Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Börnin í Suðurlandsskjálftanum

Mörg börn urðu að vonum viti sínu fjær þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir.  Skyndilega var fótum kippt undan fólki í orðsins fyllstu merkingu.  Það sem fyrst kemur upp í hugann við þessar aðstæður er HVAÐ ER AÐ GERAST?  ER ÉG Í HÆTTU?

Flestir fullorðnir áttuðu sig eflaust fljótt á að um jarðskjálfta var að ræða. Börnin hins vegar, sérstaklega þau sem eru í yngri kantinum, skildu sennilega lítið sem ekkert í hvað var að gerast. Augu og eyru hafa opnast upp á gátt og allt þeirra skynfærakerfi verið skyndilega ræst. Þegar skjálftinn reið yfir og fyrstu sekúndurnar og mínúturnar á eftir hafa þau börn sem stóðu nálægt einhverjum fullorðnum fylgst náið með þeirra viðbrögðum. 

Þegar hættuástand myndast mjög skyndilega sýna flestir eðlilega sterk óttaviðbrögð. Því fyrr sem fullorðnir á staðnum ná yfirvegun og ró sem þau sýna í atferli og látbragði, því betra fyrir börnin sem nærstödd eru. Rétt viðbrögð í kjölfarið geta skipt sköpum fyrir hvort barnið verði fyrir djúpstæðu áfalli sem draga mun e.t.v.  dilk á eftir sér eða hvort það sleppi með létt sjokk sem það kemst jafnvel tiltölulega fljótt yfir. Takist hinum fullorðnu að halda yfirvegun og ró eins og hægt er í ljósi aðstæðna þá mun barnið njóta góðs af. Sjái barnið hins vegar að fullorðnir, fólkið sem það treystir á, er viti sínu fjær af ótta og halda áfram að sýna sterk óttaviðbrögð næstu klukkustund á eftir, er líklegra að áfall barnsins verði meira.

Börn sem búa við stríðsástand eða á hamfarasvæðum.
Ef öryggi barns er ógnað hvort sem það er vegna náttúruhamfara eða stríðs sem geisar í umhverfi þess er það stöðugt að leita upplýsinga um stöðu mála í svipbrigðum fullorðna fólksins, raddblæ, í orðum og atferli þeirra til að reyna að meta stig hættuástandsins sem það skynjar að það er í.
Þetta er þeirra gagnagrunnur. 

Gera má ráð fyrir að sálrænar afleiðingar Suðurlandsskjálftans munu verða talsverðar bæði á börn og fullorðna. Vissulega bregst fólk við með mismunandi hætti. Fólk er mis fljótt/lengi að vinna úr áfalli sem þessu og spilar þar margt inn í.

Þrátt fyrir að vel hafi tekist til og að foreldrum hafi tekist í kjölfar Suðurlandssjálftans að halda ró sinni og yfirvegun, sannfært börn sín um að þeirra verði vel gætt mun mjög sennilega kvíði og óöryggi fylgja mörgum um einhvern tíma. Þeim sem finnst að þeir séu rétt að ná áttum eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000 gætu sannarlega átt um sárt að binda næstu misseri.


Að vera uppkomið barn alkóhólista

SÁÁ Blaðið kom inn um lúguna í morgun. Í því eru margar góðar greinar þar á meðal ein sem ber heitir Börn alkóhólista í verulegri hættu.

Umræða um hvernig alkóhólsimi leggst á alla  fjölskylduna er þörf og verður henni seint gerð full skil.  Auk þess sem börn alkóhólista eru í áhættuhópi þeirra sem ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum eru mörg önnur erfið tilfinningarleg og félagsleg einkenni sem hrjá þau, einkenni sem einstaklingarnir eiga oft í baráttu við alla ævi.

Sem sálfræðingur og einnig fullorðið barn alkóhólista langar mig að nefna nokkur algeng einkenni sem oft fylgja barni alkóhólista þegar það leggur af stað út í lífið. Um er að ræða erfiðar tilfinningar og hugsanir sem geta verið æviverkefni að finna farveg og viðunandi lausnir á. 

Fyrst skal nefna tilfinningu sem við köllum í daglegu tali minnimáttarkennd. Þessi tilfinning eða líðan lýsir sér í því að viðkomandi upplifir sig sem lítils virði og að hann eða hún geti ekki gert hlutina nógu vel. Þetta er líðan sem einkennist af tilfinningu um að vera síðri en aðrir og finnur viðkomandi oft fyrir ríkri skammartilfinningu.

Þessi líðan: hugsun og tilfinning leiðir oft til þess að viðkomanda finnst hann verða að gera hlutina ofurvel. Hann er því oft mjög samviskusamur og vill vanda sig við verkin.  Þrátt fyrir að hafa lagt sig fram finnst þessum sama aðila framlag sitt seint vera nógu gott sem skapar að sjálfsögðu áframhaldandi vanlíðan og enn slakara sjálfsmat. 

Óöryggi og ótti við að mistakast eru algengar upplifanir hjá fullorðnum börnum alkóhólista.  Finnist þessum einstaklingum þeim hafa mistekist eða ekki tekist nægjanlega vel til eru þeir oft mjög harðir í eigin garð. Sjálfsgagnrýnin verður mikil með tilheyrandi vanmáttartilfinningu og skömm.

Þetta er bara brot af þeirri margbrotnu flóru erfiðra tilfinninga og hugsana sem fullorðið barn alkóhólista er að  takast á við í sínu daglega lífi.  Þessi birtingarmynd er heldur ekki algild enda margar aðrar breytur í lífi hvers og eins sem hafa áhrif.

Úr þessum vítahring er vissulega leið. Enda þótt sú leið sé tyrfin þá er hún fær.  Með auknu innsæi, betri skilning, fræðslu og tilheyrandi stuðning er hægt að vinda ofan af neikvæðum tilfinningum sem þessum og leysa upp ranghugmyndir. Lausnin felst hvorki í að leita að sökudólgi né dvelja í sjálfsvorkunn heldur fjölmörgum atriðum sem miðast að því að styrkja sjálfið: hlúa að eigin sál og líkama. Liður í því er  m.a. að losa um hina miklu sjálfsgagnrýni, létta á ábyrgð og draga úr kröfum sem viðkomandi gerir til sjálfs síns.


Að raða eftir litum og notagildi tjöruhreinsins

Ég var ánægð að sjá að fjallað er um kosti þess að raða eftir litum í fataskápinn eins og sjá má í Fréttablaðinu í dag Regnbogi í fataskápnum.  Þetta flokkunarkerfi er afar handhægt og er til þess fallið að maður er tiltölulega fljótur að átta sig á, í fyrsta lagi hvað er í skápnum og í öðru lagi flýtir röðunarkerfi sem þetta fyrir vali og hugmyndum um samsetningu fata sem eru í skápnum.

Þar sem efni þessarar færslu er ekki dæmigert fyrir færslur á bloggsíðunni langar mig að láta fylgja  með eitt gott húsráð.

Til að ná slæmum bletti úr flík eða krónískri svitalykt þá felst góð lausn í því að úða á blettinn MAX EXTRA Tjöru- og Olíuhreinsir og setja svo flíkina í þvottavélina. Gildir einu hvernig flíkin er á litin. Þetta er algert töfraefni og má nota við margt annað en að hreinsa tjöru og olíu. Wink


Í Nærveru Sálar á ÍNN

Í nærveru sálar nefnist nýr þáttur á ÍNN. Í þessum þáttum sem eru hálftíma langir er markmiðið að skoða ýmis sálfræðileg málefni og málefni tengd þroska einstaklingsins. Reynt verður að velja málefni sem áhorfendum finnst e.t.v að hafi ekki fengið mikla umfjöllun í þjóðfélaginu, málefni sem brenna á eða málefni sem eru áhugaverð vegna sérstöðu eða áhrifa sem þau vekja. Í þáttinn koma gestir, fagaðilar eða fólk með reynslu í því málefni sem er til umræðu hverju sinni.

Við spjöllum síðan saman á léttum nótum og hver veit nema okkur takist að senda til þeirra sem eru að horfa, nokkur gagnleg skilaboð, mola sem gætu nýst í hinu daglega lífi.

Áhorfendur eru hvattir til að senda póst hafi þeir áhuga á að fjallað verði um eitthvað ákveðið efni í þættinum. Netfang: kolbrunb@inntv.is

Fyrsti þátturinn var sendur út 22. maí.
Umræðuefni: Hvernig það er að heita sjaldgæfu nafni?
Gestir þáttarins voru Baldur Sigurðsson, dósent við KHÍ en hann á einnig sæti í Mannanafnanefnd og Hreindís Ylva, nemi.

Næsti þáttur verður sendur út fimmtudaginn 29. maí.
Umræðuefni: Ýmsar hliðar heimilisofbeldis.
Gestur verður Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdarstýra Kvennaathvarfsins.

Til upplýsingar:
Í nærveru sálar er hluti af málshættinum AÐGÁT SKAL HÖFÐ Í NÆRVERU SÁLAR og er jafnframt ljóðlína í kvæði eftir Einar Benediktsson sem nefnist Einræður Starkaðar, 3. hluti, 3. vers:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúizt við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Einar Benediktsson, Íslenzkt ljóðasafn, 1974.


Áhugaverður fundur á laugardaginn, opinn öllum

Hér er dagskráin. 

Eru ljón á veginum? Reynslusögur frumkvöðla.

Hádegisverðarfundur Hvatar, laugardaginn, 24. maí kl. 12:00 – 14:00 í Víkingasal Hótel Loftleiða – allir velkomnir.

Aðgangseyrir 2000,- hádegisverður innifalinn.

Dagskrá:
12:15  Setning- Áslaug Friðriksdóttir, formaður Hvatar
12:20  Ávarp - Guðfinna S. Bjarnadóttir
12:30  Reynslusaga - Valgerður Hjartadóttir - Karitas
12:45  Reynslusaga - Unnur Stefánsdóttir, leikskólar Heilsustefnunnar
13:00  Reynslusaga - Halla Margrét Jóhannesdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkonur
13:15  Reynslusaga - Rúna Magnúsdóttir - Tengjumst
13:30  Auður Capital - Þóranna Jónsdóttir
13:45  Umræður
14.00  Fundi slitið

Fundarstjóri verður Hafdís Jónsdóttir í World Class.
Á meðan á fundi stendur verður borinn fram hádegisverður: Sítrusmarineruð kjúklinga- og grænmetisspjót með kryddsalati, ítölsk ostakaka og kaffi. Aðgangseyrir er kr. 2.000,-  og er maturinn innifalinn í verðinu.

Hlutur kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfi er mun minni en karla, okkur langar að fá innsýn inn í sögu þeirra kvenna sem fetað hafa braut einkaframtaksins og fylgt sinni sýn. Voru einhver ljón á vegi þeirra, hvaðan kom krafturinn til að fylgja sýninni, hverjir eru kostir þess að starfa í þessum fyrirtækjum miðað við það að starfa t.d. hjá ríki eða bæ að sambærilegum störfum.

Fundurinn er öllum opinn. Vinsamlega tilkynnið komu í síma 515 1700 eða sendið tilkynningu um þátttöku á netfangið aslaug@sja.is eða á xd@xd.is.


Er sálfræðingur með í för til Belgrad?

Ég veit það ekki en það væri ekki slæm hugmynd. Þetta er mikið álag og ekki væri verra ef fagaðili væri til staðar til að vera keppendum og fylgdarliði innan handar bæði til að hjálpa við slökun og einnig að aðstoða keppendur við að greina aukaatriði frá aðalatriðum.

Til dæmis er ekki stærsta vandamálið hvort óþekkur hárlokkur leitar til vinstri eða hægri heldur frekar að hefja sig yfir svona alls kyns litlum atriðum sem tengst geta persónunni en skipta síðan ekki höfuðmáli þegar upp er staðið. Það er heildarmyndin sem skiptir öllu,  þ.e. að koma fram af öryggi og yfirvegun

Rosalega hlýtur þetta að vera erfitt.  Mikil hugræn og tilfinningarleg barátta hlýtur að eiga sér stað og leit að þessum eina farsæla farvegi sem skilar hvað mestum árangri.

Á brattann er sannarlega að sækja. Mörg lög eru býsna góð, grípa mann strax.
Meira að segja er framlag Noregs álitlegt.

O hvað maður vonar að þetta fari allt vel. Þjóðerniskenndin er nú allsráðandi Happy


Barist á banalegunni. Hugmynd um persónulegan þjónustufulltrúa frábær

Það er áhugavert viðtal í Mbl. í dag við Kristínu Sólveigu Bjarnadóttur en hún átti ítarleg viðtöl við tíu manns með ólæknandi sjúkdóma til að komast að því hvað hefði jákvæð áhrif á lífsgæði deyjandi fólks og hvað hefði neikvæð.  Um er að ræða meistaraverkefni Kristínar.

Þótt maður reyni og telji sig vita hvernig manni myndi líða við að heyra að skammt sé eftir af lífi manns þá er með þetta eins og svo margt annað líklega útilokað að vita það nema að standa sjálfur í nákvæmlega sömu sporum.

Þó er ekki erfitt að ímynda sér hversu svekkjandi og ergilegt það væri að þurfa,  á sama tíma og verið er að berjast við að lifa sérhvern dag, að eiga í þrasi til að ná fram sjálfsögðum réttindum við svona aðstæður eins og dæmin sem Kristín tekur í þessu viðtali.  Vonandi eru þessi dæmi fá en auðvitað ættu engin að vera.

Margt hefur breyst til batnaðar í þessum efnum. Hin líknandi meðferð sem boðið er upp á nú er sögð frábær í alla staði og starfsfólkið sem henni sinnir yndislegt. 

Sérhæfð líknandi hjúkrunarmeðferð heim til einstaklingsins er sú þjónusta sem gaf viðmælendum Kristínar öryggistilfinningu og vellíðan. Markmiðið með henni er að gera allt sem hægt er til að draga úr verkjum og sársauka. Þessi þjónusta er til staðar en hvort hún er veitt í sama mæli og af svipuðum gæðum um allt land veit ég ekki. 

Tillaga Kristínar að sérhver einstaklingur sem er með ólæknandi sjúkdóm fái eigin þjónustufulltrúa hjá Tryggingarstofnun er að mínum dómi góð og myndi mjög sennilega útiloka eða í það minnsta draga úr því að fólkið þurfi að eiga í einhverju stríði við kerfið hvort heldur vegna þess að það hefur ekki verið upplýst um réttindi sín, eða að misskilningur hafi myndast eða eins og oft er að ekki næst í rétta aðila fyrr en e.t.v. eftir ítrekaðar tilraunir.

Annað sem kom fram í viðtalinu var að sumir af þessum viðmælendum sögðust hafa skynjað áhugaleysi heilbrigðisstarfsmanna, að þeir hefðu ekki nægjan tíma fyrir sig eða reyndu að mynda eins grunn tengsl og hægt er í þessum aðstæðum.

Viðmælendur Krisínar voru einungis 10 manns. Reynsla þeirra gefur sannarlega vísbendingar um hvað betur mætti fara enda þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að yfirfæra hana yfir á heildina. Oft hefur einmitt heyrst að starfsfólkið sem annast þá sem eru deyjandi sé milt, hlýlegt og tilbúið að leggja sig fram til að mæta tilfinningarlegum þörfum sjúklinganna jafnt sem líkamlegum. 

Kosturinn við verkefni Kristínar og þær niðurstöður sem það gefur er hins vegar sá að jafnvel þótt þessi hópur sé ekki stór vekur reynsla hans upp mikilvægar spurningar og gefur starfsfólki heilbrigðisgeirans tækifæri til að líta í eigin barm og spyrja sig hvort það sé eitthvað í fari og framkomu sem betur mætti fara.    


Pungurinn svínvirkar

Það kom á daginn að pungurinn frá NOVA svínvirkar. Meira að segja  á stað þar sem farsímasamband hefur verið erfitt kom pungurinn mér í samband við umheiminn. Það er gott til þess að vita að tækninni fleygir fram og að í sumar er hægt að ferðast með fartölvuna og vera í sambandi á ótrúlegustu stöðum.

Svo er annað mál hvort maður hefði ekki gott af því að skilja tölvuna eftir þegar fara á í frí. Um það má sannarlega deila enda sýnist sitt hverjum.  En þannig er nú komið fyrir mörgum að þeir geta eiginlega ekki hugsað sér að vera lengi án þess að vera í sambandi við umheiminn hvort heldur í gegnum símann eða tölvuna.
Góða helgi.


hiv- jákvæðu fólki er meinað að ferðast til Bandaríkjanna

Mér var ekki kunnugt um það fyrr en nýlega að hiv - jákvæðu fólki er meinað að koma til Bandaríkjanna sem ferðamenn.  Ég velti því fyrir mér hvort fólk sé almennt séð kunnugt um þetta.

Þessar reglur eru ekki í samræmi við reglur sem meirihluti ríkja heimsins fylgja. Ríki sem neita hiv-jákvæðum ferðamönnum um vegabréfsáritun eru auk Bandaríkjanna: Armenía, Írak, Katar, Sádi-Arabía og Úsbekistan. Þessar upplýsingar má m.a. finna í tímariti Alnæmissamtakanna Rauða Borðanum 1. tbl. 1. desember 2006.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband