Bloggfærslur mánaðarins, mars 2022

Konum ekki lengur úthýst úr gömlu klefunum í Sundhöll Reykjavíkur

Hér er skýrt dæmi um hvernig "dropinn holar steininn" en í þrjú ár hef ég haldið þessu máli á lofti í borgarstjórn, í mannréttindaráði og í skipulagsráði í samvinnu við Eddu Ólafsdóttur sem stundað hefur sund í Sundhöllinni í hálfa öld og doktor Vilborgu Auði Ísleifsdóttur.

Baráttan hefur staðið um það réttlætismál að konur fái aftur aðgang að eldri búningsklefum kvenna eftir að endurgerð þeirra var lokið í gömlu byggingunni alveg eins og karlarnir höfðu fengið. Þannig átti það ekki að vera heldur stóð þeim aðeins til boða hinir nýju klefar en staðsetning þeirra er bagaleg því frá þeim að laug er löng leið sem ganga þarf utandyra í blautum sundfötum til að komast inn í Sundhöllina. Þetta máttu stúlkur í sundkennslu einnig þola og það um hávetur.

Konum fannst þeim hafa hreinlega verið úthýst úr Sundhöllinni. Jafnréttissjónarmiði var fótum troðið að mati fulltrúa Flokks fólksins og engin spurning var um að  farið var á svig við jafnréttislög. Í mörgum málum, fyrirspurnum og tillögum reyndi ég að fá þessu breytt en því öllu hafnað. Ég tók málið upp í borgarstjórn og þótti borgarstjóra lítið til um það.

En nú hefur dropinn holað steininn eins og sjá má í þessari grein. Ég segi bara til hamingju kvensundgestir Sundhallar Reykjavíkur! 

 

Sundhöll 1

https://www.frettabladid.is/frettir/ofremdarastand-riki-i-sundhollinni-tekist-a-um-gomlu-klefana/

 


Strætó bs. og metanvagnar

Sjaldan er ein báran stök, segir framkvæmdastjóri Strætó í viðtali. Ég tek undir það. Það hefur mætt mikið á bs. fyrirtækinu Strætó á þessu kjörtímabili. Starfsfólk hefur tjáð sig um vanlíðan í starfi, kvartað er yfir yfirstjórn og stjórnunarháttum og talað um einelti og að þöggun ríki í fyrirtækinu. Strætó fær einnig mikið af ábendingum sem sagt er að sé öllum fylgt eftir. Strætó hefur reynt að taka til í sínum ranni, gert þjónustukönnun og segja að öllum kvörtunum og ábendingum sé fylgt eftir. Því fer fjarri að allir sem kvarta kannist við það.

Stjórn Strætó bs. fullyrðir að vagnarnir séu vel setnir. Til að meta nýtingu eru talin innstig. Heildarfjöldi innstiga árið 2021 var tæp 9,5 milljóna innstiga og hafði þeim fjölgað um tæp 8% frá árinu 2020. Stóran hluta dags eru vagnarnir engu að síður hálftómir

Sóun á metani!

Vart þarf að rekja áhrif og afleiðingar Covid faraldursins á samfélagið hér í löngu máli. Nú er staðan sú að Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Og svo kom stríð í Úkraínu og því fylgja olíuverðshækkanir sem munu að óbreyttu hafa rekstraráhrif. Vissulega hefur Strætó minnkað flota þeirra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og fjölgað nokkuð vistvænni bílum en hér vil ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins, staldra við.

Þau eru nefnilega mörg málin, tillögur og fyrirspurnir frá Flokki fólksins sem snúast um af hverju Strætó notar ekki metanvagna í stórum stíl. SORPA bs. sem er einnig að stórum hluta í eigu borgarinnar, framleiðir ógrynni af þessu vistvæna gasi. Það hleðst hins vegar upp á söfnunarstað og er brennt á báli engum til gangs. Þvílík sóun!

Fram hefur komið skýrt að Strætó bs. og stjórn hugnist ekki metanvagnar. Meðal raka eru að þeir séu of hávaðasamir. Það er léttvægur fyrirsláttur í heildarsamhenginu. Nú stefnir í að kostnaðarauki vegna eldsneytishækkunar einn og sér gæti orðið 100-200 milljónir á þessu ári. Fátt væri því eðlilegra en að allir vagnar Strætó væru metanvagnar.
Það er hins vegar fyrirhugað hjá Strætó bs. að kaupa rafvagna fyrir um 400 m.kr. Nú þegar hefur verið auglýst útboð þar sem óskað er eftir allt að 9 til 10 rafvögnum.

Mismunandi aðgengi að Strætó

Öll óskum við þess að Covid sé brátt að baki og að lífið komist aftur í samt horf á öllum sviðum. Víkur þá sögunni að nýja greiðslukortakerfinu, Klappi. Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp „Klapp“ appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „Mínar síður“ og endurnýjað inneignina.

En þessi tækni er ekki veruleiki allra. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki t.d. vegna fötlunar sinnar sótt um rafrænt skilríki og geta því ekki notað „Mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Vegna þessa m.a. hefur fækkað í notendahópi Strætó.

Það er forvitnilegt að fá upplýsingar um hvað þetta nýja greiðslukerfi kostaði og hversu margir sérfræðingar voru ráðnir til verksins. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp

Ljós í þessu myrkri er þó hið svokallaða Klapp tía svo öllu sé nú haldið til haga. Hún felst í farmiðum með 10 fargjöldum fyrir fullorðna, ungmenni eða aldraða sem hægt er að kaupa á nokkrum stöðum. Þeir sem ekki hafa rafrænar lausnir geta bjargað sér með Klapp tíu sem eru tíu ferðir í senn.

Óskandi er að stjórnendur Strætó setji sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins og sníði þjónustuna að þeirra veruleika. Vel mætti skoða að bjóða upp á meiri sveigjanleika í þjónustunni til að allir, sem það vilja og þurfa, geti notað strætó án vandkvæða.

Birt í Morgunblaðinu 23. mars 2022


Geislabaugurinn á Lækjartorgi á ís

Á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu hafa óskað eftir hæli hérlendis. Væntanlega verður tekið á móti um 2.000 manns. Sumir snúa jafnvel aldrei aftur heim. Miklu skiptir að þetta fólk mæti hér hlýju, skilningi og fjölþættri aðstoð.

Margt þessa stríðshrjáða fólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Við getum átt von á 200 úkraínskum börnum til Reykjavíkur, jafnvel fleiri. Borgarbúar, fyrirtæki og stéttarfélög hafa boðið fram húsnæði af öllu tagi. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði.

Flóttamennirnir koma hingað allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnin þurfa að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Mikilvægt að þau geti sem allra fyrst lifað eðlilegu og öruggu lífi.

Bíða með fjárfrekar framkvæmdir Ljóst er að nú þarf borgarmeirihlutinn að endurskoða útdeilingu fjármagns. Fresta fjárfrekum framkvæmdum. Geislabaugurinn skrautlegi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um önnur verkefni sem ekki eru nauðsynleg.

Flokkur fólksins vill breyta forgangsröðun við útdeilingu fjármagns. Setja á fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Meirihlutinn getur ekki lengur lamið hausum við steininn. Flokkur fólksins skorar á borgarstjóra og meirihlutann að sýna lit. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Börnin, sem bíða eftir fagþjónustu skóla, eru 1804. Langur biðlisti er eftir félagslegu húsnæði og sértæku fyrir fatlaða. Ef spilin verða ekki endurstokkuð er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

Birt í boxinu í Fréttablaðinu 17. mars 2022


Stokka upp á nýtt

Borgarstjórnarfundur stendur yfir.
Hér er bókun Flokks fólksins við umræðu um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoða fyrir flóttamenn frá Úkraínu:
 
Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnunum er nauðsyn að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla og í frístund.

Nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins hlýtur borgarmeirihlutinn að verða endurskoða útdeilingu fjármagns úr borgarsjóði. Fresta ætti fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg og jafnvel engin er að biðja um.

Flokkur fólksins hefur talað ítrekað um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjármagni er útdeilt. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislega.
Kallað er eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun í borgarstjórn enda ekki vanþörf á. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla.

Ef spilin verða ekki endurstokkuð með þarfir fólks í forgangi, er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrg sína um að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.
borg mynd 1 15.3 1
 
 
 

Aðkoma Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Borgarstjórn Reykjavíkur
15. mars 2022

Greinargerð með umræðu borgarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Inngangur

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu í borgarstjórn um aðkomu Reykjavíkurborgar að fjölþættri aðstoð og stuðningi (fjárhagsaðstoð, áfallahjálp, sálfræðiaðstoð, tækifærum til menntunar, frístunda og tómstundastarfs) fyrir úkraínsk börn og foreldra þeirra sem setjast að í Reykjavík vegna innrásar Rússahers í land þeirra.

Staðan í dag

Nú þegar hafa á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu óskað eftir hæli hérlendis frá því að innrásin hófst og fjölgar þeim með degi hverjum. Búist er við að tekið verði á móti allt að 2.000 manns frá Úkraínu næstu vikur og mánuði. Sumir munu dvelja hér tímabundið (a.m.k. eins lengi og innrásin stendur yfir) en aðrir munu setjast hér að til lengri tíma og jafnvel aldrei snúa aftur heim.

Stór hluti flóttafólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Fjöldi úkraínskra barna sem koma til Reykjavíkur á næstu dögum og vikum gæti orðið allt að 200. Nú þegar hefur stórum hópi flóttamanna verið boðið húsnæði í Reykjavík af borgarbúum og einkaaðilum/fyrirtækjum sem hafa aukarými eða hafa yfir að ráða lausu húsnæði. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði. Spurt er í því sambandi hvort Reykjavíkurborg geti lagt til húsnæði en mikill húsnæðisskortur er nú í borginni.

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir og í miklu áfalli. Þau þarfnast áfallahjálpar og persónulegrar, einstaklingsmiðaðrar aðstoðar fagfólks. Fólkið þarfnast fjárhagsaðstoðar til að geta keypt sér mat og aðrar nauðsynjar. Börnin þurfa að geta komist sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Það er mikilvægt að þau geti farið að lifa eðlilegu lífi í öruggum aðstæðum sem allra fyrst.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fram fari ítarleg umræða í borgarstjórn um hvernig Reykjavík ætlar að haga víðtækri og yfirgripsmikilli aðstoð sinni við flóttafólkið og börnin þeirra. Þessi umræða er mjög brýn nú ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru langir biðlistar eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík og biðlistinn eftir félagslegu og sértæku húsnæði er langur. Nú bætist við stór hópur flóttamanna í mikilli þörf og þessu fólki má Reykjavík ekki bregðast. Á sama tíma er ekki hægt að ætlast til að þeim sem beðið hafa vikum og mánuðum saman eftir nauðsynlegri þjónustu, börn, öryrkjar, fátækir, heimilislausir og eldra fólk, verði ýtt til hliðar og þau látin bíða enn lengur.
Það er þess vegna ekki seinna vænna en að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og hugsi þessi mál upp á nýtt. Sú staða sem nú er komin upp kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Kallað er eftir nýrri hugsun og nýrri nálgun sem setur fólk í fyrsta sæti. Fólkið fyrst og svo allt hitt.


Ég vil ekki fara í skólann

Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma (Kearney, Albano 2007).

Vísbendingar eru um að skólaforðun sé vaxandi vandamál og erfitt getur verið að ná tökum á alvarlegustu tilvikunum. Rannsóknirnar sýna að skólaforðun hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og valdið því að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi.

Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Með því að forðast skólann er barnið oftast að senda skilaboð þess efnis að eitthvað „í skólanum“ valdi svo mikilli vanlíðan og streitu að það geti ekki hugsað sér að sækja skólann. 

Ástæður skólaforðunar geta verið margvíslegar.  Nefna má erfiðleika í námi, vanda varðandi vitsmunalegan þroska eða aðrar raskanir, greindar eða ógreindar. Um getur verið að ræða félagslega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af einhverju á leið í eða úr skóla eða að það eigi í samskiptaerfiðleikum við einhvern í skólanum.  Stundum er um að ræða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra krakka.
 

Þörf á vitundarvakningu

Auka þarf vitund foreldra um þetta vandamál með fræðslu. Umfram allt þarf að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er sem barnið  er að forðast í skólanum. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum.  Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn, sem eru hætt að mæta í skólann, ná sér ekki öll aftur á strik.

Dæmi um ástæður skólaforðunar  geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara stendur því til boða að gera. Barnið velur e.t.v. að vera heima við tölvu, eigi það þess kost, fremur en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni.

Samræmd viðmið til að greina skólaforðun

Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem  sýndi  „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. 


Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur.

Hvernig hafa viðmiðin nýst?

Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. 

Ég tel tímabært að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista hafi nýst. Hinn 15 mars næstkomandi mun ég leggja fram tillögu í borgarstjórn um að gerð verði úttekt á hvernig reglurnar hafa nýst þeim grunnskólum sem stuðst hafa við þær. 

Lífið eftir Covid

Nú er skólasókn vonandi að komast í eðlilegt horf eftir tveggja ára skeið sem litast hefur af Covid með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkur að því að skólaforðun hafi aukist með faraldrinum og fleiri börn hafi bæst í þann hóp sem forðast skólann. Þeim börnum sem leið ekki vel í skólanum fyrir Covid, líður kannski ekki miklu skár nú. Um þessar mundir bíða rúmlega 1800 börn eftir fagaðstoð, m.a. sálfræðinga, og biðlistinn lengist með hverri viku. Settar hafa verð 140 m.kr. til að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni sem eru því miður aðeins dropi í hafið. Betur má ef duga skal.

Grein: Skólaforðun. Vaxandi vandamál? 
Birt í Morgunblaðinu 10. mars. 2022


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband