Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra

Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra barna sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. (Lögð fram á fundi borgarstjórnar 17. janúar næstkomandi)

Lagt er til að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðslu úrræðið mun sennilega létta á biðlistum.

Greinargerð

Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna mikils álags, slæmrar starfsaðstöðu og lágra launa. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Framsóknarflokkurinn hefur einnig sagst vilja skoða heimgreiðslur sem einn hluta af mótvægisaðgerðum á meðan ástandið er svo slæmt í leikskólamálum.

Margir foreldrar búa við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá með öllum ráðum. Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt og er ljóst að hugsa þarf út fyrir boxið til að finna leiðir til að laða fært fólk til starfa. Launin eru léleg og álag mikið.

Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Í byrjun hausts 2023 fengum við borgarfulltrúar bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til. Vegna manneklu eru leikskólabörnin ítrekað send heim eða foreldrar fá tilkynningu að kvöldi um að þau  verði að halda barni sínu heima vegna manneklu. Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Staðan er óbærileg fyrir alla aðila líka starfsmenn leikskólanna. Við verðum að bregðast við þessari neyð strax og tína til öll úrræði sem finnast í verkfærakistunni. Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína? Í ljósi þessara þátta m.a. er mikilvægt að skoða með opnum huga tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur. Það fjármagn sem úrræðið krefst er vel varið og hefur jákvæð áhrif á fjölmargt annað þessu tengt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband