Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Villandi upplýsingar frá upplýsingafulltrúa borgarinnar

Upplýsingafulltrúi borgarinnar sendir fjölmiðlum endrum og sinnum tilkynningu um hvaða mál hafa verið samþykkt í borginni. Þá er það orðað "Borgarráð samþykkti eða samþykkt var í borgarstjórn o.s.frv." Það vita kannski ekki allir að Flokkur Folksins hefur ekki atkvæðarétt í borgarráði, einungis tjáningar- og bókunarfrelsi. Öðru máli gegnir í borgarstjórn, þar hafa allir atkvæðarétt. Þegar sagt er í tilkynningu "borgarráð/borgarstjórn samþykkti" lítur út eins og allir atkvæðabærir hafi samþykkt málið þegar t.d. einungis meirihlutinn stendur að baki samþykktinni. Ég vil að það sé tilgreint í tilkynningu frá borginni hvernig atkvæðin féllu í stað þessa að tala um að borgarráð eða borgarstjórn hafi samþykkt mál þegar einungis 12 greiddu atkvæði gegn 11 eins og oft hefur verið. Til að fá þessu breytt lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði:

"Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum." 
Á þessum myndum má sjá hversu villandi svona tilkynningar eru oft frá upplýsingafulltrúa borgarinnar. Á fyrri myndinni segir "borgarráð samþykkti" en á næstu mynd má sjá að D flokkur var á móti. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum þar sem látið er að því liggja að allir séu sammála þegar atkvæði féllu kannski 12 gegn 11 eins og oft í borgarstjórn. Tólf eru aldeilis ekki allir tuttugu og þrír borgarfulltrúarnir!!InkedRammask. d flokkur greiddi á móti_LI

Borgarráð samþykkti rammaskipulag Skerjaf.
 

Kynning Strætó bs á framtíðarsýn fyrirtækisins eins og falleg auglýsing

Fulltrúar frá Strætó bs voru með kynningu á fundi borgarráðs. Vænsta fólk. Verð samt að segja að þessi kynning var meira eins og falleg auglýsing. Ekki eitt orð um að reyna að taka á öllum þeim fjölda kvartana sem fyrirtækinu berast. Strætó er í meirihlutaeigu borgarinnar, byggðasamlag eins og Sorpa. Ég fann mig knúna til að skrifa bókun eftir þessa kynningu og hún er hér:

Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig á að framkvæma þær. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki 2030. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr og er aðeins gerð hér í takmörkuðum mæli. Það á að kolefnisjafna segir í kynningunni en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en það metan er ekki nýtt og því þess vegna brennt á báli. Ekki er unnið að því að auka hlut metans frá Sorpu sem eldsneyti hjá Strætó en það ætti að vera sjálfsagt í hagræðingar og sparnaðarskyni.

Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni kvartana. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hjá Strætó bs en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær oft ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu Strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en á þessum vanda ætti að vera hægt að taka strax af krafti.


Ekki aftur í Laugardal

Secret Solstice.
Í borgarráði var lagt fram minnisblað sviðstjóra íþrótta- og tómstundasviðs vegna tónleika Secret Solstice sem fóru fram í Laugardal 21.-23. júní sl. Stutt bókun Flokkur Folksins að sinni um viðburðinn er á þessa leið:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að vísbendingar eru um að Secret Solstice hátíðin gekk betur en í fyrra. Beðið er eftir frekari upplýsingum áður en hægt er að leggja endanlegt mat á hversu vel raunverulega gekk.
Það er þó mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ekki skuli halda þessa hátíð aftur á sama stað enda staðsetningin sem er inn í miðju íbúðarhverfi ekki hentug fyrir hátíð af þessari stærðargráðu. Margir foreldrar og foreldrafélög og hópur íbúa vilja ekki svona stóra hátíð í hverfið sitt og ætti að vera hægt að finna betri stað fyrir hana næsta ár
 
 
SS mynd

Ósiðleg umræða í borginni og tjáningarfrelsið

Ósiðleg umræða í borginni og hafa ALLIR frelsi til að tjá sig opinberlega?

Þrír borgarfulltrúar lögðu fram fyrirspurn um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi.
Á fundi borgarráðs 27.6. var lagt fram svar, nokkuð merkilegt svar reyndar að því leyti að það er fyrst svona almennt en fer síðan að taka á sig nokkurn varnarblæ.

Svar frá Skrifstofu borgarstjórnar:

"Allir starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa frelsi til að tjá sig opinberum vettvangi og er tjáning starfsmanna vernduð af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Enginn starfsmaður Reykjavíkurborgar hefur verið áminntur vegna ummæla á opinberum vettvangi enda er meginregla ákvæða kjarasamninga um áminningar bundin við atriði sem snúa að framferði eða háttsemi starfsmanns í starfi. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa einnig frelsi til að tjá sig um atriði er tengjast starfi þeirra, svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðarskyldur standi því ekki í vegi. Starfsmaður er þannig bundinn þagnarskyldu um upplýsingar sem eru trúnaðarmerktar á grundvelli laga eða annarra reglna, eða þegar að öðru leyti er nauðsynlegt að halda þeim leyndum til að vernda verulega opinbera hagsmuni eða einkahagsmuni."

Í fyrirspurninni er óskað eftir upplýsingum um það hvort starfsmenn sem hafa orðið uppvísir að því að vera með ósiðlega umræðu á opinberum vettvangi hafi fengið athugasemdir eða áminningu frá sínum yfirmönnum og stjórnendum þ.e. skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjórnar, borgarritara eða borgarstjóra.

Því er til að svara að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóta líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum.

Tjáningarfrelsið er vissulega háð ákveðnum takmörkunum en slíkar takmarkanir verða ávallt að eiga stoð í lögum líkt og fram kemur í lagaðskilnaðarreglu 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélag getur ekki takmarkað tjáningarfrelsi starfsmanna sinna án þess að hafa til þess skýrar heimildir. Ekki hafa verið sett lög um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga, en um réttindi og skyldur þeirra í starfi gilda fyrst og fremst ákvæði kjarasamninga og ráðningasamninga, sbr. 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélög verða að reiða sig á framangreindar reglur í samskiptum sínum við starfsmenn sína og geta t.a.m. ekki lagt skorður við tjáningarfrelsi starfsmanna sinna eða beitt þá viðurlögum á sama hátt og ef um ríkisstarfsmenn væri að ræða, en þá koma lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til skoðunar. Engar kvartanir né ábendingar hafa borist yfirmönnum á þeim skrifstofum sem vísað er til í fyrirspurninni vegna sinna starfsmanna, hvort sem um er að ræða "ósiðlega umræðu" né nokkra aðra tjáningu sem gæti mögulega réttlætt athugasemdir og/eða áminningu frá yfirmanni. Í því samhengi er nauðsynlegt að benda á að hvers konar tjáning sem er greinilega sett fram í eigin nafni starfsmannsins, ótengdum við starf viðkomandi og varða ekki málefni sem starfsmaðurinn kemur að í störfum sínum, getur aldrei verið tilefni til afskipta yfirmanna enda væri þá um að ræða brot á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklingsins.

Fyrirspurnin er takmörkuð við tvær skrifstofur Ráðhúss Reykjavíkur þar sem starfa samtals á annan tug starfsmanna við ýmis störf. Með slíkri framsetningu er gefið til kynna að þeir starfsmenn hafi gerst sekir um ósiðlega umræðu á opinberum vettvangi án þess að það sé skýrgreint frekar. Í því samhengi er vísað til álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga til Reykjavíkurborgar frá 14. desember 2018 þar sem fram kemur að almennt hlýtur það að teljast óheppilegt að kjörnir fulltrúar geri störf starfsmanna sveitarfélaga að umtalsefni í opinberri umræðu, sérstaklega ef ummælin fela í sér neikvæðan dóm yfir viðkomandi starfsfólki eða störfum þess. Sú verkaskipting sem er í gildi hjá Reykjavíkurborg samkvæmt 1. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga felur í sér að að það er borgarstjóri sem er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins. Eftirlit með störfum einstakra starfsmanna fellur samkvæmt þessari verkaskiptingu undir borgarstjóra en ekki kjörna fulltrúa, enda þótt sveitarstjórn hafi almennt vinnuveitenda- og eftirlitshlutverk." 

Virðingarfyllst Stefán Eiríksson, borgarritari Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar

Hér kemur svo bókun þriggja fulltrúa minnihlutans við þessu svari: 

Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

 

 


Fyrsta árið í borgarstjórn hálfgerð geggjun

Nú þegar eitt ár er liðið í þessu skemmtilega en sannarlega krefjandi starfi mínu sem borgarfulltrúi Flokkur fólksins er vert að líta yfir farinn veg. Fyrst kemur í hugann allur sá  fjöldi mála sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í borgarstjórn, tillögur sem flestar lúta að breytingum til að bæta þjónustu við þá verst settu, eldri borgara, öryrkja og börn. Fjöldi tillagna og fyrirspurna hafa verið lagðar fram og bókanir eru í tugatali. Þeir sem vilja kynna sér mál Flokks fólksins í borgarstjórn nánar geta farið inn á heimasíðuna kolbrunbaldurs.is/Borgarmálin en þar hef ég reynt að setja afrakstur hvers fundar fyrir sig.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á ýmsu hefur gengið í samskiptum meiri- og minnihlutans. Eitt það erfiðasta sem mér hefur fundist er hvernig lokuðum fundum hefur verið stýrt. Þar hefur manni stundum verið meinað að bregðast við jafnvel í andsvari. Dæmi eru um að fundi er slitið í hasti til að loka á óþægilega umræðu og jafnvel þegar beðið hefur verið um tvær mínútur á meðan verið er að ljúka bókun.

Fljótlega kom í ljós að meirihlutinn hafði löngun til að knésetja þennan "óþægilega" minnihluta. Það yrði of langt mál að týna öll tilvik hér en eitt grófasta dæmið átti sér stað á borgarstjórnarfundi í vikunni. Þar var farið út yfir öll velsæmismörk og þverbrotnar siðareglur sem meirihlutinn hafði nokkrum mínútum áður lagt mikla áherslu á að yrðu samþykktar. En nánar má sjá um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Krafðist uppl


Ætluðu að negla borgarfulltrúann í beinni

Á fundi borgarstjórnar 18. júní var á dagskrá Reglur um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa sem er ekki frásögu færandi nema vegna þess að þar átti sér stað sérkennilegur hlutur. Borgarfulltrúi meirihlutans sem einnig var að ljúka tíma sínum sem forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á einn fulltrúa sem átti sér einskis ills von og krafði hann svara um eignarhlut sinn í "fyrirtæki".
Þetta var með öllu óviðeigandi hegðun enda ekki verið að ræða persónulega hagsmuni einstakra borgarfulltrúa heldur almennar reglur. Þessi árás var augljóslega undirbúin enda þegar litið var upp á áheyrendapallanna mátti sjá ruv var mætt með upptökuvélina. 

Ég er sennilega frekar barnaleg því ég hef ekki viljað trúa því að meirihlutinn hefði það í sér að skipuleggja svona persónulega árás á einstaka fulltrúa og ætla að negla hann í beinni.

Fyrir fráfarandi forseta borgarstjórnar er leiðinlegt að ljúka forsætistíð sinni með svona sprengju því þetta kallað á hörð viðbrögð og gagnrýni á hana.

Í dagskráliðnum á undan var verið að samykkja siðareglur. Ég var lengi að velta fyrir mér hvort ég ætti að samþykkja siðareglur en þó með ákveðnum fyrirvara. Sá fyrirvari tengist nokkrum hlutum sem ég rek í bókun (sjá neðar). En hér koma tvær bókanir, sú fyrri sem tengist liðnum: reglur um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa og sú síðari við liðnum siðareglur.

Bókun Flokks fólksins um reglur skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa

Undir þessum lið, endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa átti sér stað afar óviðeigandi hlutur þegar forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa.  Í liðnum á undan var verið að samþykkja siðareglur sem sami fulltrúi meirihlutans hafði rétt svo lesið upp af stolti. Ekki mikið um alvöru þar! Borgarfulltrúi Flokks Fólksins sat hjá undir liðnum um siðareglur enda vissi að valdhöfum er ekki alvara með hvorki þessum né öðrum siðareglum. En að efni liðsins: Afar mikilvægt er að kjörnir fulltrúar skrái fjárhagslega hagsmuni sína. Óskað hefur verið eftir að Persónuvernd veitti Reykjavíkurborg samráð í samræmi við ákvæði 30. gr. laga og er málið eðlilega ekki tækt fyrr en sá úrskurður liggur fyrir.  Það er gott að meirihlutinn í borginni hefur séð af sér að ætla að samþykkja þessar reglur hér í borgarstjórn með fyrirvara um úrskurð Persónuverndar eins og til stóð. Nú á að vísa því í borgarráð sem er afar sérkennilegt því málið var á dagskrá forsætisnefndar sl föstudag. Ekki er alveg ljóst hvaða snúninga verið er að taka hér með því að vísa málinu til borgarráðs og situr því borgarfulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu siðareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki mótfallinn þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn hef ég hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvara. Alla vega ekki á meðan stjórnunarstíll meirihlutans er litaður af slíkri valdbeitingu sem ég hef áður lýst í bókunum.  Það „verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til að starfsmenn eigi greiða leið að kvarta yfir borgarfulltrúum ber ekki mikinn vott um vilja til góðra samskiptahátta eða samvinnu. Hvað þá sá óhróður sem borgarritari dreifði á sameiginlegu vefsvæði með stuðningi borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og sagði þá vera „eins og tudda“ með þeim orðum „þeir sem bregðast við orðum hans eru þeir seku“. Einn fulltrúi meirihlutans kynnti undir á sama vefsvæði með því að nafngreina „hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Varla samræmist þetta nokkrum siðareglum? Borgarmeirihlutinn núverandi sem að hluta til hefur setið í mörg ár hefur heldur ekki sýnt gott fordæmi þegar kemur að reglum um gott siðferði. Í gögnum um t.d. úttekt braggans er staðfest að valdhafar hafi farið á svig við siðareglur t.d. þær sem kveða á um að  forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé.


Niðurstöður Zenter áfall fyrir borgaryfirvöld og Miðborgina okkar

Fyrir liggur tvíþætt viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og Samtök verslunar og þjónustu fjármagnaði. Niðurstöður sýna mikla óánægju hjá rekstraraðilum og hjá borgarbúum sem búa ekki miðsvæðis. Fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og minjagripi ganga og ánægja er helst meðal yngra fólks og þeirra sem sækja skemmtanalífið. Það stefnir í einsleitan bæ bæði hvað varðar rekstur og mannlíf. Niðurstöður hljóta að vera áfall fyrir borgaryfirvöld og Miðborgina okkar sem greinilega væntu þess að sjá stuðning við stefnuna. Þvert á móti sýna niðurstöður að göngugötur eru að fæla fólk frá. Verði ekki horfið frá þessari stefnu er bærinn að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Ekki eru allir undrandi því sterkar vísbendingar voru um að stór hluti fólks er hættur að sækja miðbæinn. Samráð hefur verið lítið sem ekkert. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en  25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar í miðbænum hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

Hér er viðtal við Gunnar Gunnarsson hjá Laugavegssamtökunum

Flestir sem nýta sér þjónustu í bænum sækja bari og veitingastaði


Skutlutillagan

Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli og eiga erfitt um gang ama. Ekki hefur verið haft viðhlítandi samráð við fólkið í borginni, rekstrar- og hagsmunaaðila eða öryrkja hvort þeim yfirleitt hugnast þessar lokanir hvað þá varanlegar lokanir.
Skutlutillaga Flokks fólksins var lögð fram í borgarráði 6. júní 2019 og vísað til skipulags- og samgönguráðs:

sætir vagnar 2
Flokkur fólksins leggur til að borgin reki skutlu sem aki Laugaveginn, Skólavörðustíginn, Lækjartorg og upp Hverfisgötu.
Spurning er að reyna þetta í tilraunaskyni. Skutlan taki hring um kjarna miðborgarinnar t.d. 4-5 sinnum á klukkutíma farþegum að kostnaðarlausu. 
Markmiðið er að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað að svæðinu bæði vegna lokunar gatna en einnig vegna framkvæmda.  Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði og fara um það á skömmum tíma.

sætir vagnar 3


Borgarstjóri ekki hinn hagsýni húsfaðir

Það gengur illa að fá borgarstjóra til að vera hagsýnn og fara vel með peninga borgarbúa.
Það segi ég vegna þess að tillaga Flokks Fólksins um að minnka kostnað vegna opinna funda borgarstjóra út í bæ var felld í morgun á fundi forsætisnefndar. Að fella þessa tillögu kom mér í opna skjöldu. Kostnaður er óhemju hár við hljóðkerfi, myndbandsupptökur og streymi frá opnum fundum borgarstjóra eins og sjá má á mynd hér neðar. Tæknimál eins fundar getur kostað allt að 550.000. Ég vil að leitað verði leiða til að minnka þennan kostnað og hélt í barnaskap mínum að við, þvert á flokka, gætum verið sammála um að vilja það? Eins og ég segi í bókun sem ég náði að smella inn áður en formaðurinn sleit fundi þá sýnist mér vandinn liggja í að samið er um tæknimál og streymi fyrir einn fund í einu í stað þess að óska tilboða í fleiri fundi. Með því að semja um einn fund í einu er ólíklegt að gott tilboð fáist. Kostnaður við einn fund nær þess utan ekki lágmarksviðmiði útboðsreglna. Ef um er að ræða "fundapakka" gegnir öðru máli. Auðvitað er ekkert sem meinar borginni að kanna verð og óska tilboða þótt áætluð fjárhæð innkaupa með virðisaukaskatti sé undir viðmiði innkaupareglna. Það eru engin geimvísindi að sekkur af hrísgrjónum er hlutfallslega ódýrari en lítill pakki af hrísgrjónum. En borgarmeirihlutinn hefur ekki uppgötvað það enn alla vega ekki í þessu sambandi.
Hljóðuppt. jpg
Fundarherferð borgarstjóra

Tífalt meiri óánægja með þjónustu Strætó bs., en með þjónustu Lundúnavagnanna

Ég fékk sent frá vini áhugaverðan samanburð Strætó bs við vagnanna í stórborginni London. Í London bárust, á tilteknum ársfjórðungi, um 2,9 kvartanir fyrir hverjar 100.000 ferðir með strætisvagni. Í ljósi þess sem segir í svari frá Strætó þá er meirihlutinn ábendinganna vegna framkomu, aksturslags og tímasetningar og þá er hlutfallið 26,18 kvartanir per 100.000 ferðir. Miða við þetta er nærri tífalt meiri óánægja með þjónustu Strætó bs., en með þjónustu Lundúnavagnanna.
Þetta hlýtur að kalla á tilefni til naflaskoðunar, og vísbendingu um að verulega miklu sé ábótavant í gæðum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Svo það kemur kannski ekki óvart að viðbrögðin séu varnir og útúrsnúningar.
Þetta er skrifað hér með þeim fyrirvara að ekki er fyllilega ljóst hve hátt hlutfall 'ábendinga' til strætó eru kvartanir, né ljóst hver aðferðafræði TFL er þegar kemur að því að greina á milli kvartana og ábendinga. En ég mun senda frekari fyrirspurnir til Strætó varðandi þetta. Svo er það þessi talnaleikur en upplýsingafulltrúinn leggur saman ferðafjölda Strætó og býr til nýja tölu farþega upp á tugi milljóna farþega með því að telja hvert innstig margra sömu einstaklinganna að sjálfsögðu. Ég mun spyrja m.a. hvað það eru í raun margir farþegar, þ.e.a.s. einstaklingar sem eru á bakvið þessar tölur.

Frétt á eyjan.is

Frétt á visi.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband