Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!

Á morgun laugardaginn 25. september verður gengið til Alþingiskosninga 

Flokkur fólksins berst gegn fátækt á Íslandi og sækir nú umboð þjóðarinnar til að halda þeirri baráttu áfram á Alþingi. Grundvallarmannréttindi barna og fjölskyldna þeirra hafa alls ekki verið virt sem skyldi hér á landi. Mannréttindi samfélags eiga hvorki að vera háð efnahagi né völdum. Fátækt er samfélagsmein sem hefur aukist á Íslandi síðustu ár.

Allt að 10.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum!

Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu til tíu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt að mati Flokks fólksins. Með slíkan efnahagslegan mun sitja börn ekki við sama borð. Fátækt á bernskuárum getur haft víðtæk áhrif á börn og valdið margvíslegum skaða. Félagslega mismununin svíður sárast. Börnin finna til vanmáttar, glíma við brotna sjálfsmynd og sæta í sumum tilvikum einelti.

Ríkisvaldið undir forystu Sjálfstæðisflokksins og VG hefur ekki staðið sig nægjanlega vel gagnvart börnum efnaminni foreldra varðandi sanngjarna dreifingu fjármagns svo að jöfnuður megi ríkja. Staðreyndin er sú að það búa ekki allar fjölskyldur við sjálfsögð mannréttindi á Íslandi. Sumar fjölskyldur búa við óviðunandi húsnæðisaðstæður ýmist vegna lélegs húsakosts eða þrengsla. Það er heldur ekki lengur nýlunda að frétta af börnum sem hafa gengið í allt að fjóra grunnskóla vegna tíðra flutninga fjölskyldunnar. 

Það er útilokað fyrir fólk á lægstu laununum, öryrkja og fjölmarga eldri borgara sem greiða háa leigu að lifa mannsæmandi lífi.  Þetta getum við hjá Flokki fólksins ekki sætt okkur við.

Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi. Merktu x við F ef þú vilt styðja okkur í þeirri baráttu!

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 Birt í Breiðholtsblaðinu 22. september 2021

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband