Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019

Mikið lagt á starfsmenn borgarinnar. Það er komið nóg!

Borgarritari og borgarstjóri ættu að biðja starfsfólk borgarinnar afsökunar á að hafa brugðist skyldum sínum. Ekkert af þessum andstyggðarmálum hefðu komið upp hefðu þeir sinnt starfi sínu og viðhaft sem dæmi eftirlit eins og þeim bar. Þá hefðum við ekki setið uppi með þetta braggamál. Og hefði borgarritari geta tekið á starfsmannamálum fjármálastjórans og skrifstofustjórans hefði þessi dómur Héraðsdóms aldrei falli sem kostar borgarbúa 5 milljónir. Svo er það jafnréttisbrotið og brot á persónuverndarlögum. Fleira er hægt að telja til. Ég segi eins og borgarritari, það er komið nóg! Það er komið nóg af ábyrgðarleysi, þöggun og að kenna öðrum um. Við vonum innilega að ekki fleiri skítamál eigi eftir að mokast upp. 

Þrátt fyrir allt þetta hefur sennilega enginn minnihluti lagt fram eins mörg góð mál í þágu fólksins í borginni (sjá hér). Við höfum ekki látið þessi skandalmál trufla okkur í því sem við vorum kosin til að gera og lofuðum fólkinu. Alla vega ekki Flokkur fólksins

Ég segi að þessir valdhafar skulda starfsfólki borgarinnar afsökunarbeiðni, að hafa lagt öll þessi ósköp á það. Að ráðast á borgarfulltrúa minnihlutans og kenna þeim um að valda vanlíðan hjá starfsfólki borgarinnar er undirbeltisstað skot til að dreifa athyglinni frá eigin mistökum. Til að toppa þetta segir borgarritari, " þeir sem bregðast við taka þetta greinilega til sín". En þetta stemmir ekki. Ég tek þetta ekki til mín enda hef ekki hallmælt neinum starfsmanni borgarinnar sem sinnir sínu starfi að heiðarleika og alúð en ég ætla samt að bregðast við þessu!!


Síminn er stundum besti vinurinn

Snjalltæki, snjallsíminn og börn eru nokkuð í umræðunni núna. Það versta sem getur hent suma unglinga er að síminn þeirra verði tekinn af þeim. Að gleyma eða týna farsímanum er mörgum fullorðnum hin versta martröð. Síminn er ómissandi hluti af daglegu lífi okkar og er allt að því fastgróinn í lófa margra. Það breytir ekki því að margir eru uggandi yfir börnum þessa lands og hversu háð þau eru orðin snjalltækjum. Á meðan börnin eru í skólanum viljum við að þau sinni náminu af óskertri athygli. Með símann í vasanum, í kjöltunni, í töskunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá bara verður maður að gá hvaða skilaboð eru komin á skjáinn. Við þekkjum þetta allflest.

Snjallsíminn og skólinn
Eðlileg spurning er hvort ekki eigi að hvíla símann á meðan börnin eru í skólanum. Einstaka skólar hafa gengið svo langt að banna snjallsímanotkun á skólatíma. Í þeim tilfellum er nemendum heimilt að koma með snjallsíma í skólann en þeir verði settir í vörslu skólaritara á meðan á skólastarfi stendur og ekki afhentir aftur fyrr en í lok skóladags.

Frakkar hafa t.d bannað snjallsíma í grunnskólum með þeim rökum að skólinn eigi að vera sá vettvangur þar sem börn og unglingar eiga félagsleg samskipti sín á milli án truflana frá símtækjum. En það er aldrei gaman að leggja til boð og bönn. Stundum er því brugðið á það ráð að fara mildari leið og vera frekar með vinsamleg tilmæli um að hinir fullorðnu sammælist um að börnin skilji símann eftir fyrir utan skólastofuna á skólatíma.

Börn og samfélagsmiðlar
Eins og vitað er verja börn og unglingar umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oftast í gegnum snjallsíma. Börn sem hafa einangrað sig frá skóla og félögum vegna kvíða eru líklegri til að „hanga“ meira í símanum og  tölvunni. Rannsóknir hafa sýnt að tengsl eru á milli streitu og kvíða og mikillar netnotkunar sem er einna helst í gegnum símann. Margt af því sem börn gera í tölvu og síma getur auðveldlega valdið spennu, streitu og pirringi. Fyrst má nefna tölvuleiki. Í verstu tilfellum stjórnar gengi barnsins í tölvuleiknum líðan þess. Gangi illa í leiknum verður barnið reitt og pirrað en gangi vel er barnið glatt og kátt. Tölvuleikir og skjánotkun almennt séð hefur aðdráttarafl. Þegar barnið er ekki við skjáinn myndast stundum óþreyja og pirringur. Aðrir hlutir daglegs lífs verða grámyglulegir í augum barns sem upplifir að mestu skemmtunin sé fyrir framan skjáinn. Óhófleg og stundum stjórnlaus skjánotkun getur auðveldlega dregið úr áhuga barns á námi og skólaástundun, jafnvel tómstundum, og samvera með fjölskyldu og vinum minnkar.

Mótvægisaðgerðir/reglur
Sem sálfræðingur til 30 ára sem hefur unnið mikið með börnum, unglingum og foreldrum tel ég mikilvægt að foreldrar hafi gott aðgengi að fræðslu þegar kemur að málefnum barna sinna og þá er snjallsímanotkun engin undantekning. Barn sem eyðir allt að fjórum tímum á dag fyrir framan skjá er í hættu með að þróa með sér kvíðatengd vandamál.

Í þeim tilfellum þar sem foreldrar nefna of mikla tölvunotkun og ónógan svefn sem hluta af kvíðavandanum eru börnin ekki endilega sammála og því ekki alltaf fús til að draga úr notkuninni. Þetta er oft erfitt og reynir á allt heimilisfólkið. 

Stundum má skynja vanmátt foreldra sérstaklega ef barnið hefur lengi haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að nettengdum skjá. Mörgum foreldrum finnst oft óljóst hvað flokkast sem óhófleg notkun snjallsíma. Þá treysta foreldrar sér stundum ekki til að setja reglur af ótta við að barnið bregðist illa við því. Sumir foreldrar óttast jafnvel að unglingar þeirra munu bregðast við með ofsa, eigi að fara að setja þeim mörk hvað varðar skjá- og netnotkun. Það gæti því verið mjög hjálplegt ef skólinn bjóði foreldrum upp á leiðbeiningar og ráðgjöf um reglur og stuðning til að viðhalda reglunum. Kenna þarf börnunum að umgangast Netið af varúð, vanda tjáskipti sín á samfélagsmiðlum og varast allar myndsendingar sem geta valdið misskilningi eða særindum. Best er að setja viðeigandi mörk og setja reglur um tölvunotkun á heimilinu um leið og barnið kemst á þann aldur að fara að nota tölvu/síma. Reglurnar þurfa að vera í samræmi við aldur og þroska barnsins sem og félags- og námslega stöðu þess.

Börn eiga ekki að hafa eftirlitslausan aðgang að „skjá“ og neti. Ég tel tímabært  að skoða hvort ekki þurfi að stýra snjallsímanotkun í skólum hvort sem það er sett í einhvers konar „bannútgáfu“ eða tillögu um að setja símann í geymslu á skólatíma.

 


Bókunarvald minnihlutans ekki virt á fundum

Að gefnu tilefni fannst mér ég knúin til að leggja fram bókun í borgarráði um hversu langt meirihluti borgarinnar hefur stundum gengið til að hafa áhrif á hvernig borgarfulltrúar minnihlutans bóka í hinum ýmsu málum á lokuðum fundum eins og í borgarráði.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst fulltrúar meirihlutans oft hafa gengið allt of langt í að reyna að hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum, bæði með því að gagnrýna efni bókanna harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel ákveðnu atferli í verstu tilfellum. Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt.  Bókanir eru alla vegna eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr kafinu hafa verið að koma mörg mál sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð. Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.


Reyndu að hafa áhrif á konur yfir áttrætt

Ég var að lesa skýrslu Persónuverndar um notkun Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018. Reynt var að spila með konur yfir áttrætt með því að senda þeim gildishlaðin skilaboð til þess fallin að hafa áhrif á kosningahegðun þeirra! 
Hversu lágt er hægt að leggjast? Ég átti von á ýmsu en rann ekki í grun grófleikinn sem liggur að baki. Þarna var verið að misnota eldri borgara, ungt fólk, innflytjendur sem eru kannski í viðkvæmari stöðu til að sjá í gegnum dulin skilaboð. Sem sálfræðingur er ég slegin yfir siðleysinu og trúi varla hversu langt var gengið til að halda völdum.
En þetta er svo sem í takt við annað sem við í minnihlutanum höfum gagnrýnt. Þarna er hver skandallin á fætur öðrum, enn eitt stjórnsýsluhneykslið og hvernig farið er með fjármuni borgarbúa. Hvet ykkur til að lesa þetta en hér eru ákvörðunarorð Persónuverndar:


Á k v ö r ð u n a r o r ð :
Vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, sem fólst í að senda mismunandi skilaboð til ungra kjósenda fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000.

Vinnsla Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, sem fólst í að senda skilaboð til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000.

Vinnsla Þjóðskrár Íslands á persónuupplýsingum sem fól í sér afhendingu upplýsinga til Reykjavíkurborgar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000.

Ámælisvert er að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt Persónuvernd upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018.

 


Pálmamálið er rétt að byrja. Nú á það að fara í raunsæismat

Engin er að mótmæla mikilvægi listar í almenningsrými en í morgun fengum við í borgarráði kynningu á ferlinu sem leiddi til þess að verkið Pálmar var valið. Við þessa kynningu vöknuðu ýmsar spurningar. Til dæmi kom fram að ekki var stuðst við neina staðla við val á þeim sem komust í "úrslit" en það voru listamenn af 164 umsækjendum. Nefndarmenn í forvalsnefndinni höfðu allir listrænan bakgrunn og var það látið duga.

Enn og aftur vill borgarfulltrúi Flokks fólksins benda á margskonar ómöguleika þessa verks í ljósi þess í hvaða aðstæðum því er ætlað að standa. Hæð hjúpsins eru 10 metrar. Eitt af því sem borgarfulltrúi hefur bent á varðar fugla sem setjast ætla á pálmanna með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Alvarlegar athugasemdir eru auk þess gerðar við að borgarfulltrúar minnihluta og borgarráðs fá fyrst upplýsingar um vinningstillögunina og aðdraganda hennar í fjölmiðlum. Sýna hefði átt borgarráði þessar átta tillögur áður en tilkynnt var um vinningstillöguna opinberlega. Þá hefðu borgarfulltrúar í það minnsta fengið tækifæri til að lýsa áliti sínu og umfram allt vitað hvers var að vænta áður en tilkynningin fór í fjölmiðla. Að upplýsa minnihlutann hefði verið sjálfsögð tillitssemi og virðing við hann. Með því er ekki verið að gera neins konar kröfu um að ákvörðunin um vinningstillöguna eigi að vera pólitísk að neinu leyti.

Eftirfarandi fyrirspurnir voru lagðar fram í morgun:

Nú hefur borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmar fari í raunhæfismat og vill Flokkur fólksins spyrja um nákvæmt yfirlit yfir það ferli sem tekur við og hvernig það muni fara fram, hverjir taka þátt í því mati, hvernig og hverjir muni velja þá aðila sem koma til að leggja raunhæfismat á verkið og hvað mun ferlið kosta?

Pálmamynd


Siðareglur borgarinnar í endurskoðun og ekki veitir af

Það er mikið þrasað um siðareglur í borginni núna enda er komið að endurskoðun. Eins og kunnugt er þá er ekki betur séð en að þær hafið verið brotnar t.d. í braggamálinu. Þar var ekki leitað útboða þegar velja átti fólk til ýmis konar vinnu í tengslum við braggann heldur leitað til vina eða kunningja vina sinna til að vinna verkin.

Á síðasta fundi forsætisnefndar var umræða um næstu skref í endurskoðun siðareglna borgarinnar. Okkur í Flokki fólksins finnst mikilvægt að vanda þessa vinnu og leggjum við áherslu á að fenginn verði sérfræðingur til að halda utan hana og að óháð siðanefnd verði sett á laggirnar sem taki til skoðunar meint brot. Mjög mikilvægt er að siðareglur embættismanna séu unnar samhliða siðareglum kjörinna fulltrúa. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að fenginn verði utanaðkomandi sérfræðingur í siðareglum og siðfræði til að leiða endurskoðun siðareglna í borginni. Skoða þarf siðareglur embættismanna samhliða. Þegar talað er um að leiða endurskoðun er átt við að halda utan um þessa vinnu frá upphafi til enda. Eins og vitað er hafa þær siðareglur sem eru í gildi ekki verið að virka sem skyldi, eftir þeim hefur ekki alltaf verið farið eins og dæmi eru nýlega um. Vanda þarf til þessarar vinnu og umfram allt taka allan þann tíma sem þarf til að gera siðareglur þannig úr garði að allir sem eiga að fylgja þeim skilji þær og mikilvægi þess að fylgja þeim. „Brjóti“ einstaklingur siðareglur þarf að vera hægt að vísa málinu til utanaðkomandi siðanefndar til að fjalla um málið. Í þessu tilviki skiptir óhæði máli.


Fjöldi listaverka borgarinnar í geymslum

Í allri þessari umræðu um Pálmalistaverkið kom fram að mikill fjöldi listaverka sem borgin á er í geymslum. Þess vegna lagði ég fram svohljóðandi fyrirspurn á síðasta fundi borgarstjórnar:  

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um listaverkaeign borgarinnar sem eru ekki í notkun (eru geymd í geymslum). Óskað er eftir lýsingu á þeim og sundurliðun annars vegar á innanhúslistaverkum og hins vegar verkum sem ætluð eru til skreytinga utanhúss.

Hvað varðar listaverkið Pálmar þá óar manni við hæðinni á þessu. Eins og sjá má á þessari mynd er manneskjan bara lítið peð þarna:)Pálmar, listaverk


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband