Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019

Tíðar ferðir valdhafa borgarinnar erlendis tómt bruðl

Tugum milljónum árlega er varið í ferðir borgarstjóra, aðstoðarmanns hans, borgarfulltrúa og miðlægrar stjórnsýslu til útlanda ýmist á fundi, ráðstefnur eða í skoðunarferðir. Á sama tíma er þessi meirihluti sífellt að tala um losun gróðurhúsalofttegunda og að draga verði úr mengun. Í þessu tali þeirra er sjónum venjulega beint að bílaumferð og bíleigendum en minna fer fyrir umræðu um mengun og losun eiturefna út í andrúmsloftið á stærri mælikvarða.

Í borgarráði líður varla sá fundur að meirihlutinn samþykki ekki ferð borgarstjóra með fríðu föruneyti. Slík ferð þriggja aðila var samþykkt á síðasta fundi og skulu þeir fara á loftlagsráðstefnu til Madrid. Ég gat ekki setið á mér að bóka um þetta og lýsa því yfir að þetta væri bruðl og tal um kolefnisspor væri hreinn tvískinnungsháttur.

Mér finnst þetta hin mesta sóun og þurfi að senda einstakling í eigin persónu nægir að senda einn. Mér finnst lítið að marka allt þetta tal þessa meirihluta um kolefnisspor á sama tíma og ekkert lát er á ferðum valdhafa borgarinnar erlendis.

Hvar er Skype? Hvar er fjarfundatæknin? 

Hvað varðar skoðunarferðir fara oft margir af fagsviði eða úr fagráði. Ég spyr mig hverju þetta skilar? 
Engu fyrir borgarbúa svo mikið er víst. Þetta er jú gaman fyrir þann sem fer því reynslan og jákvæðar minningar frá skemmtilegri skoðunarferð í boði borgarbúa eru jú hans og hans eins.


Biðlistar, fríar skólamáltíðir, styrkir til dagforeldra, opnun á göngugötum og ráðstöfun innri leigu

Í titli má sjá nöfn á fimm breytingartillögum sem lagðar verða fram á þriðjudag í borgarstjórn en þá er síðari umræða fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020. Greinargerðir með tillögunum má sjá á kolbrunbaldurs.is undir Borgarmál 2019.
 
F-1 Biðlistar vegna þjónustu við börn (SFS)
Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 40,5 m.kr. til þess að vinna niður biðlista í þjónustu við börn. Lagt er til að sú leiði verði farin að ráða inn hóp fagfólks tímabundið til að taka niður biðlistann. Ráðnir verði 2 sálfræðingar til viðbótar og einn talmeinafræðingur til eins árs til að byrja með fyrir leik- og grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. sem fjármagnað verði með tilfærslu af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

F-2 Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar.
Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr.á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessar stærðargráðu. Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.
 
F-3 Styrkir til dagforeldra (SFS)
Flokkur fólksins leggur til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 61,4 m.kr. Viðbótarútgjöld verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum til menningar- og ferðamálasviðs um sömu fjárhæð, nánar tiltekið verði fjárheimildir til annarrar menningarstarfsemi kostn.st. 03550 lækkaðar um 25 m.kr., til landnámssýningar kostn.st. 03710 lækkaðar um 25 m.kr. og fjárheimildir til listaverka á opnum svæðum kostn.st. 03350 lækkaðar um 12,1 m.kr.
 
F-4 Opnun á göngugötum í miðbænum
Flokkur fólksins leggur til að opna aftur göngugötur fyrir umferð a.m.k. þar til að framkvæmdir hefjast og nota tímann sem framundan er til að ræða við rekstraraðila á svæðinu
 
F-5 Ráðstöfun innri leigu í viðhaldskostnað
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi.

Salernismál rædd í borgarstjórn

Það er nú fátt sem ekki er rætt í borgarstjórn. Á fundi á þriðjudag voru salernismál í Borgartúni 12-14 rædd og skipst var á bókunum. Þennan sama dag var einmitt alþjóðlegi klósettdagurinn og lagði Flokkur fólksins fram bókun í tilefni dagsins við lið fundargerð mannréttindaráðs en þar var málið rætt í síðustu viku vegna framlagningar skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins á salernum í Borgartúni 12 -14. Lög og reglur gera nefnilega kröfu um að salerni sú annars vegar karlasalerni og hins vegar kvennasalerni en nú þegar er meirihlutinn búinn að gera salernin í Borgartúni ókyngreinanleg.


Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi:
Flokkur fólksins telur það nauðsynlegt að áður en kyngreining salerna hjá Reykjavíkurborg sé framkvæmd verði lögum og reglum breytt hvað þetta varðar. Vænlegast er að fylgja fyrirmælum Vinnueftirlitsins þar til Alþingi hefur tekið á málinu. Kyngreining salerna hefur fengið mikla athygli meirihlutans í borginni sem lagt hefur sérstaka áherslu á málið. Í þessu sambandi má nefna í tilefni þess að klósettdagurinn er í dag að það eru minnst fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum sem hafi ekki aðgang að salerni sem tengt er við öruggt fráveitukerfi.

Þá kom gagnbókun frá meirihlutanum:

Kyngreining salerna myndi þýða að setja aftur upp merkingar þar sem að salernin eru nú ókyngreind. Því er örlítið óljóst hvort borgarfulltrúinn vill setja aftur upp merkingar eða ekki því báðar hugmyndir koma fram í bókun fulltrúa Flokks fólksins. Mikilvægt er að það sé yfir allan vafa hafið hvernig aðhafast skuli í málinu til að koma í veg fyrir óþægindi fyrir viðkvæma hópa eins og transfólk og fólk sem skilgreinir sig ekki byggt á hinu hefðbundna tvíhyggjukynjakerfi. Okkur hefur bæði borist sú athugasemd frá Vinnueftirlitinu að það sé í lagi að hafa salernin ókyngreind og svo að okkur beri að hengja aftur upp merkingar. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort álitið skuli standa. Þess ber að merkja að reglurnar sem um ræðir eru frá árinu 1995 og því nærri 25 ára gamlar - og því er spurning hvort það væri ekki vænlegast að uppfæra þær byggt á nýjum lögum um kynrænt sjálfræði eins og ráðuneytið hefur sagt að það sé að skoða. Reykjavík er mannréttindaborg og leggur metnað sinn í að tryggja aðgengi allra að samfélaginu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun við gagnbókun meirihlutans undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Þessi kyngreiningarmál salerna er  áherslumál meirihlutans í borginni sem sett hefur þetta mál á oddinn. Flokkur fólksins er flokkur sem styður jafnrétti í einu og öllu og leggur mikla áherslu á að öllum líði vel í samfélaginu. Varðandi salernismálin og kyngreiningu þeirra þá hafa heyrst raddir þeirra sem vilja gjarnan halda aðskildum klósettum, annars vegar fyrir þá sem setjast á klósettsetuna til að pissa og hins vegar fyrir þá sem pissa standandi. Skoðanir allra þarf að virða gagnvart  þessu sem öðru og hlusta þarf á raddir allra hópa. Flokkur fólksins skilur að málið getur verið flókið og vonandi finnst viðundandi lausn sem flestir geta sætt sig við. En fyrst er að fá lögin á hreint.

klósett

 


Tillaga um sérstakan stuðning fyrir börn alkóhólista vísað frá í borgarstjórn

Börn alkóhólista er hópur barna sem hvorki heyrist hátt í né mikið er rætt um. Ótal margar breytur skjóta upp kollinum þegar kemur að þessum hópi. Hvað er þetta stór hópur? Hvernig gengur að ná til hans og hver er þörfin? Hver eru helstu einkennin og hverjir sjá þessi einkenni helst?

Enda þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar hvað varðar fræðslu og þekkingu um alkóhólisma er enn þöggun og fordómar í garð foreldra sem eru alkóhólistar og barna þeirra. Börnin reyna því oft að leyna vandanum eða afneita honum. 

Hvað er alkóhólismi?

Áfengi er löglegur vímugjafi fyrir fullorðna einstaklinga sem aðskilur það frá  ólöglegum vímugjöfum. Sjúkdómurinn alkóhólismi er þrískiptur sem hefur áhrif á vitsmuni, líkama og sál. Eitt af einkennum sjúkdómsins er stjórnlaus löngun í áfengi. Læknavísindin segja alkóhólisma vera sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum með bindindi en ekki lækna. Alkóhólismi er stigvaxandi sjúkdómur.  Það bjóðast mörg meðferðarúrræði fyrir alkóhólista í dag. Alkóhólismi er ekki lengur vonlaust ástand ef sjúkdómurinn er viðurkenndur og meðhöndlaður.

Áhrif og afleiðingar

Börn foreldra sem eru ánetjuð vímuefnum af hvers lags tagi búa við viðvarandi óöryggi, ótta og álag og axla ábyrgð langt umfram aldur og þroska. Áhrif og afleiðingar eru bæði skammtíma og langtíma. Sködduð sjálfsmynd og meðvirkni eru meðal alvarlegustu afleiðinganna. Meðvirkni er sjúkdómur sem herjar á aðstandendur alkóhólista og eru börn þar engin undantekning.

 

Meðvirkni getur leitt til þess að barn á í erfiðleikum með að bregðast við áreiti samkvæmt innstu sannfæringu. Dæmi um meðvirkni í fjölskyldu alkóhólistans er þörfin að láta allt líta vel út á yfirborðinu og þegja yfir hinum raunverulega vanda. Barn sem elst upp við alkóhólisma foreldris/foreldra getur átt erfitt með að meta og lesa í samskipti og  aðstæður og hefur færri bjargráð til að grípa í. Gott stuðningsnet barns, ráðgjöf og fræðsla getur skipt sköpum þegar kemur að neikvæðum áhrifum og afleiðingum þess að alast upp eða umgangast foreldri sem glímir við alkóhólisma.

Sérhæft stuðningsúrræði fyrir börn alkóhólista

Ég hef lagt fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að borgarstjórn samþykki að setja á stofn stuðningsþjónustu eyrnamerkta börnum foreldra í neyslu. Mikilvægt er að öll börn í þessum aðstæðum hafi aðgang að stuðningsþjónustunni án tillits til hvort barnið sjálft sé metið í áhættuhópi, hvort það búi hjá foreldrinu sem glímir við áfengisvanda eða sé í umgengni við það. Ekki á að vera þörf á sérstakri tilvísun í úrræðið heldur sé látið nægja að forsjáraðili óski eftir stuðningi og meðferð fyrir barn sitt eins lengi og það þarf og vill þiggja. Stuðningurinn myndi vera í formi sálfræðiþjónustu, persónulegrar ráðgjafar, hópastarfs og fræðslu. Markmiðið væri m.a. að hjálpa börnum alkóhólista að hlúa að eigin sjálfsmynd, rækta félagslega færni og fræðast. Markmiðið væri einnig að hjálpa börnunum að greina á milli fíknisjúkdómsins og persónunnar sem glímir við hann. Stuðningsþjónustunni er ætlað að veita börnunum viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldum þar sem áfengi- og almennur neysluvandi er til staðar. Foreldrar ættu einnig að geta fengið ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.

Sérhæft stuðningsúrræði fyrir börn alkóhólista skilar sér margfalt. Barn sem fær tækifæri við öruggar aðstæður til að tjá sig um neysluvandamál foreldris getur losað um djúpstæða vanlíðan og áhyggjur. Börn sem alast upp við þessar aðstæður trúa því stundum að þau beri ábyrgð á neyslu foreldris með einhverjum hætti. Fræðslan skiptir barn miklu máli og sú vitneskja að neysluvandi foreldrisins sé ekki á ábyrgð þess að neinu leyti. Samtal um áfengisvanda foreldrisins getur stuðlað að því að barn losni við tilfinningar á borð við skömm og sektarkenndar. Slík leiðrétting á íþyngjandi tilfinningum og hugsunum er börnum mikill léttir og markar jafnvel nýtt upphaf í lífi þeirra.

 

Sambærileg þjónusta sem hér er lögð til að Reykjavík stofnsetji er veitt af SÁÁ. SÁÁ hefur unnið gott starf með börnum alkóhólista í mörg ár en árangursmat liggur þó ekki fyrir. Vinna SÁÁ fríar ekki Reykjavíkurborg frá skyldum sínum gagnvart börnum alkóhólista. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík. Það hefur samt ekki komið fram hvað hefur verið gert nákvæmlega fyrir þennan hóp og hversu mikið. Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna eigið úrræði fyrir börn alkóhólista og skipuleggja metnaðarfullt stuðningsúrræði þeim til hjálpar.

Grein birt í Morgunblaðinu 20.11.2019

Hér er bókun Flokks fólksins í málinu:

Lagt var til að borgin setji á laggirnar sértækt úrræði fyrir börn alkóhólista og auðvitað öll börn sem eiga foreldra sem glíma við neysluvanda. Eina sérhæfða úrræðið sambærilegt þessu sem lagt er til hér býðst hjá SÁÁ. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík þótt ekki sé vitað í hvað miklum mæli né hversu markviss vinnan er.  Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna sérhæft metnaðarfullt úrræði fyrir börn alkóhólista þeim til hjálpar. Tillögunni um sérhæft úrræði fyrir þennan hóp var ekki vel tekið sem slíkri af formanni velferðarráðs sem lagði til að henni yrði vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi nefna að í  vikunni skrifaði barnamálaráðherra og fram­kvæmda­stjóri UNICEF á Íslandi, undir  samn­ing um stuðning fé­lags­málaráðuneyt­is­ins við inn­leiðingu á verk­efn­inu Barn­væn sveit­ar­fé­lög. Með samn­ingn­um er stefnt að því að ís­lensk stjórn­völd og öll sveit­ar­fé­lög á Íslandi hafi á næsta ára­tug hafið mark­vissa inn­leiðingu Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og tileinki sér barna­rétt­inda­nálg­un í verk­efn­um, stefnu­mót­un og ákvörðunum.  Þessi tillaga um að borgin setji á laggirnar sérstakt úrræði fyrir börn alkóhólista samrýmist  vel verkefninu um Barnvæn sveitarfélög.

Hér er um að ræða eitt verkfæri í verkfærakistu innleiðingar  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Borgarmeirihlutinn þarf nauðsynlega að fara að setja börn og þarfir þeirra, þ.á.m. þessara barna í enn meiri forgang en gert hefur verið.

 

Bið barna eftir sálfræðiþjónustu

Meira en ár er liðið síðan ég lagði fram tillögu í borgarstjórn um að sálfræðingum yrði fjölgað í skólum og að þeir hefðu aðsetur í skólunum sjálfum en ekki á þjónustumiðstöðvum eins og nú er. Þetta er jafnframt skýr ósk skólastjóra. Aðgengi að sálfræðingum inni í skólunum er eitt þeirra úrræða sem gæti komið skólunum best. Ef aðsetur skólasálfræðinga væri í skólunum væri aðgengi barna að þeim mun ríkulegra auk þess sem þeir gætu betur sinnt foreldrum og kennurum, handleiðslu og fræðslu eftir þörfum. Tillagan var felld í skóla- og frístundaráði. Gerð var önnur tilraun til að auka aðgengi barna að skólasálfræðingum og lögð fram tillaga um að börn skuli hafa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingi sínum. Sú tillaga fór sömu leið.

Í lögum segir að skólasálfræðingur skuli vera í hverjum grunnskóla og að börn skuli hafa aðgang að sérfræðiþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla kom út í júlí s.l. Í skýrslunni kemur einnig fram að skólastjórnendur hafa ítrekað kallað eftir sálfræðingum inn í skólana. Aukin þjónusta sálfræðinga í skólum myndi styðja við börnin sem njóta hennar og styrkja þau í náminu. Auk þess myndi hún draga úr álagi á kennara sem er mikið, svo mikið að það leiðir jafnvel til veikinda eða kulnunar í starfi hjá sumum.

Nauðsynleg þjónusta háð efnahag foreldra

Biðlistar eftir þjónustu eru orðnir eins og eitthvað lögmál í borginni, rótgróið mein sem hvorki síðasti meirihluti né þessi virðist ætla að vinna á. Biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga eru mjög langir í Reykjavík og í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu, eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma, ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Margir foreldrar hafa gefist upp á biðinni og þeir sem hafa efni á því fara á einkastofur til að fá svokallaða frumgreiningu fyrir börn sín. Fyrir börn sem þurfa nánari greiningu sem aðeins stofnanir ríkisins veita þarf “frumgreining” að liggja fyrir. Öðruvísi kemst barn ekki að, t.d. á Þroska og hegðunarmiðstöð eða Barna- og unglingageðdeild. Verra er með þá foreldra sem ekki hafa efni á að kaupa greiningu hjá sálfræðingi á einkastofu. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt og því sitja börnin ekki við sama borð þegar kemur að þjónustu sem þau þarfnast hjá skólasálfræðingi. Börn efnaminni foreldra þurfa að bíða eftir að röðin kemur að þeim. Sú bið getur verið mánuðir eða jafnvel ár. Sálfræðiþjónusta, þar með taldar nauðsynlegar greiningar barna, eiga auðvitað aldrei að vera háð efnahagi foreldra.

Kvíði barna hefur farið vaxandi og sama á við um sjálfsskaði og þunglyndi. Orsakir fyrir vaxandi vanlíðan geta verið margar og flóknar sem segir enn frekar til um hversu mikilvægt það er að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að sálfræðingum og fái almennt séð alla þá þjónustu sem þeim vanhagar um án þess að þurfa að bíða mánuðum saman. Nærtækast er að fara til skólasálfræðinga en heilsugæslustöðvar bjóða líka upp á sálfræðiþjónustu. Til heilsugæslusálfræðinga eru einnig biðlistar en þó mislangir.

Eins og fyrirkomulagið er núna með skólasálfræðingana er kerfið flókið. Þjónustumiðstöðvar eru millistykki sem auka fjarlægðina milli barnanna og skólasálfræðinganna. Skólasálfræðingar eiga að vera raunverulegur hluta af starfsliði skólanna og hafa aðsetur aðeins í skólunum. Áfram geta þeir engu að síður tekið þátt í þverfaglegu samstarfi við aðra fagaðila eftir atvikum m.a. þeirra sem eru á þjónustumiðstöðvunum.

Birt á visi.is 16.11.19.


Ég get ekki sætt mig við alla þessa biðlista

Farið var yfir Húsnæðisáætlun borgarinnar 2010-2030 á fundi borgarráðs í morgun. Sannarlega er verið að byggja á fullu. Þess vegna skil ég ekki nógu vel af hverju svo hægt saxast á biðlista eftir alls konar húsnæði.
Hér er bókun Flokks fólksins í málinu:
 
Farið er yfir fjölgun íbúða af öllum tegundum og gerðum og ljóst er að verið er að byggja en engu að síður er langur biðlisti eftir húsnæði af öllu tagi. Þrátt fyrir að Félagsbústaðir (borgin) séu að byggja og fjárfesta meira nú en áður bíða enn um 750 manns eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði.
 
Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 162 og munar aðeins um 10 frá árinu áður. Ekki er langt síðan að 53 einstaklingar biðu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur og 158 bíða eftir varanlegri vistun. Það vantar 200 hjúkrunarrými. Eftir þjónustuíbúðum bíða 137.
 
Sú staðreynd hversu margir eru á biðlista eftir alls kyns tegundum íbúða þýðir annað hvort að sofið var of lengi á verðinum (lengi lítið byggt eða farið hægt af stað) eða miklar tafir séu á framkvæmdum. Eru aðrar skýringar?
 
Ekki hafa borist nógu skýr svör nema í þá helst að á þessu ári og næsta muni þetta lagast og að saxast hafi á biðlistana o.s.frv. Þessi svör duga skammt fólkinu sem er á biðlistunum og hafa jafnvel verið þar árum saman.
 

Skólahald aflagt. Spurt er um ávinninginn?

Þetta er hið ömurlegasta mál. Óskir íbúa, foreldra og barna fótum troðnar. Samráðsleysi meirihlutans við borgarbúa er orðið pínlegt. Að loka þessum skóla er greinilega löngu ákveðið. Taktíkin er að vísa umdeildum málum í stýrihópa sem fá ákveðna forsendur til að vinna út frá, forsendur sem yfirvaldið setur. Síðan koma niðurstöður byggðar á þeim forsendum og þá geta valdhafa vísað í stýrihópinn og eru þannig búnir að fjarlægja sig frá niðurstöðu sem fólk er ósátt við. Að skoða öll gögnin í þessu máli er sjokkerandi. 200 síðna bunki af gögnum verður lagður fyrir borgarráð á fimmtudaginn. Eitthvað hefur allt þetta ferli kostað. Hver verður eiginlega sparnaðurinn, og hver verður ávinningurinn?


Krafa um alvöru samráð

Skortur á samráði borgarmeirihlutans við borgarbúa er orðinn pínlegur.
18. júlí lagði Flokkur Fólksins fram tillögur um að skipulagsráð héldi umsvifalaust fund með Miðbæjarfélaginu, Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörg þar sem þessum hagsmunasamtökunum yrði boðið upp á alvöru samráð um fyrirkomulag miðbæjarins þar með talið Laugaveginn og Skólavörðustíginn.
Nú hefur umboðsmaður borgarbúa einnig sent skipulags- og samgönguráði tilmæli um samráð.
Það er kallað eftir samráði úr öllum áttum og þá er átt við að hagsmunaaðilar fái að koma að ákvörðunum en séu ekki upplýstir eftir á um hvað á að gera.

31. október bókaði Flokkur Fólksins vegna skorts á samráði við rekstraraðila á Hverfisgötu og skorts á samráði við íbúa Staðarhverfis vegna fyrirhugaðrar lokunar Kelduskóla:

"Þessar framkvæmdir við Hverfisgötu eru harmsaga. Þarna hafa rekstraraðilar borið skaða af. Gagnvart þessum hópi hefur svo gróflega verið brotið þegar kemur að loforði um samráð. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sínar eigin skilgreiningar sem hafa ekkert að gera við samráð í þeim skilningi. Framkvæmdir á Hverfisgötu hafa aldrei verið unnar með rekstraraðilum þar. Þeir fá ekki einu sinni almennilegar upplýsingar. Þessu fólki hefur aldrei verið boðið að sjálfu ákvörðunarborðinu. Það er ekki að undra að fólk sé svekkt þegar á því er traðkað og yfir það valtað með þessum hætti. Þetta er þeirra upplifun."

"Ekki hefur verið haft samráð við íbúa í Staðarhverfi. Foreldrar hafa lagt fram tillögur sem fela í sér að halda skólanum opnum enda býr góður hópur barna í hverfinu en ekki er hlustað. Þessi meirihluti hefur haft nokkur ár til að komast að því hvaða samgöngubætur á að bjóða fólki upp á þarna. Ljóst er að ef keyra á þetta í gegn í svo mikilli óþökk og óánægju mun það draga dilk á eftir sér. Hér er enginn sparnaður heldur mun óánægja yfirskyggja allt. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að endurskoða málið frá grunni. Þarna verður aldrei sátt. Fólki finnst þetta valdníðsla og kúgun."


Ég er ekki vofa

Í morgun eins og aðra morgna gekk fólk til vinnu sinnar, sumir léttir í spori, fullir orku og tilhlökkunar á meðan skref annarra voru þyngri, jafnvel blýþung. Þungu skrefin voru skref þeirra sem lagðir eru í einelti á vinnustað sínum.


Í dag 8. nóvember er hinn árlegi Dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum. Í tilefni dagsins verður í þessari grein fjallað um einelti á vinnustað.

Birtingarmyndir eineltis á vinnustað eru margar og mismunandi, allt eftir eðli og aðstæðum á vinnustaðnum og fólkinu sem þar starfar. Stjórnun og stjórnunarstíll hefur mikil áhrif á vinnustaðamenninguna en einnig fjölmargir aðrir þættir. Þar sem einelti hefur náð fótfestu geta þolendur og gerendur verið úr röðum stjórnenda/millistjórnenda eða almennra starfsmanna.

Dæmi um eineltishegðun í garð samstarfsaðila er: 

Sýna dónalega, ruddalega eða hrokafulla framkomu 
Gera grín að, lítilsvirða eða hæðast að, baktala
Sniðganga, hunsa, einangra og hafna
Leyna upplýsingum til að skaða frammistöðu
Kaffæra í verkefnum
Gagnrýna, finna viðkomandi allt til foráttu, bera röngum sökum

Sú birtingarmynd sem margir þolendur segja að hafi farið hvað verst með sig er hunsun, að vera sniðgenginn, einangraður, látið sem viðkomandi sé ósýnilegur, sé einfaldlega ekki á staðnum.

Fyrirgefið þið, en ég er ekki vofa, varð þolanda eineltis að orði þegar honum ofbauð hversu langt starfsfélagarnir gengu í að láta sem hann væri ósýnilegur. Það var ekki aðeins gengið fram hjá honum og hann sniðgenginn heldur var einnig horft í gegnum hann.

Sekur en veist ekki um hvað

Eineltismálin hafa verið helstu sérfræðimál mín sem sálfræðingur í þrjátíu ár. Með hverju máli sem ég tók að mér lærði ég sjálf eitthvað nýtt sem ég gat nýtt mér í næsta máli. Ekkert mál er þó nokkurn tímann eins. Engu að síður eru ákveðin grunnatriði í vinnsluferlinu sem mikilvægt er að fylgja og vinnan þarf að einkennast af heiðarleika, hreinskilni og alúð gagnvart öllum þeim sem að málinu koma.


Við vinnslu eineltismáls þarf að gæta að rétti beggja aðila, þolanda og meints geranda. Aðili sem er ásakaður um einelti eða kynferðisofbeldi á rétt á að vita hvert sakarefnið er sem hann þarf að taka afleiðingum af.

Bauðst tækifæri hjá valdhöfunum

Í nýju starfi sem borgarfulltrúi er ég í öðru hlutverki. Það var mín fyrsta hugsun þegar ég var kosin hvort ég myndi geta nýtt mér reynslu mína sem fagaðili m.a. í eineltismálum í þágu starfsmanna borgarinnar. Það tækifæri bauðst. Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var tillaga mín um að fá að leiða þverpólitískan stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar um einelti, áreitni og ofbeldi samþykkt. Afrakstur stýrihópsins var lagður fyrir borgarstjórn til samþykktar 19. mars 2019. Nokkrar mikilvægar breytingar voru gerðar á stefnu og verklagi borgarinnar í ofbeldismálum í meðförum stýrihópsins.

Helstu efnislegar breytingar í stefnu og verklagi borgarinnar

Aukið gegnsæi er ein mikilvægasta breyting sem gerð var við endurskoðunina. Málsaðilar, þolandi og meintur gerandi, hafa nú aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem tengjast málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónu- og upplýsingalaga nr. 140/2012. Þau sem rætt er við (vitni) fá að vita það fyrirfram að ferlið er opið og gegnsætt gagnvart aðilum máls sem munu sjá skráningar allra viðtala. Aðilar sem rætt er við fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að lagfæra framburð sinn óski þeir þess.

Ákvörðun var tekin um að breyta skilgreiningu eineltis lítillega. Stýrihópurinn var sammála um að nota ekki hugtakið síendurtekin en í reglugerð ráðuneytisins nr. 1009/2015 er það ófrávíkjanlegt skilyrði að hegðunin þurfi að vera síendurtekin. Við þetta gat stýrihópurinn ekki unað enda hefur reynslan sýnt að þessi þrenging hefur fælingarmátt. Sumir þolendur segja að ekki þýði að leggja inn kvörtun þar sem skilgreiningin sé allt of þröng. Einstaka rannsakendur hafa nefnilega gengið svo langt að fullyrða að síendurtekin hegðun merki að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast undir skilgreiningu um einelti.

Að lokum má nefna aðra mikilvæga breytingu og snýr hún að óhæði rannsakenda. Ef leita þarf til fagaðila utan borgarinnar skal leita samþykkis þess sem tilkynnti málið (þolanda). Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.

Endurskoðuð stefna og verklag 2019 er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Sú gullna regla sem stýrihópurinn fylgdi við endurskoðun stefnunnar og verklags var sanngirni, meðalhóf og gegnsæi. Það tókst að ég tel með ágætum.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins

Greinin er birt í Morgunblaðinu í dag 8. nóvember


Sýni æðruleysi þegar kemur að fjölmiðlum

Þetta var víst í Mogganum í dag undir yfirskriftinni "Segja ekk­ert hlustað á kaup­menn".

Kannski aðeins að fylgja þessu eftir. Vissulega væri gaman að vera boðið í Silfrið og Vikulokin til að ræða málin sem eru til umræðu í borgarstjórn og málin sem ég hef verið að tjá mig um sem eru mörg. Þetta mál er um að hafa viðhlítandi alvöru samráð í þessu tilfelli við rekstraraðila í miðbænum. Mér hefur þótt oft sama fólkinu boðið í þessa þætti t.d. þau Þorsteinn Víglundsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir með allri virðingu fyrir þessum ágætu einstaklingum. Af borgarfulltrúum eru það fulltrúar D flokks sem þykja eftirsóknarverðir viðmælendur. Þetta er ekki í mínum höndum. Ég hef lært að spila bara úr þeim spilum sem ég hef á hendi og gera það eins vel og ég get:)
 
Kaupmenn
 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband