskólaúrræð. Í Klettaskóla er sagður enginn biðlisti en ég tel að það geti verið vegna þess að inntökuskilyrðin eru of ströng/stíf?
Áður hef ég velt upp þeirri spurningu hvort inntökuskilyrði séu höfð of ströng til að fæla þá foreldra barna frá sem eru með þroskahömlun á miðlungs eða vægara stigi að sækja um Klettaskóla. Sömu inntökuviðmið hafa gilt um skólavist í þátttökubekknum og í Klettaskóla sjálfum.

Foreldrar barna sem ná ekki þessum viðmiðum eða naumlega (jafnvel þótt ekki muni nema einu stigi í greindarvísitölu) reyna ekki að sækja um því þau vita að það þýðir ekki. Á meðan eru kannski börn með þroskahömlun á einhverju stigi að berjast í bökkum inn í almennum bekk, líður illa, finnast þau vera ómöguleg, eru einangruð, er strítt og eru á engan hátt meðal jafningja?

Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna sem sjá mátti í skýrslum m.a. Embættis landlæknis 2020, aukins sjálfsskaða og hækkaðri tíðni sjálfsvígshugsana einnig samkvæmt skýrslu Embættis landlæknis 2020 er brýnt að yfirfara inntökuskilyrði í sérskólaúrræði og í sérdeildir. Það verður að vera til pláss fyrir þau börn sem að mati foreldra og fagfólks óska eftir að stunda nám í skóla eins og Klettaskóla. Aðalmálið er að barni líði vel í skóla sínum og geti myndað mikilvæg félagsleg tengsl. Skóli án aðgreiningar eins og hann er í dag er ekki að mæta þörfum allra barna. Það hefur verið vitað lengi.
 

39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun

Í dag var fundur hjá skóla- og frístundaráði. Ég sat ekki fundinn enda er þar bara varamaður. En ég fékk svar við fyrirspurn hvort börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili á haustönn 2020 vegna vanskila. Á haustönn 2020 voru sendar út 39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun. Foreldrar 10 barna athuguðu ekki með frekari aðstoð og hefur börnum þeirra verið vísað úr frístundaheimilisdvölinni. Mér finnst þetta ómögulegt og hef bara áhyggjur af þessum börnum.

Ég veit reyndar ekki hvort skóla- og frístundasvið hefur kannað með þau t.d. hvernig það kemur við þau að vera meinað að koma á frístundaheimilið vegna skuldar foreldra? Hefur t.d. verið kannað með hvort foreldrar hafa fundið önnur dvalarúrræði fyrir þessi börn? Ég vil minna á í þessu sambandi að ávallt þegar börn eru annars vegar ber að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi í ákvörðunum sem varða börn.

Auðvitað á skóla- og frístundasvið að hafa frumkvæði í að hafa samband við þessa foreldra og kanna með hag barnanna og bjóða foreldrum að finna leiðir hvort sem það er í formi samninga eða sérstakrar aðstoðar til þess að opna aftur fyrir möguleika þessara barna að koma í frístundina að nýju.


Ofbeldi gegn öldruðum

Skýrsla starfshóps um aldraða og heimilisofbeldi hefur verið kynnt í borginni. Ég lét bóka eftirfarandi:
 
Ofbeldi gegn öldruðum er alvarlegt mál og því miður berast fregnir af slíkum tilfellum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar skýrslunni enda mikilvægt að safna gögnum með reglulegu millibili um svo viðkvæmt og alvarlegt mál. Hér á landi er ekki til ákveðin stefna um málefni aldraðra þegar kemur að ofbeldi og vanrækslu. Yfir öldruðum og öðrum viðkvæmum hópum er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið allt standi saman vaktina. Ef horft er til rannsókna má sjá að 2-10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Ofbeldi gegn öldruðum getur verið andlegt og líkamlegt og stundum er það í formi vanrækslu. Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögur s.s. að útbúið verði upplýsingaefni fyrir aldraða um heimilisofbeldi. Samstarf heilsugæslu, þjónustumiðstöðva og Landspítala er brýnt til þess að freista þess að flest mál komi fram í dagsljósið og hægt verði að fylgja þeim eftir með fullnægjandi hætti. Ofbeldi/heimilisofbeldi er falinn vandi. Eldri borgarar sem beittir eru ofbeldi kunna að upplifa skömm og vanmátt og kjósa því að leyna því ofbeldi sem þeir verða fyrir. Á þeirra uppvaxtarárum var ofbeldi almennt ekki mikið rætt og fræðsla afar takmörkuð. Sumir eldri borgarar gera sér jafnvel ekki grein fyrir að verið er að beita þá ofbeldi.

ofbeldi aldraðra mynd

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband