Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Er uppbygging ökunáms ófullnægjandi?

Hvort röng uppbygging ökunáms sé orsök glannaaksturs unglinga er umfjöllun í grein sem birtist um helgina. Sú hugsun er jafnframt sett fram að kostur fylgir að lækka ökuleyfisaldurinn því þá séu börnin ekki eins mótuð og taki því betur leiðbeiningum. 

Það kann að vera að margt megi betur fara í uppbyggingu og skipulagi ökunáms hér á Íslandi sem ég tel þó að hafi tekið stórlegum framförum undanfarin ár. Uppbygging ökunáms er mismunandi eftir löndum og tekur greinahöfundur dæmi um hvernig þessu er háttað í einum af fylkjum Bandaríkjanna. Þar fá ungmenni ökuprófið fyrr en þurfa að uppfylla nokkur grundvallarskilyrði áður en þau fá full réttindi.

Er umferðaröryggi á Íslandi líkt því sem það gerist best annars staðar?
Þessari spurningu treysti ég mér ekki til að svara. Það þurfa þeir að gera sem gert hafa samanburðarrannsóknir á þessu sviði. 
Mín tilfinning er þó sú að við eigum langt í land með að vera samkeppnishæf hvað þessu viðkemur.  Að sjálfsögðu má finna þjóðir og svæði þar sem umferðarmenning er vafasöm.  Einhverjir myndu kvarta yfir frekjugangi ökumanna í New York eða áhættuakstri sumra í París osfrv. Sjálf hef ég reynslu af því að aka í vestur Evrópu og á þeim tíma sem ég bjó á austurströnd Bandaríkjanna minnist ég þess ekki að hafa upplifað ókurteisi og tillitsleysi í umferðinni eða að ég hafi nokkurn tímann verið í stórkostlegri hættu. Slíka reynslu hef ég hins vegar margsinnis upplifað hér á landi.

Ég er því þeirra skoðunar að ofsaakstur sé ekki ökunáminu um að kenna eða uppbyggingu þess. Vissulega er mikilvægt að leita stöðugt leiða til að bæta ökunámið eins og allt annað sem skiptir máli.  Vandinn hér felst í umferðarmenningunni og viðhorfi ökumanna til annarra vegfarenda.  Einhvers staðar á leiðinni höfum við misst tökin á umferðaruppeldinu. Afleiðingin er agaleysi.

Þess vegna tel ég það hæpið að leggja það til að við tökum upp í heild sinni sambærilegt kerfi og gengur vel annars staðar í heiminum. Slíkt kerfi þarf ekki endilega að verða árangursríkt hér. Suma þætti mætti skoða með það fyrir augum að taka upp í einhverri mynd. Dæmi um einn slíkan þátt er að ungum ökumönnum leyfist ekki að hafa jafnaldra sína í bílnum aðra en fjölskyldumeðlimi fyrr en þeir hafa náð 21 árs aldri.
Vandinn við þetta er sá að það gæti reynst erfitt að framfylgja þessari reglu. 

Með það í huga að umferðarmenningin hér á landi er allt að því ruddaleg í samanburði við víða annars staðar og að 17 ára ungmenni eiga talsvert í land með að ná fullum vitsmuna- og félagsþroska stend ég fastar en ella á þeirri skoðun að færa lágmarksaldurinn upp í 18 ár.
Það munar um hvert ár. Með þeirri aðgerð mun lífum verða bjargað. 


Af misjöfnu þrífast börnin best, eða hvað?

Í Blaðinu 4. júlí er rætt við Birgittu Jónsdóttur Klasen en hún titlar sig náttúrulækni og sálfræðing. Reyndar skilst mér að Birgitta sé ekki löggildur sálfræðingur og þar að leiðandi má hún ekki titla sig sálfræðing hér á landi. En það er nú ekki efni þessa bloggs heldur það að hún segir það mikilvægt að skipta á rúmum barna einu sinni í viku til að tryggja að hreinlæti sé eins og best verður á kosið. Sérstaklega sé mikilvægt að skipta á koddum og hreinsa þá, já meira að segja þurrhreinsa þá á einhverra mánaða fresti. Ástæðan er sú að sögn Birgittu að í koddum má finna tíu til fimmtán mismunandi sveppategundir og eftir ársnotkun hefur hann safnað í sig 100 lítrum af svita.

Nú spyr ég, hvað varð um þetta sem maður heyrði svo oft hérna áður fyrr:
....af misjöfnu þrífast börnin best......  Á það ekki við lengur?

Er ekki of langt gengið í öllu þessu hreinlætisæði. Hvað með ofnæmi og ofnæmisviðbrögð sem þvottaefni, mýkingarefni, sápur og mörg önnur hreinsiefni geta framkallað.  Varla er það skárra að vera með kláða, roða og bólgna húð vegna þess að fatnaður og annað tau sem við umgöngumst er stútfullt af sterkum efnum.

Farsælast er að finna milliveg í þessu sem öðru. Ég persónulega ætla bara að halda áfram að skipta á rúmunum á tveggja vikna fresti og koddinn má alveg fara í þvottavélina þess vegna á tveggja ára fresti.


Kolefnisjafna bíla.. hvaða rugl er nú það?

Kolefnisjafna bíla með því að gróðursetja tré... þetta hlýtur að vera eitt mesta bull sem heyrst hefur í langan tíma. Menga bílarnir eitthvað minna ef fleiri tré verða gróðursett?
Mér þykir auglýsingabransinn ganga býsna langt í að að reyna að laða að sér kaupendur ef þeir ætla að nota svona rökleysu.

Vilji menn í alvörunni vera umhverfisvænir í samgöngum ættu þeir að fjárfesta í sparneytari bílum eða velja umhverfisvænni leiðir til að koma sér á milli staða svo sem að reyna að hjóla oftar eða ganga ef það er möguleiki.

Ef Kolviður á ekki að gengisfalla í hugum fólks verður stjórn þess að leitast við að fá svona auglýsingar stöðvaðar.

Eru íslenskir foreldrar kærulausir?

Svo segir í fréttum í Mbl frá föstudeginum sl., alla vega að kæruleysi sé ríkt í íslenskum foreldrum. Þetta megi t.d. sjá í sundlaugum.  Þar séu margir foreldrar allt of afslappaðir (kærulausir) og leyfi ungum börnum sínum að leika sér í lauginni án þess að vera gætt af fullorðnum einstaklingi.

Kannski er þessi afslöppun eða kæruleysi innbyggt í þjóðarsálinni. Við erum mörg hver, alla vega hér í Reykjavík, alin upp með annan fótinn í sundi og það virðist vera svo víðs fjarri að slys geti átt sér stað jafnvel í lauginni þar sem hún er grynnst. En allur er varinn góður og engum langar að ætla að verða vitur eftir á þegar slysin hafa átt sér stað. Þess vegna verðum við að vera mátulega stressuð og hreinlega aldrei líta af ungum börnum í sundlauginni eða pottunum hvort sem í sundlaugum eða heima í garði.

Á sömu síðu segir að foreldrar geti orðið skaðabótaskyldir gagnvart barni sínu sem hefur orðið fyrir varanlegum skaða í sundlaugaslysum vegna þess að þeir hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína. Á þetta þá ekki líka við ef sýnt þykir að foreldrar hafi sýnt vanrækslu á ýmsum öðrum sviðum sem hugsanlega hefur leitt til þess að barnið hafi borið andlegan eða líkamlegan skaða af?  Til dæmis ef barn verður fyrir bíl eða meiðist. Nú ef barn hefur verið skilið eitt eftir eftirlitslaust á heimili og svona mætti eflaust lengi telja. 
Kannski það verði algengt í framtíðinni að börn fari upp til hópa að lögsækja foreldra sína fyrir eitt og annað sem betur hefði mátt fara í aðbúnaði þeirra á uppeldisárunum. Woundering


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband