Bloggfærslur mánaðarins, desember 2021

Eldumst heima - sérstök uppbygging svæða

Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að undirbúa. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.

Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíkra nota. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Þar þarf að huga að útivist, áhugamálum, félagslegri þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Með slíkum forsendum er hægt að styðja myndarlega við löngun eldri borgara til að eldast heima hjá sér.
 
Ýmis vandamál geta komið í veg fyrir það að eldra fólki líði vel í núverandi húsakynnum sínum. Húsnæðið getur verið of stórt, of dýrt er að flytja, fólkið vill komast í rólegra umhverfi og stundum er langt í þjónustu við eldri borgara. Þetta er atriði sem við í Flokki fólksins viljum taka á og færa til betri vegar.

Á fundi borgarstjórnar 21. desember lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks. 

Engin þörf væri fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla eða aðra þjónustu sem hugsuð er fyrir börn og barnafjölskyldur. Einblínt yrði á t.d. útisvæði þar sem boðið er upp á alls konar afþreyingu og  skemmtilegum garði eins og Hellisgerði, innisvæði þar sem unnt yrði að koma fyrir verkefnastofu, sameiginlegu svæði, aðstöðu fyrir heimahjúkrun svo fátt eitt sé nefnt.

Svæði sem þetta verður að höfða til eldri borgara og hvetja til útivistar og tómstunda. Aðkoma félaga eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldra fólks með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu þaulhugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði öryggis í hvívetna.

Flokkur fólksins leggur til að efnt verði til samkeppni meðal arkitektastofa þar sem þeim er gefinn kostur á að skipuleggja svæði annars vegar fyrir fólk eldra en 60 ára og hins vegar fyrir fólk eldra en 75 ára. Fyrra svæðið yrði þá með meiri útivistarmöguleikum en hið síðara með meiri nærþjónustu eins og heimahjúkrun og sameiginlegu þjónusturými. Því ekki að stíga þetta myndarlega skref til móts við betra mannlíf til framtíðar fyrir mikilvægan hóp?

Afdrif tillögunnar í borgarstjórn

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk:

Tillögu Flokks fólksins um skipulagða byggð fyrir eldra fólk hefur verið felld nánast með þeim rökum að þetta sé ekki það sem þessi hópur þarf né vill.
Tillagan gekk út á að farið yrði í samkeppni um sérstaka uppbyggingu svæða víðs vegar sem yrði sérsniðið fyrir eldra fólk. Markmiðið er að gefa sem flestum tækifæri til að geta elst heima hjá sér við góðar aðstæður og er það hlutverk Reykjavíkurborgar að aðstoða og skipuleggja slíka byggð.
Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hefur ekki verið hugsaður til slíks. Stoðþjónusta er einfaldlega ekki til staðar. Það þarf að hugsa til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu o.s.frv. Þjóðin er að eldast og því þurfi að horfa til þess hvernig Reykjavíkurborg ætlar sér að þjónusta eldri borgara sem best. Það er ekki seinna vænna en að fara að hugsa það strax.

Borgarskipulag á að vera lifandi, breytilegt og taka tilliti til allra hópa. Ef að ekki er hugsað til þarfa eldri borgara strax í skipulagi er slíkt einungis ávísun á óþarfa vandamál síðar meir. Flokkur fólksins hefur rætt um þetta mál við hagsmunasamtök og hugnast mörgum svæði sem þessi.


Fríar skólamáltíðir fyrir börn fátækra foreldra

Flokkur fólksins er með 4 breytingartillögur á fundi borgarstjórnar í dag í síðari umræðu um Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 og Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026.
Hér er eru tvær þeirra en þær tengjast:

Tillaga nr. 1 um fríar skólamáltíðir fyrir þá verst settu:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að foreldrar þeirra verst settu fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Í því felst að einstæðir foreldrar með tekjur undir 442.324 kr. á mánuði (þ.e. 5.307.888 kr. á ári) fái fríar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börn sín. Miðað verði við frítekjumörk einstæðra foreldra sem njóta stuðnings og eru með tekjur undir kr. 5.307.888 á ári. Heildarkostnaður við tillöguna nemur 27,5 milljónum. Fjárhæðin komi til hækkunar á fjárheimildum skóla- og frístundasviðs og verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sbr. tillaga 2, sjá neðar.

Greinargerð:
Talið er að einstæðir foreldrar, þ.e. öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk (ein fyrirvinna), búi við- og hætta er á að falla í fátækt. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251 undir 18 ára (2021). Þar af er talið að 2.465 börn (34% barna) einstæðra foreldra búi við- og séu í hættu á að falla í fátækt. Það eru 811 börn í leikskólum og 1.654 börn í grunnskólum borgarinnar.
Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar kostar máltíðir fyrir barn í leikskóla 12.107 kr. á mánuði og skólamáltíð í grunnskóla 10.711 kr. á mánuði. Tillagan felur í sér að börn einstæðra foreldra í leikskólum: þ.e. 811 börn fái frían morgunverð, hádegisverð, síðdegishressingu, þ.e. 12.107 kr. pr. barn á mánuði. Enn fremur fái börn einstæðra foreldra Í grunnskólum: 1.654 börn, fría skólamáltíð, þ.e. 10.711 kr. pr. barn á mánuði.
Frítekjumörk einstæðra foreldra, byggja á „framfærsluviðmiði“ Umboðsmanns skuldara (UBS). Þar er miðað við að fólk geti aðeins veitt sér lágmarksframfærslu um takmarkaðan tíma, meðan verið er að hjálpa fólki úr skuldavanda. Þegar talað er um lágmarks framfærsluviðmið er jafnframt miðað við að fólk hefði tekjur sem duga til lágmarks¬ framfærslukostnaðar. Lágmarks framfærsluviðmið (UBS) fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framfæri er kr. 230.693. Það er fyrir utan fæðiskostnað í skóla 11.631 og húsnæðiskostnað: Húsnæði er 170.000 kr. rafmagn, hiti, hússjóður og trygging 30.000 kr. Samtals: 442.324 kr. á mánuði. Árstekjur þurfa að vera 5.307.888 kr.
Í skýrslu um Lífskjör og fátækt barna á Íslandi (með leyfi forseta) 2004-2016 (Skýrsla unnin fyrir Velferðarvaktina), segir, m.a.: Brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir látekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Allur þorri einstæðra foreldra er í neðri helming tekjudreifingar (Kolbeinn H. Stefánsson, 2019: 88).
Það er samhljóða niðurstöðum rannsóknar um: Lífsskilyrði barnafjölskyldna á Íslandi: Hvað getur skýrt bága stöðu einstæðra mæðra með börn á framfæri (Harpa Njáls, 2009: Rannsóknir í félagsvísindum X, 153-167).
Það er smánarblettur á okkar auðuga samfélagi hversu margir búa hér við sára fátækt. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þau langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum. Áður hefur verið vísað, með leyfi forseta í skýrslu Barnaheilla um fátækt þar sem fram kemur að um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna.
Ójöfnuður ríkir innan menntakerfisins og vöntun er á opinberri áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Fátækt ógnar börnum í Reykjavík, börnum sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður, fjölskyldur sem greiða um 70% af ráðstöfunartekjum tínum í húsaleigu. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna eins og sjá má á tilkynningum.
 

Tillaga nr. 2
Tillaga vegna áskrifta, innlendrar og erlendrar ráðgjafar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsvið verði lækkaðar um 27,5 milljónir , þar af verði áskriftargjöld lækkuð um 12,5 milljónir., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar lækkuð um 7 milljónir. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar lækkuð um 8 milljónir. Fjárhæðinni verði varið til að mæta tekjutapi vegna frírra skólamáltíða barna einstæðra foreldra í leik- og grunnskólum, sbr. tillaga 1, sjá hér ofar

Greinargerð:           

Þjónustu- og nýsköpunarsvið áætlar í ofangreind útgjöld 54 milljónir á næsta ári, þar af í áskriftargjöld 25 milljónir., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar 15 m.kr. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar 14 milljónir. Tillagan gerir ráð fyrir að hagræðing í ofangreindum útgjöldum nemi um 50%. Tillagan felur í sér að þjónustu- og nýsköpunarsvið segi upp erlendum áskriftum að hluta til og samningum við erlend ráðgjafarfyrirtæki auk innlendra áskrifta og ráðgjafar.  

 

Klapp!

Fyrirspurn lögð fram í borgarráði.

Nýlega var tekið í notkun nýtt greiðslukerfi hjá Strætó bs. sem kallast Klapp. Kerfið er hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Greiðslukerfið er rafrænt og virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldinu en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Vandinn er sá að stór hópur fólks með þroskahömlun er ekki með rafræn skilríki. Sökum fötlunar geta þau ekki valið lykilorð og megi þau ekki fá aðstoð við það.

Fulltrúi Flokks fólksins vekur athygli á athugasemdum fatlaðs fólk og leggur hér fram eftirfarandi fyrirspurnir:

Hvað hyggst Strætó gera til að bæta úr þessum vanköntum?

Af hverju var ekki hugsað út í þarfir þessa hóps þegar verið var að hanna og þróa nýtt greiðslukerfi?
Hvernig á að hafa fyrirkomulagið á meðan verið er að leita lausna?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband