Meistaraprófs krafist af kennurum á öllum menntastigum

Fjögur ný menntafrumvörp hafa verið kynnt sem marka nýja menntastefnu á Íslandi.
Mín vitneskja á innihaldi þessara frumvarpa er fengin úr fjölmiðlum.
Ég tel mig strax sjá í hendi mér að í þessum frumvörpum felast margar góðar breytingar og löngu tímabærar. Má þar nefna sérstaka áherslu á að iðn- og verknám verði metið til jafns við bóknám og einnig sú samfella sem verður í skólastarfinu þar sem eitt skólastig tekur við af öðru. 

Það sem hins vegar slær mig er að meistaraprófs skuli vera krafist af kennurum á öllum menntastigum. Hér er verið að tala um skilyrði sem ég gæti trúað að erfitt yrði að fullnægja.
Ég velti því jafnframt fyrir mér hvort hér sé ekki full langt gengið og hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að setja þau skilyrði að enginn geti kennt t.d. við leik- og grunnskóla öðruvísi en að vera sérfræðingur, þ.e. með meistarapróf. 

Sú upplifun mín hingað til af kennurum, hvort heldur kennurum barna minna eða kennurum sem ég hef starfað með er ekki sú að þeir hafi verið illa menntaðir nema síður sé.  
Vissulega eru kennarar mishæfir eins og gengur og gerist í fagstéttum. En hvort hæfni þeirra til starfsins hafi verið ábótavant vegna þess að þeir hafi ekki haft meistarapróf í greininni efast ég stórlega um.

Ég veit ekki hvað kennurum sjálfum finnst um þetta menntunarskilyrði. Eins og staðan er í dag þá vitum við hins vegar að kennarar upp til hópa telja sig fá allt of lág laun miðað við núverandi menntunarstig þeirra og kröfur sem kennarastarfið gerir.  Flótti er úr stéttinni núna í aðdraganda nýrra kjarasamningsviðræðna og stefnir í neyðarástand í sumum skólum.

Verði krafan sú að þeir einir fá kennsluréttindi sem hafi að lágmarki meistarapróf segir það sig sjálft að launin þurfa að hækka verulega. Við kennaranámið eins og það er í dag bætist allt að tvö ár og eykst námskostnaður að sama skapi.

Ég vona að þetta atriði frumvarpsins verði skoðað ofan í kjölinn og fái mikla og góða umræðu bæði á þinginu, meðal kennara og foreldra.

Menntun er sannarlega mikilvæg enda leggjum við mikla áherslu á að einstaklingurinn sæki sér menntun. Menntunarstig hefur almennt hækkað, krafist er lengri menntunar á mörgum sviðum og einnig meiri sérfræðimenntunar.  Einu sinni þótti glæsilegt að hafa lokið landsprófi/ gagnfræðaprófi en nú virðist ekkert duga minna en stúdents- eða framhaldsskólapróf.

Kjarni málsins er að allir eigi þess kost að mennta sig, óski þeir þess, og að námsvalið sé fjölbreytt þannig að hver og einn geti sótt sér menntun við hæfi og eftir áhugasviði. 
Mér sýnist að margt í þessum frumvörpum stuðli einmitt að því að svo megi verða í ríkari mæli en nú er. En hvort lágmarksmenntunarstig kennara verði að vera meistarapróf set ég spurningarmerki við.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Með þessum tillögum er farið í slóð Finna (og reyndar Norðmanna) og alveg raunhæft að "meistaravæða" uppeldisstéttirnar. Þær hugmyndir sem ég hef séð tengjast m.a. starfsþjálfun sem skortir verulega nú. Síðasta árið er svo ritgerðarár, auðvitað. Ég tel einnig að þetta sé einnig góð útleið að bæta kjör uppeldisstétta. Það gerðist í Finnlandi þar sem laun þeirra tvöfölduðust.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 11:10

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Alveg sammála þér Kolbrún. Ég held að það að gera auknar menntunarkröfur sé ekki endilega lausn. Kunnátta í kennslufræði gerir kennara ekki endilega hæfa til að veita börnum innblástur, vekja með þeim fróðleiksþorsta og áhuga.

Steingerður Steinarsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:49

3 Smámynd: Púkinn

Púkinn skilur þetta ekki alveg.   Það er alvarlegur skortur á hæfum kennurum í dag, sér í lagi í raungreinum, stærðfræði og skyldum fögum.  Dettur einhverjum heilvita manni í hug að það verði auðveldara að fá nýja kennara í þessar greinar með því að gera auknar kröfur, án þess að bæta launin verulega í leiðinni?

Það vantar alveg launaumræðuna inn í þetta.

Púkinn, 28.11.2007 kl. 15:32

4 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það er nú einhver mótsögn í þessari athugasemd púkans. Skil hana ekki alveg.

Þakka ykkur Gísla og Steingerði fyrir góð viðbrögð.
Varðandi skrif Gísla þá datt mér í hug hvort ekki sé hætta á að ef meistaranám verði gert að skilyrði fyrir kennsluréttindi á leik- grunn og framhaldsskólastigi að þá sé ákveðin hætta á að gráðan sem slík verði útþynnt ef hægt er að orða það svo. Mikill skortur er á kennurum og ef eitthvað er þá eykst hann frekar en minnkar Það er því mikilvægt að hægt verði að halda dampinum og útskrifa áfram ákveðinn fjölda á hverju ári. Maður veltir því fyrir sér hvort með þessari kröfu munu ekki færri skrá sig í námið?

Meistaranám er í mínum huga sérfræðinám og því er mikilvægt að standardinn haldist áfram hár.

Kolbrún Baldursdóttir, 28.11.2007 kl. 15:45

5 identicon

Það þarf alltaf að gæta þess að ákveðið embættispróf lendi ekki í útþynningu. Ég er einn af stóra hópnum sem kom út úr Kennaraskólanum gamla í byrjun 8. áratugarins. Þá voru háværar raddir um að það væri að vera að útþynna námið. Þessi stóri árganur/ar eru skv. rannsókn, þeir árgangar sem einna best hafa haldið trygglyndi við starfið. Reynsla Finna er sú að fleiri sóttu í námið. Annars er offramboð á grunnskólakennurum á "mínu svæði" nú um mundir.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 19:40

6 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Umbunin fyrir störf okkar hefur að sjálfsögðu mikið vægi, þegar fólk velur sér starfsvettvang hjá þeirri staðreynd er ekki hægt að komast.

Þorkell Sigurjónsson, 28.11.2007 kl. 21:41

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Held að þetta leiði af sér launahækkanir fyrir kennara, fremur en að þetta skili endilega "betri" kennurum út í skólana. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta frekar í þágu kennara heldur en endilega nemenda.

Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 00:58

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Pistillinn þinn sómir sér vel í Mogganum í dag.

Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 13:40

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband