Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!

Á morgun laugardaginn 25. september verður gengið til Alþingiskosninga 

Flokkur fólksins berst gegn fátækt á Íslandi og sækir nú umboð þjóðarinnar til að halda þeirri baráttu áfram á Alþingi. Grundvallarmannréttindi barna og fjölskyldna þeirra hafa alls ekki verið virt sem skyldi hér á landi. Mannréttindi samfélags eiga hvorki að vera háð efnahagi né völdum. Fátækt er samfélagsmein sem hefur aukist á Íslandi síðustu ár.

Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!

Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu til tíu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt að mati Flokks fólksins. Með slíkan efnahagslegan mun sitja börn ekki við sama borð. Fátækt á bernskuárum getur haft víðtæk áhrif á börn og valdið margvíslegum skaða. Félagslega mismununin svíður sárast. Börnin finna til vanmáttar, glíma við brotna sjálfsmynd og sæta í sumum tilvikum einelti.

Ríkisvaldið undir forystu Sjálfstæðisflokksins og VG hefur ekki staðið sig nægjanlega vel gagnvart börnum efnaminni foreldra varðandi sanngjarna dreifingu fjármagns svo að jöfnuður megi ríkja. Staðreyndin er sú að það búa ekki allar fjölskyldur við sjálfsögð mannréttindi á Íslandi. Sumar fjölskyldur búa við óviðunandi húsnæðisaðstæður ýmist vegna lélegs húsakosts eða þrengsla. Það er heldur ekki lengur nýlunda að frétta af börnum sem hafa gengið í allt að fjóra grunnskóla vegna tíðra flutninga fjölskyldunnar. 

Það er útilokað fyrir fólk á lægstu laununum, öryrkja og fjölmarga eldri borgara sem greiða háa leigu að lifa mannsæmandi lífi.  Þetta getum við hjá Flokki fólksins ekki sætt okkur við.

Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi. Merktu x við F ef þú vilt styðja okkur í þeirri baráttu!

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 Birt í Breiðholtsblaðinu 22. september 2021

 


Enginn á að þurfa að basla á efri árum

Fjárhagur og fjárhagsaðstæður eru stór áhrifaþáttur á líðan allra, sama á hvaða aldursskeiði þeir eru. Eftir því sem aldurinn færist yfir með tilheyrandi breytingum skiptir fátt eins miklu máli og fjárhagslegt öryggi. Líklegt má telja að flestir eldri borgarar búi við að minnsta kosti þokkalegt fjárhagslegt öryggi. Vitað er þó að ákveðinn hluti eldri borgara hefur ekki næg fjárráð, býr við ófullnægjandi aðstæður og líður jafnvel skort. Áhersluatriði Flokks fólksins er að enginn eldri borgari búi við skort af neinu tagi. Við viljum tryggja eldri borgurum mannsæmandi afkomu svo þeir geti lifað með reisn og notið ævikvöldsins.

Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að vísað sé til eldri borgara eins og einsleits hóp. Þannig er því ekki háttað. Eldri borgarar eiga það sameiginlegt að hafa náð ákveðnum lífaldri. Að öðru leyti er þessi hópur ekkert frábrugðinn öðrum hópum fólks á einhverju öðru aldursskeiði.

Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar talað er um efri árin er heilsufar. Þótt heilsuleysi geti gert vart við sig á öllum aldursskeiðum er hættan á heilsubresti vissulega mest á efri árum. Að þessu leyti gætir þó mikils mismunar hjá eldri borgurum. Hluti þeirra er við góða heilsu, hluti við þokkalega heilsu og enn annar við bágborna heilsu. Aðrar aðstæður s.s. fjölskylduaðstæður eru að sama skapi afar mismunandi.

Kröftug barátta Flokks fólksins fyrir réttindum eldra fólks

Flokkur fólksins hefur barist með blóði, svita og tárum á Alþingi til að rétta hlut eldra fólks en oftast ekki haft árangur sem erfiði í þeirri glímu við ríkisstjórnina. Vel hefur þó tekist til að skapa umræðu og stórsigur vannst þegar Flokkur fólksins vann í júlí 2019 mál fyrir hönd ellilífeyrisþega, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Niðurstaðan í því máli varð til þess að ríkið greiddi 29.000 eldri borgurum samtals um sjö milljarða króna.

Undir lok kjörtímabilsins bar barátta Flokks fólksins loks árangur á Alþingi þegar samþykkt var að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra og að blindum og sjónskertum stæði til boða leiðsöguhundar sér að kostnaðarlausu.

Burt með skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna!

Sú regla hefur gilt í íslensku samfélagi að eldri borgarar fara af vinnumarkaði 70 ára án tillits til þess hvort þeir sjálfir eða atvinnurekendur hafi óskað eftir því. Þetta er fólkið sem hefur alla sína starfstíð lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Það er hreint fráleitt að launa þessu fólki með því að útiloka það frá vinnumarkaðnum þótt ákveðnum aldri hafi verið náð enda er lífaldur fráleitur mælikvarði á atgervi fólks.

Í hópi eldri borgara eru einstaklingar sem bæði geta og vilja vera áfram á vinnumarkaði við ólík störf. Það er ekki hlutverk ríkisins að leggja stein í götu eldri borgara sem vilja vera á vinnumarkaði.  Hvenær eldri borgari hættir að vinna er hans val og hans persónulega ákvörðun. Þess vegna vill Flokkur fólksins einfaldlega leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna. Allt annað er ósanngjarnt.

Sú kynslóð sem hér um ræðir hefur öðlast reynslu og safnað fjölþættri þekkingu og í mörgum tilvikum er einmitt gagnlegt að blanda saman fólki á mismunandi aldursskeiðum á vinnustöðum. Hinn ungi heili er fljótur að tileinka sér nýja þekkingu er þarf langan tíma til að breyta henni á nothæfan skilning.

Hinn fullorðni heili er lengur að tileinka sér nýja þekkingu en fljótur að sjá hvernig hægt er at nota hana. Með því að fjölga eldri borgurum á vinnumarkaði geta þeir líka miðlað til annarra þroskuðum viðhorfum, sögulegum venjum og hefðum og dýrmætum menningararfi sem skilar sér vel í munnlegum samskiptum frá einum aðila til annars. Því lengur sem eldri borgarar eru virkir í atvinnulífinu og í sem nánustu tengslum við yngri kynslóðirnar því meiri ávinningur fyrir samfélagið í heild.
Gerum efri árin að gæðaárum. Þau eiga hvorki að vera fátæktargildra né kvíðaefni.

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Birt í Morgunblaðinu 20. september 2021


Börn sem bíða eru börn sem líða

Biðlistar barna eru blettur á heilbrigðisþjónustunni

Árum saman hafa notendur heilbrigðisþjónustunnar mátt búa við biðlista af öllum stærðargráðum. Biðlistar á Barna- og unglingageðdeild (Bugl) hafa verið svo lengi sem menn muna. Biðlistavandi á ekki einungis við um Bugl heldur á fleiri stöðum þar sem börnum og unglingum, sem eiga við sálfræðilegan og/eða líffræðilegan vanda að stríða, er hjálpað. Nefna má einnig langa biðlista á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem kemur illa niður á notendum og aðstandendum.

Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Flokkur fólksins vill uppræta biðlista. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu. Hverju kann það að sæta að samfélag eins og okkar Íslendinga er haldið þessu biðlistameini? Svarið er oft „mannekla“ og til að hægt sé að ráða fleira fagfólk þurfi fjármagn. Fjármagni er ekki forgangsraðað í þágu barnanna, svo mikið er víst. Börn hafa ekki verið sett í forgang, væru þau í forgangi, þá væru ekki langir biðlistar eftir svo nauðsynlegri þjónustu sem sál- og geðlæknaþjónusta er. Á þessu kjörtímabili hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að eyða biðlistum eins og þeir séu bara sjálfsagðir og eðlilegir.

Halda þarf áfram að leita lausna á þessu rótgróna vandamáli og finna leiðir til að ráða inn fleiri fagaðila og stuðla að aukinni samvinnu milli stofnana bæði ríkis og borgar.

Heilsu barna teflt í tvísýnu

Við í Flokki fólksins vonum innilega að á meðan börnin bíða eftir þjónustunni verði vandinn ekki þeim ofviða. Vissulega er reynt að forgangsraða málum. Bráðamál eru tekin fram fyrir og mál sem sögð eru  „þoli bið“ séu látin bíða.  Enginn getur með fullu vitað hvað er að gerast hjá barninu á meðan það bíður eftir þjónustu. Vel kann að vera að á meðan á biðinni stendur vaxi vandinn og geti á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum. Dæmi um bráðamál eru börn sem viðhafa sjálfsskaða, eru jafnvel komin með  sjálfsvígshugsanir eða byrjuð í neyslu. Fullvíst er að þegar svo er komið hefur vandinn átt sér aðdraganda. Mál barns verður ekki bráðamál á einni nóttu heldur hefur líklega verið að krauma mánuðum saman.

Börn eiga ekki að þurfa bíða eftir þjónustu af þessu tagi nema í mesta lagi 3-4 vikur. Með margra mánaða bið er verið að taka áhættu. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu fyrir barn sitt hjá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn, sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk, er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.

Börn sem bíða eru börn sem líða.

Höfundar:

Tómas A. Tómasson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Birt í Mannlífi 18. september 2021

 

Kolla og Tommi í blöðunum Kjarninn


136 bíða eftir sértæku húsnæði. Hver er aldur og aðstæður þeirra í dag

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir á fundi velferðarráðs að fá upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk.
Staðan í Reykjavík er svona:
Þann 1. september s.l. var fjöldi umsækjenda sem bíða eftir fyrsta húsnæði 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Samtals sem sagt 168. Yfir 40 einstaklingar hafa beðið lengur en 5 ár.

Margir bíða fram á fullorðinsár eftir  búsetuúrræði.  Það er mikið lagt á fatlað fólk sem orðið er rígfullorðið og fær ekki búsetuúrræði. Margir hafa beðið árum saman.

Biðlistar eru ekki eiginlegir biðlistar heldur „haugur“ af því sem virðist sem hirt er úr eftir hendinni eða hvað? Alla vegar hefur komið fram ítrekað að sagt sé við einstakling að hann sé næstur en síðan er hann það ekki og annar tekinn fram fyrir og sá sem átti að vera næstur bíður jafnvel í ár eða meira í viðbót.
Þetta reynir á foreldrana en margir búa hjá foreldrum meðan þeir bíða og mest reynir þetta á umsækjendur sjálfa. Dæmi eru um að foreldrar séu orðnir öryrkjar vegna álags.


Hin lamandi áhrif fátæktar

Fátækt meðal barna á Íslandi á sér margar birtingamyndir. Þegar hugtakið „fátækt“ ber á góma dettur mörgum í hug svelti og jafnvel að viðkomandi búi á götunni. Hugtakið fátækt hefur hins vegar mun víðtækari merkingu . Í því felst m.a. að foreldrar hafi ekki ráð á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji stendur til eða eru talin almenn, jafnvel nauðsynleg. Börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Foreldrar, sem eru aðþrengdir fjárhagslega, þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða sínum knöppu fjárráðum ef endar ná ekki saman. Efst á lista er húsaskjól og aðrar grunnþarfir. Í mörgum tilvikum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í leigu. Fátækt hefur aukist hér á landi á síðustu misserum sem m.a. tengist efnahagsáhrifum  COVID-19.


Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi!

Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Íslendingar á ekki að líða fátækt. Hún leiðir til misréttis og getur haft mjög neikvæð áhrif á líf og líðan barna. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Hann hefur ekki verið innleiddur nema að takmörkuðu leyti. Á Íslandi standa fjölmargar barnafjölskyldur standa efnahagslega höllum fæti. Þær geta ekki veit börnum sínum nema brot af því sem börn efnameiri foreldra fá og geta. Sum börn búa við svo bágar aðstæður að þau geta ekki boðið vinum sínum heim. Sum börn fá ekki nóg að borða og fara svöng að sofa. Hér er frásögn stúlku einstæðrar móður sem býr við fátækt:

 „Við mamma búum í einu litlu herbergi. Við misstum allt í Hruninu. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hef gengið í þrjá skóla og á því ekki marga vini."  
 

Auk stækkandi hóps sem býr við fátækt eru biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki. Samkvæmt  nýjum könnunum hefur andleg heilsa barna versnað. Áherslumál Flokks fólksins eru að bæta kjör og líðan allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnahagsþrenginga, barna, öryrkja og eldri borgara. Allir vita eða segjast vita hvaða afleiðingar áhrif skorts og langtímavöntunar hafa á börn og þroska þeirra. Stokka þarf spilin upp á nýtt og setja fólkið sjálft, heilsu þess og hag í forgang. Fólkið fyrst, síðan allt hitt! 

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 

 Tómas Andrés Tómasson - 1. sæti Reykjavík norður réttKolbrun v3


Ekki lengur biðlisti heldur haugur sem týnt er úr

Borgarstjórnarfundur er næstkomandi þriðjudag. Flokkur fólksins hefur sett á dagskrá umræðu um vöntun og langan biðlista eftir sértæku húsnæði og húsnæði með stuðningi.

 
Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um biðlista fatlaðs fólks og vöntun á sértæku húsnæði og húsnæði með stuðning.

Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi. Í þessi úrræði hefur alltaf verið biðlisti. Um 135 einstaklingar með fötlun eru á biðlista og hafa 40 beðið lengur en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3. flokki. Árið 2014 voru tölur þær sömu. Sumir hafa beðið í fjölda mörg ár, fatlað fólk
sem er orðið rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.
Flestir hafa þann skilning á „biðlista“ að þar sé einhver kerfisbundin röð í gangi, að þeir sem beðið hafa lengst séu fremstir á lista. Kvartanir hafa borist að umræddur biðlisti sé ekki eiginlegur biðlisti heldur sé frekar um að ræða haug frekar en kerfisbundinn skipulagðan lista. Dæmi eru um að einstaklingi sé sagt að hann sé „næstur“ en síðan komið í ljós að það er ekki rétt, aðrir þá teknir fram fyrir. Búið er að dæma í einu máli sem þessu og var þar einstaklingi dæmd milljón í miskabætur.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband