Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2023

Stappið með Klappið

Stappið með Klappið tekur engan enda. Í gær lagði ég fram fyrirspurn vegna Klapp vandræða eftir að hafa fengið símtal frá notanda Strætó bs.


Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölda ábendinga vegna Klapp greiðslukerfisins og vandamála með notkun þess. Það má nefna reynslu notenda sem hafa keypt Klappkort og eru til dæmi um notendur sem kaupa 4 kort sem hvert um sig á að duga í 10 ferðir. Kortin hafa verið keypti í Mjódd og nýtt í heimferð með strætó. Til þess að komast úr Mjóddinni heim getur verið nauðsynlegt að skipta um vagn og nota klappkortið aftur í næsta vagn. Í stað þess að greiða far með gömlu strætómiðunum og fá skiptimiða þurfa notendur að „klappa“ fjórum sinnum sömu leið, og þá eru eftir sex ferðir af tíu sem hvert kort býður upp á. Erlendir ferðamenn og trúlega fólk utan af landi getur ekki borgað með peningum og er talið að margir útlendingar geti verið í vandræðum því þeir fá ekki far nema þeir séu með Klapp. Svo er líka óskað upplýsinga um gildistíma kortanna en notendur hafa bent á að hafa fengið athugasemdir um að bílstjórar hafi talið að kortið væri útrunnið stuttu eftir kaup.


Vin dagsetur, áframhaldandi óvissa

Eins og þekkt er var ein af breytingartillögum meirihlutans í borgarstjórn sem lögð var fram 6. desember sl. að leggja niður starfsemi dagsetursins Vinjar. Flokkur fólksins mótmælti þessu strax harðlega og lagði fram tillögu um að meirihlutinn myndi endurskoða þessa ákvörðun. Hvatt var til að starfseminni yrði að mestu haldið óbreyttri. Þessi sparnaðartillaga meirihlutans ásamt nokkrum öðrum sambærilegum, m.a. þeirri að leggja niður unglingasmiðjurnar Tröð og Stíg, voru kaldar jólakveðjur frá meirihlutanum til fólks í viðkvæmri stöðu. Flokkur fólksins hefur einnig mótmælt harðlega að leggja eigi niður starfsemi unglingasmiðjanna og lagt til að sú tillaga meirihlutans verði endurskoðuð. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir mikilvægan vettvang þar sem þeir njóta félagsskapar eða frá unglingum sem finna öryggi og félagsskap í unglingasmiðjum.

 

Vin er dagssetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár og hvílir starfsemin á sterkum grunni. Þar er ákveðinn kjarnahópur gesta sem hefur ekki getað nýtt sér önnur úrræði og er þessi þjónusta þeim afar mikilvæg. Margir sem sækja Vin líta á staðinn sem sitt annað heimili. Flokki fólksins finnst ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari.

 

Dropinn holar steinninn

Flokkur fólksins er í minnihluta í borgarstjórn og er þar með valdalaus. Nánast öllum tillögum flokksins sem lagðar hafa verið fram síðastliðinn fjögur og hálft ár og sem telja mörg hundruð hefur verið hafnað, þær felldar eða vísað frá.

Flokkur fólksins lætur ekki deigan síga og trúir því staðfastlega að dropinn holi steininn. Það má sannast reyna því á  fundi velferðarráðs 11. janúar sl. viðurkenndi meirihlutinn að hafa hlaupið á sig. Þetta má sjá í bókun þeirra þar sem segir „Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði telja nauðsynlegt að úrræðið Vin verði rekið í óbreyttri mynd út þetta ár og eins á meðan ekki hefur fundist ásættanleg lausn sem notendur þjónustunnar, hagsmunaaðilar og fagfólk móta í sameiningu. Umræddir fulltrúar bera fullt traust til þess starfshóps sem skipaður hefur verið til þess að yfirfara fyrirkomulag úrræðisins til framtíðar litið. Nauðsynlegt er að engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda, hagsmunaaðila og fagfólks“.

 

Óhætt er að segja að þessi umsnúningur er vandræðalegur en batnandi fólki er best að lifa. Því miður er það aðeins tryggt að Vin verði rekið í óbreyttri mynd til áramóta.

Flokkur fólksins fagnar því að meirihlutinn hafi séð að sér en þykir á sama tíma leiðinlegt hvað málið hefur valdið gestum Vinjar miklum kvíða og að ekki hafi tekist að eyða allri óvissu um framhaldið.

 

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Hægt er að sjá greinina alla á www.kolbrunbaldurs.is

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi

Birt í Fréttablaðinu 13.1 2023

 

Mynd Vin


Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra

Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra barna sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. (Lögð fram á fundi borgarstjórnar 17. janúar næstkomandi)

Lagt er til að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðslu úrræðið mun sennilega létta á biðlistum.

Greinargerð

Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna mikils álags, slæmrar starfsaðstöðu og lágra launa. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Framsóknarflokkurinn hefur einnig sagst vilja skoða heimgreiðslur sem einn hluta af mótvægisaðgerðum á meðan ástandið er svo slæmt í leikskólamálum.

Margir foreldrar búa við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá með öllum ráðum. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt og er ljóst að hugsa þarf út fyrir boxið til að finna leiðir til að laða fært fólk til starfa. Launin eru léleg og álag mikið.

Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Í byrjun hausts 2023 fengum við borgarfulltrúar bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til. Vegna manneklu eru leikskólabörnin ítrekað send heim eða foreldrar fá tilkynningu að kvöldi um að þau  verði að halda barni sínu heima vegna manneklu. Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Staðan er óbærileg fyrir alla aðila líka starfsmenn leikskólanna. Við verðum að bregðast við þessari neyð strax og tína til öll úrræði sem finnast í verkfærakistunni. Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína? Í ljósi þessara þátta m.a. er mikilvægt að skoða með opnum huga tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur. Það fjármagn sem úrræðið krefst er vel varið og hefur jákvæð áhrif á fjölmargt annað þessu tengt.

 

 


Hvað er verið að gera til að leysa umferðarhnúta í borginni?

Ég legg þessa fyrirspurn fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag.
Fyrirspurnir um hvort til standi að leysa umferðarteppur í borginni?

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til s.l. 4 ár að farið verði að skoða ljósastýringar í borginni og bæta og laga erfiðustu gatnamótin með ýmsum leiðum sem stungið hefur verið upp á í gegnum tíðina. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld séu með einhverjar hugmyndir í farvatninu sem létt geta á umferð s.s. að bæta ljósastýringar þar sem verst lætur?
Hvaða aðgerðir eru í gangi hjá borginni til að draga úr umferðarteppu?

Þegar horft er til samgöngumála er ekki um marga valkosti að ræða. Borgarlína verður ekki komin og farin að virka fyrr en eftir nokkur ár. Komu hennar hefur verið seinkað eins og allir vita. Strætósamgöngur er slakar og hefur dregið úr þjónustu sérstaklega eftir að nýja greiðslukerfið kom. Margir treysta sér ekki til að nota það. Þeir sem hefðu getað nýtt sér einstaka ferð með strætó finna aðrar leiðir, taka jafnvel frekar leigubíl, þeir sem hafa ráð á því þ.e.a.s. þar sem ekki tekur því að setja sig inn í Klapp kerfið eða taka sér ferð á hendur  á á bækistöð Strætó til að kaupa sér Klapp tíu. Klapp tíu er aðeins fyrir  annaðhvort fullorðna, ungmenni (12-17 ára) eða aldraða (67+).

 


Vetrarþjónusta Reykjavíkur í borgarstjórn

Ég er komin á borgarstjórnarfund og á dagskrá er m.a. fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík.

Hér er bókun Flokks fólksins í málinu:
Snjóhreinsun þarf að ganga snurðulaust. Bæta þarf þjónustu í húsagötum. Auka þarf afköst, breyta fyrirkomulagi, vinnulagi og fjárfesta í tækjum. Tjalda þarf öllu til þegar reiknað er með mikilli snjókomu og opna leiðir fljótt milli húsagötu og stofnvega og slóð á stéttum og stígum.
Í fyrstu er nægilegt að ryðja 60-80% af breidd húsagötu og láta ruðninga vera á götunni, ekki ryðja upp á gangstéttir hvað þá fyrir innkeyrslur. Ef innkeyrslur eru opnar skapast svæði til að mætast á bíl á meðan að ruðningar eru enn á götunni.
Ef rutt er upp á gangstétt þarf annað tæki að koma og ryðja aftur út á götuna. Úrsalt er ódýrasta saltið og sjálfsagt að nota það og spara það ekki.
Þegar farið er í útboð þurfa að vera skýrar línur til hvers er ætlast. Sagt er að til séu teikningar af öllum götum og þarf verktaki að vita, hvert á að ýta ruðningum. Stytta á upplýsingaferla milli þátttakanda, öll vandamál þarf að leysa. Mun betri tengsl og samskipti þurfa að vera milli pólitíkunnar og yfirstjórnar og yfirstjórnar og starfsmanna og verktaka.
Bæta þarf hönnun saltkassa þannig að úrkoma komist ekki í þá, annars verður saltið fljótt illmokanlegt. Saltgeymslur er kapítuli út af fyrir sig. Borgin á ekki þessar geymslur en borgin greiðir fyrir viðhald þeirra.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband