Að Reykjavík setji á laggirnar sinn eigin "Arnarskóla"

Skóla- og frístundarráð/svið mun gera samning við sérskólann Arnarskóla fyrir næsta haust. Skólinn er staðsettur í Kópavogi. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími á að borgin setji á fót sinn eigin „Arnarskóla“? 

Arnarskóli er frábært úrræði hugmyndafræðilega séð fyrir börn með sérþarfir og hefur Flokkur fólksins ítrekað kallað eftir fjölgun sambærilegra úrræða í Reykjavík til viðbótar við Klettaskóla sem er löngu sprunginn. Biðlisti er í öll sérúrræði, skóla og sérdeildir í Reykjavík og aðeins alvarlegustu tilfellin eru skoðuð. Inntökuskilyrði í Klettaskóla eru ströng sem leiðir til þess að börn sem myndi blómstra í þeim skóla eru látin vera í almennum skóla þar sem þau upplifa sig ekki meðal jafninga.

Það er afneitun í gangi hjá meirihlutanum. Þau neita að horfast í augu við að Skóli án aðgreiningar eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Dæmi eru um að börnum hefur verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautargöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist í augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla. Borgin á ekki að þurfa að senda börn í sérskóla í öðru sveitarfélagi. Borgin á að hafa skóla eins og þennan á sínum vegum. 

Tillaga lögð fram 19. september 2018

Flokkur fólksins leggur til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn.

Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar afgreiðslu þessarar tillögu og hinna tveggja sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og sem fjalla einnig um skóla- og félagslegar þarfir fatlaðra barna í skólum í Reykjavík. Í svari við tillögunni er bent á að ekki séu biðlistar en staðreyndin er sú að Klettaskóli er mjög eftirsóttur og foreldrum barna sem óska inngöngu er vísað frá áður en til umsóknar kemur. Foreldrum sem óska eftir skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín er tjáð strax í upphafi að barnið muni ekki fá inngöngu sé það ekki „nógu“ fatlað til að mæta skilyrðunum. Auk þess er Klettaskóli löngu sprunginn og tekur ekki við fleiri börnum sem segir kannski allt sem segja þarf í þessum efnum. Nauðsynlegt er að hafa skólaúrræði sem mætir ólíkum þörfum barna. Ein tegund úrræðis ætti ekki að útiloka annað. Málið snýst um að hafa val. Börn með þroskahömlun eru nefnilega ekki öll eins og þeim hentar ekki öllum það sama. Það þrífast ekki öll börn í þeim úrræðum sem eru í boði. Það vantar annan skóla eins og Klettaskóla og það vantar einnig úrræði fyrir börn með væga og miðlungs þroskahömlun, börnum sem líður illa í almennum bekk, námslega eða félagslega. Barn sem líður illa lærir lítið. Það væri óskandi að borgin/borgarmeirihlutinn myndi vilja horfast í augu við þessa staðreynd ekki síst í ljósi vaxandi vanlíðan barna eins og skýrsla Embættis landlæknis hefur fjallað um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband