Í dag verður skipt um borgarstjóra

Í dag verður skipt um borgarstjóra. Búið er að boða til aukaborgarstjórnarfundar og eigum við borgarfulltrúar að greiða atkvæði. Tillaga meirihlutans er eins og löngu er vitað að Einar Þorsteinsson verði næsti borgarstjóri. Auðvitað má spyrja hér til hvers að kjósa? Sú skipti sem hér um ræðir er innbyrðis ákvörðun meirihlutans, mál sem flokkur í minnihluta hefur ekkert um að segja eða gera. Jafnvel þótt allur minnihlutinn greiði atkvæði gegn Einari þá verður hann samt borgarstjóri.
Meirihlutinn er jú meirihluti.
 
Auðvitað óskar fulltrúi Flokks fólksins Einari velfarnaðar í þessu embætti sem er stórt og ábyrgðarmikið. Flokkur fólksins óskar þess einnig að honum beri gæfa til að taka skynsamar ákvarðanir, ákvarðanir sem gagnast fólkinu og verði til að betrumbæta velferðina, skólamálin og almenna þjónustu við fólkið. Flokkur fólksins vill vera bjartsýnn en ef horft er á þann tíma sem liðinn er frá kosningum er ekki gott að segja hvernig þróun mála verður. Fram til þessa hefur Einar tekið stefnu Dags og hugmyndir um hvernig á að stjórna borginni og gert þær að sínum eftir því sem best er séð. En svo veit maður auðvitað aldrei.
 
En það þarf að bretta upp ermar svo mikið er víst. Ekki gengur að halda áfram að skerða þjónustu. Fátækt og ójöfnuður hefur aukist á vakt þessa og síðasta meirihluta. Það sýna nýlegar niðurstöður Þjóðarpúls Gallup en 14% landsmanna áttu að eigin sögn ekki fyrir jólahaldinu og eru það 5% fleiri en árið áður. Þetta er slæm þróun. Kjörorð Flokks fólksins er fæði, klæði og húsnæði og þessi þrjú orð er rauður þráður í gegnum allt starf Flokks fólksins. Með þetta að leiðarljósi höldum við áfram okkar baráttu í borgarstjórn það sem eftir er af þessu kjörtímabilinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband