Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021

Fátækt er ógn við íslensk börn

Þar er smánarblettur á okkar auðuga samfélagi hve margir búa hér við sára fátækt. Þeirra á meðal eru aldraðir sem er nauðugur einn kostur velja á milli þess hvort þeir kaupa sér mat eða lífsnauðsynleg lyf, einstæðir foreldrar sem verða að gera upp við sig hvort þeir hafa efni á því að greiða orkureikninginn eða fara til tannlæknis og veikt fólk sem verður smám saman úrkula vonar í því fúafeni fátæktarinnar sem íslenska kerfið er. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þeim langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum.

Sláandi skýrsla Barnaheilla

Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt meðal barna er dregin um dökk mynd af vaxandi barnafátækt í Evrópu. Ísland er þar ekki undanskilið. Bent er á að auka þurfi hér jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi svo dæmi séu nefnd. Þá þurfi að móta opinbera áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Slík stefna er nefnilega ekki til þó að ótrúlegt megi virðast. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar  aðstæður.

Ójöfnuður hefur aukist vegna atvinnuleysis foreldra í COVID og framtíðarhorfur eru óljósar. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna. Tilkynningar um vanrækslu hafa aukist um 20%, ofbeldi um og yfir 23% sem og áhættuhegðun barna um 23%. Um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Húsnæðisaðstæður margar barna eru ótryggar. Húsaleiga er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar eða um 70% af ráðstöfunartekjum. Þetta leiðir til þess að fátækir foreldrar leita skjóls í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel hættulegt.

Aðgerðir strax!

Flokkur fólksins vill að gripið verði tafarlaust til sértækra og  markvissra aðgerða í þágu barna. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett, félagslega útskúfuð. Til að ná þessu þarf að setja fram skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. kveðið á um hvernig uppræta eigi vítahring fátæktar, þannig að öll börn fái notið þjónustu til að rækta hæfileika sína. Þetta er stærsta verkefni borgarstjórnar og Alþingis. Öll börn eiga að fá notið stuðnings,  hvatningar og þjónustu til að þroskast og njóta sín í lífinu og að fá sjálf tækifæri til að taka þátt í að leggja grunn að menntun sinni og farsæld sinni til framtíðar eins og kostur er.

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

 Birt í Fréttablaðinu 26.11. 2021


Ófremdarástand í leikskólum vegna manneklu

Nú er staðan þannig á mörgum leikskólum að börn eru send heim nánast daglega vegna skorts á starfsfólki.
Ég lagði inn fyrirspurn um þetta í borgarráði í morgun:
 
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað skóla- og frístundasvið er að gera í málinu ef eitthvað?
Hefur verið skoðað hvað áhrif þetta hefur á foreldra og stöðu þeirra í vinnum sínum?
 
Þetta er ómögulegt ástand. Þetta er fyrsta stig menntunar fyrir börnin og með þessu er verið að svíkja þau um hana.
Svo er ekki hægt að ætlast til þess að foreldrar stökkvi fyrirvaralaust úr vinnu til að sækja börnin sín.

Í þessum málum ríkir ófremdarástand.
Orlofsdagar rétt duga fyrir sumarfríi og þá á eftir að gera ráð fyrir skipulagsdögum. Ekki öll heimili búa svo vel að vera með 2 foreldra sem skipta þessu á milli sín og efnaminna fólk hefur bara alls ekki efni á að fjölga þeim dögum sem þau eru frá vinnu. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta ólíðandi ástand fyrir foreldra og börnin og hlýtur ekki síður að vera erfitt fyrir starfsfólkið.
 

Vissuð þið?

Vissuð þið að 1. nóvember 2021 biðu 400 börn eftir þjónustu talmeinafræðings í Reykjavík?
Ég lagði fram fyrirspurn um þetta á fundi velferðarráðs í gær.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um 400 börn sem bíða eftir þjónustu talmeinafræðings:

Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista, á bið eftir þjónustu talmeinafræðings í Reykjavík.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir nánari sundurliðun á þessum vanda barnanna og greiningu á tilvísunum eftir alvarleika.

Það er sérlega bagalegt að öll þessi börn séu að bíða eftir svo mikilvægri þjónustu. Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum.

Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir náin félagsleg samskipti við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína vegna þess að tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalega.

Blind trú á þéttingu byggðar í Reykjavík

Húsnæðismál í Reykjavík eru í brennidepli vegna þess hve hinn alvarlegi skortur á íbúðarhúsnæði kemur sífellt betur í ljós. Flokkur fólksins styður þéttingarstefnu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún fer að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar eins og hjá núverandi borgarstjórnar-meirihluta. Einhliða framkvæmd þéttingarstefnu í Reykjavík, án ódýrari valkosta fjær miðborginni, hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði. Ekki hefur verið léð máls á að gera annað en að þétta. Ört hækkandi húsnæðisverð speglar ónógt framboð.

Nú eru 1900 íbúðir í byggingu í borginni eða 30% færri en fyrir tveimur árum skv. SI. Raunveruleikinn er skýr, það er slegist um hverja eign. Litlar íbúðir á þéttingasvæðum eru svo dýrar að þær eru ofviða námsfólki, fyrstu kaupendum og efnalitlu fólki.

Reynt að kenna öðrum um vandann

Borgarstjóri ofl. hafa reynt að kenna bönkunum um ástandið en þeir sverja af sér að vilja ekki lána. Þá hefur verið reynt að kenna verktökum um, en heyrst hefur að margir verktakar hafi einfaldlega gefist upp á að eiga viðskipti við Reykjavíkurborg og farið annað. Flækjustig byggingaferlis og kvaðir eru sagðar allt of miklar og íþyngjandi hjá borginni. Hins vegar vantar þá kvöð sem telja mætti langmikilvægasta. Hún er sú að þeim sem fær lóð beri að byggja á henni innan tilskilins tíma. Í Úlfarsárdal eru t.d. lóðir sem á er byggingarúrgangur en engin bygging hefur risið árum saman. Eftir hverju er lóðareigandinn að bíða eða eru verktakar enn að glíma við borgarkerfið?

Gleymd kosningaloforð

Nú eru hverfi að verða ansi einsleit, blokkir á blokkir ofan, litlir og stórir kassar þétt hver ofan í öðrum. Hvað varð um hugmyndina að blandaðri byggð, sjálfbærum hverfum með atvinnutækifærum innan hverfis? Var þetta ekki kosningaloforð núverandi meirihluta? Og hvað varð um þau umhverfis-sjónarmið að taka skuli tillit til birtuskilyrða og hávaða sem skiptir miklu fyrir svefn og líðan í búa? Sá var tíminn að einstaklingar gátu fengið lóðir og byggt sjálfir og samhliða því byggt upp félagslega samstöðu og myndað hverfismenningu. Þessi hugsun virðist með öllu fjarri nú.

Vandinn er sá að það er takmarkað framboð af lóðum fyrir allar gerðir fasteigna. Núna hefði t.d. verið unnt að skipuleggja svæði utan við borgina, og utan þéttingarsvæða, þar sem þeir sem það vilja hefðu getað byggt í stað þess að kaupa hús í Þorlákshöfn eða Hveragerði. Með því að víkka hverfin út og þá innviði sem fyrir eru skapast fleiri íbúðarmöguleikar. Skoða mætti t.d. suðurhlíðar Úlfarsfells og svæði austur af núverandi Úlfarsárdals sem tengjast því hverfi. Hér þarf öfgalausa víðsýni í stað blindrar trúar.

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt í Fréttablaðinu 9. 11. 2021.


Hinn góði og hinn vondi

Forvarnardagur gegn einelti er í dag 8. nóvember. Sem sálfræðingur til þrjátíu ára hef ég komið að fjölda eineltismála bæði í skólum, á vinnustöðum og í aðstæðum þar sem börn og fullorðnir stunda íþróttir og áhugamál sín. Beint er sjónum að vinnustöðum í þessari grein.

Einelti í alls konar myndum virðist því miður lifa góðu lífi á sumum vinnustöðum. Ábyrgð stjórnenda/yfirmanna er mikil því hann hefur allt um það segja hvort tekið verði á eineltismáli með faglegum hætti. Verði það ekki gert eru allar líkur á að eineltishegðun muni lifa góðu lífi á vinnustaðnum.

Ekki er öllum gefið að vera góður yfirmaður. Því miður finnast yfirmenn sem skortir flest það sem telst prýða góðan yfirmann. Það þýðir samt ekki að allir yfirmenn sem ekki teljast „góðir yfirmenn“ séu gerendur eineltis.

Allir geta fundið sig í þeim aðstæðum að vera lagðir í einelti, líka yfirmaðurinn. Dæmi eru um að það sé ekki linnt látum á vinnustaðnum fyrr en búið er að koma yfirmanni frá, kannski vegna þess að hann var ómögulegur yfirmaður að mati einhverra. Þessi mál eru almennt séð ekki einföld og aldrei einsleit.

Yfirmaður, gerandi eineltis

Það sem einkennir yfirmann sem leggur starfsmann í einelti er oft „valdafíkn“ í bland við minnimáttarkennd. Þessi yfirmaður misnotar gjarnan vald sitt til að næra laskað sjálf og eigið óöryggi. Svona yfirmaður heldur oft öllu starfsfólkinu í heljargreipum. Finnist honum einhver ógna sér eða skyggja á sig á vinnustaðnum gæti hann gripið til þess ráðs að reyna að koma þeim starfsmanni illa eða gera hann ótrúverðugan í augum annarra. Það sem einnig einkennir þessa tegund af yfirmanni er sveiflukennt skap og pirringur sem bitnar á starfsfólki eftir atvikum. Hann getur jafnframt átt það til að reiðast skyndilega, rjúka upp ef honum mislíkar. Það kitlar hann jafnvel að finna að hann getur með lund sinni, líkamsmáli og samskiptaháttum valdið óöryggi á vinnustaðnum. Liður í að minna starfsfólkið á hver ræður er að vera gagnrýninn, dómharður og óútreiknanlegur. Að vera óútreiknanlegur er tækni sem er til þess fallin að grafa undan öryggistilfinningu starfsmanna og að þeir geti átt von á „öllu“. Skilaboðin eru að enginn á vinnustaðnum skuli halda að hann geti verið öruggur með stöðu sína. Þessi yfirmaður fylgist vel með fólkinu á staðnum og notar til þess ýmsar leiðir, leyndar og ljósar.

Sumum kann að finnast að þessi yfirmaður hreinlega bíði færis á að geta tekið einhvern á beinið. Þegar starfsmaður er tekinn á beinið er það oft gert af hörku og óbilgirni.

Farsæli yfirmaðurinn

Sá yfirmaður sem telst góður skartar þveröfugum persónuleikaeinkennum en sá sem lýst er hér að ofan og hefur auk þess góða félagslega færni. Farsæll yfirmaður lætur sig nærumhverfið varða. Hann gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur. Góður yfirmaður hefur tiltæka stefnu í ofbeldismálum og viðbragðsáætlun sem skapar lausnarfarveg fyrir vandamál sem upp kunna að koma. Góður yfirmaður hvetur starfsfólkið til að gera skaðvalda óvirka, séu þeir á staðnum og upplýsa um neikvæða hegðun, verði hennar vart. Hann leggur sig fram um að vera í jákvæðu sambandi við starfsfólkið. Góður yfirmaður gerir að sjálfsögðu miklar kröfur til starfsmanna sinna um að skila góðri vinnu, leggja sig alla fram og hafa hagsmuni vinnustaðarins í heiðri í hvívetna. Metnaður yfirmannsins er líklegur til að smitast til starfsmannanna.

Á vinnustað sem þessum er líklegt að eineltismál séu sjaldgæf. Komi þau upp er tekið á þeim. Eineltismál eru eins ólík og þau eru mörg. Því miður er ekki alltaf hægt að lenda þessum erfiðu málum þannig að aðilar gangi sáttir frá borði. Þau eru flóknari en svo. Hvernig svo sem þeim lyktar skiptir öllu máli að aðilar finni að allt kapp var lagt í að leysa málið með faglegum og manneskjulegum aðferðum.

Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Greinin er birt á visi.is í dag 8. nóvember og ber titilinn Af ábyrgð stjórnenda


Tillaga um að byggja aðra sundlaug í Breiðholti felld

Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti sem staðsett yrði t.d. í Suður Mjódd hefur verið felld með þeim rökum „að nóg sé af góðum sundlaugum í borginni og að verið sé að byggja nýja sundlaug í Úlfarsárdal, Fossvogi og í Ártúnshöfða“.

Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Breiðholtið er stórt hverfi og í því er aðeins ein sundlaug. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að annast þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2.000 íbúðir þegar allt er tiltekið þar af nýjar íbúðir í Mjódd sem gætu orðið ca. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega ca. 500-700. Nýtingartölur í Sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar 2017 og fjölgaði gestum laugarinnar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru þrjár sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa um 28 þúsund manns. Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Það er því brýnt að skoða að byggja aðra sundlaug í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur tillöguna fyrir sem nýja fjárfestingu í síðari umræðu um fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun.

 

Tillagan í heild sinni ásamt greinargerð

 

Fulltrúi flokks fólksins leggur til að byggð verði ný sundlaug í Breiðholti. Lagt er til að lauginni verði valinn staður í Seljahverfi eða við íþróttasvæði ÍR í Syðri Mjódd. Borgarstjóra er falið að hefja vinnu við staðarval vegna tillögunnar og leggja til viðeigandi skipulagsbreytingar vegna hennar. 

 

Greinargerð

Nýtt hverfisskipulag fyrir öll hverfi Breiðholts hefur verið til umræðu í vetur og kynnt fyrir íbúum hverfisins.

Ljóst er að gera þarf breytingar á gildandi deiliskipulagi svo koma megi umræddri sundlaug fyrir í Syðri Mjódd. Slík vinna þyrfti að hefjast sem fyrst og ekki síðar en í tengslum við hverfisskipulag strax á nýju ári.

Það er við hæfi í þessu sambandi að nefna að í arkitektasamkeppni um íþróttasvæði í Syðri Mjódd frá árinu 1982 var gert ráð fyrir vatnasvæðum úti. Vísað er til tillögu Guðna Pálssonar og Dagnýju Helgadóttur.

Í Syðri Mjódd er í gildi sérstakt deiliskipulag, sem ekki er hreyft við í hverfisskipulagi, Fyrst þarf því að finna umræddri sundlaug stað í hverfinu og gera síðan breytingar á gildandi deiliskipulagi í framhaldinu.

Í Breiðholtinu er nú ein sundlaug, Sundlaug Breiðholts. Í hverfinu öllu búa 22-24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að anna þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti, sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að tvö þúsund íbúðir þegar allt er tiltekið, þar af gætu nýjar íbúðir í Mjódd orðið um 600 talsins og aukaíbúðir í sérbýli á bilinu 500-700. 

Sjá má hvernig aðsókn að Sundlaug Breiðholts hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar árið 2017 og fjölgaði gestum hennar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn að lauginni 204.047 en hafði rúmlega tvöfaldast árið 2019 þegar aðsóknin nam 432.219 sundlaugargestum. Til samanburðar má geta þess að í Hafnarfirði eru þrjár sundlaugar en þar búa um 28 þúsund manns.

Í Breiðholtslaug koma ekki einungis Breiðhyltingar heldur einnig fólk úr öðrum hverfum, t.d. Norðlingaholti. Nú er staðan þannig í lauginni að erfitt er, ef ekki ógerlegt, að fara í hana milli kl. 8-16 á virkum dögum. Vissulega er skólasund í forgangi en það er ekki viðunandi að almenningur eigi þess varla kost að sækja sundlaugina nema á kvöldin. Breiðhyltingar eru jafnvel farnir að aka í önnur sveitarfélög til þess að komast í sund. 

Fulltrúi flokks fólksins vill að skoðað verði fyrir alvöru að bæta við annarri sundlaug í Breiðholti enda er sundiðkun holl og góð líkamsrækt. Ekki hafa allir efni á líkamsræktarkorti. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband