Hundaeftirlitið barn síns tíma

Það þarf að skoða hundamálefni borgarinnar ofan í kjölinn með það fyrir augum að færa allt dýrahald til nútíðar. Ég vil að innri endurskoðandi fari í rekstrarúttekt á hundaeftirliti Reykjavíkur. Ég hef sent beiðni um það á skrifstofu innri endurskoðanda og lagði eftirfarandi tillögu fram í borgarráði í gær:

Tillaga Flokks fólksins að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirliti Reykjavíkur.

Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfalt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband